9/11 Kristnir og múslimar

9/11 Kristnir og múslimar

Kristnin hefur lagt áherslu á manngildið, en það gera múslimar líka. Friðarsókn og virðing fyrir lífinu er í grunni allra trúarbragða heimsins. Kristnir vilja ekki hryðjuverk og ofbeldi, en það vilja múslimarnir ekki heldur.
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
11. september 2011

[audio:http://db.tt/UaVKZwG] Hvar varstu þegar flugvélarnar flugu á tvíburaturnana í New York? Í dag er 11. september og tíu ár – upp á dag - frá flugránunum og voðaverkunum í Bandaríkjunum. Eru staður og stund kannski brennd í huga þér? Þegar stórviðburðir verða læsast minningar gjarnan í huga - maður man hvar maður var, hvernig litir í umhverfinu voru, hvaða hljóð hljómuðu og hvernig líðanin var.

Ég man hvar ég var og hvernig tilfinningaólgan fór um mig. Við fjölskyldan vorum suður á Krít. Það var ógnvekjandi þegar íslenskur nágranni okkar kom hlaupandi og æpti skelfingu lostinn: “Rússarnir voru að ráðast á Bandaríkin.” Tíðindin voru ótrúleg, ég átti bágt með að trúa að Rússarnir væru dólgarnir en gerði mér grein fyrir að eitthvað hræðilegt hefði orðið. Svo ég settist við sjónvarpið og horfði stjarfur á skjáinn. Eitthvað dó hið innra og annað kom, kjánaöryggið fór og friðarsóknin fæddist. Heimurinn var breyttur. Í fyrsta sinn í áratugi hafði vopnum verið snúið gegn Bandaríkjunum með öflugum hætti. Islam var notað sem ástæða árasar, eða var það kannski tylliástæða?

Hver eru tengsl kristni og Islam? Hvernig eigum við fólk af ólíkum toga, uppruna, gildum og trú að búa og lifa saman í framtíðinni? Viljum við að stríðs- og ofbeldissaga eigi sér framhaldslíf? Eða getum við bætt samskipti fólks í framtíð svo atburðir af þessu tagi verði ekki endurteknir og fyrirbyggjandi aðgerðir verði í samskiptum til að betur verið lifað?

Islam framtíðarógnin? Árið 1990 sat ég með kunningja mínum á kaffihúsi í Tallinn í Eistlandi. Þá voru Sovétríkin enn til. Kommúnisminn hélt hernámsþjóðum sínum í heljargreipum og ástandið í baltnesku ríkjunum var brothætt. Mikill spenna var milli fólks af rússnesku bergi brotið og hinna, sem voru af eistneskum uppruna. Rússneskir unglingar, fulltrúar herraþjóðarinnar, fóru um Tallin, með ofbeldi. Löggæslan var í molum og unglingagengið rændi og barði alla sem fyrir urðu, útlendinga sem Eistana. Það var beinlínis hættulegt að fara aleinn um miðborg Tallinn, jafnvel um hábjartan dag. Félagi minn á kaffihúsinu benti á gengið og sagði: “Þau eru bara að nýta sér aðstæður, sem eru að hverfa. Þó mér sé ekki vel við Rússana held ég að þeir verði tannlausir í heimsmálunum. En það eru múslimarnir og Islam sem verða framtíðarógn heimsfriðarins.“ Og bætti hann við „Rússland mun ekki skelfa neinn - Sovétríkin eru að baki og kalda stríðið er að þiðna.“

Orðin frá Tallinn leituðu á huga minn þegar ráðist var á tvíburaturnana í New York. Það er ekki hægt að kenna Islam um djöfulæði Osama bin Laden eða þeirra, sem drápu flugmenn, farþega, sjálfa sig og fólk í turnum. En mörg hryðjuverk og stríð heimsins tengjast múslimum eða eru rökstudd með vísan í Islam. Allt verður þetta til að grýlugera Islam og efna til óvinagerðar, þ.e. að gera múslima að “hinum” – þessum hættulegu, að óvinum. Og svo kemur jafnan í kjölfarið áróður um að kristin Vesturlönd eigi í stríði við múslimskan hluta heimsins. Þetta eru síbyljur og klisjur til stuðnings hernaði vestrænna þjóða og það er þannig málflutningur sem illmennið notaði til að réttlæta voðaverk sín í Oslo og Útey í Noregi fyrr í sumar. Enginn skyldi hrapa að ályktunum og einfeldningslegum niðurstöðum í svo flóknu máli. En enginn skyldi heldur vera kjáni í trúarefnum heldur.

Stríðandi Islam Islam er áberandi í heimsfréttunum, en þó eru þau sem teljast til þess átrúnaðar aðeins fimmtungur mannkyns. Talsverður hluti stríða síðustu árin hefur verið í nafni Allah. Er allt fylgjendum spámannsins Múhameðs að kenna? Ef við hugum að nærumhverfi okkar er hlutur múslima íhugunar virði. Af 350 hryðjuverkum í Evrópu síðustu árin hafa þeir vissulega komið við sögu. En við skyldum þó fara varlega og ekki alhæfa.

Ég spurði fermingarbörnin í haust hve hátt prósentuhlutfall voðaverka í okkar heimshluta væri hægt að kenna múslimum. Þau giskuðu á múslimar ættu aðild að helmingnum, en staðreyndin er þó, að aðeins 3% hryðjuverka í Evrópu síðustu árin er hægt að kenna fylgjendum Islam. Það eru hins vegar alls konar þjóðernissinnar og fulltrúar menningarkima, sem vinna megnið af ódæðisverkunum. Það merkir, að við eigum að fara okkur hægt í að fella dóma um, að múslimarnir séu vondir. Þeir eru ekki verri en aðrir, ekki verri en við. Og það er ekki átrúnaðurinn sem er orsökin heldur átakakúltúrinn, sem magnaður er þar sem spenna ríkir milli þjóðarbrota og menningarkima. Trúin er af vondum mönnum oft notuð sem áróðurstæki.

Hvaða gildi? Kristnin hefur lagt áherslu á manngildið, en það gera sanntrúaðir múslimar líka. Friðarsókn og virðing fyrir lífinu er í grunni allra trúarbragða heimsins. Kristnir vilja ekki hryðjuverk og ofbeldi, en það vilja múslimarnir ekki heldur. En það eru hins vegar aðstæður víða í hinu múslimska samfélagi, sem valda óróa og við þeim verður að bregðast. Sjálfskipað lögguhlutverk Bandaríkja Norður Ameríku er ógæfulegt. Vestræn ríki hafa margar skyldur í stjórn heimsmála og verða að bregðast við með yfirveguðu viti. Leiðarstjörnur þess vits eru trúarlegar og siðferðilegar. Meðal þeirra eru manngildi og réttur einstaklinganna, sem við Vesturlandamenn ættum að verja, sem og höfuðgildi hinnar kristnu hefðar. En mörg stríð eru háð vegna hagsmuna og fjármuna, en ekki vegna ástar á manngildi og verndun mannréttinda.

Friður nær fremur að haldast þegar fólk kynnist, deilir kjörum, talar saman og reynir að skilja menningu, þarfir, áherslur, gildi og vonir. Vegna átaka hafa trúarleiðartogar kristinna og múslima reynt að lægja öldur og lina spennu víða um heim. Í krepptum aðstæðum í Egyptalandi og Nígeríu hafa hófsamir reynt að hemja hina herskáu og mynda stuðpúða á milli. Í spenntri Indónesíu hafa trúarleiðtogarnir sagt: “Því meira ofbeldi því meira tölum við saman.” Í Noregi stóðu múslimar og kristnir saman að útför eftir drápin í Útey. Í Jerúsalem hafa Gyðingar, kristnir og múslimar bundist samtökum til að létta spennu og plægja friðarakurinn. Heimsráð kirkna, Lútherska heimssambandið og ýmis samtök kristinna kirkna hafa víða um heim beitt sér fyrir samræðu til friðar. Ofbeldið skilar aldrei lausn heldur magnar og skemmir. Þegar fólk deilir kjörum fæðist friður.

Á heimaslóð einnig Heimsmálin eru eitt og viðbrögð okkar á heimaslóð eru annað. Íslendingar eiga að láta kristin og mikilvæg vestræn gildi stýra för. Við eigum að hafna kúgun kvenna, sem meðal annars hefur birst í hryllilegum heiðursmorðunum. Við eigum að bregðast hart við öllum ofbeldisseggjum og koma þeim undir manna hendur. Við ættum að auka fræðslu um grunngildi samfélagsins og trúar og ræða þau sem víðast. Við eigum að veita innflytjendum möguleika á að bera saman gildin í gamla landinu og hinu nýja og læra að skilja hvað er rétt og hvað ekki, hvað er leyfilegt og hvað ekki.

Yfirborðslegt frjálslyndi er ekki gæfulegt í samskiptum fólks með ólíkan bakgrunn. Við þurfum að stuðla að sem flestir kynnist menningu innflytjenda, siðum og trú – og öfugt. Og skólarnir eiga að vakna til vitundar um skyldu sína í þeim efnum. Skólayfirvöld og opinberir aðilar verða að gera sér grein fyrir að við þurfum jákvætt trúfrelsi í landinu en ekki neikvæðni sem elur af sér ótta og tortryggni. Jákvætt trúfrelsi hvetur til að fólk læri að meta fjölbreytileika og hræðast ekki átrúnað og menningu annars fólks. Neikvætt trúfrelsi er það þegar reynt er að banna trúartákn og trúariðkun í almannarýminu, banna búrkur og krossa og trúariðkun á opinberum vettvangi. Að mínu viti er neikvætt trúfrelsi aðeins til að eyðileggja heilbrigði í samféagi manna, samskipti og eðlilegan fjölbreytileika. En jákvætt trúfrelsi elur á umburðarlyndi og gleði yfir að lífið er litríkt.

Ógnin og ábyrgðin Það hefur komið í ljós að spádómsorð vinar míns í Tallin rættust um Islam og múslímsk áhrif. Flogið var á tvíburaturnana. Árásin varðar ekki bara Bandaríkjamenn heldur allan heiminn. Verum líka minnug þess að fólkið sem dó, um þrjú þúsund manns var frá um níutíu þjóðlöndum. Árásin varðar heimsbyggðina og líf okkar allra.

Raunar flugu þessar flugvélar ekki aðeins inn í turnana heldur inn í okkur börn jarðar. Bláeygri tíð er lokið en við erum kölluð til að horfa opineyg á aðstæður erlendis og heima.

Forðumst einfeldningslega túlkun af því tagi sem gerir fólk af annarri trú að hinum, að vondu fólki, óvinum. Temjum okkur þá almennu nálgun að fólk sem er “öðru vísi” hefur sama rétt og sömu skyldur og við. Viðurkennum því að múslimar eru manneskjur með líka getu og sömu þrá og við hin. Verum umhyggjusöm, höfnum vitleysunni, hryllingnum og ofbeldi. Iðkum kærleika, leggjum okkar lóð á vogarskálar og gerum það með óttaleysi og umhyggju fyrir fólki. Leyfum flaugum elskunnar að fljúga um heiminn. Þannig verkar Guð.

Amen

Hugleiðing í Neskirkju, 11. september 2011, á tíu ára minningardegi um árásina á tvíburaturnana.