Þeir postularnir Pétur og Páll eiga síðasta og fyrsta orðið við kirkjuáramót 2007. Pétur skrifar (2Pét 3.10-13, pistill síðasta sunnudags kirkjuársins):
En dagur Drottins mun koma sem þjófur og þá munu himnarnir líða undir lok með miklum gný, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna. 11Þar eð allt þetta ferst, þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi 12og bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi. Þá munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita. 13En eftir fyrirheiti hans væntum við nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr.
Og Páll hefur þetta til málanna að leggja (Róm 13.11-14, pistill fyrsta sunnudags í aðventu):
Gerið þetta (þ.e. að leggja stund á kærleika) því heldur sem þið vitið hvað tímanum líður, að ykkur er mál að rísa af svefni. Nú er okkur hjálpræðið nær en þá er við tókum trú. 12Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins. 13Lifum svo að sæmd sé að, því nú er dagur kominn, en hvorki í ofáti né ofdrykkju, hvorki saurlífi né svalli, ekki með þrætum eða öfund. Íklæðist heldur Drottni Jesú Kristi og leggið ekki þann hug á jarðnesk efni að það veki girndir.
Þarna eru mörg stef, ýmislegt til umhugsunar. Hugum að þrennu.
Í fyrsta lagi: Lýsing síðara Pétursbréfs á endalokum jarðarinnar er ekki fjarri þeim veruleika sem við okkur blasir á 21. öld. Manngerð vá af völdum tækni og stríðstóla hefur vofað yfir okkur allt frá síðari heimstyrjöld. Náttúruhamfarir eru æ tíðari, einnig að hluta til af völdum okkar mannanna. Illskan veður uppi með kúgun, ofbeldi og þrældómi karla, kvenna og barna. Við vitum ekki hve lengi þetta getur gengið svona. Veröldin verður að breytast og mun taka á sig aðra mynd en þá sem við þekkjum í dag. Spurningin er bara hvenær og hvernig.
Í öðru lagi: Við eigum, samkvæmt Pétri, að bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi. Kristið fólk á hvorki að forðast þann veruleika sem við blasir né hræðast hann. Við eigum að taka fullan þátt í endurnýjun jarðar, taka fulla ábyrgð á hegðun mannsins með því að berjast gegn stríðsvæðingu, umhverfisspjöllum og vanhelgun manneskjunnar. Biðin sem talað er um er ekki óvirk bið, að sitja með hendur í skauti. Við vitum hvað tímanum líður. Okkkur er mál að rísa af svefni í fullri meðvitund um ástandið eins og það er og löngun til að hafa áhrif, vænta og flýta fyrir nýjum himni og nýrri jörðu, þar sem réttlæti býr.
Í þriðja lagi: Við flýtum fyrir umbreytingunni með því að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni. Páll postuli brýnir okkur til að leggja af verk myrkursins og klæðast hertygjum ljóssins, því hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann kom, kemur og mun koma í heiminn, það er Jesús Kristur (Jóh 1.9). Þetta þýðir Páll svo á mannamál með þessari gullvægu setningu: Lifum svo að sæmd sé að. Lifum svo að sæmd sé að, nánar tiltekið græðgislaust, án ágirndar hverju nafni sem hún nefnist. Þannig vinnum við að, hvert og eitt, réttlátari heimi, sem Guð mun koma á með sínum hætti. Höfum sterka sjálfsmynd sem kristið fólk, þess fullviss að okkar framlag skipti máli.