Svo er um himnaríki sem mann er ætlaði úr landi. Hann kallaði á þjóna sína og fól þeim eigur sínar. Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. Sá sem fékk fimm talentur fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. Eins gerði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. En sá sem fékk eina fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það.Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gera skil. Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm. Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær. Og húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.
Loks kom sá er fékk eina talentu og sagði: Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt. Og húsbóndi hans sagði við hann: Illi og lati þjónn, þú vissir að ég uppsker þar sem ég sáði ekki og safna þar sem ég stráði ekki. Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim. Takið af honum talentuna og fáið þeim sem hefur tíu talenturnar. Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Matt 25:14-30
Lærdómstími ævin er. Ó, minn drottinn, veit ég geti, numið allt sem þóknast þér, þína speki dýrast meti. Gef ég sannleiks gulli safni, gef í visku og náð ég dafni. (Helgi Hálfdánarson)
Ábyrgð – hæfileikar. Þetta eru gildishlaðin orð sem tjá mikilvægan veruleika í lífi okkar og tilveru allri. Fullyrða má að því fylgi mikil ábyrgð að búa yfir miklum hæfileikum, miðla af mannkostum sínum. Ábyrgð og hæfileikar. Það er mikilvægt að við gefum þessu hvortveggja gaum. Við lifum í mannlegu samfélagi þar sem Guð ætlast til þess af okkur að við nýtum hæfileika okkur, sjálfum okkur en þó fyrst og síðast öðrum til gagns og hamingju. Og ekki minna er um vert að við í lífi og starfi komum fram af ábyrgð, berum ábyrgð, kunnum að axla ábyrgð, sýnum það og sönnum að ábyrgðin er einn af hornsteinum þess að vera siðuð og trúuð manneskja.
Við sitjum í raun á þessum morgni við fótskör Jesú og heyrum þessa mikilhæfu dæmisögu hans um talenturnar og þjónana, dæmisögu um hæfileika og ábyrgð. Þessi dæmisaga er ekki sagnfræði. Þetta er dæmisaga lífs míns og lífs þíns, dæmisaga lífs hverrar manneskju, óháð tíma og rúmi, stundum þó ágengari en ella.
Þessi dæmisaga lýsir hvernig Guð deilir út hæfileikum, lýsir áhuganum sem hann hefur á því hvernig þjónarnir, þú, ég og allir aðrir, spila úr þeim hæfileikum og náðargáfum sem við höfum. Hún lýsir líka hvernig Guð metur og gerir kröfu um ábyrgð okkar á þessum gjöfum hans. Persónur þessarar dæmisögu eru nefnilega Guð og manneskjan, þessar ólíku og oft sundurleitu manneskjur sem við öll erum. Dæmisagan er um húsbónda og þjóna hans þrjá sem var trúað fyrir verðmætum meðan hann færi burtu tímabundið. Þeim voru gefnir mismiklir hæfileikar, sjálfsagt eftir mati húsbóndans. Og eðlilega ætlaðist hann til þess að þjónarnir hagnýttu hver sinn skerf til uppbyggingar búsins, talenturnar voru hugsaðar sem afl þeirra hluta sem gera þurfti. Þegar húsbóndinn kemur þá er spurt: Hvað gerðir þú við þitt? Hvernig ávaxtaðir þú þann skerf sem ég fól þér til varðveislu? Þannig spyr Guð þig enn, spyr þig einhvern tíma um það hvernig þú fórst með hæfileika þína sem hann gaf þér, hvernig þú skildir ábyrgð þína.
Hæfileikar okkar gilda reyndar ekki bara á afmörkuðum vettvangi mannlegra samskipta, heldur í öllu okkar atferli, þar á meðal ráðstöfun fjármagns og í viðskiptum á vettvangi dagsins. Hvar sem við erum og hvað sem við gerum reiknar Guð ekki með því að við gröfum hæfileika okkar, vit, sannfæringu né lífsgildi í jörð því þá megna þau ekki að blómstra og koma okkur og því fólki sem erum í samskiptum við til góða.
En hver er búgarður nútímans? Við lifum nú einstaka umbrotatíma í samfélagi okkar. Í búgarði okkar á sér nú stað endurmat ýmissa gilda og lífsverðmæta. Við höfum undanfarin misseri séð hag okkar og ytri skilyrði rísa í hæstu hæðir og svo hrynja niður í dimmustu dali. Þjóð sem gat leyft sér margt er nú í raun orðin að bónbjargarfólki, hefur misst hluta af stoltri sjálfsmynd og glatað orðspori sínu í samfélagi þjóðanna. Við sáum margt fólk sýna mikla hæfileika og kannski klókindi í ávöxtun auðævanna. En um leið hefur komið í ljós að ábyrgðin brást, græðgin og hrokinn ýttu ábyrgðinni frá og við misstum traustið sem við bárum í brjósti um að allt væri eftir settum reglum.
Og samfélagið spyr sig margra og áleitinna spurninga: Hvernig gat þetta gerst, hvað fór úrskeiðis? Kannski er það verst af öllu að við teljum okkur ekki hafa fengið svör sem við skiljum né getum sætt okkur við. Og reiðin og sorgin, kvíðinn og ásökunin fær eðlilega útrás í harðri orðræðu og jafnvel átökum á götum úti. Það er að flestu leyti skiljanlegt og við þurfum svo sem ekki að óttast það. Það er bæði heilbrigt, eðlilegt og jákvætt að almenningur sem finnst hann vera svikin skuli láta í sér heyra, þora að sýna hug sinn og nýta sér þann lýðræðislega rétt að krefjast ábyrgðar þeirra sem ábyrgðina bera og vera reiðubúin að takast á við endurreisnina. Í þeim friðsömu mótmælum og innri átökum, í þessu endurmati og kröfu um upplýsingar er í raun fólgin mikill kraftur, sköpunarkraftur sem getur hjálpað okkur. Ofbeldi gagnast engum og ber að harma. En opinská, heiðarleg, opinber umræða og skoðanaskipti eru nauðsynleg. Góð og uppbyggjandi samræða gefur okkur von um að við munum þokast upp úr dalnum og ná að endurbyggja samfélag okkar með öðrum áherslum, endurvinna traust og ábyrgð, leita eftir sátt í samfélaginu.
Í því verkefni sem við stöndum nú frammi fyrir þá verðum við að nýta þá hæfileika sem hverju okkar eru gefnir, taka höndum saman um að skapa að nýju samfélag réttlætis og jafnaðar, samfélag sem nýtur virðingar og trausts okkar sjálfra og í samfélagi þjóðanna. Það er ekki auðvelt verk og verður ekki gert í fljótheitum. Og því fylgir sársauki og fórnir En við verðum að trúa því og treysta að við berum gæfu til að feta okkur að þeim markmiðum sem við erum sammála um að ná.
Það hefur mikið verið rætt undanfarið um lífsgildin, þau viðmið sem við viljum hafa til að vera sjálfstæð og siðleg þjóð. Það er talað um að endurmeta og skerpa þau gildi og gildismat sem hafa reynst besta vegarnesti þjóðar okkar á tímum góðæris sem hallæris í sögu okkar. “Er leiðsagnar að vænta frá Jesú Kristi í uppbyggingarferlinu?” spyr ágætur guðfræðingur á vefsíðu Þjóðkirkjunnar. Áleitin spurning og gagnleg. Kristin kirkja og kristin trú hefur verið förunautur þjóðar okkar nær alla sögu hennar, ætíð lagt áherslu í boðun og bæn á mikilvægi hinna góðu gilda eins og trúmennsku, ábyrgðar, virðingar fyrir hæfileikum. Kristin kirkja hefur boðað þessi gildi, hvatt þjóðina til að tileinka sér þau í orði og verki, varað við græðgi og sérhyggju, umvafið þjóðina, talsmenn hennar og opinberar stofnanir bænarörmum í trú á góðan Guð, hvatt einstaklinga til að fylgja orðum Jesú Krists eins og þau birtast okkur, orðum um ábyrgð og samkennd með öðrum. Trú er í eðli sínu traust, traust á handleiðslu Guðs í meðbyr sem mótlæti lífsins.
Og það er einmitt þetta skýra traust sem þarf að vera leiðarljós inn í óræða framtíð, traust á okkur sjálf, traust á þá sem við kjósum og veljum til forystu, traust á þá sem fara með málefni samfélagsins, traust á að réttlætið fái framgang, já umfram allt traust á hinn lifandi Guð sem mun leiða okkur um ókomna tíð eins og hann hefur leitt okkur gegnum aldirnar. Ávöxtur trúar og trausts er ábyrgðin, heiðarleikinn, skynsöm meðferð hæfileika okkar. Slíka leiðsögn samhjálpar og samstöðu boðar Kristur.
Jesús sýnir okkur hugsun Guðs. Hann talaði ekki í barnslegum einfeldningsskap um gildi lífsins. Hann sá gildin verða að veruleika fyrst og fremst í mannlegum athöfnum. Orð hafa lítið gildi ef þeim er ekki fylgt eftir í verki. Ábyrgð fær aldrei gildi við það eitt að mæla orðið af vörum fram. Það verður fyrst einhvers virði þegar ábyrgðin er öxluð og tjáð í athöfnum mannlegs lífs í samfélagi okkar. Líkt er farið með flest öll gildi mannlegs lífs. Þau þurfa að finna sér farveg í hinu lifaða lífi, vera verkefni hvers dags sem Guð gefur okkur.
Hæfileikum okkar þurfa því vissulega að fylgja ábyrgð. Dæmisaga þessa sunnudags er eins og spegill að þessu leyti. Þegar þú horfir á mynd þess í speglinum þínum getur þú spurt: Hverjum af þjónunum þremur vil ég líkjast í mínu lífi? Í lexíu dagsins standa m.a. þessi orð: “Drottinn, Guð þinn, mun leiða þig inn í gott land, inn í land með lækjum, lindum og uppsprettum sem streyma fram í dölum og á fjöllum. ...Þú skalt ekki hugsa með þér: „Ég hef aflað þessara auðæfa með eigin afli og styrk handar minnar.“ Minnstu heldur Drottins, Guðs þíns, því að það var hann sem gaf þér styrk til að afla auðs til þess að standa við sáttmálann sem hann sór feðrum þínum eins og hann gerir enn í dag”.
Þetta er fyrirheit og von kristinnar trúar. Guð gefur styrk til að leiða okkur inn í land með lækjum, lindum og uppsprettum. Nýtum hæfileika okkar til að feta saman þá leið með hin góðu gildi ábyrgðar, trausts og hófsemdar sem vegstikur og Guð sem förunaut. Það er erindi Jesú við þig í dag.