Kyrrðarstund í Grensáskirkju 23.6.20: Jóhannes skírari
Bæn Jónsmessunar af kirkjan.is:
Drottinn Guð, upphaf og skapari alls ljóss. Þú sem valdir Jóhannes í móðurlífi til að bera vitni um ljósið sem upplýsir öll börnin þín. Við biðjum þig: Gef okkur náð til þess að helga líf okkar því ljósi eins og Jóhannes, svo að Kristur vaxi og verði máttugur í okkur. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottinn vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda frá eilífð til eilífðar. Amen.
Um fæðingu og
nafngift Jóhannesar segir í Lúkasarguðspjalli, fyrsta kafla:
Hjónin
Elísabet og Sakaría höfðu ekki getað eignast börn. Eitt sinn er Sakaría var við
bænaþjónustu í musterinu birtist honum engill Drottins sem sagði við hann:
„Óttast þú eigi, Sakaría, því að bæn þín er heyrð. Elísabet kona þín mun fæða
þér son og þú skalt láta hann heita Jóhannes. Og þér mun veitast gleði og
fögnuður og margir munu gleðjast vegna fæðingar hans því að hann mun verða
mikill fyrir augliti Drottins. Aldrei mun hann drekka vín né áfengan drykk en
fyllast heilögum anda þegar frá móðurlífi. Og mörgum Ísraelsmönnum mun hann
snúa til Drottins, Guðs þeirra. Og hann mun ganga fyrir honum í anda og krafti
Elía, til að snúa hjörtum feðra til barna sinna og gefa óhlýðnum réttlátt
hugarfar og búa Drottni altygjaðan lýð.“
Hjá Lúkasi heyrum við líka af því þegar María, systurdóttir Elísabetar,
heimsótti frænku sína, ófrísk af Jesú, komin þrjá mánuði á leið. Elísabet var
langt gengin með Jóhannes og þegar María heilsaði henni tók barnið viðbragð af
gleði í lífi Elísabetar og hún fylltist heilögum anda.
Svo kom sá
tími að Elísabet skyldi verða léttari og ól hún son. Og nágrannar hennar og
ættmenn heyrðu hversu mikla miskunn Drottinn hafði auðsýnt henni og samfögnuðu
henni.
Á áttunda degi komu þeir að umskera sveininn og vildu þeir láta hann heita
Sakaría í höfuðið á föður sínum. Þá mælti móðir hans: „Eigi skal hann svo heita
heldur Jóhannes.“
Og allir, sem þetta heyrðu, festu það í huga sér og sögðu: „Hvers má vænta af
þessu barni?“ Því að hönd Drottins var með honum.
En Sakaría faðir hans fylltist heilögum anda og mælti af spámannlegri andagift:
Og þú, sveinn, munt nefndur verða
spámaður Hins hæsta
því að þú munt ganga fyrir Drottni að greiða vegu hans
og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu
sem er fyrirgefning synda þeirra.
Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors.
Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor
og lýsa þeim sem sitja í myrkri og skugga dauðans
og beina fótum vorum á friðar veg.
En sveinninn
óx og varð þróttmikill í anda. Hann dvaldist í óbyggðum til þess dags er hann
skyldi koma fram fyrir Ísrael.
Í guðspjöllunum heyrum við líka um boðunarstarf
Jóhannesar og vitnisburð hans um Jesú. Í formála Jóhannesarguðspjalls, fyrsta
kafla, segir til dæmis: Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann
kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki
var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið. Jóhannes vitnar um hann og
hrópar: „Þetta er sá sem ég átti við þegar ég sagði: Sá sem kemur eftir mig var
á undan mér enda fyrri en ég.“
Og í upphafi Markúsarguðspjalls er þjónustu Jóhannesar lýst svo: Þannig kom Jóhannes skírari fram í óbyggðinni og boðaði mönnum að taka sinnaskiptum og láta skírast til fyrirgefningar synda og menn streymdu til hans frá allri Júdeubyggð og allir Jerúsalembúar og létu hann skíra sig í ánni Jórdan og játuðu syndir sínar. En Jóhannes var í klæðum úr úlfaldahári, með leðurbelti um lendar sér og át engisprettur og villihunang. Hann prédikaði svo:
„Sá kemur eftir mig sem mér er máttugri og er ég ekki verður þess að krjúpa niður og leysa skóþveng hans. Ég hef skírt ykkur með vatni en hann mun skíra ykkur með heilögum anda.“
Jóhannesarguðspjall segir frá því þegar forystumenn
Gyðinga vildu fá upplýsingar um hver hann eiginlega væri: Þá sögðu þeir við
hann: „Hver ert þú? Við verðum að svara þeim er sendu okkur. Hvað segir þú um
sjálfan þig?“
Hann sagði: „Ég er sá sem Jesaja spámaður talar um. Ég er rödd hrópanda í
eyðimörk er segir: Gerið beinan veg Drottins.“
Og þeir spurðu hann: „Hvers vegna skírir þú, fyrst þú ert hvorki Kristur, Elía
né spámaðurinn?“
Jóhannes svaraði:
„Ég skíri með vatni. Mitt á meðal ykkar stendur sá sem þið þekkið ekki, hann sem kemur eftir mig og skóþveng hans er ég ekki verður að leysa.“
Þetta bar við í Betaníu, handan Jórdanar, þar sem Jóhannes var að
skíra.
Daginn eftir sér Jóhannes Jesú koma til sín og segir:
„Sjá, Guðs lamb sem ber synd heimsins. Þar er sá er ég sagði um: Eftir mig kemur maður sem er mér fremri því hann var til á undan mér.“
Og Jóhannes vitnaði:
„Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu og hann nam staðar yfir honum. Sjálfur þekkti ég hann ekki en sá er sendi mig að skíra með vatni sagði mér: Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda. Þetta sá ég og ég vitna að hann er sonur Guðs.“
Síðar í Jóhannesarguðspjalli, 3. kafla, er sagt frá því
að Jesús og lærsveinar hans hafi verið að skíra (reyndar skírði Jesús ekki
sjálfur heldur lærisveinar hans): Lærisveinar Jóhannesar komu til hans og sögðu
við hann: „Rabbí, sá sem var hjá þér handan Jórdanar og þú barst vitni um, hann
er að skíra og allir koma til hans.“
Jóhannes svaraði þeim:
„Enginn getur tekið neitt nema Guð gefi honum það. Þið getið sjálfir vitnað um að ég sagði: Ég er ekki Kristur heldur er ég sendur á undan honum. Sá er brúðguminn sem á brúðina en vinur brúðgumans, sem stendur hjá og hlýðir á hann, gleðst mjög við rödd hans. Þessi gleði er nú mín að fullu. Hann á að vaxa en ég að minnka.“
Og svo greina guðspjöllin frá þeim merka atburði er
Jóhannes skírði Jesú (Matteusarguðspjall 3. kafli): Þá kom Jesús frá Galíleu að
Jórdan tli Jóhannesar að taka skírn hjá honum. Jóhannes vildi varna honum þess
og sagði: „Mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín!“ Jesús svaraði
honum: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ Og
Jóhannes lét það eftir honum.
Jóhannesi var varpað í fangelsi þegar hann leyfði sér að gagnrýna konung. Matteusarguðspjall 11. kafli og Lúkasarguðspjall 7. kafli segja þannig frá: Í fangelsinu heyrði Jóhannes um verk Krists. Þá sendi hann honum orð með lærisveinum sínum og spurði:
„Ert þú sá sem koma skal eða eigum við að vænta annars?“
Jesús svaraði þeim: „Farið og kunngjörið Jóhannesi það sem þið heyrið og sjáið: Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi. Og sæll er sá sem ekki hneykslast á mér.“
Þá er sendimenn Jóhannesar voru farnir burt tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes:
„Ég segi ykkur: Enginn er sá af konu fæddur sem er meiri en Jóhannes. En hinn minnsti í Guðs ríki er honum meiri. En öll börn spekinnar sjá og játa hvar hún er að verki.“
Loks er
Jóhannes hálshöggvinn og höfuð hans borið fram á fati til að skemmta
veislugestum konungs. Frá þessu segir í Matteusarguðspjalli, 14. kafla. Viðbrögð
Jesú eru áhrifamikil: Þegar Jesús heyrði þetta fór hann þaðan á báti á óbyggðan
stað og vildi vera einn. Jesús hafði misst vin sinn og frænda, þeir höfðu fyrst
fundið návist hvors annars í móðurkviði. Í sorginni sótti Jesús styrk í einveru
og bæn.