Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
-
I.
Það er óróatíð í samfélaginu og raunar um heim allan. Í dag er hinn alþjóðlegi matardagur Sameinuðu Þjóðanna, dagur þar sem þjóðir heims íhuga fæðuöryggi í heiminum og misskiptingu matar. Í gær, 15. október kom fólk saman í meira en 950 borgum í 82 löndum m.a. í Reykjavík, til að mótmæla gegn nýfrjálshyggju, félagslegu óréttlæti, lýðræðisleysi, svo og misskiptingu auðs og valds um allan heim. Í Bandaríkjunum gengur þessi hreyfing undir nafninu „Occupy Wall Street eða „Tökum yfir Wall Street“ og víða annars staðar heyrist slagorðið „Tökum yfir veröldina“. Ein af myndunum sem dreift var á netinu fyrir mótmælin var myndin af Jesú í musterinu þar sem hann er búinn að velta öllum söluborðunum. Fyrir ofan myndina stendur „Fyrsti Occupy Wall Street mómælandinn“. Myndin vakti töluverð viðbrögð, bæði hjá þeim sem finnst ljótt að draga trúarbrögð inn í samfélagsóróa og hinna sem telja að ekki sé unnt að skilja á milli trúarbragða og pólitíkur, því það að þegja og tala um annan heim sé líka blessun ákveðinnar pólitíkur.
Það er líka óróatíð í samfélaginu vegna umræðu um kynferðisofbeldi í kjölfar Kastljóssviðtals síðasta sunnudag við Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur sem tekið var í tilefni bókar hennar. Bókin Ekki líta undan og viðtalið í Kastljósi hefur hrært upp í erfiðum minningum margra og símalínurnar hafa verið rauðglóandi hjá Stígamótum. Enn á ný höfum við verið minnt á það að börn búa ekki alltaf við öruggt skjól í foreldrahúsum og að það þurfi kjark og mikinn dug til að horfast í augu við og gera upp ofbeldi sem þau verða fyrir þar. Rétt eins og fólkið sem berst fyrir félagslegu réttlæti og veifar spjaldi af Jesú í musterinu dregur Guðrún Ebba líka upp mynd af Guði sínum í bókinni. Hún segir frá því að hún hafi verið fyrir löngu hætt að finna fyrir Guði, því að hún hafi lært af erfiðri reynslu að engum væri treystandi, ekki einu sinni Guði. Síðan segir Guðrún Ebba:
Dag einn, skömmu eftir að ég kom heim úr meðferðinni, varð ég fyrir trúarreynslu. Þeta hefur líklega verið seint á árinu 2003. Mér leið illa. Ég lagðist á hnén inni í svefnherberginu mínu og sagði: „Guð hvar ertu? Komdu og hjálpaðu mér. Þá sá ég allt í einu Guð fyrir mér. Þetta var ekki sá fjarlægi, kaldi, almáttugi Guð, sem ég heyrði pabba tala um í kirkjunni, heldur var þetta fínleg vera sem grét með mér og fann til með mér, var viðkvæm eins og ég og vildi að mér liði vel. Eftir þetta fann ég fyrir aukinni hlýju og kærleika í hjarta mínu með hverjum mánuðinum sem leið.
-
II.
Þessar tvær myndir, myndin af hinum pólítíska Jesú á Wall Street og myndin sem Guðrún Ebba dregur upp af Guði sem er fínleg vera sem grætur og huggar hafa leitað á huga minn alla síðast liðna viku og sérstaklega þegar ég las textana sem fylgja þessum sunnudegi kirkjuársins. Í fyrsta ritningarlestrinum er hið félagslega réttlæti talið eitt af því sem trúað fólk eigi að leggja rækt við. Okkur er sagt að leita réttarins og hjálpa hinum kúgaða.
Leitið réttarins, hjálpið hinum kúgaða.
Í seinni ritningarlestrinum er síðan fjallað um frelsið sem Kristur hefur frelsað okkur til, frelsi til að takast á við nýja hluti í stað þess að horfa í sífellu um öxl, frelsi til að breyta heiminum, okkur sjálfum og jafnvel því hvernig við hugsum um Guð.
Guðspjallið leiðir okkur loks að upphafsfrásögum Markúsarguðspjalls þar sem Jesús kallar lærisveina sína. Hann kemur að tollbúð Levís, sem situr inni fyrir í hóp af öðru fólki sem allt er að telja peninga og innheimta óréttláta skatta. Myndin á forsíðu messuskrárinnar sýnir einmitt þessa atburðarás, allir í herberginu eru niðursokknir í að telja peninga og hrúga að sér peningum. Nema Jesús sem er efst í vinstra horninu. Hann nær augnsambandi við Leví tollheimtumann og bendir honum að koma með sér út úr myndinni og inn í aðra vídd.
„Fylg þú mér“ segir Jesús við Leví tollheimtumann og Leví stendur upp frá söluborðinu og fylgir honum orðalaust eftir út í óvissuna. Seinna átti hann eftir að kallast Mattheus og var lengst af talinn höfundur Mattheusarguðspjalls. Ef þið lítið fram í skálann eftir messu og leitið uppi tákn postulanna sjáð þið pyngjurnar þrjár á hvítum grunni í fyrsta rammanum norðanmegin, pyngjur skattsins sem Leví eða Mattheus yfirgaf.
„Fylg þú mér“ eru orðin sem okkur eru lesin í dag og við beðin um að standa upp frá stólunum. Og ég velti því fyrir mér hvaða myndir við drögum upp af frelsaranum sem bendir til okkar og biður okkur að fylgja sér. Hvaða hugmyndir höfum við um hann? Var hann alltaf þægur og góður, fórnandi og auðmjúkur, eða er hann umbyltarinn sem mótmælendurnir á Wall Street þarfnast? Er guðdómurinn kaldur og fjarlægur, eða fínleg grátandi vera eins og sú sem Guðrún Ebba þarfnaðist? Hver er sá Kristur sem þú þarfnast kæri kirkjugestur sem einstaklingur og sem tengslavera í samfélagi og stórri veröld? Hver er sú vera sem þú getur fylgt út í þitt daglega líf og gæðir þig krafti, styrk og von til að takast á við alla þína erfiðleika?
Guðinn sem við fylgjum hefur áhrif á það sem okkur finnst vera æðst og best í heiminum. Ef okkur er kennt að Guð og Jesús Kristur sé alltaf góður og verði aldrei reiður, og að okkur beri að vera auðmjúk, hlýðin, fórnfús og að við sjálfkrafa fyrirgefum allt, þá munum við líka kappkosta við þessar dygðir í okkar lífi. Ef okkur er kennt að Kristur hafi orðið reiður yfir neysluhyggju og félagslegu óréttlæti þess tíma þá hegðum við okkur eins og hann líka og bregðumst ókvæða við óréttlæti. Ef kærleikurinn er það æðsta og besta í okkar lífi, þá munum við leita eftir kærleikanum í eigin fari líka.
Margir eru aldir upp við það viðhorf að Jesús Kristur sé hinn bljúgi og hlýðni bróðir og að tengslin við Guð og náungann séu fyrst og fremst tjáð með fjölskyldutengslum. Guð sem faðir er þannig efstur í goggunarröðinni og við mannfólkið röðumst inn í þetta húshald sem börn húsbóndans á heimilinu. Þetta myndmál um Guð sem hinn alvalda föður er ekki algilt og víða má í guðfræði kirkjunnar finna aðrar líkingar um guðdóm og manneskju en föðurinn og börnin smáu. En myndin af húsbóndanum stranga og stóra og Jesú Kristi sem hans hlýðna syni er sterk og hún hefur áhrif á undirmeðvitund okkar og það sem við teljum vera dygðir. Við þurfum líka á öðrum myndum af guðdómnum að halda, myndir sem gera okkur myndug og frjáls til að takast á við okkar aðstæður og annarra. Ein af þeim myndum er myndin af Kristi sem reiddist yfir græðgi og óréttlæti. Önnur er myndin af Guði sem grætur og huggar konu sem hefur orðið fyrir ofbeldi þegar hún þarf mest á að halda. Við fylgjum Kristi inn í heim þar sem við lærum að þekkja Krist í hinum ólíku myndum.
"Til frelsis frelsaði Kristur okkur. Standið því stöðug og látið ekki aftur leggja á ykkur ánauðarok."
Svo segir seinni ritningarlesturinn. Ánauðarokið sem við búum við hvert og eitt getur verið mismunandi. Fyrir einu okkar er það drykkja og vímuefni, annað sér ekki fram úr skuldum, þunglyndi eða vinnuálagi, hið þriðja reynir að horfast í augu við það ofbeldi sem það býr við heima fyrir. Frelsið sem Kristur frelsar okkur til tekur líka til þess hvernig okkur leyfist að hugsa um guðdóminn og okkur sjálf í frelsi og friði og sækja þangað styrkinn og vonina til að breyta heiminum. Með þessu er ég ekki að segja að við eigum að finna upp okkar eigin Guð, heldur miklu fremur að gefa gaum að þeim ríkidómi guðsmynda sem er að finna í hefð okkar og ritningum. Úr þeim ríkidómi er okkur frjálst að vinna og spinna þann vef sem gerir okkur að heilbrigðum og myndugum manneskjum og vinna að veröld sem er samboðin börnum okkar og öllu lífi.
-
III.
Í bókinni Ekki líta undan spyr Guðrún Ebba sig að því hvort hún sé ekki að brjóta gegn fjórða boðorðinu Heiðra skaltu föður þinn og móður með því að gera minningar sínar opinberar. Þar segir Guðrún Ebba:
Ég myndi vilja breyta boðorðinu í „Heiðra skaltu barnið þitt og það mun heiðra þig á móti.“ Með því vil ég undirstrika ábyrgð okkar fullorðinna á velferð barna og ungmenna og ef við viljum að þau beri virðingu fyrir hinum eldri þurfum við að virða þau líka. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.
Og ég velti því fyrir mér hvernig veröldin væri ef hún heiðraði börn og unglinga og setti þau í brennidepil. Í þeirri veröld myndi það ekki líðast að börn deyi úr hungri á reikistjörnu sem á gnægð matar og vatns. Í þeirri veröld myndi það ekki líðast að foreldrar níddust á börnum sínum kynferðislega, andlega og líkamlega meðan samfélagið horfði í hina áttina. Í þeirri veröld myndi fólk ekki sætta sig við misskiptingu auðs og valds og gera eitthvað til að breyta heiminum.
Hættið að gera illt,lærið að gera gott, leitið réttarins, hjálpið hinum kúgaða. Rekið réttar munaðarleysingjans. Verjið mál ekkjunnar.(Jes 1:16-17)
Út undan mér sé ég Krist sem horfir til okkar eins og vinur eða vinkona horfir á aðrar myndugar manneskjur og bendir okkur á að fylgja sér inn í framtíðina.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.