Nú eru dagar íþrótta og verðlauna. Ólympíusilfrið í höfn í handboltanum og við getum sannarlega verið hreykin af strákunum okkar fyrir frábæra frammistöðu. Í gær voru veitt tónlistarverðlaun kirkjunnar í fyrsta sinn og Marteinn H. Friðriksson meðal þeirra þriggja sem hlutu þau að verðleikum, hann eftir 30 ára starf hér í Dómkirkjunni. Og við vorum yfir tíu þúsund sem hlupum í gær lengri eða skemmri vegalengd og fengum öll verðlaun – gyllta peninga um háls.
Hlaup og hnefaleikar Það er ekki mikið rætt um íþróttir í Biblíunni. Einn ritningarstaður er þó eftirminnilegur í því sambandi þeim sem þekkja þá helgu bók, 1Kor 9.24-27:
24Vitið þið ekki að þeir sem keppa á íþróttavelli hlaupa að sönnu allir en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig að þið fáið sigurlaun. 25Sérhver sem tekur þátt í kappleikjum leggur hart að sér. Þeir sem keppa gera það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig en við óforgengilegan. 26Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður sem engin vindhögg slær. 27Ég aga líkama minn og geri hann að þræli mínum til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki reynast óhæfur.
Allir hlaupa en einn fær sigurlaunin. Þannig er það á Ólympíuleikunum. Einn vinnur, eitt lið fær gullið. Og vinningshafarnir hafa svo sannarlega unnið fyrir því, lagt hart að sér með miklum æfingum og viljastyrk. Hver og einn keppandi hefur sett sér skýr markmið, unnið að þeim og uppskorið í samræmi við erfiði sitt. Þarna þurfa andi, sál og líkami að vinna saman. Manneskjan er meira en líkaminn einn. Hugann þarf að stilla rétt svo að líkaminn geti skilað hámarks afköstum. Og að baki huga mannsins býr andi hans, hið yfirnáttúrulega sem tengir manninn anda Guðs.
Andlegur sigursveigur Biblían bendir lengra en hið mannlega rúmar. Vissulega er það stórkostlegur sigur að vera best í heimi í einhverju tilliti – eða næst best. Fyrir mig er það mikill sigur að hafa bætt tímann minn í 10 kílómetrunum um 10 mínútur þetta árið. Það eykur almenna vellíðan og bætir sjálfstraustið. Og litla Ísland má sannarlega vera hreykið af sínu fólki sem stendur að hinum ævintýralega árangri í handboltanum, ekki vil ég draga úr því. En sigursveigurinn sá er forgengilegur. Líkaminn er jafn forgengilegur hvort sem ég hleyp á þessum tíma eða öðrum þetta árið eða hitt.
Það er hinn andlegi sigursveigur sem er óforgengilegur. Vertu trú allt til dauða og Guð mun gefa þér lífsins kórónu, var sagt á fermingardaginn okkar margra og byggt á Opinberunarbók Jóhannesar (2.10). Gríska orðið sem þýtt er annars vegar sigursveigur og hins vegar kóróna er það sama, stefanos. Það reynir á að vera Guði trú, svo mjög að því er líkt við kappleik og þann aga sem íþróttamenn þurfa að beita sjálfa sig. Andlegi aginn felst í því að muna Guð hvern dag, að lifa þann andlega veruleika sem við fæðumst inn í við skírnina, í bæn og trúfesti, að vera það sem við erum kölluð til, elskuleg Guðs börn og gleyma sér aldrei.
Silfur og gull á ég ekki Í Postulasögunni 3.1-10 er frásaga af lömuðum manni sem læknaðist fyrir kraft Guðs í Pétri postula. Þessi ritning kom mér í huga í tengslum við þær vangaveltur um gull og silfur sem hafa eðlilega sett svip sinn á umræðuna frá því við unnum Spánverjana á föstudaginn.
1Pétur og Jóhannes gengu upp í helgidóminn til síðdegisbæna. 2Þá var þangað borinn maður, lami frá móðurlífi, er dag hvern var settur við þær dyr helgidómsins sem nefndar eru Fögrudyr til að beiðast ölmusu af þeim er inn gengu í helgidóminn. 3Er hann sá þá Pétur og Jóhannes á leið inn í helgidóminn baðst hann ölmusu. 4Þeir horfðu fast á hann og Pétur sagði: „Lít þú á okkur.“ 5Hann starði á þá í von um að fá eitthvað hjá þeim. 6Pétur sagði: „Silfur og gull á ég ekki en það sem ég hef, það gef ég þér: Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, statt upp og gakk!“ 7Og hann tók í hægri hönd honum og reisti hann upp. Jafnskjótt urðu fætur hans og ökklar styrkir, 8hann spratt upp, stóð í fætur og tók að ganga. Hann fór inn með þeim í helgidóminn, gekk um og stökk og lofaði Guð. 9Allt fólkið sá hann ganga um og lofa Guð. 10Menn könnuðust við að hann var sá er hafði setið fyrir Fögrudyrum helgidómsins til að beiðast ölmusu. Urðu þeir furðu lostnir og frá sér numdir af því sem fram við hann hafði komið.
Þessi frásaga minnir okkur á hin raunverulegu verðmæti lífsins. Við mennirnir biðjum um silfur og gull og gleðjumst yfir því meira en öðru. En Guð vill gefa okkur það sem verðmætara er, kraft sinn inn í líf okkar sem endurreisi allt sem okkar er.
Gjöf lífsins, gleðin dýpsta Hér var lítill drengur borin til skírnar í dag, dóttursonur Ólafs Rafnars Guðmundssonar. sem var kirkjuvörður Dómkirkjunnar um nokkurra ára skeið á sjöunda áratug síðustu aldar (á árunum 1962-1965), en lést langt fyrir aldur fram fyrir tæpum fjörtíu árum. Líf drengsins litla er dýrmæt gjöf, dásamlegt þakkarefni, eins og líf allra hinna litlu barnanna okkar. Á stundu sem þessari stöndum við líklega hvað næst kraftaverkinu, kjarna lífsins.
Þakklætið, gleði trúarinnar, sem er dýpri annarri gleði, veitir meiri vellíðan en jafnvel að horfa á strákana okkar sigra leik á heimsmælikvarða eða að ná takmarki sínu í langhlaupi. Að komast í snertingu við veruleika guðsríkisins er öllu dýrmætara og ætti að vera keppikefli okkar dag hvern.
Sjálfsaginn – frá slæmum vana til betri Í pistli dagsins er talið upp það sem við skyldum forðast, slæmir ávanar sem hvert og eitt okkar skyldi skoða hvort finnist í fari okkar og leggja þá af og taka upp aðra betri. Á þessum lista er að finna deilur, meting, reiði, öfund og ofdrykkju, svo eitthvað sé nefnt, allt dæmi um hugarfar og atferli sem fólk e.t.v. telur sig eiga erfitt með að ráða við. En vanmetum ekki kraft Guðs til breytinga í lífi okkar, biðjum hann að leiða okkur til nýrra og betri vana, ef við höfum tamið okkur eitthvað sem eitrar og skemmir líf okkar og annarra.
Í stað þess sem ekki er til góðs skulum við temja okkur hina jákvæðu eiginleika sem postulinn telur upp, kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og sjálfsaga. Allt þetta getur orðið æ ríkari hluti af lífi okkar með hjálp Guðs. Treystum því að líf okkar geti breyst, að við getum tamið okkur betri siði, að við getum agað líkama, sál og anda ef við leyfum umbreytandi mætti Guðs að snerta við okkur.
Og verum þakklát, eins og guðspjallið hvetur okkur til, þakklát fyrir hvert skref á hlaupabraut lífsins. Jesús snertir við lífi okkar eins og hinna líkþráu manna, gefum Guði dýrðina, minnug þess að hver sigur, stór og smár, er í nafni hans.