Hugrekkið

Hugrekkið

Guðspjall: Matteus: 14: 22-33 Lexia: Job. 42. 1-5 Pistill: Post. 16. 25 – 31

Pétur var að veiðum í bát sínum. Hann fann til öryggis. Hann þekkti starf sitt. Hann lagði net og veiddi fiska á Genesaretvatninu. Hann átti vini. Hann annaðist um konu sína. Hann sá til þess að börnin sín fengju menntun. Hann komst sæmilega vel af. Hann átti sér engar vonir umfram þær sem eðlilegar má teljast. Hann hélt að ekkert myndi koma fyrir sig sem ekki hafði komið fyrir forfeður sína og formæður eða vini sína.

En þá mætti hann Jesú. Þá breyttist hann líkt og hann hefði orðið fyrir töfrum. Þá fór hann að gera hluti sem hann hélt að hann myndi aldrei geta gert, hluti sem hann hafði aldrei fyrr hugleitt að hann gæti gert.

Hann yfirgaf bát sinn. Hann yfirgaf konuna sína. Hann yfirgaf börnin sín, vini sína. Hann hafði ekki lengur neina vissu fyrir því að hann kæmist sæmlega vel af. Á vissan hátt sneri hann baki við lífi sínu. Í guðspjalli dagsins kemur jafnvel fram að hann steig út úr bát sínum og sté fæti sínum út á úfnar öldurnar og tók nokkur skref.. Þeir sem voru með honum í bátnum hafa örugglega haldið að hann væri orðinn geggjaður þegar þeir sáu hvað hann gerði. Hver hafði áður séð nokkuð þessu líkt?

En Pétur fór. Hann vissi allan tíman sem hann hafði verið með Jesú að hann var ekki vitlaus. Frá einum tíma til annars hafði honum fundist að það líf sem hann lifði væri ekki það líf sem hann ætti að lifa, að það væri hægt að fá meira út úr lífinu, þ.e.a.s. það væri ekki allt fengið með veraldlegum auði og fjölskyldu.

Mörg okkar vita þetta og þekkja þessa tilfinningu og fólk um heim allan sömuleiðis. Hvernig getum við að öðrum kosti útskýrt áhuga fólks á Jesú? Ég hef heyrt að mest seldu bækurnar í Bandaríkjunum sé aldrei getið á opinberum lista tímaritsins Time eða hjá New York Times Book Review. Það er vegna þess að listinn yrði of einhliða en best seldu bækurnar fjalla alltaf um Jesú með ýmsu móti því að áhrifamáttur frelsarans er slíkur enn þann dag í dag að mannanna börn um heim allan vitna sífellt um frelsandi mátt hans sinn garð þar sem hann gefur nýja von inn í erfiðar kringumstæður.

Pétur var höndlaður af Jesú rétt eins og við erum höndluð af honum. Í nafni Jesú Krists frá Nazaret þá steig hann hugrakkur frá borði og gaf sig á vald óvissunni sem fylgir því að standa á úfnum öldum úthafsins. Og hann horfði á einbeittur og hugrakkari sem aldrei fyrr á frelsarann sem kom gangandi á vatninu til hans og hinna lærisveinanna sem voru í bátnum. En þegar Pétur fann skyndilega fyrir afli vindsins þá varð hann hræddur og hugrekkið hvarf og hann tók að sökkva dýpra og dýpra niður í dökkblátt hyldýpið. Við höfum stundum staðið frammi fyrir kringumstæðum í lífsins ólgusjó þar sem við höfum gert það sem í okkar valdi stóð til þess að standa af okkur ágjafirnar. En oft verða þær svo miklar að okkur finnst við vera að sökkva í sævardjúp og við eygjum enga von um björgun. Þetta gerist einkum þegar maðurinn með ljáinn kemur og heggur þar sem síst skyldi, þegar alvarleg slys henda okkur eða nánustu ættingja eða þegar þungbærir sjúkdómar sækja okkur heim, andlegir sem líkamlegir.

Hversu oft hefur okkur ekki liðið eins og Pétri frammi fyrir vissum kringumstæðum í lífi okkar þar sem við höfum fundið fyrir kjarkleysi, vonbrigðum, örvæntingu og við réttum upp höndina og grípum jafnvel í hálmstrá í von um breytingu á okkar högum? Við höfðum e.t.v. vonast eftir breytingu sem ekki varð.

Ýmsir eru fastir í vítahring fátæktar á Íslandi og eygja enga breytingu á sínum högum. Láglaunafólk nær vart endum saman, einstæðar mæður með börn geta lítið leyft sér umfram nauðsynjar. Há húsaleiga og aðrir fastir mánaðarlegir póstar gera það að verkum að lítið sem ekkert er eftir af mánaðarkaupinu hjá mörgum fjölskyldum. Við Íslendingar búum við samfélagslega þjónustu þar sem þess er gætt að hagur hinna ýmsu hópa sé ekki fyrir borð borinn. Sjúklingar njóta þjónustu og fötluðu fólki af ýmsum toga er búið manneskjulegra umhverfi í öryrkjabústöðum og sambýlum þar sem það fær þjónustu við hæfi. Og fólki er einnig gert kleift að búa í sjálfstæðri búsetu ef það er talið hafa getu til. Öldruðum fjölgar ört hér á landi og aðkallandi er að byggja fleiri hjúkrunarrými bæði af hinu opinbera og ekki síst af einkaaðilum og fyrirtækjum. Nýlega sá ég athygllisverðan bandarískan fréttaþátt þar sem rætt var við aldraða einstaklinga sem eru enn við störf þrátt fyrir mjög háan aldur. Mér varð þá hugsað til þess hvort ekki mætti hyggja að þessu hér á landi, bjóða þeim öldruðu einstaklingum sem hafa til þess heilsu að starfa að ýmsum verkefnum. Þetta kynni að hafa jákvæð áhrif og gefa þeim meiri lifsgleði og minnka til að mynda lyfjakostnað þeirra.

Postulinn Pétur er fulltrúi manneskjunnar sem stendur áveðra í lífsins ólgusjó og sekkur þegar hún missir sjónar af Jesú. Þessi samfélagslega hjálp sem ég minntist á hér fyrr bendir til þess að íslendingar hafi ekki misst sjónar af Jesú. Íslenskt þjóðfélag er um margt gegnsýrt af kristnum viðhorfum og gildum sem eru í heiðri höfð. Þar kemur til virðingin sem borin er fyrir sérhverri manneskju og réttur hennar til mannsæmandi lífs er varinn af stjórnarskránni.

Kirkjan lítur á sérhverja manneskju sem einstaka sköpun Guðs sem eigi rétt til lífs undir öllum kringumstæðum og að enginn geti sýnt öðrum meiri kærleika en að fórna lífi sínu fyrir aðra manneskju. Þessa sjást merki í íslensku þjóðfélagi þegar björgunarsveitir leggja á sig ómælt erfiði þegar váleg tíðindi gerast á láði sem legi.

Í íslensku þjóðfélagi er einstaklingnum gert kleift að koma undir sig fótunum með þeim hætti sem hann kýs innan lögmætra marka og þeim sem verða af ýmsum ástæðum undir í lífinu um lengri eða skemmri tíma er tryggður aðbúnaður og bætur tímabundið í endurhæfingarskyni. En hvers vegna er ég nú að tala um samfélagsþjónustuna í tengslum við bjargarleysi Péturs postula og okkar sjálfra í dag þegar við stöndum frammi fyrir erfiðri raun? Því er til að svara að oft finnst okkur á slíkum stundum að Guð sé víðs fjarri og hafi öðrum hnöppum að hneppa en okkar. En hann er aldrei nær okkur en einmitt þegar við þurfum hvað mest á stuðningi og hjálp að halda.

Verum minnug orða frelsarans þegar hann sagði: “Það sem þér gjörið einum mínum minnstu bræðra það gjörið þér mér”. Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra”.

Ég sé Kristi sjálfum bregða fyrir í fari liðveitandans á sambýli fatlaðra sem hneppir tölurnar á skyrtu heimilismannsins. Ég sé Kristi sjálfum bregða fyrir í dagfari þeirra starfsmanna sem láta sér varða hag heimiislfólks á elliheimilum og sjúkrahúsum. Ég sé Kristi sjálfum bregða fyrir í fari móður og föður sem ala önn fyrir nýfæddu barni sínu og bera hag þess fyrir brjósti dag og nótt.

Kristur lætur sér ekkert mannlegt óviðkomandi og hann sér lengra en margan grunar. Hann les huga okkar og hjörtu, nýrun og lungun, þekkir hvert hár á höfði okkar. Svo vel þekkti hann Pétur postula að furðu sætti en Pétur var ekki lengi að afneita honum síðar þrátt fyrir að hann hefði bjargað sér úr þessum sjávarháska. Þrátt fyrir það sá Kristur leiðtogahæfileika í fari hans Hann vildi nota þennan mann þrátt fyrir breyskleikana í fari hans. Þetta kalla ég nú traust í lagi. Og Pétur varð síðar fyrsti leiðtogi frumkirkjunnar

Guð hefur gætt okkur mennina andlegum eiginleikum og hæfileikum þar sem okkur er gert kleift að byggja upp trúnaðarsamband við hann með samskiptum. Við þurfum einhvern veginn í okkar hraða þjóðfélagi að staldra við í dagsins önn og stilla okkur inn á þessa bylgjulengd þar sem Drottinn er að finna en þá finnum við auðlegð sem við viljum ekki verða án því að hún er dýrmætara en gull þegar upp er staðið og varðar heill okkar til líkama og sálar.

Guð gaf okkur tvö eyru og einn munn til þess að við hlustum helmingi meir en við tölum.

Vissulega þurfum við ekki að hafa mörg orð um hlutina við Drottinn því að hann heyrir andvörp hjartna okkar en hann talar til okkar, ekki aðeins í orðum Biblíunnar heldur notar hann einnig tónlistina, bæði gamla og nýja, til þess að koma boðskap sínum til skila. Ég held að fátt hryggi Drottinn meira í dag en þegar fólk lætur sem hann sé ekki til í öllu stressinu í nútíma þjóðfélagi þar sem við stöndum í miklum ólgusjó í roki, við það að sökkva.

Þrátt fyrir það berast okkur orð Drottins gegnum storminn þar sem hann segir líkt og forðum við Pétur: “Þú trúlitili, hví efaðist þú?” Grípum þétt utan um útrétta hönd hans og verum þess virkilega meðvituð að við eigum okkur ósýnilegan vin og samferðamann í frelsaranum Jesú Kristi. Amen.