Skírn Jesú

Skírn Jesú

Guðspjallið sagði frá því þegar Jóhannes skírði Jesú. Í raun og veru var það Guð sem sá um þessa skírn því himinninn opnaðist, rödd Guðs staðfesti að Jesús væri sonur hans og heilagur andi sveif yfir.

Net-guðsþjónusta, tekin upp í Patreksfjarðarkirkju 10.jan 2021

Jós 3.5-11, 17, Heb 10.19-24 og Lúk 3.15-16, 21-22

Prédikun…. í  bæn dagsins er lögð áhersla á þema dagsins sem er skírn Jesú…  og hljóðar þannig…

Guð ljóssins, við þökkum þér fyrir komu Jesú Krists í heiminn; að hann er ljós heimsins, takmark þess sem leitar og vegvísir hins villta. Við þökkum þér að við megum koma til hans með börnin okkar og okkur sjálf og þiggja blessun hans í heilagri skírn, hlýða á hann og fylgja honum að eilífu Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.

 Fyrri ritningarlesturinn er frásaga úr eyðimerkur-göngunni… en eins og Biblían segir frá þá var þjóð Guðs 40 ár í eyðimörkinni og þegar það kemur að þessari frásögn er göngunni að ljúka, Jósúa hefur tekið við af Móse sem leiðtogi þjóðarinnar… en fólkið á eftir að fara yfir ána Jórdan… sömu á og guðspjallið segir að Jóhannes skírari hafi skírt Jesú í.  Í eyðimörkinni bjó fólkið í tjöldum og þegar það flutti sig um set þurfti að taka tjaldbúðirnar og musteristjaldið niður og bera til næsta staðar.

Í musteristjaldinu var sáttmálsörkin geymd á helgasta stað þess. Staðurinn var heilög jörð vegna þess að þangað inn fór æðsti presturinn einu sinni á ári, til fundar við Guð og friðþægði fyrir allt fólkið. Enginn mátti snerta sáttmáls-örkina… en ef það gerðist óvart þegar hún var flutt á milli staða, þá dó sú persóna samstundis. Sáttmálsörkin var heilög. Hún var úr gulli, skreytt verndar-kerúbum/verndar-englum og í henni voru steintöflurnar sem boðorðin 10 voru skrifuð á, lög Guðs og fórnarákvæði.  

Þessi lög og ákvæði voru mjög flókin að fara eftir en prestar í ættbálki Levíta, höfðu það hlutverk að sjá um að þessum fórnarákvæðum væri rétt framfylgt. Í frásögninni, var fólkið komið að ánni Jórdan og þau þurftu að komast yfir. Guð segir Jósúa hvernig þeir eigi að bera sig að…  Jafnskjótt og fætur prestanna, snerta vatn Jórdanar mun vatn árinnar skiptast og vatnið, sem rennur ofan að, standa sem veggur.“ og það varð, þegar burðarmennirnir voru komnir út í myndaðist vatns-veggur fyrir ofan þá á meðan hundruð-þúsunda manna gengu yfir.

Þegar Móse leiddi fólkið út úr Egyptalandi fékk þjóðin svipaða eldskírn í átrúnaði sínum á Guð. Það var þegar Guð klauf Rauðahafið og allur lýðurinn gekk þurrum fótum yfir. (2.mós 14:21-22)  Guð einn hefur vald til að setja hluti í bið… Við segjum í trúarjátningunni: Ég trúi á Guð ALMÁTTUGAN… skapara himins og jarðar… sem sagt við trúum á Guð sem getur allt… en samt.. hættir okkur til að finnast frásagnir af kraftaverkum Guðs innan Biblíunnar, ótrúlegar og við höfum tilhneigingu til að draga Guð niður á mannlegt plan.

En þjóð Guðs fékk sína skírn þegar það gekk framhjá vatnsveggnum… yfir Jórdan inn í fyrirheitna-landið, þar sem að settist þar að. Örkin var síðan geymd í borginni Baala í Júda.  Þegar örkin var flutt frá Baala til Jerúsalem voru liðin nærri 500 ár (1.kon 6:1)  síðan örkin var flutt yfir ána Jórdan… en það var Davíð konungur sem lét flytja hana til Jerúsalem (Síðari Sam 6:16) og Salómon sonur Davíðs lét byggja musteri þar sem örkin var geymd þangað til Jesús var krossfestur… Sáttmálsörkin var geymd á helgasta stað musterisins, og eins og í tjaldinu í eyðimörkinni, var þar heilög jörð, og einu sinni á ári fór æðsti presturinn inn til að friðþægja fyrir lýðinn… æðsti presturinn varð að vera flekklaus, á honum hvíldi mikil ábyrgð en jafnframt var það líka mikill heiður að fá að þjóna á þessum helgasta stað.
Einhverntíma heyrði ég, að áður en æðsti presturinn hafi farið inn í hið allra heilaga, hafi verið bundinn spotti um ökklann á honum… það var vegna þess að enginn annar mátti fara inn á þennan heilaga stað og spottinn var til þess að það væri hægt að draga prestinn út ef hann dæi við athöfnina. Sakarías faðir Jóhannesar skírara var einmitt að þjóna í hinu allra heilagasta þegar Gabríel erkiengill birtist honum og sagði að hann og kona hans myndu eignast son… ( Lúk 1:11-20)

Sakaríasi fannst þau hjón vera orðin of gömul til að eignast barn og vegna vantrúar hans gerði engillinn hann mállausan þar til sonurinn var fæddur og hafði fengið nafnið Jóhannes… Jóhannes óx síðan upp og á fullorðins aldri fær hann köllun til að skíra fólk, iðrunarskírn… í ánni Jórdan… takið sinnaskiptum sagði hann! Og á táknrænan hátt dýfði hann “gamla manninum” á kaf og upp úr vatninu steig “nýr maður” eins og nýfæddur, með nýtt hugarfar, nýjan átrúnað, með nýjan sáttmála við Guð.

Guðspjallið sagði frá því þegar Jóhannes skírði Jesú. Í raun og veru var það Guð sem sá um þessa skírn því himinninn opnaðist, rödd Guðs staðfesti að Jesús væri sonur hans og heilagur andi sveif yfir. Skírnin hefur síðan verið táknræn inntöku-athöfn í söfnuð kristinna manna en í henni staðfesta foreldrar uppeldi í kristinni trú og í fermingunni staðfestir barnið vilja sinn að vera Guðs barn.  Fyrir framan hið allra heilagasta í musterinu í Jerúsalem var þykkt teppi frá lofti að gólfi, fortjald… bakvið fortjaldið var heilög jörð… Þegar Jesús dó á krossinum skalf jörðin, það dró fyrir sólu um miðjan dag og hið þykka fortjald rifnaði í tvennt eins og pappír… hinn heilagi staður í musterinu var ekki lengur heilagur… hann var opinn fyrir öllum að ganga inn…

Nú var kominn nýr sáttmáli milli Guðs og manna…   og eftir þetta fara engar sögur af sáttmálsörkinni, hún gjörsamlega hvarf.

Síðari ritningarlesturinn segir: Vegna þess að Jesús úthellti blóði sínu megum við nú, systkin, með djörfung ganga inn í hið heilaganýjan veg lífsins inn í gegnum fortjaldið sem er líkami hans.…
Jesús dó fyrir okkur og nú gilda ekki lengur hin fornu fórnar-ákvæði heldur gilda kenningar Jesú, og trúin á hann opnar himins hlið. Við byrjuðum í eyðimörkinni þar sem fólk Guðs fékk hin flóknu fórnarákvæði. Við fylgdumst með þeim fara yfir Jórdan og Jesú vera skírðan í Jórdan… og síðan hvernig fórnarákvæðin voru numin úr gildi… þegar Guð reif fortjaldið í tvennt svo að við getum öll gengið inn í hið allra heilagasta fyrir trúna á Jesú. Nú er ekki nóg að prestur friðþægi fyrir þjóðina, nú þarf hver og einn að taka sinnaskiptum eins og Jóhannes skírari orðaði það og játa fyrir Guði og mönnum trú sína á Jesú Krist.

Við skulum biðja…. Við þökkum þér, miskunnsami faðir, fyrir allar þínar blessanir. Haltu okkur fast við son þinn Jesú Krist, svo að við fyrir trúna á hann verðum börn þín og systkin hans og öðlumst þann frið, sem enginn megnar að taka frá okkur. Amen

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen 

https://www.youtube.com/watch?v=SCgYTBb7hiA&t=172s