Mikið sem það er nú gaman að fara í leikhús. Á einni viku hef ég séð tvær frábærar leiksýningar ættaður báðar úr Borgarleikhúsinu, sú fyrri sem ég sá heitir Ormstunga og byggir á Íslendingasögunni um Gunnlaug Ormstungu sem elskaði Helgu Þorsteinsdóttur Egilssonar Skallagrímssonar en sú seinni var leiksýningin Tengdó sem fjallar um leit Magneu Reynaldsdóttur að föður sínum er kom hingað á vegum bandaríska hersins á tímum Seinna Stríðs. Hann var af suður-amerískum uppruna, dökkur á brún og brá og það útlit erfði dóttir hans sem reyndist auðvitað heilmikið álag á þeim tíma,sérstaklega í litlu þorpi út á landi. Báðar þessar sýningar höfðu hógværa umgjörð en mikla dýpt, húmor og trega, tveir leikarar báru hvora sýningu uppi, áhorfendur sátu í báðum tilvikum á sviðinu og jafnframt gerðist eitthvað óvænt á hvorum stað meðal áhorfenda sem varð þess valdandi að leikararnir gripu það á lofti og unnu með það á skemmtilegan hátt. Þó er hvíldin við það að horfa á leikverk á sviði ekki síst fólgin í þeirri vissu að allt sé æft og undirbúið, að leikararnir viti nákvæmlega hvað verði sagt og gert áður en það gerist. Að vísu gleymist það algjörlega í hita augnabliksins meðan maður lifir sig inn í verkið en í undirmeðvitundinni hvílir maður í því öryggi að allt sé fyrirfram gefið. Og e.t.v. hvílir maður í því vegna þess að þannig er það ekki í lífinu sjálfu sem gerir það aftur svo flókið að lifa því. Lífinu er oft líkt við leiksvið og framvindu þess við leikverk, þar er samt svo ógnarmikill munur á vegna þess í fyrsta lagi fáum við engan samlestur áður en lagt er af stað, samtölin eru ekki fyrirfram hönnuð og þaðan af síður viðbrögð okkar og tilfinningar. Þess vegna skiptir ekki minna máli að hafa leikstjóra í lífinu en á leiksviðinu, leikstjóri lífsins er sá sem gefur fordæmi með lífi sínu og jafnvel dauða. Hann getur heitið ýmsum nöfnum en við sem kjósum að tilheyra kristinni kirkju horfum til Jesú Krists sem okkar fyrirmyndar og leikstjóra. Sjálf er ég ekki leikkona þó eitt sinn hafi ég gengið með þann draum í ungu hjarta en nóg veit ég um leiklist frá menntaskólaárum mínum til þess að geta mér til um að mikilvægasti undirbúningur leikara felist í því að hlusta fyrst á leikstjórann, mótleikarann og umhverfi sitt. Í guðspjalli dagsins upplifum við enn og aftur hvernig Jesús vindur ofan af misskilningi innan lærisveinahópsins, mikið voru þeir nú heppnir að hafa hann þarna í persónu, enda sagði hann sjálfur eftir að hann var upprisinn, að sæl væru þau sem ekki sæju en trúðu samt . Þessi sena sem birtist í guðspjalli dagsins kemur í beinu framhaldi af síðustu kvöldmáltíð Jesú og lærisveinanna. Við sjáum þá fyrir okkur sitja við borðið í vel búnum loftsal í húsi einu í miðborg Jerúsalem. Það líður að páskahátíð gyðinga og múgur og margmenni nálgast borgarhliðið, það er hátíðleiki og spenna í loftinu, hátíðleiki yfir að upplifa rætur sínar í gyðingdómnum og minnast frelsunarinnar frá Egyptalandi og spenna og ótti yfir því að vera undir hælnum á hinu rómverska valdi sem safnar sjálfu sér, slíkt vald nær að deyða með andrúmsloftinu einu . Jesús brýtur brauðið og lyftir kaleiknum og á þeirri stundu stofnar hann hið heilaga sakramenti sem er vettvangur okkar enn í dag til að eiga áþreifanlegt samfélag við Drottinn. Og þarna er hann ekki bara í hlutverki þjóns sem reiðir fram líkamlega næringu, heldur sá þjónn sem gefur líf sitt svo aðrir megi lifa. Að máltíð lokinni upphefst eitthvert argaþras meðal lærisveinanna um það hver þeirra teljist mestur, þeir eru kvíðnir og þegar maður er kvíðinn þá leitar maður logandi ljósi að öruggum stað. Jesús situr þögull og hlustar á inntak samræðanna, eflaust er hann að greina hvað búi að baki. Og svo tekur hann til máls „ „Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri sem situr til borðs eða hinn sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.“ Hér talar Jesús til þeirra á heimspekilegum nótum eins og hann gerir raunar oft, ekki hvað síst í Lúkasar og Jóhannesarguðspjalli, þar birtist hann ekki bara sem frelsari og spámaður heldur einnig sem heimspekingur í líkingu við Sókrates eða Platón. Og hér er hann að varpa fram hugsun sem er svo ögrandi að hún vefst enn fyrir mönnum rúmum tvöþúsund árum síðar. Þetta er róttækasta hugsun kristindómsins vegna þess að hún hljómar eins og öfugmæli inn í tíðaranda allra tíma. Þetta eru á vissan hátt hinstu skilaboð hans til lærisveinanna, þetta er kveðjuræðan og af því að þetta er með því síðasta sem hann segir við þá, mega þeir vita að þetta er mikilvægt, þetta er a.m.k önnur hjartaloka Guðsríkis, sé Guðsríki í laginu eins og hjarta, hin væri tvöfalda kærleiksboðorðið en ósæðin sem liggur frá hjartanu og dælir blóðinu um líkamann er Litla Biblían „ því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ Hvað er Jesús að segja í guðspjalli dagsins? Jú í bókstaflegri merkingu er hann að segja lærisveinunum að nú sé hann á förum og þeirra sé að taka við þjónustunni, þeir verði að vita að eigi kristindómurinn að lifa og breiðast út um heim, verði starf þeirra að byggjast á þjónandi forystu. Í dag er mikið talað um þjónandi forystu, Jesús er einmitt upphafsmaður hennar, þó eflaust séu aðrir seinni tíma menn skrifaðir fyrir henni. Ég rakst á mjög áhugaverða umfjöllun á netinu eftir Sigrúnu Gunnarsdóttur um þetta fyrirbæri, þar er maður að nafni Robert Greenleaf nefndur sem frumkvöðull þessarar hugmyndafræði, grundvallar hugsun þjónandi forystu er samkvæmt hans skilgreiningu eftirfarandi : Þjónandi forysta snýst um þá eðlislægu tilfinningu að vilja þjóna. Síðar leiðir meðvituð ákvörðun viðkomandi til forystu, slíkur einstaklingur er ólíkur þeim sem er fyrst leiðtogi en ekki þjónn. Í sömu umfjöllun eru sex gildi nefnd til sögunnar sem grundvallargildi farsælla leiðtoga, það vill svo til að þau byrja öll á bókstafnum H, s.s. háin sex: Hlustun, hugsjón, hugrekki, hógværð, hreinskilni og hvatning og hún bendir á þekkta samtímaleiðtoga sem hafa haft þetta hjarta og þessi augu sem eru t.d. Móðir Teresa og Nelson Mandela ( Sigrún Gunnarsdóttur, apríl 2011. Hvað er þjónandi forysta, thjonandiforysta.is). Fólk sem hefur haft ómælanleg áhrif ekki bara á nærumhverfi sitt heldur allan heiminn. Jesús kom fram sem leiðtogi þó sjálfur liti hann á sig sem þjón. Upphaf og endir starfstíma hans hér á jörðu er markaður þessari hugsun. Upphafið var í ánni Jórdan þar sem hann þáði skírn af frænda sínum Jóhannesi sem sagði að hann væri ekki einu sinni verður að leysa skóþveng hans. Þar gefur Jesús skilaboð um það að þeir séu jafningjar jafnvel þó að Jesús sé sonur Guðs og frelsari manna. Þjónandi leiðtogi er nefnilega sá sem óttast ekki um stöðu sína heldur notar vit sitt og hæfileika til að að hjálpa öðrum að vaxa og eflast. Þjónandi leiðtogi veit sem er að það sem hann hefur fram að færa er einskis virði ef ekki myndast samfélag og samstaða í kringum það. Þess vegna miðaði allt starf Jesú frá Nasaret að því að stofna kirkju og einmitt þess vegna var hann alltaf að draga lærisveina sína inn í aðstæður þar sem hann vissi að þeir yrðu hræddir, vanmáttugir og ráðþrota og þyrftu leiðbeiningar við, eða m.ö.o. þar sem þeir myndu þroskast. Hver einasta manneskja sem fylgt hefði Jesú eftir á ferðum hans um Palestínu hefði lent í því sama. Því fyrst verður maður að vera hræddur til að öðlast hugrekki, agndofa til að læra að hlusta, þekkja neyð til að öðlast hugsjónir, auðmýkingu til að verða hreinskilinn , lifa vanmátt til að finna hógværð. Lífinu er oft líkt við leiksvið og þó fáum við engan samlestur áður en lagt er í‘ann, samtölin eru ekki fyrirfram hönnuð og þaðan af síður viðbrögð okkar og tilfinningar. Þess vegna þarf samfélag okkar sífellt á þjónandi forystu að halda en ekki leiðtogum sem verða til af þrá eftir viðurkenningu og völdum. Sagan hefur aftur og aftur sýnt okkur hvernig slíkum leiðtogum farnast og þeim samfélögum sem stóla á þá. Já galdurinn er að langa fyrst til að þjóna áður en maður sér hvað af því vex. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Leikhúsið og lífið
Flokkar