Þá var í Jerúsalem maður er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti þess að Guð frelsaði Ísrael. Heilagur andi var yfir honum og hafði hann vitrað honum að hann skyldi ekki deyja fyrr en hann hefði séð Krist Drottins. Að leiðsögn andans kom hann í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði:Við söfnum saman þegar dagur rennur og ljósið kemur. Ljós og sjón haldast í hendur. Við sem viljum sjá Drottinn fögnum ljósinu, fögnum honum sem segir um sjálfan sig: Ég er ljós heimsins. Kyndilmessa er ljósahátíð og ljóssins hátíð. Ár hvert hugleiðum við tilefni hennar og skyggnumst í sögu hennar til að skilja hana og nýta okkur hana. Með kyndilmessunni 40 dögum eftir jól lýkur hinum eiginlega jólatíma og föstutími hefst. Hið upphaflega tilefni hennar er okkur framandi af því að það byggir á Móselögum. En við skoðum það eins og allt hið Gamla Testamenti í því ljósi sem Jesús Kristur lætur falla á það. Hann, sem er frelsari okkar og bróðir, vildi hlýða lögmálinu til þess að geta orðið uppfylling lögmálsins.Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara eins og þú hefur heitið mér því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt, sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða, ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael.
Faðir hans og móðir undruðust það er sagt var um hann. En Símeon blessaði þau og sagði við Maríu móður hans: „Þessi sveinn er settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael. Hann verður tákn sem menn munu rísa gegn. Sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Þannig munu hugsanir margra hjartna verða augljósar.“
Og þar var Anna spákona Fanúelsdóttir af ætt Assers, kona háöldruð. Hún hafði lifað sjö ár með manni sínum þegar hann dó og síðan verið ekkja fram á áttatíu og fjögurra ára aldur. Hún vék eigi úr helgidóminum en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi. Hún kom að á sömu stundu og lofaði Guð. Og hún talaði um barnið við alla sem væntu lausnar Jerúsalem.
Og er þau höfðu lokið öllu, sem lögmál Drottins bauð, sneru þau aftur til Galíleu, til borgar sinnar Nasaret. 40En sveinninn óx og styrktist, fylltur visku, og náð Guðs var yfir honum. Lúk. 2. 25-40
Samkvæmt lögmáli Móse var sérhver móðir í Ísrael óhrein í ákveðinn tíma eftir barnsburðinn, og mátti ekki koma í musterið. Þegar liðinn var sá tími átti hún að koma með lamb og dúfu, en ef hún var fátæk þá tvær dúfur. Prestarnir tóku við fórninni og lýstu hana hreina og þá mátti hún ganga inn í musterið.
Á öðrum stað var svo fyrir mælt í lögmálinu að allur karlkyns frumburður væri sérstök eign Drottins og skyldaður til þess að vígjast Guði. Til þess að verða frjáls undan því þurfti að leysa hann með sérstakri upphæð. Í musterinu mætti Kristur öldungnum Simeoni sem lofaði hann sem ljós Ísraels og allra þjóða. Kyndilmessunni tilheyrir frá fornu fari skrúðganga eða helgiganga. Í göngunni er sungið og þar eru borin logandi ljós á brennandi kertum, eða kyndlum. Þessi logandi ljós eru táknmynd Krists, líkt og páskakertið sem borið er inn þegar páskahátíðin rennur upp. Það eru tákn um hið sanna og lifandi ljós sem kom í heiminn á jólum.
Þetta heilaga ljós bar María á armi sínum í musterið þar sem Simeon, snortinn af heilögum anda, lofaði ljós heimsins og heiðingjanna til endurlausnar þeirra. Í minningu þess tendrum við ljós og göngum með þau inn í musterið. Því að ljósin hvetja til þess að mæta Kristi með ljósi trúarinnar og ljósi hinnar góðu breytni, í musteri hans og um síðir í dýrð eilífðarinnar. Í söng Simeons, Nú lætur þú Drottinn þjón þinn í friði fara, minnist kirkjan atburðar kyndilmessunnar. Hvað sá Simeon? Hvernig var hann svona viss? Ísrael hafði beðið lausnara síns. Símeon var fulltrúi hennar. Hann fann. Að leita er forsenda þess að finna. En að leita getur líka orðið að aðalatriði. Markmiðið er þá ekki lengur að finna. Markmiðið er leitin sjálf. Þá finnst ekki neitt. Það er eins og að búa sig alltaf betur og betur undir stefnumótið, en fara hvergi. Þegar Simeon hélt barninu í fanginu var hann viss og sannfærður: Þetta er það sem ég hef alltaf beðið eftir. Nú hafa augu mín séð hjálpræði þitt. Þau hafa séð séð ljósið til opinberunar heiðingjum. Og Anna Fanúelsdóttir, - ekki var hún síður viss: Og Anna talaði um barnið sem hún hafði séð, við alla sem væntu lausnar Jerúsalem. Sannfæring þeirra var sú að ekki aðeins þeirra eigin bið heldur alls heimsins væri á enda. Þessi atburður skipti veraldarsögunni í tvennt. Fyrir og eftir. María var búinn að heyra margt þessa fyrstu 40 daga í jarðvist Jesúbarnsins, eins og Lúkas vitnar um. Hér fær hún nýtt að heyra. Nýtt og sárt. Símeon segir: Þessi sveinn er settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael og til tákns sem móti verður mælt og sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Kirkjan hefur í tímans rás hugleitt þessi orð með tvennum hætti. Vissulega er María níst sem með sverði í sálu sinni. Hún horfir uppá kvöl og dauða sonar síns á krossinum. Í Maríu móður Guðs, sér kirkjan fyrirmynd sína. En María er ekki aðeins fyrirmynd kirkjunnar, María er móðir kirkjunnar. Kirkjan er Krists. Kirkjan er í Kristi, sem er sonur Guðs. María er móðir Guðs á jörð. Kirkjan er ekki bara níst sverði þegar synir hennar og dætur þjást og deyja og hún getur ekki bjargað þeim, hún nístist enn meir þegar fjöldinn ekki sér eða skilur það tákn, sem móti verður mælt og heitir Jesús Kristur, en hún þjáist sjálf mest þegar hennar eigin synir og dætur valda öðrum þjáningu eða dauða, með Jesú nafn á vörunum. En Símeon sem þetta segir við móður Drottins og þar með við móðurina kirkjuna, blessar hana, og blessuð er hún, sverði særð í hjartastað. Við tendrum ljós á kyndilmessu. Ljós fyrir Maríu Guðsmóður, ljós fyrir móður okkar kirkjuna, ljós fyrir Guðs son, sem er ljós heimsins, ljós fyrir þau sem enn hafa ekki fundið ljósið, og ljós fyrir það ljós sem okkur sjálfum er gefið, að það lýsi öllum í húsinu en kafni ekki undir mælikerinu.