„Upphaf
fagnaðarerindisins um Jesú Krist, Guðs son.“ Á þennan hátt hefur höfundur
Markúsarguðspjalls frásögn sína af lífi og starfi Messíasar, frelsarans. Eitt
af megin þemum guðspjallsins er fyrirbærið sem guðfræðingar kalla gjarnan „messíanska
leyndarmálið“. Í því felst að Jesús biður fylgjendur sína að leyna því hver
hann er. Ástæðan fyrir því er að hann var ekki tilbúinn að opinbera sig. Jesús
þurfti að fá tíma til þess að vera með lærisveinum sínum áður en hann
opinberaðist öllum heiminum með upprisu sinni.
Það
er nefnilega ekkert sem verður hulið að eilífu né leynt að það komi ekki í
ljós. Jafnvel Jesús gat ekki haldið einkenni sínu leyndu og setti hann ljós
sitt á ljósastiku svo að það lýsti um allan heim. Höfundur Jóhannesarguðspjalls
greinir frá: „Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skein í
myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því“ og sjálfur Jesús sagði: „Ég er ljós
heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.“
Þau
sem eyru hafa, þau heyri orðið sem Drottinn mælir. Enn fremur varar Jesús okkur
við, að við eigum að gæta að því sem við heyrum því að ekki er allt gagnlegt. Með
þeim mæli, sem við mælum, munum við mæld verða. Við munum þurfa að gera það sem
okkur þykir erfiðast; að taka ábyrgð á gjörðum okkar. Okkur þykir það erfitt
því að það er ekki í eðli okkar. Adam og Eva tóku ávöxt af hinu forboðna tré og
átu. Þetta var eina tréð í öllum aldingarðinum sem þau máttu ekki taka af. Þau
skömmuðust sín og földu sig fyrir Guði. Er þau voru fundin skellti Adam sökinni
á Evu og Eva gerði hið sama og sagði að höggormurinn bæri sökina.
Við
höfum tilhneigingu til að fela okkur, til að sópa öllu undir teppið. Á þeirri
tækniöld sem við lifum á er okkur gert það enn auðveldara að taka ekki ábyrgð á
gjörðum okkar. Allskyns ummæli er látin falla án nokkurrar ábyrgðar því að
auðvelt er að dæma og úthýða öðrum þegar það er gert á bak við tölvuskjá. Ósæmileg
og skaðleg hegðun gagnvart sjálfum okkur og öðrum þrífst í myrkrinu. Þetta er
syndin sem aldrei er vinsælt að ræða um í nútímanum. Hún lætur ekki sjá sig
sjálfviljug og nærist af því að vera í leynd því að á bak við tjöldin getur hún
náð taumhaldi á okkur og valdið sem mestum skaða.
Við
getum ekki falið okkur eða gjörðir okkar því að þegar öllu er á botninn hvolft
að þá er ekkert sem verður eigi opinberað af ljósinu sem er Jesús Kristur.
Jesús sér okkur, þekkir okkur og hvað er í hjartanu okkar. En valið er í okkar
höndum. Viljum við taka í hönd Krists og fylgja honum? Þetta er einmitt sú
ákvörðun sem okkar blessuðu fermingarbörn munu taka í vetur og hlakka ég og sr.
Sigurður mikið til að sjá allt það ljós sem þau hafa að geyma.
Jesús
segir í textanum að þeim sem hefur mun gefið verða og frá þeim sem eigi hefur
mun tekið verða og jafnvel það sem hann hefur. Hann meinar að öll höfum við
okkar innra ljós og í skjóli hans mun það aldrei deyja. Það mun að loga, verða
sterkara og berast áfram. Það mun lýsa öllum í herberginu sem þurfa á því að
halda. Þar með er ekki sagt að við berum ábyrgð á öllu og öllum í heiminum.
Enginn nema Guð einn getur gert það. En við reynum eftir bestu getu að láta
ljósið okkar lýsa upp myrkrið þar sem það nær til.
Jesús
sér okkur og vonar að við komum til hans. Því að ef við kjósum frekar að vera
án hans, að þá getur hann ekki lofað okkur einu eða neinu. Ég er sannfærður um
það að ill öfl séu á sveimi í þessum heimi og bera þau ýmiss nöfn. Öfl sem
reyna hvað þau geta að draga okkur niður og hvetja okkur að draga eins marga
niður með okkur og við getum. Þau nýta sér breyskleika mannsins, freista hans
og lofa honum öllu fögru eins og höggormurinn lofaði Adam og Evu. Þau hrifsa það
fallega sem býr í okkur og reyna að gera það að engu. Þau taka jafnvel allt það
sem við höfum.
Ég
er þess fullviss að eitthvað stórkostlegt hafi átt sér stað fyrir um 2000 árum
síðan. Jesús frá Nasaret reis upp frá dauðum og messíanska leyndarmálið varð
öllum ljóst. Valdamikil öfl þess tíma reyndu hvað þau gátu að kæfa boðskapinn
og ofsækja þau sem báru ljósastiku Krists. Lærisveinarnir lögðu líf sitt niður
fyrir trúna og dóu þeir flestir vegna ofsókna illra afla. Undir öllum
venjulegum kringumstæðum hefði fámenn hreyfing, uppfull fátæku fólki sem flest
gat hvorki lesið né skrifað, verið kæfð niður undir eins af valdi Rómar. Það
gerðist ekki og á fjórðu öld e.Kr. varð Kristin gerð að ríkistrú í Róm, stærsta
heimsveldi þess tíma, og þar með opnuðust allar flóðgáttir og ljósið barst um
allan heim og þar á meðal til okkar Íslendinga. Við sem höfum eyru skulum heyra
orð Drottins og varðveita það að eilífu í hjörtum okkar. Dýrð sé Guði sem opnar
eyru okkar og leiðir okkur til eilífs lífs. Amen.