Gleði og guðfræði í erfiðleikum lífsins

Gleði og guðfræði í erfiðleikum lífsins

Víða í bréfunum kemur fram sú afstaða að rétt viðbrögð við því að lenda í erfiðleikum í lífinu séu að gleðjast. Í því er ekki fólgið einhverskonar Pollýönnu viðhorf að vera í afneitun á allt sem miður fer, heldur er gleðin ávöxtur þess að geta treyst Guði fyrir aðstæðum sínum í þeirri fullvissu að Guð er með okkur.

Gleðilega hátíð kæri söfnuður. Í kristinni kirkju eru haldnar þrjár stórhátíðir og má til sannsvegar færa að Hvítasunnuhátíðin sé sú hátíð sem að maður verður minnst var við í menningu okkar. Engin hefð er fyrir hvítasunnuskrauti eða siðum, líkt og tilheyra páskum og jólum, og í daglegri yfirferð minni um fréttamiðla landsins í gær voru engin merki að sjá að runnin væri upp stórhátíð á Íslandi.

Hvítasunnuhátíðin er þó að sönnu stórhátíð fyrir okkur sem eru fylgjendur Jesú Krists en Hvítasunnudagur er jafnan talinn stofndagur kristinnar kirkju og hátíð heilags anda.

Líkt og páskar, á þessi hátíð fornar rætur í gyðingdómi en fimmtíu dögum eftir páska var haldin uppskeruhátíð þar sem Guði var færður frumgróði vorsins og þess atburðar minnst er Móse kom af Sinaí fjalli með Boðorðin 10, fimmtíu dögum eftir brottförina frá Egyptalandi.

Á flestum tungumálum er nafn Hvítasunnuhátíðarinnar dregið af gríska orðinu fyrir fimmtíu, Pentacost á ensku og Pinse á Dönsku, en íslenska orðið vísar til þess að algengt var að menn væru skírðir á aðfararnótt Hvítadags, sem er eldra heiti hátíðarinnar. Voru menn þá færðir í hvít klæði að aflokinni skírn og setti það svip á daginn.

Atburðum Hvítasunnudags er lýst í öðrum kafla postulasögunnar en þar er því lýst að lærisveinar Jesú hafi verið saman komnir í lofstofu einni í Jerúsalem þegar Heilagur andi féll yfir hópinn og birtist þeim sem eldtungur. Lærisveinarnir fylltust heilögum anda og fóru að segja frá Jesú á ýmsum tungum sem að þeir töluðu ekki sjálfir, þannig að allir sem hlýddu á, skildu þá og margir tóku trú.

Þessi atburður, að lærisveinarnir fóru að boða þjóðunum fagnaðarerindið um Jesú upprisinn og upphafinn, er upphafsreitur þess sem er grunntilgangur kristinnar kirkju, það að segja frá Jesú.

Í öðrum kafla postulasögunnar fær Pétur orðið að lokinni frásögninni af Hvítasunnuundrinu og boðar Jerúsalembúum Jesú upprisinn. Þegar hann hefur lokið máli sínu er því lýst að þeir sem prédikun Péturs hitti í hjartastað spurðu í kjölfarið lærisveinana: ,,Hvað eigum við að gera?”.

Svar Péturs var: „Takið sinnaskiptum og látið skírast í nafni Jesú Krists svo að þið öðlist fyrirgefningu syndanna og gjöf heilags anda.”

Það að lifa kristnu líf mátti því samkvæmt postulunum draga saman í þessi kjarnaatriði, „Takið sinnaskiptum og látið skírast í nafni Jesú Krists svo að þið öðlist fyrirgefningu syndanna og gjöf heilags anda.”

Ávöxtur þess að enduskoða hug sinn sem trúuð manneskja, í ljósi þess hver Jesús er, hvað hann boðar og þeirri náð og fyrirgefningu sem að fylgir krafti krossins er að öðlast gjöf heilags anda.

—–

Eitt af hættunum við að vera guðfræðingur er að við fáum fimm ára þjálfun í að nota guðfræðileg hugtök og lesa guðfræðitexta og getum orðið fyrir vikið fullkomlega óskiljanleg. Viljirðu missa athygli kirkjugesta þarftu einungis að kasta fram orðum á borð við friðþægingu og holdtekningu, sannarlega kjarnahugtök í guðfræðilegri umræðu, en hafa enga tengingu við daglegt líf flestra.

Heilagur andi á það á hættu að vera slíkt guðfræðilegt hugtak í hugum okkar, en þegar allt kemur til alls, þá er heilagur andi Guðs það sem lætur trú okkar skipta máli í okkar daglega lífi. En hver er heilagur andi og hvernig getum við nálgast nærveru hans í lífi okkar?

Heilagur andi er hluti hins þríeina Guðs

Samkvæmt kristinni kenningu birtist Guð okkur mönnunum fyrst og fremst með þrennum hætti, sem Guð faðir, sonur og heilagur andi.

Þegar ég fór að rækta trú mína á nýjan hátt sem ungur maður, skömmu áður en að ég hóf nám við guðfræðideildina, gerði ég mér grein fyrir því að þó að ég taldi mig hafa fullt af upplýsingum og þekkingu um kristna trú, þá fann ég litla tengingu við þá þekkingu í lífi mínu. Ég hringdi því í félaga minn sem að tilheyrði á þeim tíma fríkirkju og ég vissi að ætti trú á Jesú sem að skipti hann höfuðmáli.

Ég bað þennan kunningja minn að hitta mig og á fallegum vordegi fengum við okkur sæti á bekk í garði leikskóla og hann fór að útskýra fyrir mér eðli hins þríeina Guðs á hátt sem að ég byggi enn á og guðfræðinámið hefur í raun litlu bætt við.

Hann sagði við mig. Þú kannt að signa þig? – Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda. Guð faðir er Guð sem skapar, Guð sem skapaði heiminn og þig. Guð sonur er Jesús – bróðir minn, vinur minn og frelsari, sem vill ganga með mér og leiða. Og heilagur andi er kraftur Guðs innra með þér.

Í raun var þessi vinur minn ekki að segja mér neitt nýtt, því að ég hafði fengið trúarlegt uppeldi og fræðslu en samtal okkar varð til þess að orðin öðluðust nýja merkingu í huga mér. Þessar þrjár birtingarmyndir Guðs urðu mér ljóslifandi.

Guð er faðir af því að við erum af honum kominn, hann er faðir af því að hann elskar okkur líkt og foreldri elskar barn sitt og hann er faðir vegna þess að við erum sköpuð í hans mynd og berum anda Guðs hið innra. Jesús er sá sem að sýnir okkur með lífi sínu hvernig að við eigum að lifa og sá sem að við getum alltaf leitað til. Og heilagur andi er kraftur Guðs sem að gerir trú okkar lifandi.

Heilagur andi vitnar um Guð.

Í pistli dagsins, sem tekinn er úr 10. kafla Postulasögunnar er Pétur að prédika, líkt og í öðrum kaflanum sem ég vitnaði til áðan, og heilagur andi gerir vart við sig meðal fólksins. Þar segir ,,Meðan Pétur var enn að mæla þessi orð kom heilagur andi yfir alla þá er orðið heyrðu.”

Í þessum frásögnum er lýst því lögmáli í starfi kirkjunnar að þegar kristnir menn segja frá Jesú og krafti upprisu hans, þá ber andi Guðs sannleikanum vitni hjá þeim sem hlusta. Það er á okkar ábyrgð sem söfnuður og sem kristnir einstaklingar að segja frá Jesú og bera honum vitni með því hvernig að við lifum lífi okkar en þar endar ábyrgð okkar.

Ef að ég væri ráðinn af Neskirkjusöfnuði til þess að sanna eða sýna fram á sannleiksgildi kristinnar trúar er ég hræddur um að ég væri starfi mínu ekki vaxinn. Í raun hef ég fá svör um eðli Guðs eða endanlegan tilgang lífsins, en ég get sannarlega deilt reynslu minni af Guði og ég get boðað trú í trausti þess að Guð mætir öðrum á sama hátt og hann hefur hefur mætt mér. Það er heilagur andi sem að vekur trúnna í hjörtum okkar. Við það að segja frá Jesú og bera vitni um þann fjársjóð sem að við fundið í honum opnum við leið fyrir heilagan anda að vinna í lífi þeirra sem að við ræðum við.

Heilagur andi er kraftur Guðs í lífi okkar

Guðspjall dagsins er fengið úr þriðja kafla Jóhannesarguðspjalls og hefst á ástarjátningu Guðs sem oft er kölluð litla Biblían. ,, Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn heldur til þess að frelsa hann.”

Í þessum þekktu orðum eru varðveitt dýrmætustu fyrirheit kristinnar trúar, fyrirheiti um elsku Guðs á heiminum, fyrirheiti um eilíft líf og fyrirheiti um að við megum öðlast frelsun og fyrirgefningu í okkar lífi. Jesús kom ekki til dæma segir í guðspjallinu, heldur til að frelsa.

Frelsun og fyrirgefning eru hugtök sem verða guðfræðileg og hafa enga merkingu í lífi okkar ef ekki væri fyrir kraft heilags anda. Innra með öllu fólki býr þráin til að verða að betri manneskju og sé fordæmi Jesú skoðað í ljósi þess hvernig að við lifum lífi okkar, er hætt við að við stöndumst illa þann samanburð.

Tilgangur orðsins er ekki að dæma okkur fyrir að vera breiskar manneskjur, Guð veit þegar hver við erum og hvað við höfum gert, elska Guðs byggir ekki á því hvernig að við höfum lifað lífi okkar.

En þráin hið innra eftir því að verða að betri manneskju er frá Guði komin og fyrir náð Guðs og kraft heilags anda, stendur okkur til boða að breytast. Náð Guðs og fyrirgefning leysir okkur undan skömm og sektarkennd í lífi okkar, kenndir sem að allar manneskjur þekkja og hamla okkur frá því að öðlast gleði og hamingju. Og kraftur heilags anda gefur okkur máttinn til að upplifa raunverulegar breytingar í lífi okkar. Það þekkja allir hversu erfitt það getur reynst að hætta einhverju og að temja sér heilbrigðari lífshætti en fyrir kraft Guðs getum við öðlast raunverulegar breytingar á lífi okkar. Heilagur andi opinberar sannleikann

Fyrir heilagan anda eigum við í lífi okkar aðgang að leiðsögn og opinberun á vegi lífsins. Þessari staðreynd er miðlað í Biblíunni á fjölbreyttann hátt og þekktust er líklega myndin af Guði sem hirði sem að leiðir okkur hjörð sína um réttan veg. Í kveðjuræðu Jesú í 14. kafla Jóhannesarguðsjalls segir Jesú að hann muni ekki skilja kirkju sína eftir eina. ,,Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara sem verður hjá yður að eilífu, anda sannleikans.” … En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður.”

Þannig eigum við fyrirheit um aðgang að ómetanlegri leiðsögn í öllum aðstæðum. Leiðsögn sem að við getum leitað eftir með því að opna hjarta okkar fyrir anda Guðs og leita í einlægni eftir að vita vilja hans fyrir okkar líf. Sú leiðsögn berst okkur í gegnum lestur á orði Guðs, fyrir bæn og íhugun og í gegnum annað fólk. Það kostar þjálfun að læra að þekkja vilja Guðs í lífi okkar og að læra að hlusta eftir leiðsögn hans, en svörin berast okkur að sönnu ef við leitum hans í einlægni.

Heilagur andi ber ávöxt í lífi okkar

Bréf Nýja testamentisins fjalla víða um mikilvægi þess að sækjast eftir nærveru heilags anda og í erfiðum aðstæðum, ofsóknum og raunum bera bréfahöfundarnir þess vitni að heilagur andi veitti þeim þolgæði og styrk. Í bréfi Páls til Galatamanna lýsir Páll þeim ávöxtum sem að fylgja því að þiggja gjöf heilags anda í lífi okkar. Hann segir: ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi.

Þessir ávextir verða að veruleika í lífi okkar séum við reiðubúin að leggja líf okkar og áhyggjur í hendur Guðs og opna hjarta okkar fyrir nærveru heilags anda. Víða í bréfunum kemur fram sú afstaða að rétt viðbrögð við því að lenda í erfiðleikum í lífinu séu að gleðjast. Í því er ekki fólgið einhverskonar Pollýönnu viðhorf að vera í afneitun á allt sem miður fer, heldur er gleðin ávöxtur þess að geta treyst Guði fyrir aðstæðum sínum í þeirri fullvissu að Guð er með okkur. Í erfiðum aðstæðum hughreystir Páll vini sína í Fillipí með þessum orðum. Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.

Með hvatningu sinni gefur Páll okkur uppskrift að því að geta mætt andstreymi lífsins með æðruleysi. Í stað þess að halda huga sínum uppteknum af áhyggjum og kvíða yfir því sem gerst hefur eða gæti orðið þá ber okkur að skilja að Guð er með okkur, Drottinn er í nánd. Við megum bera allar óskir okkar fram til Guðs með bæn og beiðni og þakkargjörð og þiggja að launum frið. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.

Þeir ávextir sem að Heilagur andi ber með sér eru dýrmætir og fremstur meðal jafningja er fyrirheitið um frið og æðruleysi til að mæta lífinu. 12 spora hreyfingin hefur tekið upp á sína arma bæn Reinhold Neibuhr um æðruleysi og gert hana miðlæga á fundum um allann heim. Bænin, Guð gefi mér æðruleysi, til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem að ég get breytt og vit til að greina þar á milli er ákall um að öðlast heilagan anda í lífi sínu. Bæn um það að öðlast æðruleysi og frið í aðstæðum sínum, að öðlast kjark og mátt til að upplifa breytingar til góðs og visku til að sleppa tökunum og treysta Guði fyrir því sem að við getum ekki haft áhrif á.

,,Hvað eigum við að gera?” spurðu áheyrendur Pétur þegar hann sagði frá Jesú. „Takið sinnaskiptum og látið skírast í nafni Jesú Krists svo að þið öðlist fyrirgefningu syndanna og gjöf heilags anda.”

Gerum það að sameiginlegri bæn okkar á þessari hátíð heilags anda að Guð megi opna hjörtu okkar fyrir anda sínum og að heilagur megi búa innra með okkur og veita okkur mátt, leiðsögn og ávexti andans í lífi okkar.

Pistill: Post 10.42-48a [Og Pétur sagði:] Og hann bauð okkur að prédika fyrir alþjóð og vitna að hann er sá sem Guð hefur skipað dómara lifenda og dauðra. Honum bera allir spámennirnir vitni að sérhver sem trúir á hann fái vegna hans fyrirgefningu syndanna.“ Meðan Pétur var enn að mæla þessi orð kom heilagur andi yfir alla þá er orðið heyrðu. Hinir trúuðu Gyðingar, sem komið höfðu með Pétri, urðu furðu lostnir að Guð hefði einnig gefið heiðingjunum heilagan anda því þeir heyrðu þá tala tungum og mikla Guð. Þá mælti Pétur: „Hver getur varnað þess að þeir verði skírðir í vatni? Þeir hafa fengið heilagan anda sem við.“ Og hann bauð að þeir skyldu skírðir í nafni Jesú Krists.

Guðspjall: Jóh 3.16-21 Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn heldur til þess að frelsa hann. Sá sem trúir á son Guðs dæmist ekki. Sá sem trúir ekki er þegar dæmdur því að hann hefur ekki trúað á nafn Guðs sonarins eina. En þessi er dómurinn: Ljósið er komið í heiminn en menn elskuðu myrkrið fremur en ljósið því að verk þeirra voru vond. Hver sem illt gerir hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins svo að verk hans verði ekki uppvís. En sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins svo að augljóst verði að verk hans eru í Guði gerð.“