Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður vorum og drottni Jesú Kristi. Amen.
„Eru þetta ekki allt Galíleumenn sem hér eru að tala? Við erum Partar, Medar og Elamítar, við erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene og við sem hingað erum flutt frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Við heyrum þá tala á tungum okkar um stórmerki Guðs.“
Við erum stödd í atburðarás Postulasögunnar. Í miðju því undri sem að kirkjan hefur litið á sem vatnaskil hins unga átrúnaðar. Þeim atburði Hvítasunnudags sem aðskilur söguna af Jesú frá sögu kirkjunnar sem sjálfstæðrar hreyfingar. Postulasagan er seinni hluta tveggja binda verks, en fyrra bindið Lúkasarguðspjall rekur söguna af fagnaðarerindinu frá fæðingu frelsarans í Betlehem til dauða hans og upprisu í Jerúsalem. Postulasagan hefst á þeirri reynslu fylgjenda Jesú að sjá upprisinn meistara sinn stíga upp til himna á uppstigningardegi og sú frásögn leiðir inn í atburði Hvítasunnudags, þegar fagnaðarerindið færist á hendur kirkjunnar. Þá rekur Postulasagan boðunarstarf postulanna sem hefst á frásögn dagsins þar til sagan af Jesú, berst fyrir tilstuðlan Páls til Rómar, þaðan og þangað sem að allir vegir liggja.
Fólkið sem um ræðir, fylgjendur Jesú og vinir, voru saman komin í loftstofu einni í Jerúsalem, höfuðborg Ísraels fyrstu aldar, til þess að biðja saman og styðja hvert annað í úrvinnslu þeirra atburða sem að þau höfðu orðið vitni að og verið þátttakendur í. Með leikrænu orðfæri er því undri lýst að heilagur andi, kraftur Guðs, hafi birst þessu fólki sem eldtungur og knúið þau út á götur og torg til að vitna um stórmerki Guðs. Undrið fólst í því að hinar ólíku þjóðir og þjóðarbrot sem fylgendum Jesú mættu, skildu öll og gátu meðtekið þann boðskap sem verið var miðla.
“Við erum Partar, Medar og Elamítar …” Upptalning hinna ólíku þjóða í frásögninni er um margt áhugaverð og sé frásögnin skoðuð er nærtækast að spyrja fyrst, hvort það sé sannfærandi að svo fjölbreytt og ólík þjóðarbrot hafi verið meðal íbúa Jerúsalemborgar fyrstu aldar.
Ísrael er landfræðilega þannig staðsett að hún er mitt á milli stórvelda, og saga þjóðarinnar er því frá fyrstu heimildum mótuð af þeim stórveldum sem risið hafa og fallið sitthvoru megin við landið helga. Hernám og hersigrar hinna ólíku höfðingja frjósama hálfmánans gegnum söguna skildu eftir sig menningaleg áhrif og þjóðarbrot í Ísrael til forna. Einn hershöfðingi lagði grunninn að arfleifð þeirrar fjölmenningar sem við sjáum endurspeglast í frásögn Postulasögunnar. Hinn ungi prins af Makedóníu fjórðu aldar fyrir Krist, Alexander mikli, var ekki einstakur í metnaði sínum og hersigrum, þó að landsvæðið sem hann lagði undir sig hafi verið sögulegt met. Veldi hans náði þegar það var stærst frá Grikklandi í vestri, suður yfir Egyptaland, austur að ánni Indus þar sem í dag er Pakistan og norður inn í mið-Asíu.
Hersigrum hans fylgdi hin helleníska áhersla á menntun og hvert sem hann fór stofnaði hann skóla, eftir hinu þrískipta gríska menntakerfi, þar sem hærri stéttir allra þjóða gátu lært gríska tungu og menningu. Veldi Alexanders stóð stutt en áhrifin af þessari áherslu á helleníska menntun varðveittist í heimsveldum eftirmanna hans. Langt fram á rómverska tímann hélst gríska sem alþjóðamál og ættflokkabundin sjálfsmynd þjóða mið-austurlanda var varanlega breytt. Hugmyndir um nýja sjálfsmynd þeirra sem hlotið höfðu helleníska menntun og voru hellenar leystu af hólmi hefbundari sjálfsmynd ættbálkahollustu.
Frá innreið helleníska tímans var Jerúsalem grískumælandi borg og gyðinglegar bókmenntir frá fjórðu öld og fram á ritunartíma Nýja testamentisins bera vott um togstreitu gyðinga á milli þess að aðlagast alþjóðlegri menningu hellenismans og varðveita menningarleg og trúarleg sérkenni gyðinga. Áföll og ósigrar gyðinga í heimalandi sínu, fyrst gegn hinum hellenísku Selevkítum í Makkabeastríðunum og síðar gegn hinum rómversku valdhöfum sem gerðu út um Jerúsalemborg á fyrstu öldum okkar tímatals, gerðu varðveislu menningarinnar að forgangsverkefni gyðinga. Sú arfleifð sem hélt velli sameinaði hið besta úr hinum forna átrúnaði og alþjóðlegum menningarstraumum samtímans. Þannig er sá gyðingdómur sem til þessa dags er stundaður sem átrúnaður, rabbínskur gyðingdómur, að verða til á fyrstu öldinni og það er engin tilviljun að öll rit Nýja testamentisins eru skrifuð á hinu gríska alþjóðamáli.
----
Togstreita gyðinga til forna við að varðveita menningarleg sérkenni sín í ljósi áhrifa fólksflutninga og alþjóðamenningar á marga snertifleti við samtímann. Þjóðir og þjóðarbrot víðsvegar um heim glíma við það verkefni að varðveita menningu sínu og tungumál í kjölfar þeirra gríðarlegu breytinga sem að undanfarnar aldir hafa haft í för með sér. Útþennsla vestrænnar menningar með nýlendustefnu og kristniboði 18. og 19. aldar, iðn- og tæknibyltingu 19. og 20. aldar og nú síðast samskiptabyltingu 21. aldar hefur átt sinn þátt í því að opna landamæri landa og heimsálfa með hætti sem engin fordæmi eru fyrir í sögunni.
Tilraunir til að loka landamærum ríkja, heimsálfa og þjóðabandalaga og stemma stigum við fólksflutningum munu til lengri tíma ekki skila árangri. Fólksflutningar milli landa og heimsálfa er í öllum tilfellum flókið verkefni og kallar á vandamál á borð við kynþáttahyggju, stéttaaðgreiningu, einangrun fólks og togsteitu á milli þess að varðveita menningarleg- og trúarleg sérkenni þjóða í ljósi fjölmenningar. Þau verkefni krefjast sameiginlegra lausna allra, stjórnvalda, atvinnulífs og þriðja geirans, sem og sérfræðiþekkingar sem að við njótum í okkar samhengi með þjónustu sr. Toshiki Toma, presti innflytjenda. En sú hagsæld og tækifæri sem að opin landamæri færa vega mun þyngra en vandamálin sem fylgja fólksflutningum.
Þeir eru ófáir Íslendingar sem nú njóta nýrra tækifæra á erlendri grundu og á tímum atvinnuleysis og niðurskurðar í okkar samfélagi hefur opinn faðmur norðurlanda, fyrst og fremst Noregs, reynst mörgum leið úr sjálfheldu hér heima. Það er sérlega áhugavert í því ljósi að á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hafa fleiri útlendingar flutt hingað til lands en hafa flutt erlendis. Margir sem hingað flytjast sjá meiri tækifæri hér á landi en í sínu heimalandi, þrátt fyrir þá stöðu sem að við erum í.
Allir hagnast á fólksflutningum. Nýútkomin bók Princeton háskóla eftir þrjá hagfræðinga sem ber heitið Exceptional people, færir rök byggð á rannsóknum fyrir því að þeir þættir fólksflutninga sem að stjórnmálamenn og hagfræðingar hafa yfirleitt séð sem neikvæðar hliðar, hafi í raun jákvæðar afleiðingar. Þannig hefur þriðji heimurinn haft þungar áhyggjur af því að missa sitt hæfileikaríkasta fólk úr landi, hin svokallaða brain drain kenning, en höfundar segja að sé tekið tillit til menntunarhvatans sem fyrirheitið um grænni haga erlendis hafi í för með sér og því sem að fólk sem flyst úr landi færir heim af fé, menntun og reynslu, hagnist allir. Þá eru þær raddir algengar að innflytjendur lækki laun heimamanna, með framboði af ódýru vinnuafli, en höfundar sýna fram á að það sé mikil einföldun.
Þó allir hagnist á fólksflutningum skal ekki gert lítið úr þeim vanda sem að þeir hafa í för með sér og við sem þjóð þurfum að vera sérlega vakandi fyrir stöðu innflytjenda nú. Rannsóknir sýna að með versnandi efnahagsástandi, aukast neikvæð viðhorf í garð þeirra sem ekki eru innfæddir. Þau viðhorf auka á félagslega einangrun innflytjenda, mismunun í þeirra garð og skilningsleysi gagnvart þeim menningarlegu verðmætum sem að fólk af erlendu bergi auðgar samfélag okkar með. Það getum við sem samfélag, kirkja og þjóð ekki liðið, sérstaklega í ljósi þess að land okkar byggðist af fólki sem hingað kom í leit að betri kjörum og lífi.
----
“Við erum Partar, Medar og Elamítar …” Hin kristna kirkja í heiminum, sem á hvítasunnudag fagnar stofnun sinni, er grundvölluð á boðskap galíleumannsins Jesú Krists, sem með starfi sínu og lífi opinberar leyndardóminn um ríki Guðs. Sú opinberun og það fagnaðarerindi er erindið sem rit Nýja testamentisins byggja á og framsetning þeirra átti slíkan hljómgrunn að kristindómurinn er til þessa dags útbreiddasti og fjölmennasti átrúnaður heims og meirihlutaátrúnaður fjölda þjóða frá germönsku Norður-Evrópu til Suður-Kóreu.
Kristindómurinn hefur í útbreiðslu sinni átt hljómgrunn meðal ólíkra menningarsamfélaga en hann hefur ekki haldist óbreyttur frá því í fornöld. Kristin trú hefur frá upphafi verið fjölbreyttur og margbreytilegur átrúnaður. Þann fjölbreytileika bera hin ólíku frum-kristnu rit vitni, jafnt innan sem utan Nýja testamentisins og sá fjölbreytileiki birtist í hinum ólíku myndum sem að hinar ólíku kirkjudeildir iðka kristna trú. Hvar sem boðskapur Jesú og boðskapurinn um Jesú hefur fest sig í sessi hefur það verið í samræðu við og samhljóman við þá menningu sem að trúin talar inní. Þannig er íslensk kristni hluti stærra samhengis, kristinnar kirkju í heiminum og evengelísk-lútherskrar játningar, en hún hefur einnig sín menningarlegu sérkenni. Sérkenni sem ber að fagna og varðveita.
Gagnrýnendur kristinnar kirkju hafa í gegnum aldirnar bent á sundrung kristindómsins og sannarlega hafa engar aldir verið lausar við deilur sem að fylgt hafa ólíkum sjónarmiðum kirkjudeildanna. En í fjölbreytileika menningar, átrúnaðar og áherslna er að finna fegurð sem veitir skjól. Hinn sameinandi þráður í öllum kirkjudeildum er hlýðnin við skírnarskipun Matteusarguðspjalls þar sem Jesús segir: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.
Ætlum við sem kirkja og samfélag að hlýða þessari skipun, að gera allar þjóðir að lærisveinum og halda allt það sem Jesús boðar, fylgir því ákveðin nálgun á lífið og sjónarhorn á samfélagið. Af sögunni og sögunum af Jesú lærum við að nálgast manneskjur og menningu af virðingu. Það fólk sem að Jesús hampar mest eru útlendingar í hans eigin landi.
Það að vera kristin manneskja, kristinn söfnuður og kristin þjóð er að samþætta það besta sem okkur er falið í fang úr menningu okkar og átrúnaði og að fagna því sem að auðgar okkur í fjölbreytileika sínum. Eigi kristin trú að halda velli sem átrúnaður þarf kirkjan að mæta þeirri áskorun að sameina hið besta úr hinum forna átrúnaði og menningarstraumum samtímans.
“Við erum Partar, Medar og Elamítar” … Við erum Íslendingar, Pólverjar, Ítalir og Japanir … fólk af ólíkum uppruna. Við erum kristið fólk og fólk af ólíkum átrúnaði. Hvítasunnuundrið fólst í því að hinar ólíku þjóðir og þjóðarbrot sem fylgjendum Jesú mættu, skildu og gátu meðtekið þann boðskap sem verið var að miðla. Það undur er enn að verki í starfi kirkjunnar og í boðskapi hennar er fólgin túlkunarlykill í þeim nýju aðstæðum sem samtíminn ber í skaut. Sá lykill felst í þeirri menningarlegu virðingu sem að Jesús sýnir og boðar og í trausti þess fyrirheitis að Jesús sé með í för ,,alla daga allt til enda veraldar.”
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Pistill : Postulasagan 2.1-13Þá er upp var runninn hvítasunnudagur voru allir saman komnir á einum stað. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.
Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist kom allur hópurinn saman. Þeim brá mjög við því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Menn voru frá sér af undrun og sögðu: „Eru þetta ekki allt Galíleumenn sem hér eru að tala? Hvernig má það vera að við, hvert og eitt, heyrum þá tala okkar eigið móðurmál?
Við erum Partar, Medar og Elamítar, við erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene og við sem hingað erum flutt frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Við heyrum þá tala á tungum okkar um stórmerki Guðs.“ Allir voru furðu lostnir og ráðalausir og sögðu hver við annan: „Hvað getur þetta verið?“ En aðrir höfðu að spotti og sögðu: „Fólkið er drukkið af sætu víni.“