Guðspjall: Lúkas: 12.35-40
Á gamlárskvöldi göngum við til fundar við Drottinn í þessum helgidómi til að gera upp gamla árið sem er að kveðja og heilsa nýju á miðnætti.
Í guðspjalli þessa síðasta dags ársins er dregin upp mynd af heimili þar sem húsbóndinn hefur farið að heiman og skilið þjóna sína eftir. Húsbóndinn er Drottinn og við erum þjónarnir. Heimilið í guðspjallinu getur verið okkar eigið heimili eða þetta húsvíska sveitarfélag sem við lifum og hrærumst í, stofnanir þess og vinnustaðir okkar á landi sem og á sjó. Og spurt er hvort við höfum gengið til góðs eða ills? Höfum við gert það sem í okkar valdi stendur til að gera góða hluti eða hefur framkvæmdaleysi, eigingirni eða stýrilæti mótað mótað dagfar okkar?
Það er að sönnu gott að losa aðeins um beltið heima hjá sér og koma sér fyrir í góðum sófa með kaffi og konfektmola og lesa bók en það getum við ekki leyft okkur að gera dögum saman því að það gengur fljótt á forðabúrið þegar margir eru í heimili. Skaffa þarf til heimilisrekstursins í allri sinni víðustu mynd.
Árvekni er þörf en það er einmitt það sem Jesús er að tala um í guðspjalli þessa gamlárskvölds. Hann vill að við höldum vöku okkar í hverju því sem við tökum okkur fyrir hendur og gætum þess að ekki slokkni á lömpum okkar því að enginn kemst áfram í myrkri nema e.t.v. þjófarnir sem elska myrkrið vegna þess að það gerir þeim kleift að framkvæma myrkraverk. Mér finnst það táknrænt að áður en ég fór í jólafríið þá var mér ráðlagt af hollum ráðgjafa að hafa kveikt á ljósi á prestssetrinu til að gefa óæskilegum gestum til kynna að þar væri fólk inni. En þá var mér hugsað til þess að mestu varðar að fagnaðarerindi jólanna bærist hverjum einasta manni til eyrna og að allir opnuðu hjörtu sín fyrir húsbóndanum, jólagestinum sjálfum, Jesú Kristi sem kæmi til að vitja lýðs síns og héldu frá þeirri stundu uppi merki hans og ljósi með því að ástunda það sem er rétt, fagurt og fullkomið í trú, von og kærleika. Þá kynnu t.d. þjófarnir að sjá að sér og annað misyndisfólk og taka háttaskiptum hugarfarsins. Það skiptir máli í mannlegum samskiptum að hafa til að bera jákvætt hugarfar og ætla hverjum manni einungis allt það besta nema annað komi rækilega á daginn. Hugarburður gefur gróusögum byr undir báða vængi sérstaklega ef við gætum þess ekki að geyma það sem við sjáum og heyrum með okkur sjálfum. Gróusögur geta rænt saklausan mann ærunni og það er alvarlegur hlutur. Í þessu ber okkur ekki síst að halda vöku okkar í þessu samfélagi sem við lifum og hrærumst í. Hafi einhverjum orðið á sem varðar almannaheill þá ber okkur að láta viðkomandi stjórnvald vita af því. Annars ber okkur skylda til að fara til viðkomandi í því skyni að benda honum á hvar honum sé áfátt og leitast við að beina honum á réttar brautir. Í þessu ber okkur skylda til að halda vöku okkar.
Okkur ber skylda til að standa vörð um gildi fjölskyldunnar og hjónabandsins á hverjum tíma. Hjónabandið er hornsteinn fjölskyldunnar. Mestu varðar að hjón geri það sem í þeirra valdi stendur til að standa vörð um hjúskaparheit sitt og auðsýni hvort öðru virðingu og tryggð í ölduróti nútímasamfélagsins þar sem tíminn virðist oft á tíðum knappur til að hlúa að mannlegum samskiptum. En við höfum ætíð val milli þess að verja tíma með fjölskyldunni eða til þess að sinna öðrum hugðarefnum. Ég er þeirrar skoðunar að tíma með fjölskyldunni, stórfjölskyldunni sé vel varið því að allt er í heiminum hverfult. Bæði líf og heilsa er hverfult eins og við mæta vel vitum, ekki síst þegar árin færast yfir. Við finnum vel um jólaleytið hversu dýrmætt það er að vera í faðmi fjölskyldu og vina og gefa gjafir og þiggja gjafir og njóta góðs veislukosts. Að sönnu er sárt, ekki síst á jólum, að sjá einn stól auðan við veisluborðið en það minnir okkur líka á hversu gildi mannlegra tengsla eru mikilsverð hverju sinni en þar er kærleikurinn mestur. Á þeim lampa má aldrei slokkna. Við þurfum að gæta þess að ætíð sé olía á lampa kærleikans, umhyggjunnar, miskunnseminnar, fyrirgefningarinnar í samskiptum okkar hvert við annað.
Við höfum kosið okkur fulltrúa til að halda um stjórnvölinn í þessa sveitarfélagi. Þeir eru ekki síst kyndilberar þjónustunnar og réttlætisins Þeim er vissulega vandi á höndum að búa svo um hnútana að allir sitji við sama borð hvað varðar ýmsa þjónustu sem okkur þykir sjálfsögð. Félags og skólaþjónusta Þingeyinga sinnir afskaplega vandasömu og viðkvæmu verkefni. Þessi þjónusta hefur bætt úr brýnni þörf við að sinna t.d. ýmsum skjólstæðingum á félagssvæðinu til líkama og sálar sem minna mega sín vegna aðstæðna sem þeir hafa ekki getað ráðið við. Gæta verður þess að hver og einn þegn búi við mannsæmandi aðstæður á hverjum tíma og öryggi, ekki síst börnin okkar sem erfa eiga þetta land. Efla ber margvíslegar forvarnir í því skyni að gera þetta samfélag sem mannvænast og þá byrjum við auðvitað heima hjá okkur með því að ræða við börnin okkar um þær hættur sem felast í umhverfinu. Við megum aldrei sofna á þeim verði né láta ljósið slokkna á kyndlinum í því tilliti því að húsbóndinn, barnavinurinn mesti getur komið fyrr en varir. Ábyrgð okkar er augljós í þessum efnum.
Það hefur verið mér töluvert áhyggjuefni að yfirvöld þessa lands hafa ekki nægilega viljað styðja við hinar dreifðu byggðir en fólksflutningur þaðan til bæja og borgar styður það sjónarmið. Gagnvart þessu þurfum við einnig að halda vöku okkar og taka því ekki þegjandi og hljóðalaust að yfirvöld vilji með þegjandahætti sínum láta þessar dreifðu byggðir deyja út. Fólk í þessu landi hefur rétt til að búa þar sem það langar til á hverjum tíma og sköttum okkar ber m.a. að verja til þess að stuðla að því. Í ljósi þessa tel ég heillavænlegast að stækka sveitarfélögin í landinu því að sveitarfélög mega sín meira gagnvart ríkisvaldinu því stærri sem þau eru. Um leið njöta hinar dreifðu byggðir betur þeirrar þjónustu sem í boði er á vegum hins stóra og öfluga sveitarfélags.
Alvarlegur samdráttur í atvinnumálum Mývatnssveitar undanfarið hefur valdið heimamönnum þar áhyggjum. Ýmsir telja að ef yfirvöld landsins hefðu haldið vöku sinni á sínum tíma þegar ljóst varð hvert stefndi þá væri ekki svo komið sem nú er ljóst orðið. Þessi samdráttur hefur komið niður á þjónustufyrirtæki hér á svæðinu sem nú hefur orðið fyrir tveimur áföllum á stuttum tíma eftir að gámaflutningar á sjó umhverfis landið lögðust niður. En það dugar ekki að grafa höfuðið í sandinn. Við verðum að bretta upp ermarnar og hefja kyndlana á loft og horfa til framtíðar og vera vakandi fyrir nýjum atvinnutækifærum á hverjum tíma.
Húsbóndinn kemur og hann má ekki finna okkur iðjulaus á torginu, með hendur í skauti.
Ég er þeirrar skoðunar að tækifærið til nýsköpunar í atvinnumálum liggi í höndum okkar sjálfra. Það er svo auðvelt að ætlast til að aðrir færi eitthvað upp í hendur okkar en ég lít svo á að við verðum á hverjum tíma að líta okkur nær og gæta þess að það slokkni ekki á kyndli uppbyggilegra atvinnutækifæra sem kunna að færa okkur björg í bú í margvíslegu tilliti.
Ungt menntað fólk hefur flutt hingað á sínar heimaslóðir til að byggja upp heilsutengda þjónustu og rafrænt samfélag. Það finnst mér vera jákvætt og bera vott um að þetta unga fólk hafi trú á því að það séu til hér tækifæri til nýsköpunar. Þó að við segjum stundum að unga fólksins bíði framtíðin þá býr mikil þekking og auður í öldruðu fólki. Mér finnst eðlilegt að hugað sé að atvinnutækifærum fyrir eldra fólk í okkar heimabyggð í tengslum við ferðaþjónustuna.
Á örskotsstundu getum við fengið margvíslegar upplýsingar í rafrænu formi hvaðan æva að úr heiminum allan sólarhringinn. Heimurinn hefur skroppið saman að þessu leyti. Við getum hvert og eitt látið raddir okkar heyrast hvarvetna um byggt ból í þessum heimi með þeirri tækni sem fyrir hendi er. Ef vel er staðið að málum þá liggja fyrir tækifæri til nýsköpunar atvinnuvega í rafrænu formi hvar sem fólk kýs að búa.
Uppi eru hugmyndir um að efla beri heilsutengda ferðaþjónustu í samráði við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Lykillinn að því er nýting þess jarðhita sem fyrir hendi er á svæðinu. Yrði það jákvæð viðbót við þá ferðaþjónustu er tengist hvalaskoðunarferðum sem fært hafa fjölmörgum björg í bú í sveitarfélaginu og vakið athygli umheimsins á Húsavík og nágrenni.
Það er sitthvað gæfa eða gjörvileiki því að ekki veldur hver sem á heldur. Það er mikill vandi fyrir þann sem hefur borið mikið úr býtum að valda því sem hann eða hún hefur í höndum og spila rétt úr spilunum því að allt er í heiminum hverfult. Lánið og gæfan getur eins og hendi sé veifað snúist upp í andhverfu sína. Allir tímanlegir og veraldlegir hlutir eru hverfulir.
Hversu vel sem við gætum þess að halda vöku okkar þá hafa atburðir síðustu daga við Indlandshaf sýnt fram hversu öryggi okkar er áfátt þegar við stöndum frammi fyrir náttúruhamförum sem þessum. Og það þarf ekki náttúruhamfarir til því að í hvert skipti sem við stígum upp í bifreið eða flugvél eða skip þá tökum við áhættu. Til að minnka áhættuna temjum við okkur að fylgja reglum umferðarinnar hverju sinni. En gagnvart náttúruhamförum sem þessum þá finnum við hvað mest til smæðar okkar vegna þess að þetta eru óeðlilegar aðstæður við óeðlilegar kringumstæður. Í kvöldfréttum í gær veitti ég því eftirtekt að sálfræðingar og prestar eru komnir á svæðið m.a. til að veita áfallahjálp. Markmið áfallahjálpar er að fyrirbyggja langvarandi og heilsuspillandi áhrif áfalla. Um er að ræða andlega og sálræna aðstoð við þá sem staðið hafa andspænis lífsógnandi aðstæðum og eru þar beinir þolendur, sjónarvottar, aðstandendur eða hjálparfólk. Hjálpin felst í sálrænni skyndihjálp, úrvinnslu og viðrun hugsana og tilfinninga. Skyndihjálpin sem er aðallega veitt á vettvangi atburðanna er andleg og líkamleg umönnun þolenda og krefst fyrst og fremst nærfærinnar aðgátar, nærveru, hlýju og skilings. Úrvinnslan og viðrunin eru sömuleiðis bornar uppi af sömu þáttum. Um er að ræða annars vegar markvissa úrvinnslu á fyrstu áhrifum áfallsins á þolendur, viðrunin er hins vegar ætluð hjálparfólki sem kemur af vettvangi og þarf á tilfinningalegri útrás að halda. Úrvinnslan og viðrunin eru á höndum þeirra sem hafa til þess þjálfun og kunnáttu.
Ýmsir hafa gagnrýnt ríkisstjórnir á norðurlöndunum fyrir að hafa brugðist seint og illa við þessum válegu tíðindum. Ráðherra í Indónesíu hefur farið þess á leit að öryggisráð S.Þ. standi sem fyrst fyrir alþjóðlegum fundi til að ræða hvernig best sé að bregðast við þessum mikla vanda sem heimurinn stendur frammi fyrir. Vonandi verður blásið sem fyrst til þessa fundar og fundnar verði í kjölfarið leiðir til að unnt verði að aðvara íbúa á hættusvæðum í heiminum með einhverjum fyrirvara við yfirsteðjandi ógn vegna náttúruhamfara sem verða í heiminum. Í þessum efnum verðum við að halda vöku okkar einnig því að náttúruöflin hafa verið óvæg við okkur íslendinga í gegnum aldirnar.
Mannskaðar á hafi eru þau stóráföll sem hafa öðrum fremur fylgt íslensku þjóðinni um aldir. Til skamms tíma var það áreiðanlega ekkert óalgengt í sjávarplássum að presturinn og læknirinn sætu uppi einir með þá krefjandi vinnu sem fylgir slíkum atburðum. Þetta eru áföll sem taka meira eða minna til allra í heilu byggðarlagi. Í kjölfar þessara óvægnu atburða er hætta á margvíslegum viðvarandi vanda, bæði hjá þeim sem líða undir beinni nauð og einnig hinum sem sem eru kallaðir til að hjálpa. Á þessum vettvangi hefur víða um land verið unnið mikilvægt og gagnlegt starf sem ekki má vanmeta. Áfallahjálpinni er ætlað að gera enn betur við aðstæður sem ýmsir hafa talið til þessa að lítið eða ekkert væri hægt að eiga við. Þeir sem hana veita og aðra stoð í ýmsu tilliti eru kyndilberar vonar, aðgæslu, nærveru, hlýju og skilinngs. Það má aldrei slokkna á þeim kyndlum.
Undir sálmi að aflokinni prédikun minni gefst ykkur kirkjugestum kostur á því að standa á fætur og kveikja á bænaljósi til minningar um þá sem fórust í þessum náttúruhamförum og til að biðja fyrir aðstandendum þeirra og öðrum sem hafa orðið fyrir búsifjum vegna þeirra. Eins hvet ég okkur öll til að sýna rausnar skap í fjárútlátum í þágu þessa verkefnis því við vitum aldrei nema við þurfum sjálf á slíkri stoð að halda þegar fram líða stundir. Megi almáttugur Guð halda verndarhendi sinni yfir Húsavík og hjálpa okkur á hverjum tíma að halda vöku okkar því að Drottinn Jesús Kristur kemur fyrr en varir og þá er betra að hann finni okkur ekki sofandi á verðinum.