Í væntingu eftir jólum langar mig að hugsa um fagnaðarerindið sem allur heimurinn snýst um. Hvaða áhrif hefur fagnaðarerindið sem við syngjum um, gospelsöngvarnir, á líf okkar? Af hverju ætti ég að vera koma inn í kirkjuna? Hvað dregur mig hingað og hvað heldur mér hér? Af hverju langar mig að tilheyra þessu batteríi sem stundum er svo kjánalegt og hjákátlegt?
Satt að segja langar mig það ekkert rosalega. Mig langar miklu frekar að vera bara heima hjá mér, að hafa það kósí, að hugsa um mig og mína, að sjá til þess að ég hafi nóg og enginn brjóti á rétti mínum.
En þar kemur þetta gospel til sögunnar.
Orðið gospel kemur frá fornenska orðinu godspel, sem er þýðing á gríska orðinu euangelion: góðar fréttir. Á íslensku höfum við orðin guðspjall og fagnaðarerindi.
Fagnaðarerindið eru þær góðu fréttir að við erum ekki ein, að Guð sem skapaði okkur hefur áhuga á okkur, að hann vill búa með okkur, hann vill kynna okkur fyrir vilja sínum, leyndardómi sínum sem er Kristur.
Fagnaðarerindið knýr mig til að standa upp úr sófanum, hætta að hugsa um mig, elska þá sem eru ekki ég, taka þátt í þörfum annarra, koma inn í kirkjuna, verða hluti af einhverju stærra en ég.
Um það snýst Guð. Guð vill tengjast okkur. Frá því fyrir sköpun heimsins hefur Guð verið með hjartað í buxunum í bið eftir að kynna okkur fyrir sjálfum sér.
Öll saga Ísraels og allt Gamla testamentið er sagan af Guði að undirbúa okkur fyrir komu sína. Allan boðskap Gamla testamentisins má draga saman í eitt orð. Það orð er eftirvænting. Eftirvænting eftir inngripi Guðs, að Guð hefni, að Guð blessi, varðveiti, metti, veri með, lækni og frelsi.
En rétt eins og allir hópar sem telja sig hafa eitthvað sérstakt þeirra á meðal þá voru margir Ísraelsmenn sem héldu að þeir væru betri en aðrir, að Guð væri bara með þeim en ekki öðrum. Það gerist þegar við horfum inn á við, hvernig við getum hagnast, hvernig við getum haldið fram rétti okkur.
Sem betur fer voru einstaklingar í Ísrael sem leituðu frekar auglits Guðs, sem væntu Guðs, sem væntu þess að Guð myndi koma og gera eitthvað fyrir allan heiminn, sem væntu þess að Guð myndi sjálfur koma og gerast konungur Ísraels og heimsins.
Um þessa eftirvæntingu snýst aðventan. Að vænta, bíða eftir komu hins sanna konungs þessa heims. Í eftirvæntingunni beinum við hjörtum okkar til Guðs skapara heimsins, Guðs föður okkar. Við játum að við höfum snúist um okkur, við höfum leitað okkar eigin hags og réttar, við höfum haldið að fegurð okkar, ágæti, viska, geta, peningar, ímynd og völd myndi auka á virði okkar.
Í eftirvæntingu okkar biðjum við: ,,Ekki minn vilji, heldur þinn“. Guð, ekki gefa mér það sem ég vil, gef mér það sem þú vilt gefa mér. Þú þekkir mig betur en sjálfan mig, þú þekkir þarfir mínar. Kenntu mér að þekkja þig, að sjá að þú ert vegurinn, sannleikur og lífið.
Ávöxtur þessarar biðar er Guð sjálfur. Hann gefur okkur sjálfan sig þegar hann birtist auðmjúklega í fjárhúsinu, ekki með valdi eða krafti, ekki með pompi og prakt. Guð veit að við þurfum ekki á glansi og glamúr að halda. Við þurfum á honum að halda og það er það sem hann gefur okkur. Allt líf Jesú er vitnisburður um það að kærleikur Guðs er gefandi og þjónandi kærleikur. Kærleikur sem hugsar ekki um eigin hag, heldur hag annarra. Kærleikur sem lítur ekki á það sem gróðaveg að þjóna öðrum. Kærleikur sem heimtar ekki heldur býður okkur að tilheyra.
Og það er boð Jesú. Hann býður okkur að tilheyra. Tilheyra fjölskyldu Guðs, ríki Guðs, himnaríki. Guðsríki er ekki fjarlægur raunveruleiki þegar við deyjum. Guðsríki er hér og nú og birtist í réttlæti, friði og fögnuði. Guðsríki er Guð mitt á meðal.
Fagnaðarerindið er sagan um verk Guðs sem í Jesú Kristi gerir mönnum kleift að nálgast sig.
Fagnaðarerindið er boðskort inn í veislu Guðs.
Fagnaðarerindið er loforð um að Guð mun vera með okkur í gegnum allt. Það sjáum við þegar Jesús er myrtur af öllum þeim sem ekki gátu sleppt hendinni af eigin hugmyndum um heiminn.
Og um þetta fagnaðarerindi snúast fagnaðarerindissöngvarnir sem við syngjum hér í dag. Gospelsöngvarnir eru upprunnir í von blökkumanna um að Guð muni leysa þá úr þrældómi. Þeir litu ekki á ömurlegar kringumstæður sínar sem ástæðu til að örvænta. Þvert þó heldur eru þessir söngvar myndbirting óbilandi trúar og vonar þeirra á að Guð er með okkur.
Með því að syngja þá í dag erum við að taka þátt í þessari sögu. Sögu sem fjallar um ást Guðs til okkar. Ást hans sér ekki galla okkar og bresti, heldur sér hún fegurð þar sem við sjáum bara ljótleika.
Fagnaðarerindið er boð um að leggja niður allt sem hrjáir og þjáir okkur, og þiggja elsku Guðs.
Þegar við svörum þessu fagnaðarboði verðum við hluti af líkama stærri en við sjálf. Það er það sem hjarta okkar þráir: einhvern til að elska okkur skilyrðislaust, einhvern til að sýna okkur að við erum ekki einskis virði, einhvern til að bjóða okkur heim eftir þrautagöngu lífsins.
Guð hefur sett þessa heimþrá í hjarta okkar. Við segjum með Ágústínusi: Hjörtu okkar eru óró, þar til þau finna hvíld í þér, Guð.
Guð, gefðu okkur hvíld þína. Við væntum komu þinnar inn í líf okkar, líf kirkjunnar og heiminn allan. Komdu og gerðu alla hluti nýja. Jesús, vertu allt í öllu. Þú mátt fæðast í hjörtum okkar hér í dag. Heilagur andi, hreinsa okkur, fylltu okkur og styrktu. Guð, megi þitt gospel, fagnaðarerindi, vera boðskapur lífs okkar, þannig að við mættum vera friðflytjendur, elskendur, græðarar, þínir erindrekar. Megi þitt ljós vaxa í heiminum eftir því sem við göngum lengra inn í nóttina og væntum morguns.