Fólkið á sléttunni í Chikwawa í suður Malaví hefur ekki hugmynd um að í dag 22. mars er alþjóðlegur dagur vatnsins enda þótt þau séu með í vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar. Þau eru uppteknari af nýfengnu hreinu vatni sem gjörbreytir lífinu til hins betra.
Upplýsingafulltrúi og framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins voru í febrúar síðastliðnum á ferð í Malaví. Hjúkrunarfræðingur við Thimu sjúkraskýlið sagði:
„Það var erfitt um vik á sjúkraskýlinu áður en brunnurinn kom, þá var mjög erfitt að halda hreinlætinu á því stigi sem þarf og var hálf tilgangslaust að fræða um hreinlæti og sjúkdóma sem tengjast því þar sem fólk hafði ekki nóg vatn og það sem var til var þar að auki óhreint. Nú er þetta allt annað og fræðslan skilar árangri.“
Paramount Chief Lundu III, þorpshöfðingi í Thimu þorpi tók undir þetta:
„Brunnurinn sem gefur okkur hreint vatn hefur bætt heilsuna og ástandið almennt í okkar þorpi, sjúkdómar sem áður herjuðu á okkur eru nú orðnir sjaldgæfir.“
Þetta er sama sagan á um 50 stöðum í Chikwawa þar sem Hjálparstarfið hefur undanfarin ár veitt fólki aðgang að hreinu vatni. Grafnir hafa verið og boraðir 25 nýir brunnar og gert við aðra 25 sem höfðu verið í lamasessi sumir svo árum skipti. Með þessum hætti hefur vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar séð um 25.000 manns fyrir hreinu vatni. En enn er langt í land, þorpshöfðinginn Lundu sagði að of margir notuðu brunninn
„margir koma mjög langt að, við þurfum fleiri brunna á svæðið.“
Sama á við víða um heim þar sem vatnsskortur er mikill eins og eftirfarandi upplýsingar bera vitni um:
Árlega gæti aðgangur að hreinu vatni komið í veg fyrir...
- 1,4 milljón dauðsföll barna úr niðurgangi
- 500.000 dauðsföll úr malaríu
- 860.000 dauðsföll barna úr vannæringu
Vatnsskortur snertir þriðja hvern íbúa heimsins. Ef fram heldur sem horfir munu tveir af hverjum þremur íbúum jarðarinnar standa frammi fyrir skorti á ferskvatni fyrir árið 2025.
Eitt af hverjum fimm dauðsfalla barna er vegna niðurgangs sem rekja má til óhreins vatns. Hann veldur fleiri dauðsföllum en alnæmi, malaría og mislingar samanlagt. Árlega gæti aðgangur að hreinu vatni komið í veg fyrir 1,4 milljón dauðsfalla barna úr niðurgangi.
Næstum einn af hverjum fimm íbúum jarðar, eða um 1,2 milljarðar, búa á svæðum þar sem er raunverulegur vatnsskortur.
Loftslagsbreytingar verða eitt stærsta umhverfisvandamál 21. aldarinnar og eru til langtíma litið stærsta ógnin við vatnsbirgðir heims og þar með mannkyns.
Hvernig væri að gefa vatn á vatnsdeginum? Vatns gjafabréf á www.gjofsemgefur.is og framlag til vatnsverkefna á www.framlag.is
Nánar
Nánari upplýsingar um vatnsverkefni Hjálparstarfsins í Eþíópíu, Úganda og Malaví