Grund er Guðsgrund – það er niðurstaða mín af umsögnum þeirra sem hér búa. Lilja Sólveig Kristjánsdóttir er til heimilis hér á Grund og talar svo fallega um starfsfólk og þau sem hún hefur eignast af vinum. Nú hafa vinir hennar meðal starfsfólks boðað til þessar guðsþjónustu og aðeins sálmar Lilju eru sungnir. Reyndar hefur hún samið marga sálma sem hafa verið sungnir af mörgum. Engar aðrar konur eiga fleiri sálma í sálmabókum þjóðkirkjunnar en Lilja. Við syngjum nokkra þessara sálma og íhugum erindi þeirra og samhengi.
Lilja frænka Lilja er móðursystir mín og hún og móðir mín voru mjög nánar. Þegar ég fæddist starfaði Lilja í Noregi. Svo kom hún til landsins um nótt og gisti í stofunni á heimili mínu. Um morgunin fór móðir mín með systur mína í leikskólann og skildi mig eftir heima. Ég varð hræddur við einveruna því ég vissi ekki af þessari norsku Lilju sofandi inn í stofu. Þegar hún heyrði hljóðin í smásveininum kallaði hún til mín: „Siggi Árni minn – ég er hér.“ Og ég fór til hennar, horfði á þessa konu, skreið svo upp í hjá henni, hallaði mér aftur – og steinsofnaði. Síðan höfum við Lilja verið vinir.
Guð hefur stund, gleymir ei mér, Guð heyrir bænir allar. Tárum í bros, breytir hann hér, barnið sitt mig hann kallar.
Það sungum við áðan. Og Lilja hefur alltaf opnað og verið fulltrúi Guðs, hefur allaf haft stund og breytt tárum í bros – ef ekki svefn.
Kirkjusvefn og sálmasöngur Sálmar verða ekki til úr engu. Hymni verður til í lofsyngjandi sálu. Lilja hefur alla ævi opnað fyrir ljónrænu himinsins og sjálf sungið sálma. Til er skemmtileg saga af sálmasöng Lilju frá bernsku hennar. Hún og fjölskylda hennar voru í kirkju á Völlum í Svarfaðardal. Sú stutta kom sér fyrir á suðurbekk við hlið mömmu sinnar. Presturinn, sr. Stefán Kristinsson, steig í stólinn eftir guðspjallssálm og hóf predikun sína. Þriggja ára stelpuskottið fylgdist með flugum í gluggakistunni. Augnalokin þyngdust og kirkja, helgihald og fólk urðu eitt.
Kirkjusvefninn hefur löngum verið sætur. En draumur hennar leystist allt í einu þegar farið var að syngja sálminn „Á hendur fel þú honum...” Þá glaðvaknaði Lilja og spratt upp. Þennan sálm kunni hún og tók undir sem mest hún mátti...„ sem himna stýrir borg, það allt, er áttu' í vonum, og allt, er veldur sorg.“ Þegar fyrsta erindinu lauk beið hún ekki eftir lokum kúnstpásu organistans, heldur rauk af stað í annað erindið. Mjó barnsröddin hljómaði um kirkjuna áður en nokkur annar kirkjugestur byrjaði sinn söng. “Ef vel þú vilt þér líði...” Hún gerði sér skynilega grein fyrir að hún söng ein og steinþagnaði, fylltist svo skelfinu og hélt að hún hefði eyðilagt messuna! Eftir athöfnina faldi hún sig í pilsi mömmunnar og hélt að fólkið, sem talaði um sönginn hennar, væri að stríða sér.
Sálmasöngvarinn Lilja Sólveig hætti þó ekki eftir þetta fyrsta vers í lífinu, heldur söng áfram og orti eigin ljóð um Guð og menn. Undir þau vers tóku margir síðar.
Blómin við ævigötuna Að yrkja hefur verið Lilju dægradvöl og hugsvölun alla tíð. Að ljóða er að opna eyru og tala. Lilja hefur einnig þýtt mikinn fjölda sálma. Hvert tímabil ævinnar á sér eigin stef og viðfang. Þótt Lilja færi leynt með gáfu sína varð æ fleirum ljóst að hún gat sett saman nothæfa sálma til söngs. Því leituðu margir til hennar með þýðingar. Lilja hefur aldrei kunnað vel að segja nei og þegar ég kom til hennar á unglingsárum voru gjarnan einhverjir erlendir sálmar á borðinu. Og þar sem kór eða söngvari beið eftir þýðingunni til flutnings eftir nokkra daga mátti Lilja því oft beisla skáldafákinn með hraði og þýða. Hún var því stundum undir nokkru álagi en skáld hafa aldrei verið sjálfsalar. Svo kvakaði Lilja lítillega, að það sem hún setti á blað hafi ekki verið nógu gott, sumt eiginlega ónothæft! En kröfurnar sem hún gerði voru miklar.
Sum ljóðin hennar Lilju eru n.k. dagbókarskrif í bundnu máli. Hún hefur ritað gleðiefni sín, sorgarefni, vonir, drauma og skref daganna. Það er samhengi í öllu, sem hún hefur skrifað og Lilja veitir okkur innsýn í ljóðunum í sál sína og hugarheim.
Góði Jesú, gefðu mér, að geta sofnað rótt í þér, Meðan heilög höndin þín, heldur vörð og gætir mín.
Þessa kvöldbæn samdi Lilja, þegar hún var tíu ára. Bænin vísar með efni og tökum fram á þann veg sem Lilja fór. Sami boðskapur trausts og trúar blasir við í ljóðum hennar - um góðan og umhyggjusaman Guð sem ekki bregst. Með árunum og lífsreynslu dýpkuðu sálmar og ljóð og skuggarnir urðu jafnframt skarpari. Lilja fékk í arf tilbeiðslu Passíusálma og innlifaðist þeirri lífsafstöðu sem þar er boðuð. Fólkið hennar á Brautarhóli, þar sem hún fæddist og ólst upp, tengdist Guði persónulegum böndum. Trú þess var ekki ópersónulegur siður eða formlegur rammi, heldur náið og elskulegt samband við Guð. Lífsafstaða þessa fólks var jákvæð og traust, að öll veröldin sé Guðs og fyrir Guð. Hlutverk manna í heiminum væri að lifa í Guði og í því er einnig fólgið að laða og leiða aðra til Guðs.
Lilja hefur samið mikið af ljóðum með náttúrskírskotun. Þau ljóð eiga sér samsvörun og efnislegt innrím við sálmana. Náttúran í ljóðum Lilju er ekki aðeins falleg, stórkostleg og hrífandi heldur musteri Guðs, vitnisburður um skapara, sem gleðst yfir fjölbreytni, fegurð, árstíðum, smáblómi í klaka og lækjarbunu. Allt verður Lilju tilefni íhugunar og lærdóms. Sólargeislinn er í augum hennar geisli frá Guði - og skugginn í náttúru og mannlífi á sér einnig sama upphaf. Jafnvel frostrósir eru líking um líf manna og ljósið, sem bræðir frerann og rósir frostsins. Frostrósirnar eru listaverk frá Guði.
Oft notar Lilja jurtalíkingar til að ræða um manninn. Hún talar um rósir og græna sprota. En það vakti athygli mína þegar ég vann við útgáfu verka hennar að Lilja yrkir aldrei um liljur. Kannski er hún of hógvær til að fara svo beina leið. Líkingar og myndir hennar úr jurtaheimi eru því almennt um fólk og hún er ein af mörgum í þeim stóra hópi, frammi fyrir Guði með opin eyru og tilbúin að tala um það sem hún upplifir.
Krossferill Sum ljóð Lilju hefur sorgin meitlað eða mótað. Lilja hefur ort sér til léttis. Ljóðin hafa orðið henni farvegir fyrir tilfinningar og sum eru jafnvel sorgarlausnir. Af ljóðunum má skynja að Lilja átti erfitt með að sætta sig við að missa heilsuna á unga aldri og stara í sjó brostinna vona.
Ljóst er af því hvernig Lilja yrkir um Jesú Krist að hún lifir sig í feril hans. Vegna langrar veikindasögu hefur hún, kannski betur en margir, gert sér grein fyrir þjáningardjúpi og einsemdarbaráttu Jesú. Hún fylgir Jesú eftir á píslargöngunni. Þegar hún líður kemur Jesús til hennar: „Þá kemur Jesús Kristur inn og kveikri ljósið bjart. Þá hverfur allur ótti minn og efamyrkrið svart.“ Í Jesú á Lilja vin, sem aldrei svíkur. Nokkur verndarkvæði um engla hefur Lilja einnig samið. Þau ljóð túlka návist Guðs og að við menn erum aldrei yfirgefnir í erfiðleikum okkar.
Vitund um mannlegan breiskleika, brot og kvíða koma víða fyrir í Liljuljóðum. Hún hefur í veikindum alla tíð verið sér meðvituð um að Guð leysir fjötra, styrkir vilja og réttir fólk við. Upprisuboðskapurinn – boðskapurinn um lífið - á erindi við sjúkt fólk. Lilja speglar vel að maðurinn er flekkaður. Og Lilja ljóðar óhikað um tilfinningar, friðleysi, ótta og öryggisleysi. Lilja sópar ekki yfir tilfinningarnar heldur gefur þeim túlkunarramma. Þá talar Lilja víða í ljóðum og sálmum um einstaka hluta líkamans til að ræða um Guðstengslin. Er það vegna þess að heilsubrestur Lilju hefur vakið með henni skynjun um mikilvægi þess að allur líkaminn og allar sálargáfur séu tengdar. Er hún sér meðvituð um að allt getur þetta horfið manninum og því mikilvægt að allt sé Guði helgað?
Guð og barnslegt traust Í ljóðum og sálmum Lilju er Guð vinur, góður og umhyggjusamur. Lilja var lánsöm að eiga öfluga og heillynda foreldra, sterka móður og hlýjan föður. Svo var Siguringi E. Hjörleifsson, eiginmaður Lilju, elskuríkur maður. Því er enga föðurkomplexa og karlabresti að finna í kveðskap Lilju. Guðsmyndin er heil og ósprungin föðurímynd og í samræmi við reynslu af umvefjandi móður og hlýjum föður. Áberandi í ljóðum Lilju er traust til að Guð geri gott úr vanda, leiði á betri veg, bæti úr, bræði hjarn mannlífsins og gefi gróanda í lífi hennar og annarra. Einu gildir frá hvaða æviskeiði ljóðin eru, ávallt hefur Lilja talað sem barn við Guð. Hvað erum við menn annað en þiggjendur allra gæða, börn hins himneska föður?
Lilja hefur alla tíð tjáð að heimurinn sé fagur og lífið stórkostlegt. En hún hefur líka átt sína vonarhöfn á himnum. Heima er ekki aðeins í húsi norður í Svarfaðardal eða í Reykjavík. Himinninn er ávallt hinn mikli faðmur sem allt leitar til, allt stefnir að. „En kærust verður koma þín er kvöldar hinsta sinn. Þú leggur aftur augun mín og opnar himin þinn.“
Lilja notar gjarnan ljóslíkingar í tengslum við Guð. Í því nýtur hún skáldskaparhefðarinnar. Hún biður stundum til stjörnu á himni. Einhver myndi sjá í þeim ljóðum kaþólsk áhrif. En þegar Liljuljóðin eru skoðuð í heild kemur í ljós, að eðlilegast er að túlka stjörnuljóðin guðmiðlægt, þ.e. að stjarnan sé Guð fremur en María, dýrlingur, maður eða engill.
Liljurnar Á miðaldamálverkum heldur Gabríel erkiengill gjarnan á lilju þegar hann boðar Maríu tíðindin um þunga hennar. Hlutverk Lilju Sólveigar hefur verið að boða gleðiboðskapinn og vera boðberi himins. Jesús sneri sér að manninum í sögu dagsins og sagði: Effaþa,“ Opnist þú. Og eyru hans opnuðust og haft tungu hans losnaði og hann talaði skýrt. Svo varð í lífi og starfi Lilju. Eyru hennar opnuðust og tungan talaði skýrt. Hlutverk hennar hefur verið að lifa og miðla boðskap gleðinnar og opna himininn. Lilja hefur miðlað ljóðlist himinsins í heimi tímans. Það hlutverk er okkar allra líka. Hún hefur notað sínar talentur og við megum nota okkar.
Amen.
Ég vil þakka fyrir þessa Liljuguðsþjónustu í dag, þakka starfsfólkinu á Grund fyrir áhugann, umhyggju þeirra gagnvart Lilju, vinsemd og hlýja afstöðu. Það er sú afstaða sem er dýrmæti Grundar. Þakka Guðbjörgu Guðmundsdóttur, sr. Auði Ingu Einarsdóttur, Kristínu Waage, organista, þessum fína kór sem syngur. Guð laun.