Kirkjan sem öruggur staður

Kirkjan sem öruggur staður

Ef við væntum þess að kirkjan sé öruggt samfélag, þá hljótum við að gera þær kröfur til hennar að það séu til einhver úrræði sem beita má þegar siðferðisbrot hafa átt sér stað.
fullname - andlitsmynd Arnfríður Guðmundsdóttir
24. september 2009

Hvað er kirkja og hvers væntum við af henni? Að huga að kirkjuskilningi og væntingum til kirkjunnar er nauðsynlegt hverjum þeim sem tilheyrir kristinni kirkju. Tilgangurinn er ekki að setja fram tæmandi svör heldur að stuðla að lifandi umræðu og heilbrigðri sjálfsrýni. Sem þjóðkirkja er evangelísk lúthersk kirkja á Íslandi ein af grunnstofnunum íslensks samfélags og sem slík hefur hún ríkar samfélagslegar skyldur og ber að starfa innan ákveðins lagaramma er henni hefur verið settur. En hún gegnir stærra og meira hlutverki en því sem stofnanaramminn setur henni. Kirkjan okkar er líka samfélag og vettvangur fyrir starf heilags anda á meðal okkar. Hún er samfélag fólks sem er kallað til þjónustu við Guð og innan þessa samfélags eru skilgreind hlutverk falin völdum aðilum. Til þess að sjá um boðun orðsins og útdeilingu sakramentanna eru valdir einstaklingar sem eru sérstaklega vígðir til þessarar þjónustu (Ágsborgarjátningin 5. og 7. gr.). Þessir vígðu þjónar bera augljóslega mikla ábyrgð, ekki aðeins gagnvart Guði heldur einnig fólkinu sem tilheyrir kirkjusamfélaginu. Sem starfsmenn þjóðkirkjunnar og íslenskir borgarar lúta þeir landslögum, en einnig þeim starfsreglum sem kirkjan hefur samþykkt. Þar að auki hafa prestar íslensku þjóðkirkjunnar sett sér siðareglur “til stuðnings og leiðbeiningar í þjónustu við Guð og menn” (http://kirkjan.is/pi/sidareglur ). Af þessum sökum er það eðlilegt að kirkjan okkar geri meiri kröfur til starfsmanna sinna en almennt gerist í íslensku samfélagi.

Á kirkjuþingi haustið 1998 voru samþykktar starfsreglur um meðferð kynferðisbrota innan íslensku þjóðkirkjunnar. Í greinargerð sem fylgdi drögum að þessum reglum segir m.a.:

Þar sem kynferðisbrot felur í sér bæði lítilsvirðingu á mennsku þolanda og misnotkun valds, ber kirkjunni að taka mjög alvarlega ásakanir á hendur starfsmönnum sínum og bregðast við þeim á ábyrgan hátt. Forsenda ábyrgrar afstöðu kirkjunnar er viðurkenning hennar á því að kynferðisbrot geti átt sér stað innan veggja hennar. Allir geta gerst sekir um slík brot, bæði vígðir og óvígðir þjónar kirkjunnar. Allar ásakanir og öll brot skal taka alvarlega, en eðli málsins samkvæmt ber að taka brot vígðra þjóna kirkjunnar sérstaklega alvarlega.

Eins og skýrt er tekið fram í þessum texta eru starfsreglurnar tilkomnar vegna þess að kirkjan viðurkennir að innan hennar geta átt sér stað kynferðisbrot. Starfsreglurnar gera kröfur um réttláta meðferð í slíkum málum, þar sem mál sem varða vígða þjóna kirkjunnar skulu tekin „sérstaklega alvarlega“. Allt er þetta gert í anda eftirfarandi stefnumörkunar:

Kirkjunni ber að leitast við að vera öruggur staður [skáletrun pistilhöfundar] fyrir alla, þar sem hægt er að treysta því að velferð einstaklingsins sé í öndvegi. Mikilvægt er að allir geti treyst því að kirkjan umber undir engum kringumstæðum athæfi sem hefur skaðleg áhrif á andlega og líkamlega velferð viðkomandi. (Sjá: http://kirkjuthing.is/gerdir/1998/18 ).

Ef til vill er það góðs viti að ekki hefur oft reynt á þessar starfsreglur þann tíma sem þær hafa verið í gildi. En við skyldum ekki útiloka að ástæðan sé sú að þolendur slíkra brota hafi veigrað sér við að segja öðrum frá, hvað þá að leita réttar síns. Í samfélagi okkar er ekki langt síðan þolendur kynferðisbrota treystu sér til að koma með sár sín fram í dagsljósið. Reynsla síðustu ára sýnir að þau mál sem farið hafa í gegnum dómskerfið hafa verið fá og oft hafa meintir gerendur verið sýknaðir vegna skorts á sönnunargögnum. Þá hafa meintir gerendur þráfaldlega fengið að njóta vafans. Hér verður ekki dregið í efa hversu flókin þessi mál geta verið og erfitt að dæma um sekt og sönnun þegar vitnisburðir meints þolanda og meints geranda fara ekki saman og engin vitni eru tiltæk. Það hlýtur engu að síður að teljast óviðunandi ástand ef stór hópur þolenda kynferðisbrota velur að leita ekki réttar síns af ótta við að réttlætið eigi undir högg að sækja.

Í þessu sambandi hljóta að vakna spurningar varðandi niðurstöður í máli því sem á síðastliðnu ári var rekið fyrir íslenskum dómstólum, þar sem prestur var sakaður um kynferðislega áreitni gagnvart unglingsstúlkum í söfnuði hans. Presturinn var sýknaður bæði í undirrétti og hæstarétti af því að sú breytni sem sýnd var og sönnuð í meðferð dómsins félli undir refsiramma 199. gr. almennra hegningarlaga um kynferðislega áreitni og sömuleiðis af því að með háttsemi sinni hafi presturinn „sýnt stúlkunum yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, sært þær eða móðgað í skilningi 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002“ (Dómur Héraðsdóms Suðurlands S-538/2008, frá 2. desember 2008. Sjá einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. 684/2008, frá 19. mars 2009). Af dómskjölum má ráða að það er meintur gerandi sem nýtur vafans, en ekki þolendur sem kæra umrædda hegðun. Getur kirkjan sætt sig við það?

Síðastliðið vor var þetta mál sent til umfjöllunar innan kirkjunnar, annars vegar til Siðanefndar Prestafélags Íslands og hins vegar Úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar. Í bréfi Siðanefndar PÍ frá 23. júlí s.l. er að finna eftirfarandi niðurstöðu: „Það er samdóma álit siðanefndar að hegðun …[NN] í ofangreindum tilvikum brjóti í bága við siðareglur PÍ einkum greinar 2.3 og 2.4.“ (http://kirkjan.is/pi/sidareglur ) Í niðurstöðu Úrskurðarnefndar kirkjunnar frá 3. september s.l. segir m.a.:

Úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar telur að viðurkennd háttsemi gagnaðila gagnvart þessum tveimur sóknarbörnum, einkum og sér í lagi þar sem þær voru báðar undir lögaldri, þegar atvikin áttu sér stað, sé háttsemi sem prestur hvorki eigi né megi sýna af sér gagnvart slíkum einstaklingum… Úrskurðarnefnd telur að ekki verði hjá því komist að telja þá háttsemi sem gagnaðili sýndi unglingsstúlkunum tveimur og sem hann sjálfur hefur staðfest, fela í sér ótvírætt siðferðisbrot í skilningi tilvitnaðra laga og reglna. Háttsemi af þessu tagi sé ekki hægt að útskýra með tillitsleysi, ókurteisi eða klaufaskap. Með háttseminni hafi gagnaðili þannig farið útfyrir mörk viðurkenndrar hegðunar gagnvart ungmennum í kirkjulegu starfi. Þrátt fyrir þessa afgerandi niðurstöðu, sem er samdóma niðurstöðu Siðanefndar PÍ, telur Úrskurðarnefnd að hún hafi „engin úrræði vegna siðferðisbrota…“ Sé það rétt, þá eru það alvarleg mistök í þeim lögum og reglum sem Úrskurðarnefnd starfar eftir, sem þarf að leiðrétta sem fyrst. Því hvaða skilaboð eru það um afstöðu kirkjunnar til siðferðisbrota ef engin úrræði eru til staðar?

Í niðurstöðu Siðanefndar PÍ er talað um að úrskurðinum sé ætlað „að vera til leiðbeiningar og vettvangur frekari umræðu um samskipti presta við skjólstæðinga sína“. Þessi ummæli Siðanefndar koma mjög á óvart þegar haft er í huga að nefndin hafi verið sammála um að umrædd hegðun brjóti í bága við siðareglur PÍ. Virðist hér vanta nokkuð upp á því í Siðareglum PÍ 6. gr. segir m.a. um vinnu Siðanefndar:

Hafi sá er kærður er verið félagsmaður P.Í. þegar meint brot er talið hafa verið framið, þá skal siðanefnd P.Í. fjalla um málið. Ef kæra reynist á rökum reist skal siðanefnd kveða skýrt á um hvort brotið var ámælisvert, alvarlegt eða mjög alvarlegt. Ef brot er ámælisvert skal siðanefnd veita viðkomandi presti áminningu. Ef brotið er alvarlegt eða mjög alvarlegt vísar siðanefnd málinu til stjórnar P.Í. ásamt áliti sínu. Stjórn félagsins tekur ákvörðun um hvort vísa skuli viðkomandi úr félaginu…

Hér verður að spyrja: Hvert var mat Siðanefndar á því broti sem framið var? Var það „ámælisvert, alvarlegt eða mjög alvarlegt“? Í 6. gr. kemur skýrt fram að niðurstaða Siðanefndar á að ráða því hvaða úrræðum skal beitt. Eins og í niðurstöðu Úrskurðarnefndar er í bréfi Siðanefndar ekkert að finna um afleiðingar siðferðisbrotsins sem hefur átt sér stað. Það liggur því beint við að auglýsa eftir niðurstöðu Siðanefndar í samræmi við umrædda 6. gr..

Ef við væntum þess að kirkjan sé öruggt samfélag, þá hljótum við að gera þær kröfur til hennar að það séu til einhver úrræði sem beita má þegar siðferðisbrot hafa átt sér stað. Það getur ekki verið ásættanlegt fyrir kirkjuna að hegðun starfsmanns hennar sé siðlaus, svo lengi sem dómstólar landsins telja að hún falli ekki undir þröngan ramma hegningarlaga. Hlýtur kirkjan ekki að gera kröfu um að hegðun starfsmanna hennar sé bæði siðleg og lögleg? Ef að kirkjan aftur á móti treystir sér ekki til að starfa í anda þeirra reglna sem hún hefur sett sér þá ber að fella þær úr gildi. Annað veitir falskt öryggi. Slíkt á tvímælalaust við um lög og reglur um störf Úrskurðarnefndar og starfsreglur um meðferð kynferðisbrota innan íslensku þjóðkirkjunnar. Hafi kirkjan engin úrræði sem beita má þegar hegðun starfsmanns hennar felur í sér „ótvírætt siðferðisbrot“ þá hljótum við að hafa áhyggjur. Það þarf að vera ótvírætt að við getum treyst kirkjunni fyrir börnunum okkar. Við megum undir engum kringumstæðum sýna umburðarlyndi gagnvart ósásættanlegri hegðun á kostnað þeirra sem eru minni máttar, ekki úti í þjóðfélaginu og alls ekki innan kirkjunnar. Af þeim sökum er tvímælalaust full ástæða fyrir okkur að árétta hvaða væntingar við höfum til kirkjunnar okkar, fyrir okkar hönd og barnanna okkar.

Höfundur er prófessor við Guðfræðideild HÍ og var formaður nefndar sem Kirkjuráð skipaði og samdi Starfsreglur um meðferð kynferðisbrota innan íslensku þjóðkirkjunnar.