Er brauð bara brauð?

Er brauð bara brauð?

En er brauð bara brauð? Nei, í þessu samhengi er brauð ekki bara brauð. Textarnir í dag eru leyndardómsfullir. Þeir tengjast þeim leyndardómum sem grundvalla hina kristnu trú. Þeir leyndardómar snúa m.a. að þrenningunni og einnig eðli Jesú.

Biðjum:

Góði Guð!

Föðurlausra vörður vertu,

viðrétt þann, sem aðrir smá.

Lækna veikan, svala sveittum,

sundur slít þú fangans bönd.

Réttu hverjum þunga þreyttum

þína styrku líknarhönd. (úr sálmi 243, versum 4 og 5)

Amen.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Kirkjan, hvers konar vettvangur?

 

Kirkjan er vettvangur samfélags. Jesús talaði iðulega um samfélag fólks, en sjaldan um musterið eða kirkjuna. Í aðdraganda páska leit hann til musterisins og sagðist myndi rífa það niður og byggja það upp á þremur dögum. Í þeim orðum sínum var hann að vísa til upprisu sinnar og þess samfélags sem safnast saman um þann veruleika, sannleika og boðskap.

 

Kirkjan er því fyrst og fremst samfélag, samfélag um upprisu. Samfélag þar sem fólk ber hvert annað og heiminn allan á bænarörmum, samfélag kærleiksþjónustu, samfélag sem ræktar með sér mildi. Þennan sannleika nálgumst við síðan í því Orði sem varðveitir þær frásögur allar. Samfélag kirkjunnar byggir starf sitt á Orðinu sem nálgast má í ritum Biblíunnar.

 

Biblían geymir frásögur af fólki, sem á í samskiptum sín á milli og í samskiptum við Guð. Textarnir bera keim af þeirri samtíð sem þeir eru ritaðir í.

 

Frásögurnar voru ritaðar á 1500 ára tímabili, í þremur heimsálfum, af yfir 40 höfundum.

 

Biblían er í eðli sínu mikið undur. Helgihaldið hér er síðan vettvangur þar sem við m.a. ígrundum textana, skoðum þá og reynum að heimfæra þá upp á okkar líf og heim.

 

Er brauð bara brauð?

 

Textar dagsins fjalla um brauð. Brauðið vísar til fæðunnar sem við þurfum að neyta til að halda lífi. Hugtakið brauðstrit þekkjum við sjálfsagt úr okkar eigin lífi. Allir menn verða hafa í sig og á, eins og sagt er.

 

En er brauð bara brauð? Nei, í þessu samhengi er brauð ekki bara brauð.

 

Textarnir í dag eru leyndardómsfullir. Þeir tengjast þeim leyndardómum sem grundvalla hina kristnu trú. Þeir leyndardómar snúa m.a. að þrenningunni og einnig eðli Jesú.

 

Jesús Maríu- og Jósefsson, var sannarlega maður, sem gekk um hér á jörðu, hann fæddist í Betlehem og var tekinn af lífi á Golgata. Um hann eru til margar heimildir, vitanlega þær sem Biblían geymir, en einnig fleiri heimildir, svo sem Tómasarguðspjall, Maríuguðspjall, Filippusarguðspjall og þannig mætti áfram telja. Einnig heimildir sem snúa að hinu opinbera, hafa einnig verið til.

 

En samkvæmt hinni kristnu trú fæddist einnig Guð í heiminn í þessum sama Jesú Maríu- og Jósefssyni. Í honum birtist sem sagt Kristur.

 

Ef við reynum að kafa örlítið ofan í þennan leyndardóm þá varð Kristur ekki bara til með fæðingu Jesú, heldur hefur Kristur ávallt verið til, allt frá upphafi.

 

Guð er í senn einn og þrennur. Hugtakið persóna hefur stundum verið notað yfir birtingarmyndir Guðs í heiminum. Hugtakið persóna er fengið að láni úr leikhúslífinu, þar sem einn og sami leikarinn getur leikið fleiri en eina persónu í leikritinu, Guð er því einn og þrennur. Á sama hátt og þríhyrningurinn er einn, en hefur þrjár hliðar, er Guð einn en hefur þrjár birtingarmyndir í heiminum, þrjár persónur.

 

Þjóð í neyð, þjóð á flótta

 

Í dag heyrðum við fyrst textann úr annarri Mósebók, þar sem Guð mettar þjóðina í eyðimörkinni. Þetta er í senn dásamlegur texti, en einnig leyndardómsfullur, þar sem brauð birtist hungruðu fólkinu í eyðimörkinni.

 

Var það kannski Kristur, sem þar birtist í brauðinu? Var það Kristur, þar sem Jesús Kristur segist vera „Brauð lífsins“? Þar sem Kristur hefur, samkvæmt kristnum skilningi, verið til frá upphafi.

 

Síðar segir einmitt frá því er Jesús mettar fjöldann í auðninni á einungis fimm brauðum og tveimur fiskum. Þið þekkið þá frásögu, mettunarfrásöguna.

 

En samhengi textans úr annarri Mósebók er það, eins og þið kannski þekkið, að þjóðin hafði flúið úr vandræðum sínum í Egyptalandi, þar sem þau lifðu við þrældóm. Móse var leiðtogi þeirra og þetta rit er kallað Exodus, eða brottförin, sem vísar til frelsunarinnar.

 

Þjóðin stólaði á Móse, sem stólaði á Guð. Eyðimerkurgangan varð hins vegar löng, svo löng að Móse fékk ekki að lifa það að komast til fyrirheitna landsins. Hann hins vegar fékk að lifa það að ganga með Guði og sá að ætlunin var að takast, þ.e.a.s. að komast til fyrirheitna landsins. Það varð síðan annarra að taka við af Móse, þegar þangað kom, en það er önnur saga. Kannski ekki alveg önnur saga, kannski annar kafli í sömu sögu. Frelsunarsögunni.

 

Frelsunarsagan

 

Biblían miðlar nefnilega frelsunarsögu. Ekki bara frelsunarsögu einhverrar þjóðar í fyrndinni, sem gekk í gegnum þrengingar og var launað fyrir trú sína og traust á Guði. Heldur er frelsunarsagan enn í gangi. Nýir kaflar bætast við þá frelsunarsögu með hverjum þeim einstakling sem leggur traust sitt á þann Guð sem allt gefur og lifir lífi sínu í samfélagi við hann.

 

Þú ert líklega á þeim vegi nú þegar, þ.e.a.s. á þeim vegi með Guði, á vegi frelsunar og upprisu. Þér er í það minnsta boðin hlutdeild í þeirri frelsunarsögu.

 

Líkt og þjóðin var frelsuð frá hungri í eyðimörkinni með því sem í textanum er kallað manna, er þér boðin samfylgd Guðs, sem birtist okkur m.a. á einhvern leyndardómsfullan máta í altarisgöngunni, þar sem við neytum brauðs. En það brauð er ekki bara brauð. Það brauð er, vegna trúarinnar, áþreifanleg nærvera Guðs. Guð birtist okkur þar í brauðinu líkt og manna í eyðimörkinni sem birtist þjóðinni, forðum.

 

Textinn í annarri Mósebók er svo dásamlega nákvæmur. Þar kemur svo skýrt fram að allir fengu nóg, en enginn tók of mikið.

 

Það er nú stef sem væri hægt að ræða í heilli prédikunarröð og í heilu semínörunum, þ.e.a.s., misskiptingin í heiminum. Það er svo dásamlegt hvað þessi stef Biblíunnar, eiga alltaf við. En á sama hátt og allir nutu þar þess sem þau þurftu, komum við saman við altarið, öll í sömu sporum gagnvart Guði, öll jöfn. Í altarisgöngunni birtist það manngildi, að öll erum við óendanlega dýrmæt, enginn er hér öðrum fremri gagnvart Guði, við erum jöfn, jafn dýrmæt, óendanlega dýrmæt.

 

Ég er...

 

Það er svo skemmtilegt með birtingarmyndir Guðs í Biblíunni að þegar maðurinn telur að hann skilji Guð að fullu, þá birtist Guð heiminum á einhvern algerlega nýjan máta.

 

Ég tel að það sé þannig, enn í dag.

 

Aðdragandi texta dagsins úr annarri Mósebók er sá að Móse var á ferð í eyðimörkinni og sá brennandi runna og fór að honum til að kanna málið. Hann uppgötvaði að þar var heilagur staður því Guð talaði til hans á þeim stað og bað hann fara með Ísraelsþjóðina burt frá Egyptalandi.

 

En Móse óð ekki bara af stað út í óvissuna, hann þurfti frekari staðfestingu frá Guði að þetta yrði í lagi, því hann vissi að hann myndi seint geta sannfært þjóðina um að hverfa frá kjötkötlunum og út í óvissuna né einráðan faraó Egyptalands að leyfa þrælunum að fara. Móse vildi því hafa á hreinu hver þessi guð væri sem hann ætti að kynna sem höfund þessarar ómögulegu hugmyndar, þ.e.a.s. þeirrar hugmyndir að rífa sig upp og forða sér út í óvissuna. Þá sagði Guð einmitt úr runnanum, þegar Móse spurði hver hann væri, þá svaraði Guð: „Ég er.

 

Það sem Móse átti að segja, þegar hann kæmi til Egyptalands, var að guðinn „Ég er” sendi hann. Heitið, nafnið, Jahve, á hebresku, var notað til að tjá þetta “Ég er.”

 

Jesús þekkti vitanlega þessa frásögu vel. Og hann notaði þessa „Ég er“ -hefð til að setja fram lýsingar á sjálfum sér, sem sagt Kristi.

 

Hver er Kristur?

 

Jú, þar með varð til ný guðfræði og með því varð opinbert að hann tengdi sig þessari frelsunarsögu þjóðarinnar. Þetta varð áheyrendum hans ljóst þegar hann sagði um sjálfan sig: „Ég er brauð lífsins.“

 

Jesús notaði þessa hefð síðan á enn ríkari máta. Í Jóhannesarguðspjalli sagði hann einnig um sjálfan sig:

 

Ég er ljós heimsins.

Ég er upprisan og lífið.

Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Ég er góði hirðirinn.

Ég er vínviðurinn.

Ég er dyrnar.

 

Sjö líkingar notaði hann um sjálfan sig, byggða á þessari “Ég er”-hefð.

 

Talan sjö vísar í ákveðna heild. Samkvæmt sköpunarljóði fyrstu Mósebókar skapaði Guð heiminn á sjö dögum. Jesús útfærir þessa “Ég er”- hefð á þennan máta, þar sem skapast ákveðin heild og samhengi. Það er í þessu samhengi sem við nálgumst þessi „Ég er -“ orð Jesú.

 

Skilgreining Jesú á sjálfum sér er á þann veg að hann túlkar sig sem nánd Guðs í veröldinni, að í honum kemur Guð til þín.

 

Þitt er valið

 

Þú ert ekki einn. Þú ert ekki ein.

Það er meginboðskapur Biblíunnar.

 

Það er nefnilega Guð, sem er.

 

Hann er ekki bara til, heldur er Guð allt í öllu.

 

Þótt heimurinn geti virst kaldur og miskunnalaus, þá elskar Guð þig eins og þú ert, og er þér nær en maðurinn nær nokkurn tímann að fullu utan um.

 

Viljum við eiga þá samleið með Guði?

 

Það er nefnilega svo merkilegt að á sama tíma og Guð er allt í öllu, þá getur maðurinn valið að lifa lífi sínu án þeirra tengsla. Líkingarnar í Biblíunni um þetta val, eru fjölmargar. Þar er talað um verkamenn í víngarði. Þar er gamaldags líking um brúðarmeyjar, þar sem olían klárast á lömpum þeirra. Þar er líking um brúðkaup, þar sem gestirnir mættu ekki, en öðrum var þá bara boðið í staðin. Þar er talað um talentur, denara, drökmur og þannig mætti áfram telja.

 

Þitt er valið.

 

Kirkjan er vettvangur þar sem við eigum að geta fundið stuðning við það val að eiga samfélag og tengsl við algóðan og kærleiksríkan Guð. Kirkjan á því að vera vettvangur mildi og kærleika, þar sem við eigum að geta fundið stuðning til aukinnar trúar á þann kærleikskraft sem er allt í öllu.

 

Þann kærleikskraft sem vill eiga í tengslum, kærleiksríkum tengslum, þar sem maðurinn öðlast allt sem hann þarf, ekki endilega allt sem hann vill. Þau kærleiksríku tengsl Guðs og manns, geta síðan haft áhrif á önnur mikilvæg tengsl í okkar nærumhverfi, tengsl okkar við annað fólk, sem og tengsl okkar við okkur sjálf.

 

Megi Guð vera þér nærri, líkt og vorblær á vanga.

Megi Guð vera þér nærri, líkt og vindur í segl á skútu.

Megi Guð blessa vegferð þína. Blessa þína hægri hlið og þína vinstri hlið.

Megi Guð blessa þið að framan og aftan.

Megi Guð blessa þig frá hvirfli og niður undir yljar.

Megi Guð auka þér hugrekki og þor, til að takast á við öll þau verkefni sem lífið færir þér.

Megi Guð vera þér nærri.

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen. 


        Prédikun flutt í Grensáskirkju, 4. sd. í föstu, 19. mars 2023

        Textar: Lexía: 2M 16.11-18, Pistill: 2. Kor. 9. 8-10, Guðspjall: Jóh 6.47-51