Látrabjargsbjargvættur

Látrabjargsbjargvættur

Ef við lítum á þennan minnisvarða fórnfýsi og mannúðar í tilefni safnadagsins, virðist fátt meira viðeigandi í ljósi biblíutexta dagsins sem fjalla um verk manneskjunnar sem ávexti trúarinnar.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum & Drottni Jesú Kristi. Í dag er safnadagur sem minjasafnið á Hnjóti heldur hátíðlegan, m.a. með því að bjóða til kaffis eftir þessa guðsþjónustu, á þessum fallega sunnudegi eftir leiðindaveður síðustu daga.

Egill Ólafsson, maðurinn að baki minjasafnsins er sagður hafa verið aðeins um 12 ára þegar hann byrjaði að safna munum, en fyrstu gripirnir voru netanál & tóbaksskurðjárn. Ýmsir merkir munir finnast í þessu safni, sem er vægast sagt búið að stækka umtalsvert síðan Egill heillaðist af netanálinni. Ef mynd segir þúsund orð segir einn fornmunur heila sögu & má segja að minjarnar á Hnjóti sýni betur en orð fá lýst lífseiglu fólks hér á Vestfjörðunum.

Ein af sýningunum þar er um björgunarafrekin við Látrabjarg 1947 & 8, eins & mörgum eru kunnug. Margir standa að baki sýningarinnar sem er fengin að láni frá Þjóðminjasafninu & styrkt af Menningarráði Vestfjarða & safnaráði & glöggt má sjá að vandað er til verka í alla staði. Sýningin fjallar ekki bara um það hvernig sjómönnum breska togarans Dhoon var bjargað undir Geldingsskoradal 1947, heldur líka hvernig skipsverjum Sargons, annars bresks togara, var bjargað ári síðar við Hafnarmúla rétt hjá, nánast við sömu skilyrði. Vildi svo ótrúlega til að tökulið við heimildarmyndagerð um björgunina var viðstatt, þar sem gerendurnir léku sig sjálfa & hófust síðan til handa við að bjarga skipsverjum Sargons. Myndefnið sem var tekið er ómetanleg heimild sem hefur vakið athygli víðsvegar um heim.

Erfitt væri að ímynda sér þrek & dug hinna fátæku bænda, sem björgunarliðið samanstóð að mestu af án heimildarmyndarinnar. Það er hreint magnað á að líta er þeir síga niður óárennilegt klakabrynjað bjargið, þverhnípt gnæfandi upp úr sjávardjúpinu eins & geysistór höggmynd. Með takmarkaða tækni & mannafla sigu þeir niður frá Flauganefi niður í fjöruna, en sú hæð jafngildir um tveimur & hálfri Hallgrímskirkju. Björgunin var sögð vera í nafni fórnfýsi & mannúðar & einkenndist öll aðkoma af gætni, íhugun & stillingu, sem vó þyngra en flýtir & hvatvísi, margt mættum við læra af því!

Í myndinni má heyra undirspil þýskrar sinfóníuhljómsveitar í bland við taktfastan óm af ólgandi, sogandi, dynjandi hafi, sem sveipaði vindnæðinginn & gusuganginn kringum togarann töfrandi ljóma. Sú aðgætni sem björgunarmennirnir sýndu er umhugsunarefni, birtist t.d. er sjómennirnir bresku héngu í lítilli pokatuðru með kút um mittið, á einföldum kaðli yfir ólgandi briminu. Sagan birtir okkur ekki aðeins kjark, hugrekki, festu og dugnað heldur glæðir trúna á hið góða í mannkyninu. Sagan birtir líka hversu stórbrotið lífið getur verið, sérílagi hér á Vestfjörðunum, & hversu skýrt innræti fólks getur birst á ögurstundum.

Ef við lítum á þennan minnisvarða fórnfýsi og mannúðar í tilefni safnadagsins, virðist fátt meira viðeigandi í ljósi biblíutexta dagsins sem fjalla um verk manneskjunnar sem ávexti trúarinnar. Varðveittar minningar fyrri tíða lýsa fyrir okkur hvernig hugsjónir forfeðra okkar og mæðra birtust í verkum þeirra, til að mynda í fagurfræði og notagildi áhaldanna sem virðast ef til vill ekki vera verðmæt við fyrstu sýn, en dýrmæti þeirra skýrist oft eftir því sem við sýnum þeim áhuga og virðingu.

Í fornmunum fáum við greint ótal margt, ekki bara lifnaðarhætti, hugvitsemi & stílbrögð heldur hjartalag þeirra sem sköpuðu þann arf sem við erum aðnjótandi.

Ef við færum meðvitundina um mikilvægi fornra muna yfir á okkar eigin aðstæður, sem lifandi sögulegar manneskjur, má minnast hvernig Guð biður okkur í sífellu að minnast hversu óendanlega dýrmæt við erum honum. Sem lifandi mótendur sögunnar, sitjandi á sögulega merkum stað getum við litið á eigið líf í víðara samhengi & fundið hvernig í stórbrotnum & hversdagslegum atburðum tilveran virðist flétta saman sögulega atburðarrás & nærveru Guðs í lífinu. Þegar litið er til baka má ef til vill finna hvernig Kristur hefur birst, líkt & bóndi birtist örmagna sjóara við Látrabjarg. Við höfum ef til vill fundið hvernig hann seig niður bröttustu þverhnípi til að veita okkur bjargráð í lífsins ólgusjó, þegar sterkir straumar voru við það að draga okkur til sín.

Sömuleiðis getur Kristur hafa birst okkur í þeim sem hafa verið þurfandi og þjáðst, líkt og skipsbrotsmenn, er við með Guðs styrk mættum þörfum þeirra. Kristur getur þannig bæði birst okkur sem Látrabjargsbjargvættur og skipbrota sjómaður.

Megi Guð gefa okkur gæsku & visku til þess að skilja hvernig líf okkar er háð hugrekki, kjarki, dugnaði, heiðarleika & trúfesti annarra, að við séum vakandi fyrir þörfum hvers annars. Megi Guð varðveita hjarta okkar sem uppsprettu trúar & lífs, að ljóstýran í vitahúsi hjartans megi af mildi stýra okkur frá lífsins skipsbrotum. Guð blessi okkur þennan dag, varðveiti minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti og allar minjar Íslendinga.

Dýrð sé Guði föður vorum & Drottni, Jesú Kristi & heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn & verða mun um aldir alda. Amen.