Hvað kenndi kristnin fólki um tengsl þess við umhverfið? …Kristin trú erfði ekki aðeins frá gyðingdómnum línulegan söguskilning sem gerði ekki ráð fyrir endurtekningu, heldur einnig sérstaka sköpunarsögu. Ástríkur Guð og almáttugur hafði skapað ljósið og myrkrið, stjörnur, jörð og allar hennar jurtir, dýr, fugla og fiska í nokkrum áföngum. Guð sló smiðshöggið með því að skapa Adam en fékk síðan eftirþanka og skapaði Evu svo að maðurinn yrði ekki einmana. Maðurinn nefndi öll dýrin og lagði þar með grunn að yfirráðum sínum yfir þeim. Guð skipulagði alla þessa sköpun, sérstaklega manninum til stjórnar og handa, ekkert í sköpuninni hafði neinn tilgang, nema til að þjóna manninum. Og jafnvel þótt líkami mannsins sé gerður af leir, þá er hann ekki aðeins hluti náttúrunnar, hann er skapaður í Guðs mynd.Kristindómur eru mannmiðlægustu trúarbrögð veraldar og þá sérstaklega í sinni vestrænu mynd.
Þannig skrifar miðaldasagnfræðingurinn Lynn White yngri í grein um umhverfismál og kristindóm „The historical roots of our ecological crisis“ árið 1967. Greinin átti eftir að vekja mikla athygli og viðbrögð guðfræðinga við henni skiptust aðallega í tvö horn. Annars vegar voru þeir sem töldu að White hefði kristindóminn fyrir rangri sök. Hlutverk manneskjunnar í sköpunarverkinu skv. Gen.1:28 væri ekki að drottna yfir sköpuninni, heldur að sinna ráðsmennskuhlutverki og gæta jarðarinnar fyrir Guð.
Aðrir guðfræðingar töldu að þrátt fyrir nokkra einföldun, hefði White mikið til síns máls, kristin trú þyrfti að verða lífmiðlægari, hún væri áhugalaus um náttúruna og líkamann og of upptekin af manninum sem einhvers lags miðpunkti sköpunarinnar. Ráðsmennskuhugmyndin væri enn of mannmiðlæg til þess að hafa mikið að gefa nútíma umhverfisverndarumræðu.
Þessi kristna græna guðfræðigagnrýni fann sér ólíka farvegi t.d. í sakramentalskri dulúð sem leitar í fjölbreytilegar hefðir miðaldanna að lífmiðlægari heimslíkönum,vistfemínisma sem gagnrýnir karlmiðlægni (androcentrism) í sköpunarverkinu ekki síður en manneskjumiðlægni (andropocentrism), prósess guðfræði sem heldur fram tengslum og pan-en-the-isma (pan-en-theismi=Allt er í Guði) í stað klassísks the-isma sem setur mjög skýr skil á milli guðdómsins og sköpunarinnar, guðfræði undir áhrifum djúplægrar vistfræði (deep ecology), og aukinni áherslu á samtal vísinda og trúar.
Fjörutíu og tvö ár eru liðin frá því að Lynn White setti fram gagnrýni sína á mannmiðlægni kristinnar trúar og á þessum árum hafa hinar ýmsu greinar vistguðfræðinnar sprottið upp á akri fræðanna. Flestar kirkjur veraldar hafa líka orðið grænni á þessum árum. Alkirkjuráðið hefur staðið að öflugri umræðu um tengsl friðar, réttlætis og umhverfisverndar og það hafa minni kirknasamtök eins og Lútherska heimsambandið líka gert.
Kirkjur veraldar eiga bæða gamla og nýja græna texta og túlkanir. En hvernig gengur að fara eftir þessu öllu, hvernig gengur að færa allar þessar skýrslur og guðfræðitexta yfir í grænan praxis, umhverfisvænt líf sem er ábyrgt gagnvart sköpuninni og vinnur gegn umhverfisvánni í heiminum? Hvernig gengur að í endurskoða stöðu manneskjunnar innan náttúrunnar?
Eru kirkjurnar til að mynda kirkjurnar á Íslandi öðrum til fyrirmyndar í umhverfismálum? Er endurunnið þar eða eru kirkjurnar fullar af einnota umbúðum? Er Guðinn sem er játaður í íslenskum kirkjum fjarlægur og aðskildur lífinu á jörðinni, upptekinn af sálum og eftirlífi, eins og Lynn White taldi eða birtist almættið í tengslum líkama og grænnar jarðar? Er lífið miðlægt í prédikun okkar eða manneskjan ein?