Kraftaverk á Alþingi

Kraftaverk á Alþingi

Þið sem sitjið á hinu háa Alþingi Íslendinga hafið ekki verið kosin til þess vegna þess að þið eruð fullkomin og almáttug. Mér þykir líklegt að flestir kjósendur séu þakklátir ykkur og treysti ykkur enn betur þegar þið sýnið varnarleysi ykkar og óöryggi þegar það á við. Að þið sýnið að það er í lagi að skitpa um skoðun og viðurkenna mistök.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
09. september 2014
Flokkar

Sjáið þið þetta ekki fyrir ykkur? Hann stendur þarna fyrir framan hann berskjaldaður. Hann er heyrnarlaus og málhaltur og tilbúinn í næstum hvað sem er í von um að fá lækningu. Hann er búinn að fá nóg af því að fólk taki ákvarðanir fyrir hann án þess að spyrja, að fólk tali um hann í stað þess að tala við hann. Hann er búinn að fá nóg af því að vera útskúfaður úr samfélagi fólks og vill fá að taka þátt.

Fyrir framan hann stendur þessi farandprédikari. Hann er búinn að fara með hann afsíðis, frá öllu fólkinu sem svo gjarnan vill stjórna honum og taka ákvarðanirnar fyrir hann. Og hvað gerir hann? Jú, prédikarinn stingur fingrunum í eyrun á honum og vætir tungu hans með munnvatni sínu. Gat hann ekki bara lagt hendur yfir hann eins og almennilegur fagmaður?

Ekki veit ég hvers vegna hann notaði einmitt þessa aðferð en þegar sagt er frá því í guðspjöllunum, að Jesús hafi læknað fólk þá gerði hann það ýmist með orðum einum eða með snertingu. Það er bara eitthvað svo mikil nánd í þessari snertingu og hún er svo framandi fyrir nútíma manneskjuna. Læknir sem beitti svipaðri aðferð í dag yrði fljótt kærður fyrir hitt og þetta, geri ég ráð fyrir.

En þetta virkaði.

Vanmáttug á Alþingi Mér þykir líklegt að einhver okkar hafi einhvern tíma verið í þeim sporum að að vera tilbúin til þess að gera næstum því hvað sem er til þess að fá hjálp. Kannski vegna veikinda, vegna barna okkar eða vegna mistaka sem við höfum gert.

En hvort sem þið hafið einhvern tíma upplifað slíkan vanmátt eða ekki, þá langar mig að biðja ykkur að setja ykkur í spor hins heyrnarlausa. Ímyndið ykkur að þið, sem eruð í hópi valdamesta fólks á Íslandi, væruð í þeim sporum að þurfa hjálp. Hvað er það sem þú þarft hjálp við?

Öll þurfum við á öðru fólki að halda. Við stöndum öll einhverntíma í þeim sporum að við verðum að þiggja hjálp annarrar manneskju vegna þess að við völdum ekki öllum hlutum ein. Sú stund kemur í lífi okkar allra að við yrðum þakklát fyrir hjálp einhvers sem er fullkomnari og sterkari en við sjálf. Einhvers sem við getum kallað Guð.

Þið sem sitjið á hinu háa Alþingi Íslendinga hafið ekki verið kosin til þess vegna þess að þið eruð fullkomin og almáttug. Mér þykir líklegt að flestir kjósendur séu þakklátir ykkur og treysti ykkur enn betur þegar þið sýnið varnarleysi ykkar og óöryggi þegar það á við. Að þið sýnið að það er í lagi að skitpa um skoðun og viðurkenna mistök. Ég tel nokkuð víst að stór hluti þjóðarinnar óski þess heitt að þið leitið hjálpar hjá hvert öðru án þess að láta stjórn og stjórnarandstöðu eða flokksskírteini aftra ykkur.

Máttug á Alþingi En við finnum okkur ekki aðeins í sporum mannsins sem þurfti á kraftaverki að halda. Því það er einnig mikilvægt að við áttum okkur á að við getum einnig staðið í sporum Jesú Krists. Að vera sú eða sá sem hefur vald til þess að breyta lífi annarrar manneskju. Þetta á þó sérstaklega við um ykkur kæru þingmenn því þið eruð að mörgu leyti í sporum Jesú Krists á meðan þið sitjið á Alþingi.

Þið hafið möguleika á að gera kraftaverk í lífi margra einstaklinga. Jafnvel heillrar þjóðar. Og þið gerið það reglulega. Þið getið kannski ekki læknað veikt fólk en þið getið séð til þess að þau sem geta læknað og hlúð að fólki fái að starfa við mannsæmandi aðstæður og geti sinnt þeirri þjónustu er þegnum þessa lands ber.

Þið getið kannski ekki breytt lífi fólks með því að stinga fingrunum í eyru þess en þið getið séð til þess að fólkið sem hér býr finni að það lifi í landi sem er stjórnað með hagsmuni þeirra að leiðarljósi og neyðist ekki til þess að flýja land.

Þið getið kannski ekki breytt öllu með því að væta tungu þjóðarinnar með munnvatni ykkar (enda tel ég ekki æskilegt að þið gerið það) en það sem Jesús gerði var að hann snerti manninn. Hann horfði í augun á honum og sá hann, sem þann mikilvæga einstakling sem hann var. Hann sá hann ekki bara sem einn af fjöldanum eða sem hluta af óáþreifanlegri tölfræði. Hann fór með hann afsíðis til þess að geta átt samskipti við hann á hans forsendum án þess að fólkið sem taldi sig þurfa að tala fyrir hann og stjórna honum, truflaði og tæki yfir. En það sterkasta sem þið gerið er einmitt að horfa í augu þjóðarinnar og snerta hana með nærveru ykkar og vilja til þess að láta gott af ykkur leiða.

Í lok síðustu viku birtist frétt í fjölmiðlum um nýja skýrslu frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna þar sem fram kom m.a. að meira en ein af hverjum tíu stúlkum í heiminum hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi og að sex af hverjum tíu börnum á aldrinum sex til fjórtán ára þurfa að þola líkamlegar refsingar.

Þessi skýrsla um ofbeldi gegn börnum fjallar sérstaklega um það ofbeldi sem börn víðsvegar um heim búa við dagsdaglega á friðartímum, á heimilum sínum eða í skólum.  Skýrslan sem er mjög ítarleg nær til alls 190 landa og samkvæmt henni hafa sex af hverjum tíu börnum — eða um einn milljarður barna alls — orðið fyrir barsmíðum í refsingarskyni af hendi foreldra sinna eða forráðamanna eða í skóla.  Margt hefur breyst til batnaðar undanfarin ár eins og t.d. skólaganga barna í heiminum en enn er langt í land hvað varðar baráttuna gegn ofbeldi og fyrir aukinni farsæld.

Þessar tölur lýsa sannarlega ekki ástandinu á Íslandi en Ísland er hluti af alþjóðasamfélaginu og saman berum við ábyrgð á börnum þessa heims. Aðrar skýrslur UNICEF hafa sýnt að á Íslandi hafi börn það hlutfallslega betra en í mörgum löndum en þar hefur einnig komið fram að allt of mörg börn hér búa við ofbeldi, líkamlegt, andlegt og kynferðislegt.

Verkefni ykkar eru mörg og ólík. Þið getið ekki bjargað þessum börnum með orðum einum eða handayfirlagningu en þið getið séð til þess að þau sem sinna þessum málum fái það sem þau þurfa til þess að breytingar geti átt sér stað. Þið getið valið að setja mannréttindi og útrýmingu alls ofbeldis í forgang. Þessi mál eru mikilvæg því líf og heill margra barna eru í húfi og börnin eru fólkið sem mun taka við af okkur. Börnin eru fólkið sem mun fylla þessa kirkju við setningu Alþingis áður en langt um líður.

Í ljósi þessa var ánægjulegt að heyra nýjan lögreglustjóra í Reykjavík lýsa því yfir að hún ætlaði sérstaklega að taka á kynferðisbrotum og heimilisofbeldi eins og gert hefur verið á Suðurnesjum með góðum árangri. Væntingar og vonir á Alþingi Kæru vinir! Á ykkur hvílir mikil ábyrgð. Og þið getið aldrei gert alla þjóðina glaða og sátta. Ég er sannfærð um að hvert og eitt ykkar situr hér í dag af hugsjón. Að öll viljið þið þjóðinni allt hið besta þó ekki séu þið alltaf sammála um hvað það er eða leiðirnar að markmiðunum. En ástæðan fyrir því að þið eruð hér er að fólkið í landinu, Íslenska þjóðin treysti ykkur þegar gengið var til kosningar fyrir rúmu ári síðan.

Þjóðin hlýtur að vera meðvituð um að ykkur tekst misjafnlega upp. Þið getið ekki framkvæmt allt sem þið viljið. Þið þurfið að forgangsraða, velja og hafna og sætta ykkur við málamiðlanir. Og kannski eru það stærstu vonbrigði þess er situr á alþingi, að geta ekki komið öllu því í framkæmd sem hann/hana dreymir um. En þið standið frammi fyrir verkefnunum sem heild. Þið tilheyrið öll stærra samhengi þar sem samvinna og sameiginlegt átak hefur meiri áhrif en persónulegur vilji hvers og eins ykkar. Þannig virkar lýðræðið.

En við horfum til ykkar full vona og væntinga. Við viljum að ykkur takist að leiða þessa þjóð og alla þegna hennar inn í bjartari tíma. Við óskum þess að þið horfið yfir öll landamæri, notið ímyndunaraflið, hjartað og höfuðið við ákvarðanatöku.  Að þið missið ekki móðinn heldur horfið í augu okkar og leyfið okkur að finna hversu mjög þið berið hag okkar fyrir brjósti. Að þið getið bæði sett ykkur í spor mannsins sem þurfti á hjálp að halda og að þið getið sett ykkur í spor Jesú Krists sem hafði vald til að breyta lífi fólks.

Þetta eru miklar væntingar og kröfurnar til ykkar munu ekki minnka á meðan þið gegnið þessari þjónustu. En ég vil að þið vitið að á hverjum einasta sunnudegi koma söfnuðir kirkjunnar saman um allt land og biðja fyrir ykkur. Við biðjum fyrir því að ykkur takist vel upp og að þið hafið ávallt kærleikann að leiðarljósi.

Guð blessi ykkar störf! Amen.