„Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra“, segir Jesús og gerir að hinni gullnu reglu fyrir hið góða líf og rétta breytni. Lýðræði má segja að byggi á þessari gullnu reglu. Þegar í sköpunarsögunni má finna fyrstu fræ lýðræðis í frásögunni um vald sem maðurinn þiggur af öðrum, í umboði skaparans. Guð veitir manninum umboð til að gera „jörðina undirgefna“ (1. Mós. 1.28).
Hann felur manninum ábyrgð á velferð jarðar, velferð lífsins. Hin algenga spurning: Hvernig getur Guð verið góður þegar heimurinn er svona vondur? ætti fremur að snúast um það hvað við gerum til að bæta heiminn og efla lífið.
Lýðræði byggir á gagnkvæmni og jafnræði. Grundvallarþáttur hinnar kristnu sköpunartrúar, trúarinnar á Guð sem skapara heimsins, er að Guð skapar alla jafna, að allir eiga sama manngildi, rétt og ábyrgð gagnvart heildinni og til að hafa áhrif til góðs. Allir hafa allt að vinna við að málefni samfélagsins, deilur og vandamál leysist með samstöðu, samskilningi og samvinnu, með því að gefa og þiggja.
Lýðræðisleg hugsun felur í sér að horfa yfir eigin mörk, hagsmuni og rétt og líta til heildarhagsmuna, hvort sem um er að ræða þjóð eða nærsamfélag. Með því að greiða atkvæði fæ ég tækifæri til að fela öðrum umboð og vald til að skipa málum samfélagsins til heilla fyrir heildina. Um leið geng ég út frá því að sá, eða þau, sem þiggja það umboð vinni af heilindum og trúmennsku, og reynist traustsins verð.
Sá einn á skilið vald sem daglega reynist þess verður.
Bæn á kosningadegi
Drottinn, við þökkum þér fyrir byggðina okkar og alla sem búa og starfa hér. Hjálpa okkur að axla ábyrgð á velferð hvers annars, á byggð og landi, lífi og heimi, heiminum þínum.
Amen.