I.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Þessi messa er tileinkuð Disneymyndum og þá sérstaklega hinni stórkostlegu tónlist, sem iðulega hefur ómað í mörgum af þessum sígildu myndum, sem skemmt hafa öldnum sem ungum kynslóð eftir kynslóð.
Fyrsta Disney teiknimyndin í fullri lengd eins og alvöru bíómynd var myndin Mjallhvít og dvergarnir sjö, sem kom út árið 1937. Tónlistin og söngvarnir í myndinni voru samdir af þeim Frank Churchill og Larry Morey. Þekktastir af þessum söngvum eru líklega söngur dverganna, Hæ, hó, sem leikin er hér í messunni sem eftirspil og söngur Mjallhvítar um að dag einn muni prinsinn koma, en hann sungum við hér í upphafi. Þessi mynd þótti algjört meistarastykki þegar hún kom út og tónlistin úr henni vakti svo mikla athygli að það var ákveðið að gefa hana út á plötu og var það í fyrsta sinn, sem tónlist úr kvikmynd var gefin sérstaklega út á plötu.
Í þessari mynd eftir hinu þekkta ævintýri Grímms bræðra um hana Mjallhvíti sjáum við öll þau aðalsmerki, sem hafa síðan einkennt hinar betri myndir frá Disney. Tónlistin er frábær, öll teiknun og tæknivinna er hin vandaðasta og framsetningin þannig að öll fjölskyldan hefur gaman af. Svona í framhjáhlaupi þá má alveg geta þess að fyrirmyndin að útliti Mjallhvítar var víst íslensk stúlka, sem einn af teiknuruum hreifst að.
Í Mjallhvíti koma fram ýmis af þeim stefjum, sem verið hafa áberandi í flestum Disneymyndum síðan. Þarna eru átök góðs og ills. Mjallhvít hin góða og saklausa stúlka er ofsótt af vondu Drottningunni, sem er norn í dulargervi. Og þegar Mjallhvít er komin út í skóg þá verða dýrin vinir hennar. Og boðskapur myndarinnar er síðan sá að hið góða vinnur að lokum.
Virðingin og samúðin með þeim, sem eru minni máttar og öðru vísi, var jafnvel enn meira áberandi í þriðju teiknimyndinni frá Disney, Dúmbó, en á milli kom reyndar út meistarastykkið Fantasía. Í Dómbó er sagt frá litlum fíl, sem er með svo ógnarstór eyru að hann er lagður í einelti. En með hjálp góðs vinar þá tekst honum að yfirvinna mótlæti sitt og hafa sigur að lokum.
Síðan kom Bambi þar sem áherlsa er á náttúru- og dýravernd. Í þeirri mynd eru sportveiðar manna og hirðulaus umgengni þeirra um náttúruna gagnrýnd því hinir vondu í þeirri mynd eru veiðimennirnir, sem reyndar sjást aldrei þó svo að þeir séu að skjóta á dýrin. Sagan í myndinni er þanig algjörlega sýnd og sögð frá sjónarhóli dýranna.
Disney fyrirtækið hefur reyndar líka sent frá sér leiknar bíómyndir. 1960 kom út bíómyndin Pollý Anna eftir samnefndri bók. Karl Malden lék þar prestinn, sem var alltaf að boða eld og brennistein eða allt þar til Pollý Anna benti honum á að í Biblíunni væri miklu oftar rætt um gleði heldur en reiði. Í þeirri mynd þá bræðir hin lífsglaða og jákvæða Pollý Anna hjarta frænku sinnar. Og aftur er þetta stef að hið góða ber hið illa og neikvæða ofurliði.
Ein af mínum uppáhalds Disneymyndum er Mary Poppins, sem mamma fór með mig að sjá í Gamla bíói þegar ég var sjö ára gamall. Eftir það dreymdi mig um að geta flogið. En svo þegar ég sá hana löngu seinna á vídeói þá uppgötvaði ég hvað það er frábær tónlist í þessari mynd og hversu vel og hnyttilega handritið er skrifað.
A spoonfull of sugar makes the medicine go down, the medicine go down , syngur Julie Andrews eða hið sæta kemur meðalinu niður. Í myndinni hefur hver persónu sitt stef eða laglínu, sem er einkennandi fyrir hana. I am fit as a fiddle, ég er frískur sem fiðla segir heimilisfaðirin í Cherry Lane, sem leikin er af Richard Tomlinson. Þarna er lífið gert að ævintýri og blandað saman teiknuðum dýrum og leik manna. Stórkostleg mynd, sem hægt er sjá aftur og aftur.
Á seinni árum hef ég notið þess að horfa á Disneymyndir með dætrum mínum. Maður verður víst aldrei of gamall fyrir gott ævintýri með uppbyggilegum boðskap.
II.
Og þá erum við komin að guðspjallinu, sem ég las hér áðan. Þar var sagt frá því að Jesús hefði læknað mann með visna hönd og þetta kraftaverk gerði hann á hvíldardegi. Boðskapurinn er sá að það sé svo mikilvægt að hjálpa fólki og auðsýna kærleika í verki að það geti vikið til hliðar ýmsum föstum siðum og venjum. Jafnvel boðorðið um að halda hvíldardaginn heilagan verður að víkja fyrir nauðsyn þess að auðsýna öðrum umhyggju og lina þjáningar. Kærleikurinn krefst stundum óvanalegrar hegðunar og framkomu. Áherslur af þessu tagi og boðskap á þessum nótum má finna mjög víða í teiknimyndum Disneys.
Í guðspjallinu er sagt frá því að óvinir Jesú hafi tekið saman ráð sín um að koma honum fyrir kattanef. Þarna eru líka fulltrúar hins illa. Í raun eru átök góðs og ills, barátta Guðs og þess, sem stendur gegn vilja hans, eins og rauður þráður í gegnum alla Biblíuna. Og þessi átök ná hámarki sínu í krossdauða Jesú. Þá finnst manni eins og eitt augnablik að hið illa hafi nú hrósað sigri. Ef ég má vera svo djarfur að koma með líkingu úr Disney þá er þetta svona eins og þegar hún Grímhildur Grámann er komin með alla hvolpana af Dalmatíukyni, 101 talsins og hún er albúin þess að láta kála þeim svo hún geti fengið sér nýjan pels. En einmitt þegar öll sund virðast lokuð þá gerist kraftaverk og hið góða sigrar að lokum. Í Biblíunni er það þegar Guð grípur inn og opinberar náð sína og dýrð. Í atburðum krossfestingarinnar og páskanna þá verða hvörf og viðsnúningur þegar Jesús rís upp frá dauðum á páskadagsmorgni.
III.
Sögur og ævintýri eru heillandi. Á því er enginn vafi. En líkt og um guðspjöllin þá er í ævintýrunum fluttur mjög mikilvægur boðskapur fyrir lífið sjálft. Í veröldinni, sem við hrærumst öll í, eru einmitt átök góðs og ills. Það er sumt sem skemmir fólk eða vill spilla fyrir því. Og svo er annað, hið góða, sem vill bæta og gera heilt það, sem aflaga hefur farið og hrokkið úrskeiðis. Og spurningin er alltaf þessi; í hvoru liðinu ætla ég að vera, í hvoru liðinu ætlar þú að vera? Ætlum við að leggja lóð okkar á vogaskálar góðs eða ills? Það að standa hjá og gera ekkert er í raun ekki valkostur, - í það minnsta ekki ásættanlegur valkostur. Á þetta hefur til dæmis verið bent í sambandi við einelti. Vilji maður láta gott af sér leiða þá krefst það þess að maður taki afstöðu, tali, geri, jafnvel leggi stundum eitthvað mikið á sig.
Ævintýrin flytja líka þann mikla sannleik að hið illa í lífinu er eyðandi afl, sem að lokum tortímir þeim, sem ánetjast því. Reiði og hatur tortímir manneskjunni og skaðar ekkert en síður en langvarandi neysla áfengis og eiturlyfja. Í ævintýrunum fá hinir illu makleg málagjöld. Það heitir á máli Biblíunnar að glatast.
Það að lesa magnaða skáldsögu eða horfa á góða bíómynd á það sameiginlegt við iðkun kristinnar trúar að í öllum tilvikum er maður að göfga anda sinn og rækta upp í sjálfum sér skilning á lífinu og þekkingu á því hvað er gott og illt, hvað horfir til heilla og hvað ekki. Góð saga, gott ævintýri opnar augu manns fyrir hinu fagra og eftirsóknarverða í lífinu og minnir mann á mikilvægar dyggðir eins og vináttu og umhyggju. Og þetta rímar við boðskap Krists.
Heilagur Frans frá Assísi, sem var mikill dýra- og fuglavinur samdi einmitt bæn, sem orðar þetta svo vel. Hún hefst á þessum orðum:
Drottinn, lát mig vera verkfæri friðar þíns. Hjálpa mér til að leiða inn kærleika, þar sem hatur ríkir, trú, þar sem efinn ræður, von, þar sem örvæntingin drottnar
Hjálpa mér að fyrirgefa, þar sem rangsleitni er höfð í frammi, að skapa eindrægni þar sem sundrung ríkir að dreifa ljósi þar sem myrkur grúfir og flytja fögnuð þar sem sorgin býr.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.