Þá kom til hans fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann, að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“Jesús svaraði: „Æðst er þetta: ,Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.’ Annað er þetta: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.’ Ekkert boðorð annað er þessum meira.“
Fræðimaðurinn sagði þá við hann: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú, að einn er hann og enginn er annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“
Jesús sá, að hann svaraði viturlega, og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“
Og enginn þorði framar að spyrja hann. Mark. 12.28-34
I.
Hvert er æðsta boðorðið?
Stórt er spurt.
Hér er önnur spurning: Hver eru æðstu gæðin í lífinu?
Hvernig viljum við lifa lífi okkar?
Og hver er þrá okkar í lífinu?
II.
Það kemur fræðimaður til Jesú í guðspjalli dagsins – við getum kallað hann guðfræðing. Þetta er maður, sem er vandlega lesinn í Ritningunni, maður sem kann boðorð Guðs aftur á bak og áfram. Hann hefur hlustað hljóður á orðaskipti Jesú og ýmissa trúarhópa, sem hafa spurt hann spjörunum úr og reynt að leiða hann í gildrur í kenningu sinni. Hann hefur hlustað á Jesúm þagga niður í þeim öllum og sýna fram á mótsagnirnar í þeirra eigin kenningum. En nú getur þessi fræðimaður ekki á sér setið lengur, heldur gengur til Jesú og spyr hann blátt áfram þessarar spurningar: „Hvert er æðst allra boðorða?“.
Við vitum ekki, hvers vegna fræðimaðurinn er svona ákafur í að heyra Jesú svara þessari spurningu. Kannski vill hann bætast í hóp þeirra, sem reyna með spurningum sínum að leiða Jesúm í gildru og reka hann á gat. Kannski vill hann einfaldlega heyra skoðun virts kennara á þekktu álitamáli. En kannski kemur hér til Jesú maður, sem í örvæntingu leitar svara við spurningunni, um það hvernig hann eigi að lifa lífi sínu, hvernig hann geti uppfyllt kröfur Guðs – og hvernig hann geti svalað þrá síns eigin hjarta, sem hann veit vart sjálfur hver er.
Ef að þú hefðir haft þetta tækifæri til að spyrja Jesúm einnar spurningar – hvernig hefðirðu notað það? Hver er þrá hjarta þíns?
Án þess að hika snýr Jesús sér að fræðimanninum og svarar spurningu hans. Það gerir hann með því að nefna þær tvær grundvallarreglur í lögmáli Móse, sem draga saman í eitt öll boð Guðs til okkar mannanna. Saman hafa þessar reglur verið nefndar tvöfalda kærleiksboðorðið. Svar Jesú er þetta:
„Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“
III.
Svar Jesú er svar Guðs. Svar Jesú birtir okkur æðsta svar Guðs við spurningunni um það, hvernig Guð hefur ætlað okkur mönnunum að lifa lífi okkar. Öll önnur boðorð eru uppfyllt í þessum tveimur: Elskaðu Guð og elskaðu náungann. Þannig verður kærleikurinn „fylling lögmálsins“ eins og Páll postuli segir (Rm 13.10).
Og fræðimaðurinn sér að það er ekki til annað og betra svar við þeirri spurningu, sem hann hefur spurt. Hann sér, að orð Jesú eru orð Guðs. Hann getur ekki annað en sagt: „Rétt er það, meistari, satt segir þú.“ – Hann kallar Jesúm jafnvel meistara sinn, því að honum er orðið ljóst, að Jesús veit betur en hann sjálfur: Rétt er það, meistari – segir fræðimaðurinn – satt segir þú!
En hvað þá með okkur, sem erum að íhuga þessa frásögn hér í Þórðarsveignum í dag: Hverju svörum við Jesú, þegar hann býður okkur með tvöfalda kærleiksboðorðinu að lifa því lífi, sem Guð hefur ætlað okkur, með því að elska Guð og náungann?
Segjum við við hann: Rétt er það, meistari, satt segir þú: Ég á að elska Guð af öllu mínu hjarta, allri minni sálu, öllum mínum huga, og öllum mínum mætti, og ég á að elska náunga minn eins og sjálfan mig? Eða segjum við kannski: Ég á að elska þá sem mér sýnist og enga aðra, og Guð og Jesús koma því máli ekkert við? Okkar er valið, hvernig við bregðumst við þessu boði Jesú.
En hugsum okkur vandlega um, því að textinn, sem við íhugum hér í Þórðarsveignum þennan sunnudag, er enginn venjulegur texti. Hér stöndum við ekki frammi fyrir viðskiptafréttum Morgunblaðsins eða veðurspá næstu viku. – Nei, textinn sem knýr okkur til svara í dag er jafnvel enn merkilegri en fréttir af frammistöðu Magna í Rockstar-Supernova – og er þá mikið sagt!
Hér stöndum við frammi fyrir Guði sjálfum.
Hér stöndum við frammi fyrir Drottni Jesú Kristi, komnum til að bjóða okkur að lifa því lífi, sem Hann hefur ætlað okkur: lífi í kærleikssambandi við sig og við aðra menn.
Hér stöndum við frammi fyrir kærleikanum sjálfum, Guði, sem segir við okkur: Ég elska þig og þrái að þú elskir líka mig – og aðra menn.
IV.
Það er hægt að elska marga guði, aðra en hinn sanna Guð, þ.e.a.s. falsguði og dauða guði. Við getum til dæmis elskað vinnuna okkar, eða hlutabréfin okkar, eða fótboltaliðið okkar, eða sumarbústaðinn okkar – eða eitthvað allt annað, sem við getum elskað svo mikið, að það skyggi á hinn lifandi Drottin og boð Hans um að elska sig af öllu hjarta og um að elska náungann eins og sjálfan sig. – Og þegar eitthvað fer að skyggja á Guð og kærleiksboðorð Hans er illt í efni, vegna þess að þetta boðorð Guðs hefur einmitt þann tilgang, að leiða okkur mennina til þess lífs, sem Hann hefur ætlað okkur og er okkur fyrir bestu, að leiða okkur að hinum æðstu gæðum í lífinu: að lifa í kærleiksríku sambandi við Guð og við aðra menn.
Þetta boðorð Guðs er jafnframt fagnaðarerindið um það, að Guð lætur sig manneskjuna varða, mig og þig. Skapari okkar er lifandi Guð, fullur af kærleika til sköpunar sinnar. Guð vill að allar manneskjur njóti þeirra forréttinda, að lifa í kærleikssam-félaginu við sig.
En við erum ekki síður sköpuð til að elska aðra menn. Og til að benda okkur á, hvernig framkoma okkar í garð annarra á að vera, notar Jesús afar einfalda aðferð: Lítið í eigin barm, segir hann. Hugsið um hvernig þið elskið ykkur sjálf og hvernig þið viljið láta koma fram við ykkur.
Þegar við gerum það, verður niðurstaðan þessi: Við leitumst við að vera tillitssöm og hjálpfús, aðstoða bágstadda, vitja sjúkra og einstæðinga, ellihrumra og deyjandi, gefa til líknarmála, sýna sáttfýsi í nágrannaerjum, sýnum fjölskyldu okkar ástúð og stundum vinnu okkar af samviskusemi. – En við leitumst líka við að fara út með ruslið fyrir mömmu og pabba, passa litla bróður, vaska upp, eða taka til í herberginu okkar.
V.
Þegar við sýnum öðrum mönnum kærleika erum við að svara kærleika Guðs til okkar. Sá kærleikur er svo mikill, að Guð kemur til okkar í Jesú Kristi, deyr á krossi fyrir okkar syndir, sigrar dauðann okkar vegna og vill veita okkur eilíft líf. Brauðið og vínið í altarisgöngunni táknar einmitt þetta: líkama og blóð Drottins, sem Hann gefur okkur í kærleika sínum.
Fermingarbörnin ganga til altaris í fyrsta skipti hér á eftir. Það er stór stund, að mega í fyrsta skipti ganga fram að altari Drottins og þiggja þessi áþreifanlegu tákn um náð Hans, brauðið og vínið. – Það getur verið, að okkur finnist skrýtið að fara til altaris, sérstaklega svona í fyrsta skiptið. Kannski finnst okkur brauðið og vínið bragðvont og langar mest til að fara að flissa eða skyrpa efnunum út úr okkur. En munum þá, hvað brauðið og vínið tákna: kærleika Guðs í Jesú Kristi. Sá kærleikur er ekki bragðvondur og enginn ætti að flissa að honum, hvað þá skyrpa honum út úr sér!
Altarisgangan er tilboð til okkar um að þiggja kærleika Guðs. Sem betur fer þurfum við ekki að standast neinar trúarkröfur eða gangast undir próf í heilagleika til að mega koma til altaris. Sem betur fer, því að ég er hræddur um að vil myndum öll falla á slíku prófi! Altarisgangan er tilboð um að þiggja, þiggja án þess að skilja allt eða vita allt, tilboð um að koma án skilyrða að veisluborði kærleikans.
VI.
Fræðimaðurinn í guðspjallinu kom til Jesú með eina af mikilvægustu spurningum lífs síns og svarið sem hann fékk kann að hafa valdið straumhvörfum í lífi hans, vegna þess að hann meðtók það í lotningu fyrir meistara kærleikans, Jesú sjálfum. Og þegar Jesús sá trú hans – og kærleika – sagði hann við hann: Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.
Við skulum biðja Heilagan anda Guðs um að kveikja í hjörtum okkar sjálfra sannan kærleika, bæði til hins eina, lifandi Guðs, og til allra manna, svo að Guðs ríki verði einnig nálægt okkur sjálfum, bæði hér á jörð og í eilífðinni, sem bíður okkar með Guði kærleikans. – Dýrð sé Guði, Föður, Syni og Heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.