Hefurðu hugsað út í það að þegar þú skynjar líkamlegan sársauka þá verðurðu hræddur, sérstaklega ef sársaukinn er mjög mikill. Þó er ekki víst að það sé beint sársaukanum að kenna að þú finnur til ótta. Ég man alltaf þegar ég var að fæða yngri son minn að þegar drengurinn tók að þrýsta kollinum út þá greip mig eitt augnablik svo mikill ótti, já eða jafnvel angist að ég fátaði, ég var í alvörunni að hugsa um að hlaupa í burtu, losna út úr þessu með einum eða öðrum hætti. Ég hugsa að ef ég hefði ekki verið nánast afvelta ofan í djúpu baðkari sem minnti fremur á rússneskan kafbát en baðkar, þá hefði ég rokið út og skilið föður og ljósmóður eftir með óklárað verk. Ég hef oft hugsað um þetta með fjárhirðana, þeir urðu mjög hræddir segir í guðspjallinu, þegar engillinn birtist þeim með stóru fréttina, já þegar dýrð Drottins ljómaði í kringum þá. Ég er einhvern veginn sannfærð um að þessir lífsreyndu menn sem höfðu lifað ógnir næturinnar í víðáttu Betlehemsvalla, hafi óttast eitthvað annað en birtu af himni, menn sem höfðu varðeldinn einan að vopni til að fæla frá kjötþyrst rándýr. Það er ekki eins og þeir hafi fæðst með silfurskeið í munni, þvert á móti gegndu þeir láglaunastarfi sem fáir sóttust eftir. Nei það hefur verið eitthvað annað sem hefur fyllt þá þessum mikla ótta. Ef til vill var það hið sama og grípur oft konur í rembingshríðum, það er óttinn við að höndla ekki aðstæður. Í Matteusarguðspjalli segir frá vitringunum sem komu frá Austurlöndum til Jerúsalem og knúðu dyra á höll Heródesar til að vitja hins nýja konungs því þeir höfðu séð „stjörnu hans renna upp“ eins og segir orðrétt í guðspjallinu en þar segir jafnframt „ þegar Heródes heyrði þetta varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum.“ Það er kannski ekki skrýtið að ein vestræn móðir með 10 í útvíkkun verði dulítið skelkuð ef valdamikill konungur heil stórborg og þrautreyndir fjárhirðar, sannkallaðar hetjur hásléttunnar verða skelfingu lostin yfir fæðingu sveinbarns í hrörlegum fjárhúskofa. Það er sammannleg reynsla að óttast það að höndla ekki aðstæður sínar. Við viljum hafa stjórn á lífinu og tilverunni, við viljum vita fyrirfram að allt fari vel að lokum. Við þolum naumast bíómyndir sem enda illa, sumir skoða jafnvel endinn í upphafi til þess að róa taugarnar, ég nefni engin nöfn, það væri kannski ekki svo slæmt að hafa þessa stjórn á eigin lífi, geta bara spólað áfram og skoðað hvort allt fari ekki eins og lagt var upp með. En svo verðum við kannski alvarlega veik og allar fyrirætlanir um að leikstýra lífinu til enda verða að engu, við skynjum að lífið er miklu stærra en við sjálf, miklu sjálfstæðara en sérhver einstaklingur, lífið er frumkraftur tilveru okkar en ekki öfugt. Og þá gerist það oft gagnstætt öllum reglum að við förum að gefa okkur lífinu á vald og það er mjög merkilegt ferli. Þess vegna eigum við sem stöndum til hliðar oft svo erfitt með að skilja hugarró hins veika, hvernig hann getur tekist á við daginn án þess að örvænta eins og fjárhirðarnir forðum, stundum skiljum við ekki hvernig hinn veiki getur í raun lyft höfði frá kodda vitandi að hann stýrir ekki lengur atburðarrás dagsins. Prestar og aðrir þjónar kirkjunnar eru í forréttindastöðu hvað varðar það að fá að mæta fólki á ögurstundum lífsins og sjá hvernig manneskjan stækkar og þroskast þegar hún er neydd til að sleppa tökunum, stundum finnst manni eins og Guðs hendi losi hvern fingur fyrir fingur uns viðkomandi sleppir taki og svífur ofan við tilveru sína. Oft hef ég óskað þess að mega mæta lífinu svona án þess samt að þurfa að verða veik, að leyfa hverjum degi að nægja sína þjáningu og líka gleði, að láta af stjórnunaróttanum, að geta stigið upp í flugvél án þess að þorna í munni og svitna í lófum, að vera einlæg án þess að óttast það að vera talin einföld, að segja nei án þess að hugsa hvort ég tapi vinsældum, að gera mistök án þess að halda að lífið sé búið. Ég hef aldrei fundið til sérstakrar samkenndar með vitringunum í jólaguðspjallinu, þeir virðast alltof hugrakkir, ég er persónulega í liði með fjárhirðunum og fólkinu í Jerúsalem, skíthrædd oft að treysta lífinu. Jólaguðspjallið er máttugt vegna þess að allar persónur þess, öll samskipti, allar kringumstæður, viðurkenna mennskuna. Það stendur kannski ekki skrifað að vitringarnir hafi verið hræddir en ég tel næsta víst að þeir hafi verið með smá ónot í maganum yfir því að snúa á Heródes kallinn sem sveifst einskis í valdníðslu sinni. Það stendur heldur ekki skrifað að Jósep hafi misst svefn af áhyggjum en samt má lesa milli lína að hann hafi nú sofið ansi lítið, að minnsta kosti þurfti engill Guðs ekki að öskra um hánótt þegar hann ákvað að drífa konu sína og barn til Egyptalands, svo Heródes myndi ekki drepa barnið. Það er eitthvað við þessa sögu sem gerir það að verkum að manni finnst í lagi að vera bara manneskja, það er einhver kvika í þessari sögu sem er svo kraftmikil og heit að þegar maður heyrir hana eða les þá er eins og manni sé haldið í Guðs hendi, þessi saga er sefandi í sorgum og uppörvandi þegar sólin virðist bókstaflega hafa flúið land af því að hún boðar von, að vonin sé sterkari en máttur mannsins og svo er hún alveg bullandi pólitísk af því að hún afhjúpar heimsku valdsöfnunar eins og hún birtist einmitt í Heródesi. Og svo er þessi saga svo mikil kennsla í samskiptum hjóna, María og Jósep eru holdgervingar þeirra gilda sem þurfa að ríkja eigi hjónaband að ala af sér hamingju og farsæld, hefurðu hugsað það hvort Jesúbarnið geti fæðst í samskiptum þín og maka þíns? Ríkir traust og virðing, samstaða og samkennd ykkar á milli? Það var svo sem engin tilviljun að þessu pari var fengið þetta hlutverk en það er ekki þar með sagt að þau séu eina parið í veröldinni sem geta komið Jesú Kristi inn í þennan heim. En svo er eitt í þessari sögu, raunar mjög stórt atriði sem hlýtur að koma við íslenska þjóð á þessum jólum og það er sú staðreynd að í sögunni eru fjárhirðarnir fátæku og vitringarnir velstæðu allir kallaðir að sömu jötunni, jötunni sem hætti skyndilega að vera fábrotið ílát undir heytuggu og varð þess í stað farvegur þeirra lífsgæða sem Kristur bauð með lífi sínu, dauða og upprisu. Sérstakt raunar að hugsa til þess að jatan, asninn og krossinn skyldu verða slíkir örlagavaldar í sjálfri hjálpræðissögunni, það er ekkert Royal við þetta þrennt. En hvað sem því líður þá hlýtur það að stinga okkur sem vestræna velmegunarþjóð að horfa upp á það að jafnréttisboðskapur jólaguðspjallsins, sá grundvallar þáttur hennar að allar manneskjur séu kallaðar til að njóta virðingar og réttar, séu kallaðar til að þiggja þær gjafir frá jötunni, skuli vera svo fótum troðin að við sættum okkur við að samborgarar okkar standi í biðröðum eftir mat, ég veit að það er aðfangadagskvöld og ég veit að þú ert komin til að njóta helgi og friðar, þú ert kominn til að fanga jólastemmninguna og þú ætlar að taka hana með þér heim og það er yndislegt en staðreyndin er samt sú að helgin og friðurinn verða aldrei sönn og jólastemmningin verður eitthvað skrýtin ef við erum ekki samferða í að njóta þeirra gæða sem lýsa frá jötunni, við erum ekki að gera það ef stækkandi hópur samfélagsins fær ekki að lifa með reisn. Þú berð vissulega ekki einn eða ein ábyrgðina en við erum samfélag og við þiggjum að vera það í meðvindi og mótbyr. Sem betur fer höfum við orðið vör við mikla samkennd í þessu samfélagi hér á Akureyri í kringum jólin, margir hafa lagt til gjafir og fé sem okkur hefur verið falið að koma í hendur þeirra sem á þurfa að halda og það er undursamlegt. En við verðum að skoða þetta í stærra samhengi af því að jólin eru bara stuttan tíma á ári og fátæktin gerist ekki bara boðflenna í desember, þó hún verði alveg sérlega uppáþrengjandi þá. Nei því miður er hún er orðin viðvarandi vandamál og það er bara þannig að þau samfélög sem glíma við vaxandi fátækt þau verða með tímanum óheilbrigð og ómannvænleg og þau ala upp hræddar kynslóðir sem upplifa að þær höndli ekki aðstæður og hver fer að verða sjálfum sér næstur af ótta við að lifa ekki af, slík samfélög geta alið af sér nokkurs konar frumskógarlögmál. Og þannig samfélag vill ekkert okkar sjá, af því að við vitum og getum betur. Jólaguðspjallið er kennsla í því að rækta með sér mannskilning og trú, það varpar ljósi á manns eigið sálarlíf og það kennir okkur það að samfélög dafna þar sem kjörum er dreift og manneskjur dafna um leið og þær treysta orðum engilsins um að sá Guð sé fæddur sem hefur velþóknun á mönnum, það er lykilatriðið í boðskap jólanna, þar er kvikan, að Guð hefur velþóknun yfir mönnunum. Fjárhirðarnir treystu þeim orðum og héldu af stað til að sjá Jesúbarnið, þeir voru bara menn eins og ég og þú, þeir voru skíthræddir að treysta einhverju sem væri engan veginn áþreifanlegt, kannski hræddir um að gera sig að fífli, vera of einlægir, of trúgjarnir en viðbrögð þeirra kenna okkur samt að það borgar sig að sleppa tökum á óttanum af því að lífið sjálft sem umlykur okkur er kraftmikil kvika og sú kvika er kærleikur og sá kærleikur er Guð og Guð yfirgefur þig aldrei. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Sú kvika er kraftmikil og heit
Flokkar