Trúfrelsi er mikilvægur þáttur almennra mannréttinda. Til eru að minnsta kosti tvær leiðir til að útfæra það. Önnur er sú að líta á trúfrelsi sem skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi og félagafrelsi á trúarlega sviðinu, þ.e. frelsi til að iðka trú sína í samræmi við eigin sannfæringu einn/ein eða með öðrum. Hið leiðin er að líta svo á að í trúfrelsi felist frelsi öllum til handa undan því að verða fyrir trúarlegu áreiti sem viðkomandi óskar ekki eftir sjálf/sjálfur.
Báðar þessar leiðir eru færar og farnar. Oftast ræðst það af sögulegum og samfélagslegum aðstæðum hvor er farin. Í Frakklandi var síðari leiðin valin af skiljanlegum ástæðum. Er skýringanna að leita allt aftur til byltingarinnar í lok 18. aldar. Þá reis þjóðin upp gegn ríki og kirkju sem voru tvær algjörlega óaðgreinanlegar stofanir sem lutu æðstu sjórn einvalds sem neitaði að láta af völdum. Í danska ríkinu voru aðstæður aðrar. Einvaldurinn afsalið sér því valdi og þjóðinni var sett stjórnarskrá sem m.a. fól í sér trúfrelsi og rétt til að standa utan allra trúfélaga. Því var eðlilegt að fyrrgreinda leiðin yrði farin í Danaveldi. Þar á meðal hér.
Trúarlegt athafnafrelsi í því sem kalla má opinbert rými ræðst af því hvor trúfrelsishefðin er við lýði. Þar sem trúarlegt tjáningarfrelsi ríkir fær trúarleg tjáning að taka á sig fjölskrúðugar myndir á markaðstorginu. Þar sem frelsi undan trúarlegum áreitum er í öndvegi er reynt að stemma stigu við öllu slíku. Þá er nauðsynlegt að setja boð og bönn. Í fjölhyggjusamfélagi er eðlilegt að val standi milli lítt hefts tjáningarfrelsis og boða og banna. Mörgum kann að virðast leið bannanna hreinleg og umfram allt skilvirk. Byggist fjölmenning hins vegar ekki á að 1000 mislit blóm fái að gróa hlið við hlið og vonandi auðga umhverfið?
Í hinu opinbera rými eru hins vegar staðir þar sem fara ber sérstaklega varlega. Það eru svæði þar sem einstaklingar dvelja skyldugir eða gegn vilja sínum: fangelsi, sjúkrahús og skyldunámsskólar. Innan veggja þeirra þarf sjálfræði og jafnræði einstaklinga af mismunandi trú að vera sem mest.
Nú eru trúarleg áreiti í leik- og grunnskólum Reykjavíkurborgar til sérstakrar umræðu. Tillögur mannréttindaráðs eru sýnilega byggðar á trúfelsisskilningi sem af sögulegum ástæðum hefur lítið sagt til sín hér á landi fram undir þetta. Hugmyndir að fram komnum reglum er augljóslega ætlað að skapa festu, einingu og öryggi á viðkvæmu sviði. En er lausnin endilega sú besta faglega séð?
Þegar um uppeldi, mótun og fræðslu barna er að ræða er aðeins til einn gefinn útgangspunktur. Það er barnið og velferð þess. Þeir sem bera sérstakar skyldur í því efni eru foreldrarnir og heimilið. Þar liggur líka hinn frumlægi uppeldisréttur sem ekki verður af hendi látinn. Í þeim rétti felst m.a. að ákveða á grundvelli hvaða lífsgilda barnið skuli alið upp þar til það öðlast þroska til að taka sjálfstæða ákvörðun. Foreldrarnir og heimilið framselja hluta af uppeldis- og fræðsluhlutverki sínu í annarra hendur. Vegna skólaskyldunnar verðum við foreldrar að framselja skólanum mikilvæg verkefni á þessu sviði. Þegar foreldrar ákveða af fúsum og frjálsum vilja að ber börn sín til skírnar í kristinni kirkju framselja þeir henni einnig ákveðið hlutverk og umboð. Barnsskírn án þess að uppfræðsla fylgi í kjölfarið lítur einkennilega út — líkist töfraformúlu.
Þegar skírt barn á skólaaldri á í hlut eru það sem sé a.m.k. þrjár stofnanir sem eiga eðlilega aðkomu að því að stuðla að jákvæðum þroska þess: heimilið, skólinn og kirkjan. Það er augljóst að hlutverk þeirra skarast og þau mega ekki reka sig hvert á annars horn. Þegar barn á skólaaldri sem ekki er skírt á í hlut eru stonanirnar að þessu leyti aðeins tvær: heimili og skóli. Það er hlutverk skólans að tryggja að þetta barn verði ekki „öðru vísi“ og hugsanlega skotspónn tortryggni eða eineltis ef eitthvað fer fram á skólatíma sem foreldrar þess samþykkja ekki. Þá ber skólanum að tryggja að það hljóti verðug verkefni meðan á slíkum atburðum stendur og að það hljóti sambærilega þjónustu og hin börnin á grundvelli eigin sannfæringar (lesist: sannfæringar foreldranna).
Heilt yfir má segja að leik- og grunnskólar sem ekki eru reknir á kirkjulegum grunni séu alls ekki eðlilegur vettvangur boðunar eða trúariðkunar. Þar með verður varla á það fallist að þar geti ekki farið fram trúarleg fræðsla og kynning á tómstundastarfi á trúarlegum grunni, a.m.k. ef slík kynning er yfir höfuð leyfði þegar t.d. íþróttafélög eiga í hlut. Þá virðist mega búa svo um hnúta að félagsstarf á trúarlegum grunni geti farið fram í húsnæði og í lausum tengslum við starf leik- og grunnskóla ef faglega er að verki staðið og hugað að mismunandi hlutverkum og skyldum kirkju og fræðslustofana.
Það er ljóst að ávallt koma upp fjöldi álitamála þegar a.m.k. þrjár stofnanir koma að mótun sömu barnanna. Hvernig verða þau best leyst þannig að barnið og velferð þess sé í forgrunni? Auðvitað eru bönnin skilvirkust. En hver á að banna og hvað á banna? Skilvirkast er að banna sem mest og að sá sem mest hefur valdið ákveði hvað ekki má. En er það faglegasta og farsælasta leiðin?
Sérhver leik- og grunnskóli er hluti af nærsamfélagi sem er breytilegt frá einu bæjarhverfi til annars. Í sérhverjum for- og grunnskóla starfar fagfólk með trausta uppeldismenntun. Sérhver góður leik- og grunnskóli starfar í náinni samvinnu við heimili og foreldra skólabarnanna. Er það ekki þarna, í grenndarumhverfinu, þar sem ákveða ber hvað má og hvað má ekki m.a. í trúarlegum efnum? Eru það ekki foreldrarnir og fagfólkið sem er hæfast til að leysa vandann? Er ljóst að pólitíkusar sem koma og fara og hafa misjafnar forsendur til að taka faglegar ákvarðanir komist að farsælastri lausn?
Eins og hér hefur verið margsagt er bannið skilvirkasta leiðin til að skera úr um vafaatriði. En bönn eru oftast geld og geldandi. Samræða foreldra og fagfólks — og kirkju þegar svo ber undir — kann að vera seinleg. En hún er hins vegar vænleg til að skapa traust, öryggi og brjóta niður múra. Það er einmitt það sem þarf í lýðræðislegu fjölmenningarsamfélagi.