Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. Jh. 14.27
Síðast þegar við komum hér saman í kirkjunni, sem var á öðrum degi jóla, höfðu hinar gífurlegu náttúruhamfarir á Indlandshafi nýlega riðið yfir, og þó á þeirri stundu væri ljóst að afleiðingarnar væru alvarlegar og víðtækar, renndi fáa í grun að svo margir hefðu týnt lífi og raun hefur orðið á.
Margar þjóðir eiga um sárt að binda og milljónir manna víða um heim hafa misst ættingja og ástvini í þessum mikla harmleik. Þá má ekki gleyma þeim sem búa þar sem hamfarirnar urðu hvað harðastar og mestar, og hafa misst heimili sitt og lífsviðurværi, og hafa ekki að neinu að hverfa. Það fólk á nú allt sitt undir því, að við sem erum aflögufær, bregðumst vel við og réttum fram hjálparhönd, t.d. með því að reiða fram fjármuni til þeirra safnana sem nú fara fram á vegum hjálparsamtaka eins og t.d. Rauða Krossins og Hjálparstarfs kirkjunnar.
Vil ég hvetja ykkur, sem á þessum síðasta degi ársins hafið lagt leið ykkar hingað til kirkjunnar, að láta ykkar ekki eftir liggja í þessum efnum, minnug þess að okkur ber að elska hvert annað og reynast hvert öðru náungi.
Hvað gengur Guði til?
Ég hugsa að það fari ekki hjá því, að þó svo við sem hér erum í dag, höfum ekki þurft að sjá á bak ættingjum eða vinum í þessum mikla hildarleik náttúruaflanna, að þá hafi þessi atburður komið við okkur og aukið okkur samúð og samkennd með örlögum þess fólks, sem náttúruöflin léku svo hart.
Við þekkum það sjálf, hér á Íslandi, hversu óblíð og óvægin náttúran getur verið, og þó við undrumst það hversu gríðarlegir þeir kraftar eru, sem náttúran er fær um að leysa úr læðingi, þá er ekkert sem kemur okkur á óvart í þessum efnum, og það allra síst eftir að búið er með aðstoð jarðfræðinga að útskýra fyrir okkur, hvernig þetta allt má vera.
Einhvern tíman hefðu menn án vafa viljað staldra við hamfarir sem þessar og spurt hvað Guði gengi eiginlega til með þessu öllu saman, og einhverjir hefðu örugglega viljað sjá þarna ótvíræð merki um óvæginn og dæmandi refsivönd Guðs.
Ég minnist þess að eitt sinn er ég á námsárunum var blaðamaður á Morgunblaðinu og var að leysa af norður á Akureyri, að daginn eftir að Ísafjarðarkirkja brann kom maður inn á skrifstofu blaðsins og virtist mikið niðri fyrir, og án þess að hafa nokkurn formála sagði hann bara einfaldlega: “Hvað er Guð eiginlega að hugsa?”
Og þegar þetta var sagt, var ekki ljóst hvert samhengið þessara orða hans var, en svo kom í ljós að þarna var hann að skírskota til brunans á Ísafirði, sem honum fannst að Guð hefði átt að geta komið í veg fyrir.
Það er hins vegar ekki með þessum hætti sem við leyfum okkur að hugsa í nútímanum.
Við lítum t.d. ekki þannig á, að í þessum hörmungum öllum austur í Asíu hafi Guð sérstaklega beint reiði sinni að þeim sem þarna fórust, slösuðust eða misstu allt sitt. Við gerum okkur hins vegar grein fyrir að ekkert í veröldinni er án merkingar, og að atburðir af þessu tagi geta verið okkur mönnunum sem áminning á margan hátt.
Með þessum atburðum erum við t.d. óbeint minnt á þau fornu sannindi, sem lesin voru hér áðan úr 90 Davíðssálmi, að það er Guð sem “lætur manninn hverfa aftur til duftsins”, “hrífur þá burt, sem í svefni, þá er að morgni voru sem gróandi gras”.
Og þó í pistli Rómverjabréfsins, sem lesinn var áðan, sé á það minnt, að við mennirnir séu jafnan “metnir sem sláturfé og deyddir allan daginn”, þá er okkur einnig sagt, að það sé Guð, sem sýkni, og að ekkert “hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum”.
“Kristur og kraftar sköpunarinnar”
Allt leiðir þetta hins vegar hugann að því, hvers konar öfl það eru, sem við mennirnir stöndum frammi fyrir í heiminum, og hver hann er, þessi Kristur, sem við svo gjarnan vildum vita meira um, og vera færari um að fylgja; já, hver eru þessi lögmál heimsins, náttúruleg og siðferðileg, sem við ávallt þurfum að lúta hvort sem okkur líkar það betur eða ver?
Staðreyndin er sú, að þó við mennirnir öðlumst sífellt meiri og meiri vitneskju um heiminn og alla þá krafta sem honum virðist stjórnað af, þá finnum við okkur smá frammi fyrir þessu stórkostlega undri sem veröldin vissulega er, og sem felur svo margt gott í sér, en á sér jafnframt til hliðar sem valda svo miklum þjáningum og sorgum. Þá vitum við það einnig, að það má einu gilda hversu varlega farið er, og hversu margar varúðarráðstafanir gerðar eru, það kemur alltaf að því að við stöndum frammi fyrir því að þessu jarðlífi lýkur.
Og hvað tekur þá við – hvað tekur við eftir dauðann? Það er spurningin sem leitar á okkur öll, og ekki bara okkur, því spurningin um lífið eftir dauðann hefur sótt á mannkynið frá örófi alda.
Auðvitað eru þeir margir, sem ekki vilja leyfa sér að hugsa á þessum nótum, og vilja frekar tala um dauðann eftir dauðann, vitandi það, að ef lögmálum heimsins er þannig farið að ekkert tekur við af dauðanum, að þá er í rauninni ekki um neitt að tala og allar okkar vonir og þrár tilgangslausar þegar allt kemur til alls.
Ef það reynist rétt erum við mennirnir bara andlaust hold, og öll okkar viðleitni og öll okkar leit að sannleika og hamingju er þá í rauninni til einskis.
Við kristnir menn lítum hins vegar ekki þannig á, að það sem bíði okkar eftir dauðann sé eintómt svartnætti og þannig er öllum sönnum trúarbrögðum farið.
Kristin trú er nefnilega sú, að lífið eigi sér tilgang og markmið, og í því sambandi tölum við um “vaxtartakmark kristsfyllingarinnar”.
Kristur, sem er sonur Guð, vilji hans og kærleikur, á m.ö.o. að fylla líf okkar og rísa upp í vitund okkar, og þegar það gerist er okkur gefið fyrirheitið um, að þá munum við ekki lengur sjá sem í skuggsjá og ráðgátu, eins og Páll postuli talar um, heldur munum við þá sjá augliti til auglitis og þá munum við gjörþekkja, því þá munum við gjörþekkt vera orðin.
Þarna er á ferðinni eftirtektarvert orðalag hjá postulanum, en það er eins og hann sé að segja, að eftir því sem Guði er gefið betra tækifæri til að þekkja okkur og ganga inn í líf okkar, þeim mun betur mun okkur verða gefið að þekkja Guð.
Það er hins vegar fyrir Jesúm Krist, sem við kristnir menn teljum að okkur sé gefið að þekkja Guð, en það merkir, að við teljum að vitnisburðurinn um Krist sé jafnframt vitnisburður um Guð og vilja hans.
Það er svo þessi Kristur sem á að verða allt í öllu í lífi okkar.
Og þegar það gerist trúum við að leyndardómar lífsins munu ljúkast upp, og þá munum við sjá, að dauðinn er í rauninni þegar uppsvelgdur í sigur, og þá munum við verða þess umkomin að taka undir með postulanum er hann segir sigurviss: “Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?”
Að koma orðum að því sama
Okkur er hins vegar mörgum þannig farið, að efinn sækir oft á okkur, og okkur finnst stundum sem ekkert sé að finna í samanlagðri reynslu mannanna til marks um að til sé nokkuð æðra okkur sjálfum.
Samt vitum við að til er margvíslegur vitnisburður manna, sem segjast hafa reynt það á sjálfum sér, að til sé æðri máttur, og kannski höfum við sjálf komist í kynni við þennan æðri mátt og orðið fyrir þeirri skynjun í hjarta okkar, að ekki sé allt sem sýnist í henni veröld.
Í þessu sambandi má t.d. nefna Austurríska eðlisfræðinginn og heimspekinginn, dr. Fritjof Capra, sem frægastur er fyrir bók sína “The Tao of Physics”, en þar leitast hann við að tengja saman kenningar eðlisfræðinnar og dulræna reynslu, segir frá því að sjálfur hafi hann orðið fyrir mjög merkilegri upplifun, sem síðar varð til þess að hann hóf að reyna að tengja saman eðlisfræði nútímans og dulspeki trúarbragðanna.
Capra hafði verið staddur við sjávarströnd á síðkvöldi þegar hann allt í einu skynjaði að öndun sín og taktur hennar var í einhverju óútskýranlegu samræmi við ölduna sem féll að, og allt í einu fann hann sig í samhljómi við náttúruna sem aldrei fyrr, og hann skynjaði betur en nokkru sinni þá djúpu krafta, sem tilverunni standa til grundvallar.
Í framhaldi þessa áttaði hann sig svo á því, að trúarbrögðin og vísindin væru að sumu leyti að reyna við að koma orðum að því sama, þó svo að aðferð þeirra og nálgun væri afar ólík - en á meðan trúin gengur út frá hinu yfirnáttúrlega geta vísindin auðvitað ekki leyft sér að ganga út frá slíku, því forsendurnar leyfa það ekki.
En þó forsendurnar séu ólíkar, þá getur niðurstöðunum svipað saman og þær jafnvel sagt okkur það sama.
Sköpun og skammtafræði
Núna rétt fyrir jól birtist t.d. í Morgunblaðinu stutt en athyglisvert bréf eftir ungan háskólanema í eðlisfræði, sem bar yfirskriftina “Skammtafræðileg jól”.
Í bréfinu fjallaði bréfritari á nokkuð snaggaralegan hátt um svokallaða skammtafræði, en skammtafræðin er ein “öflugusta vísindakenning sögunnar” og sú kenning sem áðurnefndur Fritjof Capra fjallaði hvað mest um í tengslum við trúarbrögðin og hina yfirnáttúrlega reynslu.
Hinn ungi eðlisfræðinemi gerði stuttlega grein fyrir kenningunni og þeim niðurstöðum hennar, að í rauninni séu hinar smæstu efnisagnir - eins og t.d. rafeindirnar - allar tengdar hver við aðra, og þar sem við mennirnir séum rétt eins og annað í heiminum gerðir úr atómum, og þar með rafeindum, þá séum við í rauninni allir tengdir hver við annan, þó við gerum okkur ekki grein fyrir því og lítum jafnan á okkur sem einstaklinga, með ólíkar þarfir og hagsmuni.
Bréfinu til blaðsins lauk eðlisfræðineminn svo með tilvitnun í merkan og þekktan eðlisfræðing, Richard Feynmann, sem eitt sinn varpaði fram spurningunni: “Vitið þið af hverju allar rafeindir eru eins?”
Og spurningunni svaraði Feynmann sjálfur og sagði: “Jú, það er af því að þetta er ein og sama rafeindin.”
Þarna hefur eðlisfræðingurinn Feynmann kannski verið að grínast eins og hann var víst þekktur fyrir, en öllu gríni fylgir hins vegar alvara, og með því að benda á þann möguleika að þarna sé um einu og sömu rafeindina að ræða, má segja að fram sé komin nokkurs konar guðshugmynd – þ.e. hugmynd um eitthvað sem allt getur átt rætur sínar í og tengir allt saman.
Hin vísindalega niðurstaða skammtafræðinnar er því sú, að færa má rök fyrir því að allir menn séu tengdir órjúfanlegum böndum, og það var það sem eðlisfræði-neminn var að reyna að benda á með bréfi sínu, auk þess sem fyrir honum vakti að undirstrika, að slíkt væri á engan hátt yfirnáttúrlegt, heldur fullkomlega eðlilegt.
Að mennirnir séu tengdir órjúfanlegum böndum má svo segja að sé einnig niðurstaða trúarbragðanna og þá kristindómsins, sem sér alla menn spretta af einni og sömu rótinni og stefna að því að verða að lokum eitt í Kristi.
Tungutak og framsetning raunvísinda og trúarbragða er langt frá því að vera sú sama, en þegar nánar er að gáð kemur kannski í ljós, að niðurstöðurnar þurfa ekki að vera svo ólíkar.
“Það allt sem þér gjörðuð einum”
Náttúruhamfarirnar í Suður-Asíu og þær hörmungar sem þeim fylgja, snerta okkur því ekki bara óbeint, eins og við myndum alla jafna vilja líta á, heldur snerta þær okkur beint, og orð Jesú, er hann segir: “Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, skuluð þér og þeim gjöra,” fá í þessu samhengi nýjan hljóm og nýjan stuðning, og einnig er hann segir: “...það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnsta bræðra, það hafið þér gjört mér.”
Ef staðreyndin er sú, að hvert hvert einasta atóm í alheiminum er tengt öllum öðrum atómum og hver einasta rafeind er tengd öllum öðrum rafeindum, þá stöndum við frammi fyrir því að e.t.v. tengist allt í heiminum með beinni hætti en við höfum áður haldið, og þá stöndum við jafnframt frammi fyrir því að Sonur Guðs, Kristur Jesús stendur okkur svo óendanlega miklu nær en við höfum nokkru sinni áður þorað að láta okkur detta í hug.
Við skulum leyfa þessum fátæklegu hugleiðingum um undirliggjandi lögmál lífsins og nálægð Krists við okkur öll dvelja með okkur er við í huganum gerum upp þetta ár, sem nú er senn liðið, og tökum á móti hinu nýja í trausti þess að “hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum”.