Forgangsraðað af ástúð

Forgangsraðað af ástúð

Þetta má orða með öðrum hætti: Við þurfum að minnka mengun, auka jafnræðið í heiminum og ekki bara fækka þeim sem búa við skort og hungur heldur útrýma slíku.

Þessa leið

Dagar

Við höldum upp á marga daga á hverju ári og höfum gert um aldir: afmælisdagana okkar og hátíðir af ýmsum toga. Fram að tíma siðbótarinnar á 16. öld voru dýrlingadagar líka mikilvægir hér á landi. Dýrlingarnir viku með siðbótinni og kirkjuárið varð minna áberandi þegar tuttugasta öldin hafði gengið í garð.

Þjóðin átti samt sína daga og hélt í hátíðir. Við sjáum merki um þetta þegar Almanaki Háskóla Íslands er flett. Þar er hægt að fletta upp dagsetningum á næstum árum – fjögur ár fram í tímann og nokkrir dagar eru alltaf tilgreindir:

  • Bóndadagur
  • Páskadagur
  • Sumardagurinn fyrsti
  • Uppstigningardagur
  • Hvítasunnudagur
  • Fyrsti vetrardagur
Þrír af þessum dögum eru kirkjulegir: Páskadagur, uppstigningardagur, hvítasunnudagur. Hér höfum við meira að segja tvær af stóru hátíðunum þremur. Sú þriðja er ekki talin upp af því að hún er alltaf á sama tíma. Annars væri hún á þessum lista. Þarna vantar líka svo þjóðardaga: þjóðhátíðardaginn 17. júní og fullveldisdaginn 1. desember.

Það eru reyndar fleiri dagar sem haldið er á lofti í samtímanum. Ekki í Almanaki Háskóla Íslands en í öðrum almanökum. Þeir eru heimsdagar – dagar sem Sameinuðu þjóðirnar eða aðrar stofnanir sem starfa á heimsvísu hafa útnefnt til að setja ákveðin mál á dagskrá. Þessir dagar eru eiginlega veraldlegar útgáfur af dýrlingadögum kaþólsku kirkjunnar.

Hvers vegna? Vegna þess að hver dýrlingur átti sitt verksvið. Og á degi dýrlingsins var hægt að minnast þess sem dýrlingurinn stóð fyrir og leggja áherslu á það sem hann gerði.

Hverjir eru þá þessir heimsdagar?

  • 4. febrúar er Alþjóða krabbameinsdagurinn
  • 8. mars er Kvennadagurinn
  • 20. mars er Hamingjudagurinn
  • 2. apríl er Einhverfudagurinn
  • 22. apríl er umhverfisdagur, helgaður Móður jörð
  • 1. júní er dagur Foreldra
  • 20. júní er dagur flóttafólks
  • 12. ágúst er Dagur ungmenna
  • 8. september er Dagur læsis
  • 5. október – á morgun – er dagur kennara
  • 1. desember er AIDS dagurinn
Dagarnir eru miklu fleiri en þessir – það er að minnsta kosti einn einn svona dagur á viku.

Heimsmarkmiðin

Vikan sem leið var líka helguð ákveðnu efni. Sameinuðu þjóðirnar buðu skólakrökkum um allan heim upp á fræðslu um sjálfbæra þróun. World's largest lesson var yfirskriftin. Stærsta kennslustund í heimi. Og kannski var fjallað um mikilvægasta efnið líka!

Tilefnið eru nýsamþykkt Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Í þeim felst áætlun um sjálfbæra þróun sem miðar að því að útrýma fátækt í heiminum, stuðla að efnahagslegri velmegun, félagslegri þróun og vernd umhverfisins um allan heim. Alls eru heimsmarkmiðin sautján markmið í fimm meginflokkum og þau fjallað um fólkið fólk, plánetuna, velmegun, réttlæti og félagsskap ríkjanna á jörðinni.

Hvers konar markmið eru þetta?

  • Útrýma fátækt
  • Vinna gegn loftslagsbreytingum
  • Draga úr ójöfnuði
  • Stuðla að friði
  • Sinna um hvert annað með þróunaraðstoð
Þetta má orða með öðrum hætti: Við þurfum að minnka mengun, auka jafnræðið í heiminum og ekki bara fækka þeim sem búa við skort og hungur heldur útrýma slíku.

Jesús horfði með ástúð

Jesús sagði við unga manninn sem kom spyrjandi til hans:
„Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“
Já, já, ég kann þetta og passa upp á það eins og mér var kennt hefur ungi maðurinn kannski sagt. Og hvað þýðir það? Ætli það þýði ekki að gæta þess að koma ekki illa fram við aðra, níðast ekki á þeim.

En það er bara ekki nóg segir Jesús sem horfir fallega á unga manninn – „með ástúð“ segir í guðspjallinu og bætir svo við:

„Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“
Hvað á hann eiginlega við? Mig langar að segja tvennt um það.
  • Það fyrra er þetta: Jesús segir að við vinnum okkur ekki inn fyrir himnaríkisvistinni með því að gera góðverk. Markmiðið er semsagt ekki að verða besta manneskja í heiminum svo Guði líki betur við þig og segi af þeim sökum: Þú ert minn því þú ert svo góður.
  • Hið síðara er: Jesús gefur boðorðunum ákveðna fyllingu þegar hann segir að það sé nauðsynlegt að ganga lengra þegar honum er fylgt. Marteinn Lúther lagði þetta svona út í Fræðunum minni: Þú átt ekki aðeins að halda þig frá því að stela frá náunganum, þú átt að hjálpa honum að gæta eigna sinna. Og svo framvegis. Boðorðið snýst ekki aðeins um að hafa taumhald á sér heldur að gera gott fyrir náungann.
Markmiðið er semsagt að verða besta útgáfan af þér af því að Guði líkar vel við þig og segir: Þú ert minn, þú ert mín, gerðu því gott.

Þetta má orða með öðrum hætti: Treystu Guði, elskaðu náungann.

Það er kjarninn.

Okkar markmið

Ég held að Heimsmarkmiðin snúist líka um þessa umhyggju fyrir öðrum – um náungakærleikann. Hvert land sem á aðild að Sameinuðu þjóðunum á að skuldbinda sig til að vinna að þessum markmiðum. Gera áætlun og bretta upp ermar og hefst handa. Hvort árangur næst kemur svo í ljós – eftir fimmtán ár.

En kannski getum við líka tekið þetta til okkar. Skoðað hvað við getum gert í eigin ranni. Sett okkur heimamarkmið hér á okkar svæði – á Kjalarnesinu og í Kjósinni. Því þetta er ekki bara málefni ráðherranna og Alþingis. Þetta er málefnið okkar. Þetta snýst um lífið okkar og samfélagið okkar.

Eitt sem við gætum til dæmis gert væri að taka upp umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar og fylgja Ljósaskrefinu sem er handbók handa söfnuðum eins og okkur sem vilja skilja eftir sig falleg spor og sýna umhverfinu virðingu.

Dagur forgangsröðunarinnar

Kæri söfnuður. Ég hóf þessa prédikun á að ræða um dagatal og heimsdaga. Dagurinn í dag heitir í kirkjunni Átjándi sunnudagur eftir Þrenningarhátíð – en það segir okkur lítið um inntak hans. Ef við vildum draga það saman þá mætti kalla hann Dag forgangsröðunarinnar því um það fjalla lestrarnir og einkum guðspjallið: Hvað á ég að gera spurði ungi maðurinn? Sinntu fólki og ekki bara sjálfum þér svaraði Jesú. Og þannig svarar hann okkur líka þegar við spyrjum hvað við eigum að gera.

Um hvað snýst það?

Forgangsröðun. Fyrir náungann – sem eru þau öll sem þurfa á okkur að halda. Fyrir samfélagið okkar. Það er að vera kristin manneskja. Því Guð vill trúna þína og náunginn þarf hendurnar þínar og hjartað.