Svo bar við á ferð Jesú til Jerúsalem að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt mættu honum tíu líkþráir menn. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“Jesús sá þá og sagði við þá: „Farið og sýnið yður prestunum.“ Þeir héldu af stað og nú brá svo við að þeir urðu hreinir.
En einn þeirra sneri aftur er hann sá að hann var heill orðinn og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?“ Síðan mælti Jesús við hann: „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“ Lúk 17.11-19
Þakka ykkur fyrir, þið sem syngið og með iðkun og tjáning hljómlistarinnar beinið hugum okkar hinna til linda hins fagra, sanna og bjarta, þakka ykkur fyrir. Þakka ykkur, kæra kórfólk og organistar, sem auðgið og lyftið guðsþjónustu helgidómanna til sjávar og sveita á helgum og hátíðum árið um kring. Við eigum öll hlýjar minningar af því hvernig söngur og tónlist hefur lyft huga í hæðir á stóru stundunum í lífinu, tjáð þökk og gleði, sorg og söknuð, von og trú. Þakka ykkur fyrir það.
Nú stendur yfir Kórastefna kirkjunnar. Eitthundrað og fimmtíu kirkjukórafélagar af öllu landinu leiða sönginn hér í Hallgrímskirkju í dag, fulltrúar hinna mörgu kirkjukóra landsins. Þessi stóri kór mun einnig syngja hér á hátíðartónleikum í dag kl. fimm ásamt einsöngvurum og hljómsveit undir stjórn þeirra Harðar Áskelssonar, söngmálastjóra og Jóns Stefánssonar, organista. Í gær var Sálmafoss, samfelld dagskrá hér í kirkjunni fram á kvöld þar sem stöðugur straumur fólks kom í helgidóminn til að hlusta og til að syngja með. Það var undursamlegt að reyna og sjá. Þakka ykkur sem hafið skipulagt þessa daga, Kórastefnu kirkjunnar og Sálmafoss nú á Menningarnótt og reitt fram þau dýrindis nægtaborð sem við höfum fengið þar að njóta. Á bak við það allt var mikill og einbeittur undirbúningur, ögun, þjálfun, þrotlausar æfingar. Og þess vegna fannst okkur hinum þetta allt koma af sjálfu sér. Nei, það er fátt sem kemur af sjálfu sér. Og nú er menningarnótt liðin og menningardagur runninn upp. Menning er nefnilega sannað og meir en einstök tiltæki neyslu og viðburða.
Í ár er Ár sálmsins í kirkjunni, og þess minnst að átta aldir eru liðnar frá dauða Kolbeins Tumasonar. Sálmur hans, „Heyr, himnasmiður,“ er elsti norræni sálmurinn sem sunginn er á frummálinu, lifandi þáttur í trúarlífi og tilbeiðslu landsmanna. Það er ekki síst vegna hins hrífandi sálmalags Þorkels Sigurbjörnssonar, sem þjóðin hefur fyrir löngu lagt sér að hjarta og okkur finnst sem tilheyrt hafi þessum sálmi frá upphafi. Þannig mætast aldir og kynslóðir í þessum sálmi, þessari fornu bæn og hugnæma lagi, játningu og trúartrausti. Svona er kirkjan einatt. Hún er brú milli alda og kynslóða, þær rúmast allar þar inni, og hver og ein leggur sinn hljóm og sín stef að lofgjörð hennar og tilbeiðslu, játning og bæn. Það er mótun menningar og samfélags. Menning er samhengi, sameiginlegrar reynslu, minninga og vona.
Guðspjall dagsins segir frá kraftaverki og fjallar um þakklæti, og vanþakklæti, eða gleymsku. „Hennar líf er eilíft kraftaverk“ er sungið um íslenska þjóð, og það er ekki ofmælt og vert að muna og þakka. Líf þessa lands og þjóðar er kraftaverk.
Haft hefur verið á orði að afreksmennirnir okkar á Ólympíuleikunum hafi unnið kraftaverk. Já, við sendum þeim okkar innilegustu heillaóskir- , en þeir ná svo langt sem raun ber vitni vegna mikillar þjálfunar líkama og sálar. Þar fer saman líkamsþrek, fimi og frækni, og jákvætt hugarfar, samstilling, ögun, liðsandi. Íslenska þjóðin öll barðist í anda með þeim á vellinum og stóð með þeim á pallinum, stolt og glöð. Þetta hefur verið okkur dýrmæt og mikilvæg áminning um það hvað það er sem gerir okkur þjóð, það er m.a. að eiga sameiginlega reynslu í sigrum, jafnt sem og í ósigrum. Og það er ögun og uppeldi sem beinist að samstilling og samstöðu til góðs fyrir líf og heim. Í gær hlupu þúsundir um götur Reykjavíkur, ungir og gamlir, þrautþjálfað afreksfólk í íþróttum sem og þetta venjulega afreksfólk hversdagsins. Margir hlupu til ágóða fyrir góð málefni, svo sem „Einstök börn“ og Hjálparstarf kirkjunnar. Sérstaklega var ánægjulegt að sjá þarna fjölda foreldra með börn sín og unglinga. Þarna birtist menning, sem er ekki framleiðsla og neysla heldur sameiginleg reynsla sem virkjar hið jákvæða og góða, og vekur von og gleði og tengir kynslóðirnar í sameiginlegum verkefnum.
Menning er minning.
Þakklætið er minning hjartans, það léttir byrðarnar, líknar og læknar. Helgidómarnir og helgidagar og hátíðir okkar eru vörður minninga um sameiginlega reynslu og þakkarefni. Guðstrú, guðsþjónusta, tilbeiðsla, bæn, er í innsta grunni það að þakka, að snúa við og gefa Guði dýrðina, eins og hann gerði útlendingurinn í guðspjalli dagsins, snúa við og gefa Guði dýrðina, þakka honum í auðmýkt. Guðsþjónustan með söng sínum og tónlist er æfingaprógram, hún er æfing í því að þakka, hún er þjálfun í þakklæti og auðmýkt gagnvart lífinu og Guði.
Tónlist og tilbeiðsla hafa ævinlega fylgst að í kristninni. Guðbrandur Hólabiskup sagði:„Hér að auki uppvekur söngurinn með sínu fegurðarhljóði mannsins hjarta til sérlegrar hræringar við Guð, burt drífur djöflana og laðar að oss Guðs góða engla, burt rekur hryggð, sorg og hjartans angist og gjörir erfiði mannsins létt...” Við skiljum hvað hann á við.
Manstu eftir sögu HC Andersens um Litla Kláus og Stóra Kláus? Frábær saga, svolítið kvikyndisleg kímni óneitanlega, þætti ef til vill ekki við hæfi barna í dag. En þar er þetta óborganlega atvik þegar Stóri Kláus rogast með Litla Kláus í poka til að drekkja honum í ánni. Leiðin er löng og pokinn ótrúlega þungur. Svo kemur hann að kirkjunni og þar stendur yfir messugjörð. Stóri Kláus leggur pokann með Litla Kláusi niður við kirkjudyrnar og fer inn. Þarna liggur Litli Kláus í pokanum og harmar örlög sín, kveinar sáran yfir því að hann svo ungur skuli þurfa að fara til himnaríkis svona allt of fljótt. Þá ber þar að gamla kúasmalann, örmagna og útslitinn gamlinginn. Hann þráir það eitt að komast sem fyrst til himnaríkis. Og skiptir við Litla Kláus. Þegar Stóri Kláus kemur út úr kirkjunni skilur hann ekkert í því hvað pokinn hefur lést. „Það hlýtur að vera vegna þess að ég var að hlusta á sálmasönginn,“ hugsar hann með sjálfum sér.
Í sögu sinni tengir H.C.Andersen inn á þetta sem Guðbrandur talaði um, og við könnumst við. Sálmasöngurinn lyftir sál og gerir byrðina léttari og veginn greiðari.
Auðvitað hefði sálmasöngurinn átt að gera Stóra Kláus að betri manni. Hugsanlega hefði hann orðið betri maður ef hann hefði ekki látið sér nægja að vera neytandi og hlusta á sálmasönginn, heldur tekið undir hann og leyft hjarta sínu að ljúkast upp í söng. Hver veit nema orðið hefði þá náð til hjarta hans og mildað harðúðina sem þar bjó og bægt frá öfundinni og laðað að engla umhyggju og fyrirgefningar? Hver veit. Lúther lagði áherslu á að söfnuðurinn eigi ekki að láta sér nægja að hlusta og lesa orðið, heldur að gefa því mál og róm með samsöng sálmanna. Til þess að orðið hræri innstu strengi hjarta og sálar og virki vilja og hönd til góðra verka. Söngurinn er nauðsynlegur tilbeiðslunni og trúnni, og samfélagi og menningu, ekki einvörðungu vegna heilsusamlegra áhrifa hans á einstaklinginn sem hans nýtur. Söngurinn treystir samhengið og tjáir það sem er orðum æðra og dýpra. Hann tjáir undur lífsins, sköpunarinnar, kraftaverk fyrirgefningar og kærleika, leyndardóm krossins og upprisunnar, - já, og það megnar eiginlega aðeins söngurinn að tjá – og þögnin.
Guðspjall dagsins segir frá tíu holdsveikum mönnum sem urðu á vegi Jesú og hófu upp raust sína í ákalli um miskunn. Miskunnarbæn þeirra hlaut svar, heilir meina sinna hröðuðu þeir sér á brott, orðalaust. Það er ótrúlegast alls við þessa frásögn, þetta vanþakklæti. Það að þeir, sem fengið höfðu bænasvar þáðu án þess að þakka, allir nema einn, og það var útlendingur. Hann sneri við og gaf Guði dýrðina. Hann einn.
Óskiljanlegt. Eða hvað?
Þiggjum við ekki daglega lífsins gjafir, lán og gæfu, og finnst það sjálfsagt allt? Er ekki vanþakklætið rót ótal meina? Við hrifsum og heimtum og krefjumst réttar okkar af hendi lífsins og samferðarfólks og máttarvaldanna. „Maðurinn er snauðastur allrar skepnu,“ sagði trúmaður til forna, og bætti við:„hann getur ekki einu sinni haldið á sér hita án hjálpar jurta og dýra.“ Við erum þiggjendur. Lífið, lífsins gæði eru að láni, okkur lagt til óverðskuldað út örlátri hendi hins milda máttar sem er Guð. Guðsþjónustan í kirkjunni er æfingaprógram í þakklæti, þjálfun í því að beina huga og sál til hans sem er gjafari allra góðra hluta, og minnast þess góða sem við njótum af hálfu lífsins, ástvina og samferðarfólks. Þess vegna getum við ekki án hennar verið, sem einstaklingar og sem menning og samfélag.
„Það auðkennir þau sem elska að þau syngja” sagði Ágústínus kirkjufaðir endur fyrir löngu. Og hann vissi hvað hann söng. Ágústínus sagði líka við kirkjukórinn sinn: „Elsku börnin mín… Syngið Drottni nýjan söng! Heyrðu! - segið þið -, við erum að syngja! Já, þið syngið, ég heyri það, þið syngið hátt. En verið viss um að líf ykkar sé ekki í mótsögn við söng ykkar. Syngið með vörum ykkar og röddum, hjörtum, lífi og breytni. Syngið Drottni nýjan söng... Lifið vel og þið munuð sjálf vera lofsöngur hans.“ Tökum þetta til okkar!
Við höfum orðið á vegi Jesú eins og þeir tíu forðum. Hverju sinni sem kallað er til helgra tíða í helgidóminum, hverju sinni er orð Guðs ber að eyrum, þegar huga og máli og söng er beint til hæða þá fáum við tækifæri að snúa við og gefa Guði dýrðina. Þegar við göngum hér innar hér á eftir og þiggjum brauð og vín í helgri máltíð altarisins, hlustum þá eftir orðinu hans sem segir við okkur, eins og við útlendinginn forðum: „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“