Syndin sem ekki verður fyrirgefin

Syndin sem ekki verður fyrirgefin

Ég þori ekki að nefna nákvæmar tölur en þau skipta hundruðum þessi ungmenni sem þannig eru að kveðja trúnaðinn við íslenskt þjóðlíf þessa dagana. Ég leyfi mér að fullyrða að hér eru að eiga sér stað hljóðar hamfarir sem eru margfallt meira tap en bankahrunið.

Í dag eru liðin tíu ár frá árásinni á tvíburaturnana.  Það er 11. september í dag.  Ég man hvar ég sat þegar annar sonur minn hringdi í mig úr skólanum og sagði mér að fara inn á netið og sjá ósköpin.

Í dag fjallar Guðspjallstextinn nákvæmlega um þann djúpa sársauka og þann hyldýpisvanda sem einmitt blasir við í því máli. Guðspjallið í dag fjallar um hatrið á lífinu.  (Matteus 12.31-37)

Það er undarlegt að segja það, en það blasir þó við, að það er til afl í veröldinni sem hatar lífið. Og þótt birtingarmyndir þess séu ótalmargar er aðferðin í raun sú sama á öllum öldum; að hræða fólk.

Manstu hvernig heimurinn bæði þrengdist og kólnaði fyrir réttum tíu árum? Manstu hótunina sem lá í loftinu líkt og torkennilegur þefur? Manstu svo fuglaflensuna sem varð að kvíðafaraldri um allan heim og allt var á hverfanda hveli?

Þetta var í þann mund sem við vorum að byrja að verða ríkasta þjóð í heimi og vorum í óða önn að tileinka okkur þá hugmynd að í rauninni væri hver maður einn. Þjóðarsálin var farin að trúa því að hver væri sjálfum sér næstur og að þegar upp væri staðið væru mannleg samskipti ekkert annað en viðskipti, og því best að vera bara raunsær og taka þátt í gróðaleiknum.  Flestu fólki leið þó eins og það væri að tapa. Ég varð fertugur árið 2003. „ Þú veist að tíminn milli fertugs og fimmtugs er tíminn sem þú hefur til þess að eignast peninga, áður en yngri mennirnir fara fram úr þér!” sagði ágætur maður við mig af því tilefni. Á sama tíma var ekkert tortryggilegra til en hugmyndafræði. Fólk sem hafði fyrir því að hugsa og móta sér hugmyndafræði var bara að flækja málin með einhverju rausi sem líkast til átti rætur í öfund eða öðru álíka. Hugmyndafræði var fyrir aumingja en framkvæmdir voru kjörorð dagsins.  - Líka þeir turnar féllu og grófu marga undir eins og við vitum.

Hvað er þetta? Hvað veldur því að aftur og aftur fara þungar bylgjur um mannlífið sem skjóta fólki skelk í bringu og segja því að það skuli ekki búast við góðu, að hugsanlega sé því ofaukið af einhverjum ástæðum eða það muni sennilega missa heilsu sína eða fjárhag? Þegar ég var að alast upp voru heilu síðurnar í símaskránni teknar undir kennslu í viðbrögðum við kjarnorkuárás og loftvarnarflauturnar ofan á Sólheimablokkunum fnæstu á okkur fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði að mig minnir. Ég var sannfærður um að ég yrði ekki gamall maður.

Guðspjall dagsins er fengið úr 12. kafla Lúkasarguðspjalls og allur sá kafli fjallar um þetta vandamál hræðsluhótunarinnar.  Hann byrjar á deilu Jesú og valdsmanna samtíma hans um helgidagalöggjöfina í landinu sem var þrúgandi fyrir fólk og Jesús minnir á orð Hósea spámanns þar sem Guð segir: „Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir.” Næst er karlmaður með visna hönd staddur frammi fyrir honum og  væntir lækningar en það er óvart hvíldardagur og samkvæmt ströngum lögum bannað að aðhafast nokkuð, hvort heldur gott eða illt.  Jesús tekur dæmi af bónda sem á kind sem fellur í gryfju. „Mundi hann ekki tak hana og draga upp úr?” spyr hann, og bætir við: „Hve miklu er þó maðurinn sauðkindinni fremri!” Svo læknar Jesús manninn þvert á helgidagalöggjöfina.  „Þá gengu farísearnir út” segir guðspjallið „og tóku saman ráð sín gegn honum hvernig þeir gætu náð lífi hans.” Þótt Hagkaup og Nóatún standi opið allar nætur í Reykjavík og skortur á helgidagalöggjöf og almennri hvíld sé e.t.v. að verða þrúgandi þáttur í okkar þjóðfélagi þá var því öfugt farið í samfélagi Gyðinga á tímum Jesú og brot hans á helgidagalöggjöfinni var slík ögrun við samfélagsvaldið að menn sáu þann kost vænstan að taka hann úr umferð. Helgidagalöggjöfin var stjórnunartæki sem hafði mikinn fælingarmátt í höndum ríkjandi afla. Það er í þessu samhengi sem Jesús mælir orðin sem eru í guðspjalli dagsins: „ Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum verður það fyrirgefið en þeim sem mælir gegn heilögum anda verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda.” -    Það er allt í lagi að ráðast á mig, er hann að segja. En það er ekki í lagi að ráðast á heilagan anda! Það er mjög mikilvægt að skilja þetta, og það er ekkert flókið.

Skoðum fyrst aðeins þetta með Jesú og árásirnar á hann. Við lifum á tímum mikils Jesú-óþols og sennilega hafa aldrei verið slíkir tímar á Íslandi að nafn Jesú hafi verið jafn mikið tabú. Fólk sem telur sig vera samfélagslega meðvitað þolir fjöldaframleiddum skemmtiðnaði að dæla ofbeldisefni ofan í börnin sín seint og snemma en detti einhverjum sú ósvinna í hug að segja þeim Biblíusögur er brugðist við með miklum þótta. Í guðspjallinu er Jesús m.a. að svara þessu og öllu öðru Messíasaróþoli sem jafnan einkennir veröldina. Það er í lagi er hann að segja. Það er fyrirgefið þótt fólk krossfesti Krist upp aftur og aftur. Það er fyrirgefið þótt Jesú sé úthýst og hann hundeltur eins og hann var hundeltur á sínum tíma. Sú synd verður mönnum fyrirgefin. Já, mönnum skal vera frjálst að hæða og smána Jesú Krist en sá sem lastmælir heilögum anda er illa staddur. Þannig mótmælti Jesús ekki meðferðinni á sjálfum sér þegar hann var á dögum en hann mótmælti úthýsingu heilags anda í samtíma sínum, m.a. með því að lækna manninn með visnu höndina og hafna því að einhver misskilin löggjöf  og hefðir tæki frá fólki heilsu þess. Í hans huga voru lög og venjur handa fólki en ekki fólk handa lögum og venjum.  Óttalaus stóð hann gegn valdinu sem alltaf er að reyna að hræða fólk svo það missi af lífinu.

Óttastjórnun er ekki ný af nálinni og henni er ekki lokið, sannaðu til. Handan við hornið er nýtt kvíðaefni í smíðum, ný hótun um heilsuleysi, ný ógn við heimsfriðinn, ný skelfing á fjármálamörkuðum, ný ástæða fyrir almenning til þess að trúa því að hann eigi ekki framtíð. ‘Þú skalt ekki halda að þér sé óhætt!’ segir hið dularfulla afl sem á öllum öldum hatar lífið og leitast við að úthýsa heilögum anda úr hjörtum manna.  Hér erum við komin að kjarna máls. Heilagur andi býr í fólki. Guð býr ekki í húsum sem eru gerð með höndunum. Guð býr ekki hér inni í þessum helgidómi, hann býr í þér, og hann býr í þeim sem situr við hlið þér. Heilagur andi Guðs býr í fólki af holdi og blóði. Og hatrið á mennskunni, hatrið á lífinu er syndin gegn heilögum anda sem Jesús er að ávarpa í guðspjalli dagsins. Í fyrra bréfi sínu til Korintumanna skrifar Páll um þetta sama: „Vitið þið ekki að þið eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í ykkur?  Ef nokkur eyðir musteri Guðs mun Guð eyða honum því að musteri Guðs er heilagt og þið eruð það musteri.” (1.Kor.3.16)

Núna um þessar mundir eru hundruð ungmenna á Íslandi á aldrinum kringum tvítugt sem erum að missa af lífinu. Þau voru táningar þegar hrunið kom og hvað sem því olli þá er staðan sú í lífi þessa stóra hóps sú að þau vaka á nóttunni og sofa á daginn og líta ekki á sig sem beina þátttakendur í mannlífinu. Þau eru ‘súkkat’ í leiknum, líst alls ekki vel á þjóðfélagið sem þau eru fædd inn í og hafa enga löngun til þess að taka þátt í því sem við hin erum að sýsla.

Ég þori ekki að nefna nákvæmar tölur en þau skipta hundruðum þessi ungmenni sem þannig eru að kveðja trúnaðinn við íslenskt þjóðlíf þessa dagana. Ég leyfi mér að fullyrða að hér eru að eiga sér stað hljóðar hamfarir sem eru margfallt meira tap en bankahrunið. Hér er ungt fólk sem tíðarandinn er búinn að hræða út af vellinum áður en þau byrja að spila með. Hér er stór hópur af lifandi manneskjum sem tekist hefur að skelfa með svo markvissum hætti að frá þeim er allur kjarkur. Þetta er dæmi synd gegn heilögum anda í okkar samfélagi sem ekki verður fyrirgefin.  Það er ófyrirgefanlegt ef við látum þetta unga fólk afskiptalaust og gerum ekki allt sem í valdi okkar stendur til þess að ná til þeirra. Það er synd gegn heilögum anda að móta samfélag sem hræðir og hrekur manneskjur út í horn.  Það er synd gegn heilögum anda sem ekki verður fyrirgefin ef íslensk þjóð gengur í gegnum heilt bankahrun til þess eins að byggja aftur upp sama sjálflæga óskapnaðinn þar sem ekki er pláss fyrir manneskjur af holdi og blóði.  Þá synd skulum við óttast og hræðast, en hótanir tíðarandans skulum við ekki óttast.

Amen.