Matteus 16.13-26
Náð Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með ykkur öllum. „Þegar Jesú kom á landsvæði Sesareu Filippí spurði hann lærisveina sína: „Hvern segja menn Mannssoninn vera?“ Og þeir segja: „Sumir segja Jóhannes skírara, en aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.“ Hann segir við þá: „En hvern segið þið mig vera?“ Símon Pétur svaraði honum: „Þú ert Messías, sonur hins lifandi Guðs.“ Og Jesús svaraði honum: „Blessaður ertu, Símon sonur Jónasar! Því að hold og blóð hefur ekki opinberað þér þetta, heldur Faðir minn á himnum. Og ég segi þér, þú ert Pétur, og á þessum kletti vil ég byggja kirkju mína og hlið Hadesar munu ekki sigrast á honum. Ég mun fá þér lyklana að himnaríki og hvað sem þú bindur á jörðu mun verða bundið á himni.“ Þá lagði hann ríkt á við lærisveina sína að segja engum að hann væri Messías. Upp frá þessu tók Jesús að skýra lærisveinum sínum frá því að hann ætti að fara til Jerúsalem og líða þar mikla þjáningu af völdum öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn en rísa upp á þriðja degi. En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann: „Guð forði þér frá því, Drottinn, þetta má aldrei fyrir þig koma.“ Jesús sneri sér við og mælti til Péturs: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ Þá mælti Jesús við lærisveina sína: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun finna það. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?“
Kæru systur og bræður í Kristi!
Fyrst af öllu þakka ég ykkur fyrir að hafa boðið mér að vera hér hjá ykkur í þessu fallega landi, Íslandi. Það er alltaf ánægjulegt að vera með systrum og bræðrum í Kristi, deila saman fagnaðarerindinu og upplifa kraft heilags anda að verki í öðrum hluta okkar fögru veraldar sem Drottinn hefur gert. Ég færi ykkur einnig kveðju frá borginni Jerúsalem sem þarf á því að halda að þið biðjið fyrir réttlæti og sáttargjörð. Heimsókn mín er órjúfanlega tengd því að við erum samfélag, kounonia, sem við fögnum sem skírðir meðlimir á líkama Krists. Ég bið að orðin sem heyrast af munni mínum og íhugun hjarta míns vera þóknanleg í augum þínum, ó Drottinn, klettur minn og lausnari. Amen.
Þegar ég íhuga þennan texta Matteusarguðspjalls er fyrsta hugsun mín sú að finna til mikillar samúðar með Pétri og hinum lærisveinunum. Hvað sem því líður virðist það vera þannig að í hvert sinn sem einhver leiðtogi stígur fram á svið sögunnar og talar af myndugleik og með kennivaldi vaknar sama spurning hjá fólki: „Hver er þessi maður? Hvað heldur hann að hann sé? Hver heldur hún að hún sé? Hvaðan kemur hann og í valdi hvers talar hann?“ Við gætum hugsað: „Eru þau send af valdhöfum? Eða af stjórnmálamönnum eða leyniþjónustu? Af stórfyrirtækjum eða hagsmunahópum? Hvað gengur þeim til? Er tilgangur þeirra að efla guðsríkið eða eigin hag eða birta þeir sviðsmyndir valdhafa eða eyðileggingar?“
Það er einkennandi fyrir heim trúarinnar á okkar dögum, að þegar svokallaðir áhrifamenn koma fram á sviðið, þurfum við að skoða erindi þeirra varfærnislega. Þeir geta verið vakningarmenn, fjáðir, stýrt stórum söfnuðum og virst hafa yfirburða vald á Ritningunni, en þá er gott og rétt að greina náðargáfurnar. Við getum ekki bara fylgt þeirri rödd sem hæst heyrist eða fylgt boðun þess sem kemur fallegast fyrir sig orði.
Við mætum krefjandi aðstæðum gagnvart þeim sem kynna fagnaðarerindi velmegunar. Þeir prédikarar byggja kirkjur og laða til sín fjölda fylgjenda vegna þess að þeir lofa veraldlegri velsæld. Hvað sem því líður vantar oft í boðskap þessara prédikara sjálfan krossinn og kraft þeirrar lausnar sem í tákni hans felst.
Í annan stað, og þá sérstaklega í Mið-Austurlöndum, krefjast Kristnir Síonistar sérstakrar athygli okkar, vegna þess að þeir nota Biblíuna og væntingar um endurkomu Krists í sínum eigin pólitíska tilgangi. Þetta er misnotkun trúarbragða, og vissulega misnotkun á Guði, til eigin hagsbóta. Þeir skapa spennu í Mið-Austurlöndum og aðstæður sem ekki eru til að hjálpa fólki þeirra þjóða sem búa í Mið-Austurlöndum. Í reynd væntum við endurkomu Lausnara okkar en Kristur þarf ekki á okkar kröftum eða skilningi að halda til að koma aftur. Ennfremur er það þannig að Biblían er bók kærleikans en ekki bók um harkalega andstöðu gegn nokkurri þjóð eða trúarbrögðum.
Á okkar dögum horfumst við auk þess í augu við bylgjur öfgahyggju sem berst heiminn á enda. Þetta er öfgahyggja sem elur á ótta til annarra, ótta vegna þeirra sem eru öðru vísi hvort sem það fólk er flóttafólk eða hefur einfaldlega lýst skoðun sem ekki er viðtekin. Trúarleg fordæming gegn kyni, stétt eða þjóðerni, eða lýðskrum eru alls ekki trúarbrögð. Þannig hreyfingar eru líkari kökukremi, gervi glassúr, sem dengt er ofaná trúarboðskap. Þegar við mætum slíkum lokkandi gylliboðum þurfum við að gæta varúðar. Eru þessar hugmyndir virkilega komnar frá Guði?
Á tíma Jesú beið fólk í ofvæni eftir komu Messíasar og það komu nokkrir fram sem gátu virst hinn eini sanni. Þarna var Bar Kokba og margir aðrir sem buðu uppá góða túlkanir á Tórah, lögmálsbók Gyðinga. En þegar þeir dóu gerðu fylgjendur þeirra sér grein fyrir að þeir höfðu ekki verið Messías. Þegar Jesús kom svo fram og prédikaði og kenndi hlaut að hafa verið erfitt fyrir fólk að segja: „Var hann sá?“ Eða er Jesús bara alveg eins og þeir spámenn sem áður höfðu komið fram. Er hann eins og Elía eða Móses eða Jóhannes skírari? Eða getur verið að hann sé sá sem heimurinn hefur verið að bíða eftir? En Símon Pétur var hugaður og þorði að lýsa því yfir að „þú ert Messías, sonur hins lifandi Guðs.“
Þetta var snúin spurning á tímum Jesú og hún er einnig flókin á okkar dögum. Hvern segjum við Jesú vera? Hver er hann í okkar lífi? Þar sem ég kem frá Jerúsalem og Landinu helga get fullvissað ykkur um að þetta er ekki spurning sem hægt er að halda algjörlega í hinu andlega rými. Kristið fólk í Palestínu getur varla leyft sér að spyrja aðeins: „Hver er Jesús í mínum huga persónulega?“ Þau er knúin til að velta því fyrir sér: „Hver og hvar er Jesús í þessum átökum? Hver er hann í þessu hernámi landsins? Hver er hann hér mitt í ólgu og óvissu þessa svæðis þar sem stríð vofir stöðugt yfir?“
Stundum vaknar knýjandi spurningin: „Hvern segir kirkjan hann vera?“ Oft er það í Landinu helga að sumir sjá Jesú og hugsa aðeins um fyllingu fyrirheita spámannanna eða um hina síðustu daga og endurkomu Krists. Sum lesa Biblíuna með því að tengja beint yfir frá atburðum og hópum fólks í Bíblíunni við atburði og hópa fólks á okkar dögum.
Sumir vilja gjarnan kyrrsetja Jesú í sínum heimi, halda honum þar á sínum stað á fyrstu öldinni í Palestínu og hafa hann helst áfram í gröfinni. En sumir sjá í honum frelsandi afl sem frelsar okkur frá alls konar syndum, þar á meðal frelsun undan kúgun. En við sem erum í kirkjunni þurfum að greina náðargáfur andans af varfærni. Það á sérstaklega við núna og þegar við lesum Ritninguna. Jóhannes spyr okkur í I. Jóhannesarbréfi, 4.1: „Þið elskuðu, trúið ekki öllum sem segjast hafa andann, reynið þá heldur og komist að því hvort andinn sé frá Guði. Því margir falsspámenn eru farnir út í heiminn.“ Fyrir þau sem nota Krist í eigin pólitískum tilgangi eða sjálfum sér til hagsbóta, týnist Jesús í þeirri tegund af Kristindómi. Biblían er ekki sagnfræðileg bók, vísindaleg ritsmíð, né heldur handbók í pólitík. Hún er sögubók – og hún er líka sönn. Eða einsog bróðir okkar, Marteinn Lúther skrifaði eitt sinn, hún er vaggan sem Kristur sjálfur var lagður í. Þess vegna leitum við sannleikans þegar við lesum Bíblíuna og við finnum hann þar. Við finnum það sem satt er þegar við leitum að því sem umvefur Krist og því sem upphefur hann krossfestan – leitum að krossi okkar eigin trúar. Það er ástæðan fyrir því að við getum einnig sagt eins og Símon Pétur: „Þú ert Kristur, sonur hins lifandi Guðs.“
Sem kristinn Arabi kominn frá Austurlöndum nær sem lifir hvern dag með nágrönnum annarrar trúar get ég sagt að við, fylgjendur Jesú, erum einnig að spyrja okkur annarrar spurningar: „Hvernig búum við hlið við hlið með öðrum trúarbrögðum en erum samt að birta Krist í okkar daglega lífi?“ Það er alls ekki ómögulegt verkefni en oft á tíðum krefjandi. Þegar við leitum innsæis og styrks á þessari vegferð getur verið gott að líta til lærisveina og helgra manna sem hafa gengið þennan veg á undan okkur.
Við sjáum til dæmis að Pétur og lærisveinar hans voru minnihlutahópur í sínu samfélagi. Samt boðuðu þau djarflega að Kristur væri Drottinn og Frelsari. Þau voru lifandi vottar Krists og það þótt aðrir litu á þau sem trúvillinga eða óþarfa eða jafnvel að rödd þeirra væri ekki þess virði að hún heyrðist. Á sama hátt þurfum við að leita leiða til að vera djörf í boðun Krists og ekki bara í orði heldur og í því sem við gerum og í samskiptum við nágranna okkar.
Ég þekki prest sem gekk eitt sinn fyrir altarið að lesa þakkargjörðina fyrir altarisgöngu. En þar sem hún stóð og var að blessa brauðið og vínið braust allt í einu sterkur sólargeisli inn um glugga kirkjunnar og lýsti skyndilega upp altarið og prestinn með brauðið og vínið. Þá gall við hátt af fremsta bekk, rödd lítillar stúlku: „Sjáiði!, Ég sé Jesú!“ Móðir hennar reyndi að þagga niður í henni en á eftir gekk presturinn til stúlkunnar og sagði: „Þetta var rétt hjá þér.“ Þó að hún sjálf, presturinn, væri ekki Jesú, sá stúlkan ljós Krists lýsa upp rými guðsþjónustunnar og þegar að var gáð lýsti af hjörtum allra sem voru komin þar að þiggja brauð og vín. Við sjáum ekki alltaf ljós Krists á svona skýran hátt en það er bæði skylda okkar og biblíuleg köllun að ljós þetta lýsi í öllu okkar lífi og í lofgjörð okkar og þjónustu og skíni í gegn í hversdaglegu lífi okkar og viðfangsefnum. Það er skylda okkar að játa Krist sem Frelsara okkar hvar sem við erum, hverjar sem aðstæður okkar eru og játa hann djarflega og í kærleika en án þess að þvinga hann uppá aðra. Þetta höfum við verið að gera í fjölmenningarlega samfélaginu okkar í Palestínu og við biðjum þess að fólk geti haldið áfram að sjá Krist hvar sem við lifum í kærleika hans.
Ég veit að fjöldi fólks er mjög ánægt með að geta komið til Landsins helga til að sjá forna staði, forna steina og heyra sögur frá fornum tíma. Eitt sinn ver ég í flugstöðinni og hitti þar á biskup frá einni af systurkirkjum okkar í Evrópu. Hann tók eftir prestakraganum og fjólubláu skyrtunni og spurði: „Hvaðan ert þú, biskup?“ Ég svaraði: „Ég er frá Jerúsalem.“ Hann hélt áfram og sagði: „Svo þú ert kominn frá Bandaríkjunum eða Evrópu til að þjóna í Jerúsalem?“ Ég hugsaði svarið mitt vandlega. Í stað þess að svara honum beint, svaraði ég á sama hátt og Jesús gerði oft, með annarri spurningu: „Hvað varstu lengi í Jerúsalem?“ spurði ég, „og heimsóttir þú einhverja kirkju?“ Biskupinn svarði að hann hefði verið í Landinu helga í 10 daga en hann hefði ekki hitt nokkurn kristinn mann. Og ég sagði við þennan mann, biskup og bróðir í Kristi, að það væri mikill munur á ferðamanni og pílagrími. Þótt hann væri leiðtogi í sinni kirkju hafði hann heimsótt ættjörð mína sem ferðamaður. „Þú hefur komið hingað til að sjá dauða steina“ sagði ég við hann. „En næst þegar þú kemur vil ég bjóða þér að koma sem pílagrímur.“ Ég sagði honum að ég vildi að hann heimsækti lifandi steina, til að hjálpa honum að skilja að ég er biskup á þessum stað og að hér eru kirkjur á staðnum, hér eru söfnuðir og kristið heimafólk sem heldur uppi krossi Krists núna.
Í Mið-Austurlöndum eru fylgjendur Krists, rétt eins og þessi mæti evrópski biskup er, sem hafa búið þar í tvö þúsund ár, sem hafa haldið krossi Krists á lofti alveg frá fyrstu hvítasunnu heilags anda, hafa prédikað guðspjall kærleikans, hafa haft sakramentin með höndum og þjónað í náð, og hafa búið í og hjá hinum helgu stöðum sem svo margir vilja sækja heim. Við erum til. Við erum hér. Við höfum borið vitni um Krist í meira en 2000 ár og við viljum fá að halda áfram að bera uppi arfleifð Péturs og Maríu Magdalenu og annarra postula sem hafa flutt boðskapinn: „Þú ert Kristur, Messías“ – þrátt fyrir þá erfiðleika sem fylgja því.
Þannig er það þá í mínum huga að þegar þið komið til Landsins helga eruð þið að koma heim til mín. Og ég bið þess og vona að þið hafið áhuga á því hvernig við höfum farið að því að vera staðföst í trú okkar í þessi 2000 ár. Ég vona að þið komið og messið með okkur. Ég vona að þið sjáið að það er lífsnauðsynlegt fyrir kristið fólk í Landinu helga að þið sýnið okkur stuðning í trú okkar og uppörvið okkur, en ég get lofað því að viljum líka styðja ykkur.
Í guðspjallinu sem lesið er í dag segir Jesús við Pétur að hann sé kletturinn sem hann muni byggja kirkju sína á. Í reynd er Pétur ekki eini kletturinn. Hver sá sem játar trú á Krist er kletturinn. Hver sá sem leitast við að elska Guð og náunga sinn, vinna að réttlæti og friði fyrir allar manneskjur, og boðar Krist krossfestan og upprisinn, sá er klettur.
Þið eigið fallegar kirkjur hérna á Íslandi en samt eru kirkjunar sem byggðar eru af steini og timbri ekki kirkjan. Þið, systur mínar og bræður í Kristi, eruð lifandi steinar og klettar Íslands. Þið eruð að halda krossinum á lofti hér í þessu landi á okkar dögum, rétt eins og ég ber minn. Við verðum að styðja hvert annað í þessu af því að það er ekki auðvelt að vera staðföst í trú á tímum þegar öfgafólk innan allra trúarbragða – og öfgafólk utan allra trúarbragða – freista þess að ræna veröld okkar.
Við erum knúin til að halda áfram að boða guðspjall kærleikans og ekki bara í orði heldur í verki. Auðvitað getur ekkert staðið í vegi fyrir að boðskapur Guðs um róttækan kærleika hans og samfylgd nái að breiðast út. Það er ritað hjá Lúkasi guðspjallamanni í 19. kafla, þegar trúarleg yfirvöld sögðu Jesú að hasta á lærisveina sína sem höfðu hátt, svaraði hann: „Ég segi ykkur, ef þeir þegja munu steinarnir hrópa.“
Þetta felur ekki í sér að við þvingum trú okkar uppá aðra. En það merkir að við höldum áfram að tala hátt og skýrt fyrir réttlæti, friði og kærleika. Kristnu fólki allt frá Jerúsalem til Skálholts hefur verið gefin rödd svo við getum sungið Guði lof og dýrð ekki aðeins í steyptum byggingum heldur sem lifandi steinar á götu úti og í húsum valdhafanna, til að vinna að rétti flóttafólks, fátækra, sjúkra, nýfæddra, ókunnugra, kúgaðra og hernuminna. Með því játum við saman, með Símoni Pétri: „Þú ert Kristur, sonur hins lifandi Guðs.“
Martein Lúther sagði: „Guð hjálpi okkur því við erum ekki þeir einu sem getum viðhaldið kirkjunni. Hvorki gátu forverar okkar það né geta eftirmenn okkar gert það, því hann er sá eini sem gat og getur, sá eini sem var, er og mun koma, og hann sem segir ég er ávallt með ykkur allt til enda veraldar. Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og var, er og kemur.“
Hver er Jesú? Hvern segjum við hann vera í lífi okkar, í kirkjunni, í veröld okkar daga? Það er sú krefjandi spurning sem við erum enn að varpa fram. Það er spurningin sem leiðbeinir okkur, fólk sem trúir, bæði sem einstaklinga og saman í kirkjunni í heiminum. Ég bið að svar okkar verði öllum ljóst með lífi okkar í skilyrðislausri ást, spámannlega og með því að við afneitum okkur sjálfum í þágu náungans.
Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú. Amen.
Dr. Munib Younan er biskup í Jerúsalem og fyrrum forseti Lútherska heimssambandsins og fyrrum biskup lúthersku kirkjunnar í Jórdaníu og landinu helga.
Séra Kristján Björnsson, vígslubiskup, þýddi úr ensku.