Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Gleðilegt nýtt ár.
Þegar ég hugleiddi guðspjallið þá laukst upp fyrir mér hversu vel það fellur inn í þann heim sem við lifum og hrærumst í. Skoðum það nánar.
Í guðspjallinu er talað um að það hafi verið óeirðir í þorpinu og nokkrir voru drepnir, Galíleumenn. Jesús spyr hvort þeir hafi verið meiri syndarar en aðrir í þorpinu? Hann spurði jafnframt hvort þeir átján sem byggðu turninn sem hrundi í Sílóam og dóu hafi verið sekari en aðrir Jerúsalembúar?
Eru voveiflegir atburðir ekki að gerast í heiminum okkar? Milli jóla og nýárs var Benazir Butto myrt í Pakistan, kona sem vildi koma á lýðræðislegum umbótum í landi sínu. Flóð, borgarastríð og hungursneyð hafa kostað milljónir lífið. Hversu margir létust í umferðarslysum á Íslandi s.l. ár? Við sjáum töluna jafnan hækka frekar en hitt þegar við keyrum austur fyrir fjall. Þá hugsum við gjarna: ,,Þetta getur ekki komið fyrir mig”. Það er nú mannlegt að hugsa þannig. Hryllilegir atburðir líða yfir skjáinn á hverju kvöldi og við verðum næsta ónæm fyrir fréttunum. Okkur finnst þær vera svo fjarri okkur þar til einhver í fjölskyldunni verður fyrir því að slasa sig eða farast. Hvers vegna farast sumir en aðrir ekki? Í Jerúsalem var þessi spurning í brennidepli vegna þess að fólk sem hafði fært fórnir í musterinu hafði beðið bana. Það hafði gert rétta hluti en samt beðið bana í óeirðum. Við þykjumst hafa svarið á reiðum höndum rétt eins og fólkið sem fór til Jesú.
Svar okkar er e.t.v. líkt svari ellefu ára drengs sem fór í sjónpróf í skólanum.
Hann reyndist nógu nærsýnn til þess að þurfa að nota gleraugu. Ættingjar hans urðu ekki hissa að hann þyrfti á gleraugum að halda vegna þess að faðir hans og móðir og ein systir þurftu á gleraugum að halda. Engu að síður varð drengurinn mjög órólegur. Hann vildi ekki segja hvers vegna. Kvöld eitt þegar hann var að fara að hátta þá sagði hann loks frá því að tveimur dögum áður en hann fór í sjónprófið þá fann hann karlatímarit efst ofan á fullri ruslatunnu. Þrátt fyrir að hann hafi skammast sín þá ákvað hann að kíkja í tímaritið og sá myndir af nöktum körlum og konum. Þegar læknirinn sagði honum tveimur dögum síðar að hann þyrfti að nota gleraugu þá sagði hann við sjálfan sig ,,Guð er þegar byrjaður að refsa mér. Guð ætlar að gera mig blindan vegna þess sem ég gerði”.
Það er þetta erfiða málefni sem Jesús er að fást við í guðspjalli dagsins. Jesús segir að þeir hafi rangt fyrir sér. Þetta fólk hafi ekki beðið bana vegna synda sinna. Ef Guð hagaði sér svona þá hefðu allir beðið bana vegna þess að allir væru syndarar. Ef Guð hagaði sér svona þá væru allir með gleraugu eða blindir.
Þá sagði hann þeim söguna af fíkjutrénu sem hafði verið gróðursett með viðeigandi hætti í víngarðinum. Það hafði góðan, næringarríkan jarðveg með nægum áburði, nægt súrefni og vatn. Þrátt fyrir að allt hafi verið gert rétt í sambandi við gróðursetninguna þá bar það enga ávexti, hvorki fyrsta, annað eða þriðja árið. Maðurinn sem gróðursetti það spurði víngarðsmanninn hvort hann ætti ekki að fleygja því og gróðursetja annað tré en víngarðsmaðurinn sagði honum að leyfa því að standa enn eitt árið. Þegar Jesús sagði þessa sögu þá hlýtur hann að hafa litið í kringum sig á áheyrendur sína sem voru misjafnlega mikið uppþornaðir og velt fyrir sér hverjir ávextirnir í lífi þeirra hafi verið?
Jesús svaraði ekki spurningu þeirra: ,,Hvaðan kemur hið illa?” ,,Hvers vegna henda slæmir hlutir gott fólk?” Þetta er einn af leyndardómum tilverunnar sem ekki er hægt að fá svar við en við verðum að læra að lifa með.
Saga Jesú Krists svarar hins vegar annarri spurningu ef við hugleiðum hana í heild sinni. Hvers vegna finnum við svo mikla gæsku og þolinmæði í veröldinni? Hvaðan kæmi allt hið góða ef Guð væri ekki til? Hvaðan er vonin runnin?
Ég sá einu sinni ágæta klausu í dagblaði þar sem stóð. ,,Maður, þekktu sjálfan þig”. Ég tel að sjálfsþekking sé lykill að góðu lífi því að eftir því sem við þekkjum okkur betur því betur verður okkur unnt að stíga ölduna og verjast ágjöfum í lífinu. Þessi orð í blaðinu minntu mig á það hversu mikilvægt það er að sérhver líti í eigin barm, ekki síst á tímamótum sem þessum um áramót, og hugleiði hvort hann hafi gengið til góðs á s.l. ári gagnvart ættingjum og vinum og samstarfsfólki?
Ugglaust hafa gæfusporin verið fjölmörg og margar vörður verið reistar í átt að hamingjuríkara lífi. Á þeim gæti staðið eftirfarandi, fæðing, skírn, ferming, gifting, stúdentspróf, áfangasigrar. Þegar við virðum þessar vörður ævinnar fyrir okkur þá hljótum við að velta fyrir okkur hversu vel okkur hafi tekist að vinna úr sérhverjum áfanga æviskeiðsins og hvort við höfum gengið til góðs eða ills? Sérhver er eigin gæfusmiður að þessu leyti.
En þó erum við ekki eyland. Við erum ekki ein á ferð þó að einmanaleikinn birtist okkur stundum í hörmulegum myndum í Reykjavík, jafnvel um jólaleytið.
Þetta gæti ekki gerst hér í sveitinni vegna þess að samhugurinn er svo ríkur. Þetta gefur okkur engu að síður tilefni til þess að líta okkur nær og íhuga hvernig við getum orðið enn betri sonur, dóttir, faðir, móðir, afi og amma, frændi og frænka á nýju ári svo ég taki dæmi.
Við skulum í þessu sambandi ekki gleyma fíkjutrénu. Það fékk að vera enn eitt árið vegna þess að víngarðsmaðurinn trúði því að með tímanum myndi það bera ávöxt. Við þurfum að hugleiða sífellt á vegferð okkar hvað það er sem virkilega gefur lífinu gildi og sækjast eftir því. Það er sá áburður ef svo má segja sem er vænlegastur til árangurs. Eitt af því væri að reikna með Guði í daglegu lífi og þakka honum, ekki síst fyrir að hafa gefið okkur vonina.
Það er vonin um betra líf með blóm í haga sem heldur okkur gangandi. Það eru líka þessar hamingjuríku stundir sem varða miklu í lífi okkar en þeirra minnumst við með gleði. Þær eru mikið þakkarefni.
Með fæðingu Jesú var okkur gefin lifandi von, haldreipi, grundvöllur til að byggja líf okkar, fyrirmynd að góðu og innihaldsríku lífi þar sem gert er ráð fyrir Guði og samfélagi við hann. En í guðspjalli nýársdag er sagt frá því þegar barninu í jötunni var gefið nafnið Jesús sem þýðir frelsari. Við erum kölluð til að hafa hann fyrir augum árið um kring. Taka mið af honum í daglegri viðleitni okkar til að hafa kærleika hans að leiðarljósi. Við erum kölluð til að ástunda hið góða, fagra og fullkomna í trú, von og kærleika. Þetta er ærið verkefni vegna þess að hið góða sem við viljum gera, það gerum við stundum ekki þegar á hólminn er komið.
Vissulega höfum við flest til hnífs og skeiðar, hýbýli og klæði eigum við einnig og blessaðar skepnurnar búa við betri hag en áður var, a.m.k. hvað húsakost varðar. Það er að þakka bændunum sem sýna þeim ræktarsemi og virðingu frá ári til árs.
Sjálfur hef ég ætíð átt einhver dýr og þekki því hvernig maður tengst dýrunum traustum böndum.
Bóndinn er meira bundinn félagslega heldur en einstaklingslega, þ.e.a.s umhverfið, vaninn, hið hefðbundna í orði og æði, hið vanabundna í hugsun og skoðun. Allt myndar þetta eins konar samfélagslíkama sem einstaklingurinn er aðeins hluti af.
Bændamenningin er svo háð jarðvegi sínum og ákveðnum lífsvenjum að næsta torvelt er að gróðursetja hana í nýrri mold. Bændurnir eiga sér lengri sögu að baki en nokkur önnur stétt. Þess vegna er augljóst að margs konar málvenjur hafa myndast í þeirra hópi, fjöldi fastgróinna siðvenja og orðtaka, já, meira að segja ákveðinn hugsunarháttur. Þeir eiga miklu eldri og fastmótaðri menningu en aðrir. Menning bæjarbúa er mun yngri en bænda og miklu lausari í reipunum og breytilegri.
En tímarnir breytast og mennirnir með er stundum sagt. Í dag stunda margir bændur atvinnu annars staðar en á sínum lögbýlum. Þeir hafa orðið að laga sig að breyttum lífsháttum. Fyrir vikið á bændamenningin undir högg að sækja, margir kunna að sakna gamla tímans að þessu leyti, t.d. þegar flestir lögðu inn hjá Kaupfélagi Þingeyinga í Þingeyjarsýslum. Sameining sveitarfélaga er liður í þessum breyttu lífsháttum. En sennilega verður kosið um sameiningu Aðaldælahrepps og Þingeyjarsveitar á þessu ári. Fólki hefur fækkað mjög í sveitunum sem er áhyggjuefni.
Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að laga okkur að breyttum lífsháttum fólks. Það leitar þangað sem atvinnu er að fá. Það þarf því að virkja grasrótina heima í sveitinni til að laða að störf. Virkja góðar hugmyndir, nýsköpunartækifæri, og fá ríkisvaldið til að færa verkefni frá Reykjavík norður í þessa sveit því að nú hefur heimurinn skroppið saman með tilkomu veraldarvefsins og margt hægt að gera með tölvunni til gagns, en einnig ógagns að vísu eins og við þekkjum.
Við hugsum, þess vegna erum við til. Við þurfum að virkja okkar eigin þekkingarauð, taka frumkvæðið í okkar hendur ef við viljum búa þar sem við viljum búa. Við getum ekki endalaust beðið eftir því að einhverjir aðrir færi allt upp í hendurnar á okkur.
Um áramót eigum við einhverjar innistæður í bankanum, misjafnlega miklar þó. Fram af síðasta ári var kátt í Kauphöll Íslands en fyrr en varði hvarf hagnaðurinn eins og hendi væri veifað. Þannig er lífið. Það er sitthvað, gæfa eða gjörvileiki.
Ég ætla nú ekki að fara að tala um peninga heldur hitt að við getum stofnað bankareikning í hjörtum hvors annars. Það er miklu skynsamlegra að setja inn á hann heldur en að kaupa hlutabréf um þessar mundir, svo ég slái nú á léttan streng. Okkur er í sjálfsvald sett hvort við setjum inn á hann eða ekki. Innistæðan verður þá ekki í formi peninga heldur kærleika.
Sá maður sem leitast við að leggja slíka innistæðu fyrir í hjarta eiginkonu sinnar reglulega mætir þörfum hennar fyrir umhyggju, athygli og öryggi. Ef hvor aðili um sig leitast við að elska hinn aðilann í orði og verki þá hækkar innistæðan í kærleiksbankanum og hjónabandið blómstrar. Þetta lærði ég þegar ég var á blómaskeiðinu en hvort ég hafi efnt það verður konan mín að skera úr um.
Þetta lögmál gildir um öll mannleg samskipti. Ef við ræktum ekki garðinn okkar þá þrífst hann ekki. Á sama hátt má segja að ef við leggjum okkur ekki fram um að elska okkar nánustu vandamenn og vini þá minnkar innistæðan óðfluga og að lokum getur allt farið í bál og brand og við þornum upp,-að innan.
E.t.v. er innistæðan lítil nú um og eftir áramótin hjá mörgum. Reynslan hefur sýnt að hjá mörgu fólki verður spennufall eftir áramótin og hjón æskja skilnaðar vegna alvarlegs ósættis. Þegar svo er komið þá hafa jólin snúist upp í andhverfu sína.
Jólin eru næringarrík friðarhátíð en ekki hátíð ófriðar. Mér finnst einhvern veginn að það magnist upp spenna hjá fólki fyrir jólin. Það á að kosta svo miklu til í því skyni að allt verði fægt og fínpússað innan dyra sem utan og að allir hafi nægilega mikið í sig og á. Það vill enginn vera minni maður en nágranninn, ekki síst í rándýrum ljósaskreytingum. Margir hafa farið flatt á því og margbrotið sig. Þetta kostar oft blóð, svita og tár. Þá er nú betra heima setið við eitt kertaljós en af stað farið.
Margir hafa það fyrir sið að strengja áramótaheit um áramótin. Það er vinsælt að hætta að reykja. Mér finnst nú skynsamlegast að líta í eigin barm og sjá hvort maður geti ekki mætt þörfum ættingja sinna og vina betur. Það er gott í þessu sambandi að líta til baka yfir farinn veg og athuga hvað hefði mátt fara betur í samskiptum við annað fólk og reyna síðan að koma þar betra lagi á.
Kannski hafa mörg góð tækifæri runnið okkur úr greipum á s.l. ári með þeim afleiðingum að við erum lík fíkjutrénu í guðspjalli dagsins sem hefur engan ávöxt borið í þrjú ár? Fíkjutréð dró kraft og næringu úr jarðveginum og framleiddi ekkert í staðinn. Það var synd þess. Ef við tökum meira til okkar en við gefum frá okkur þá erum við í sömu sporum og fíkjutréð.
Við erum öll í skuld gagnvart lífinu og gagnvart Guði. Við komum inn í það fyrir tilstuðlan annarra sem ósjálfbjarga börn og við hefðum aldrei komist af án umvefjandi kærleika þeirra sem elskuðu okkur. Svo erum við vitaskuld í þakkarskuld við Guð sem gaf okkur lífið.
Við eigum bara þennan eina líkama og þessa sál. Það er ekki hægt að klóna okkur. Þess vegna verðum við að fara vel með okkur til líkama og sálar. Þessa gjöf kærleikans og lífsins ber okkur skylda til að endurgreiða í þágu næstu kynslóða ella berum við engan ávöxt líkt og fíkjutréð.
Sú skylda er lögð okkur á herðar að skila hlutunum betri en þeir voru er við tókum við þeim. Abraham Lincoln sagði eitt sinn: ,,Ég vil að um mig verði sagt að ég reytti illgresi og setti niður blóm þar sem ég hélt að þau myndu vaxa".
Við erum eitt og sérhvert lík manninum sem gróðursetti fíkjutréð. Okkur er gefin von. Við verðum að reyna að gera betur á þessu ári en því síðasta. Verkefnin eru næg ef grannt er skoðað. Sérhver líti í eigin barm.
Ég hef þá trú t.d. að flestum hjónaböndum megi bjarga ef allir leggjast á árarnar. Stundum er sagt að vilji sé allt sem þarf. Vandamál innan hjónabands og fjölskyldna virðast smávægileg samanborið við vanda stórþjóða þar sem glundroði og stjórnleysi ríkir eins og t.d. í Pakistan um þessar mundir.
Ég ætla ekki að tala um pólitík hér heldur aðeins leggja enn einu sinni áherslu á þessa von hjá fólki hvar sem það er nú statt á jarðarkringlunni. Það er ákaflega gott að eiga von um betri tíð, betri hag til lands og sjávar, von um meiri sjávarafla og betri nýtingu hans, von um góðæri til lands og sjávar, von um betri heilsu og andlega og efnalega hamingju.
Nú þegar við horfum öll fram á veginn þá bið ég góðan Guð að blessa okkur sporin og megi hann afstýra hörmungum stríðsátaka um heim allan. Amen
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Sr. Sighvatur Karlsson, sóknarprestur á Húsavík flutti þessa prédikun í hátíðarguðsþjónustum í Einarsstaðakirkju í Reykjadal á nýársdag og í Grenjaðarstaðarkirkju í Aðaldal 2. janúar. Hefð er fyrir því að syngja hátíðartón gamlársdags á þessum dögum og því við hæfi að leggja út af guðspjallstexta gamlársdag með viðauka.