Girðingar eða opið hlið?

Girðingar eða opið hlið?

Sameiginlegt tungumál er ekki nægjanleg forsenda samtals. Við sáum dæmi um það núna á föstudaginn þegar Alþingi var sett. Þar hefði getað farið fram samtal um allt það mikilvæga sem Íslendingar standa frammi fyrir sem þjóð.

Þá kom til Jesú fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“

Jesús svaraði: „Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“

Fræðimaðurinn sagði þá við Jesú: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú. Einn er Guð og enginn er Guð annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“

Jesús sá að hann svaraði viturlega og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“

Og enginn þorði framar að spyrja hann. Mk 12.28-34

Landamærasaga

Við byrjum í dögun. Sjáum mótorhjól stöðva við landamærastöð á mærum ókunnra landa. Maður stígur af hjólinu. Talar við landamæraverðina. Við þekkjum ekki tungumálið. Sem betur fer er myndin textuð! Hvaðan ertu að koma, spyrja þeir? Þaðan, segir hann og bendir aftur fyrir sig. Hvað varstu að gera? Veiða. Hvað er í fötunni, segir annar landamæravörðurinn og bendir á hvíta fötu. Fiskur. Sá sem ég veiddi. Þú mátt ekki fara með fisk yfir landamærin. Engan fisk. Hvað eigið þið við svarar maðurinn? Erum við ekki í Evrópusambandinu? Frjáls flutningur milli landa og það allt. Þú mátt ekki fara með fiskinn. Þú verður að skilja hann eftir. Það eru reglurnar. Og maðurinn á mótorhjólinu tekur fötuna. Hellir úr henni vatninu og fiskinum fylgir með, spriklar á þurru landi. Svo heldur hann áfram.

Á morgun

Svona hefst rúmenska kvikmyndin Á morgun. Þessi mynd var sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík og hún fékk kvikmyndverðlaun kirkjunnar sem voru veitt í gærkvöldi. Þetta er mögnuð mynd sem fjallar um mærin milli fólks og reglurnar í lífinu, bæði reglur sem hvetja til þjónustu við náungann og reglur sem þjóna engu nema sjálfum sér.

Við ætlum að tala um reglur í dag. Við ætlum líka að tala um samskipti og samtal fólks. Og um tungumál.

Á morgun fjallar líka um vináttu og um samtal. Hún segir sögu Nelu sem frá Rúmeníu og Behran sem er frá Tyrklandi. Þeir verða vinir, en tala þó ekkert sameiginlegt tungumál. Nema kannski tungumál mennskunnar. Á þeim grundvelli vex vinátta þeirra og virðing fyrir hvor öðrum.

Samtal um samfélag?

Sameiginlegt tungumál er ekki nægjanleg forsenda samtals. Við sáum dæmi um það núna á föstudaginn þegar Alþingi var sett. Þar hefði getað farið fram samtal um allt það mikilvæga sem Íslendingar standa frammi fyrir sem þjóð. Samtal um hvaða gildi við viljum hafa sem grundvöll samfélagsins í nýrri stjórnarskrá. Samtal um leiðir til að mæta fólk í erfiðum aðstæðum. Samtal um hvernig við byggjum betra samfélag.

Gallinn var bara sá að á föstudaginn var annar aðilinn í samtalinu úti á Austurvelli og hinn aðilinn fyrst inni í Dómkirkjunni – og svo á leið inn í Alþingishúsið bakdyramegin. Fólkið á Austurvelli vildi koma á framfæri reynslu af því hvernig efnahagsástandið hefur leikið það og tjáði það með ýmsum hætti. Fólkið í Dómkirkjunni vildi halda sínu striki við setningu Alþingis, svo það gæti haldið áfram að ræða sín á milli um markmið og leiðir í ríkisfjármálum.

Það var fjarlægð milli hópanna á Austurvelli og í Dómkirkjunn vegna þess að sett hafði verið upp girðing. Girðing lögreglumanna. Girðing afhjúpaði bilið milli hópanna tveggja, dómkirkjufólksins og mótmælendanna.

Það var – það er – þörf á samtali á Íslandi í dag. Tilefnið er ærið. Ég efast ekki um að margir á Austurvelli hafi verið einlægir og heiðarlegir í afstöðu sinni – og ég efast heldur ekki um að á meðal dómkirkjufólksins séu margir hæfir og heiðarlegir einstaklingar. Hvers vegna varð þá ekkert samtal?

Þjóð á krossgötum

Við erum þjóð í leit að okkur sjálfum og því sem við stöndum fyrir. Við erum stödd á krossgötum og spyrjum hver sé gæfuleiðin. Krossgöturnar eru þannig staður að við verðum að líta í eigin barm og spyrja hvað það er sem skiptir mestu máli í öllum heiminum? Hvað er það dýrmætasta sem við eigum? Hvað er það sem þarf að passa mest upp á?

Við þekkjum öll þessa stöðu úr eigin lífi. Hvert og eitt þurfum við að huga að því hvað er dýrmætast í okkar eigin lífi og hvað við viljum gera til að hlúa að því. Svarið við þessari spurningu veltir kannski á því hvaða kringumstæður ríkja hverju sinni. Sá sem hefur staðið frammi fyrir því að missa heilsuna myndi segja að heilsan væri einmitt það sem er mikilvægast. Sá sem er yfir sig ástfanginn myndi kannski segja að ástin væri það mikilvægasta í lífinu. Sá sem er svangur segir að það skipti mestu máli að eiga nóg að borða. Sá sem missir heimilið sitt, segir að heimilið sé það dýrmætasta.

Hvíta hliðið á Bessastöðum

Á Bessastöðum, þar sem forsetinn býr, er stórt hvítt hlið, sem lokar veginum að embættisbústað forsetans. Þetta hlið er alltaf opið – og ef það er lokað, þá getur maður bara sveigt eða gengið framhjá því, vegna þess að það er engin girðing út frá hliðinu. Hliðið á Bessastöðum segir okkur svolítið um það traust sem ríkir í samfélaginu okkar og viðmótið til þeirra sem við mætum. Við gerum ráð fyrir því að þar sé vinur á ferð.

Ég myndi segja að þetta traust til náungans og trúin á að þau sem við mætum séu vinir, sé eitt það dýrmætasta sem við eigum sem þjóð. Það er á þessu trausti sem samfélagssáttmáli þarf að rísa. Aðeins þannig getur ríkt sátt um slíkan sáttmála.

Oft verður samfélagssáttmáli til upp úr breytingum og miklum hreyfingum í þjóðfélaginu. Ritningartextar dagsins um boðorðin tíu og tvöfalda kærleiksboðið sýna okkur svona samfélagssáttmála. Boðorðin tíu urðu til á för Ísraelsþjóðarinnar úr þrældómi til frelsis í eigin landi. Boðorðin eru það sem samfélagið vill sammælast um, til að geta treyst því að sá sem nálgast þig, vinnur þér ekki mein, vegna þess að hann elskar þig eins og sig sjálfan. Þess vegna stelur hann ekki af þér, hann myrðir þig ekki, hann lýgur ekki upp á þig, hann tekur ekki það sem er þitt og hann bregst ekki trúnaði.

Borðorðin ganga líka lengra. Því þau lýsa ekki bara því sem við eigum ekki að gera heldur því sem við eigum að gera. Við eigum sem samfélag að sammælast um að þegar við nálgumst hvert annað höfum við ekki bara hagsmuni okkar heldur líka hinna að leiðarljósi, vegna þess að við elskum náungann eins og okkur sjálf. Og við viljum hjálpa þeim að gæta eigna sinna, hlúa að lífi þeirra, stuðla að því að hvert og eitt okkar fái alltaf að njóta sannmælis. Sýna trúnað. Hlúa að lífinu.

Æfum tungumál mennskunnar

Nelu frá Rúmeníu og Behran frá Tyrklandi verða vinir. Um það fjallar kvikmyndin Á morgun. Þeir eru ólíkir, þeir skilja ekki hvorn annan, en þeir skilja samt hvorn annan. Þeir verða vinir þrátt fyrir landamærin og fjarlægðina á milli þeirra. Þeir tala tungumál mennskunnar.

Við þurfum að taka upp æfingar í tungumáli mennskunnar hér á Íslandi. Hliðið á Bessastöðum er ágæt áminning um það fyrir hvað við stöndum. Girðingarnar og fjarlægðin milli dómkirkjunnar og þinghússins annars vegar og Austurvallar hins vegar er ágæt áminning um það fyrir hvað við eigum ekki að standa.

Látum það vera áskorun dagsins: Mætum hvert öðru í þjónustu. Mætum hvert öðru í náungakærleika. Höldum boðorðum sem þjóna mennskunni, leggjum af þau sem gera það ekki. Tökum niður girðingar sem skapa fjarlægð. Tölum tungumál mennskunnar í orði og í verki.