Þegar við biðjum spennum við gjarnan greipar eða leggjum saman hendur. Hendur skipta miklu máli í lífinu - bænalífinu líka. Horfðu á hönd þína. Þú þekkir handarbakið sem blasir við þér, þekkir hvernig æðarnar hríslast. Svo er lófinn. Kannski hefur einhver spáð í líflínu og myndagátu lófans? Þegar ég kveð fólk við kirkjudyr finn ég vel hve ólíkar hendurnar eru og að þær tjá mjög mismunandi sögur og jafnvel atvinnu fólks. Við tökum í hendur annarra, við heilsum og kveðjum gjarnan með handtaki. Við notum orðið handaband – það segir okkur að samskipti komast á, band verður milli þeirra sem takast í hendur. Handaband hefur á stundum verið ígildi undirskriftar. Handsal var gilding og við hjónavígslu er handabandið mikilvægt í stofnun hjúskaparins. Svo sláum við saman höndum í gleði. “Give me five” – og það eru allir puttarnir – gefðu mér alla hönd þína og gleðjumst saman.
Þegar við leggjum saman hendur verður það gjarnan til að kyrra huga. Og við getum líka notað hendurnar til stuðnings bænaiðju rétt eins og margir nota bænaband til að fara yfir ákveðnar bænir. Fingurnir eru mismunandi og hægt að nota þá til aðstoðar í samtalinu við Guð. Eðlisþættir puttanna geta minnt á mikilvæga þætti, sem við megum gjarnan orða við himinvin okkar. Þeir geta orðið okkur hinir þörfustu guðsgaflar.
Þumall og styrkur
Þumalfingur eða þumalputti er jafnan sterkasti puttinn á fólki. Þegar við smellum þumlinum upp er það ekki aðeins merki um hrós heldur getum við þar með minnt okkur á ákveðið bænaefni. Hvað vegur þyngst, hvað skiptir þig mestu máli í lífinu? Er ekki ástæða til að þakka Guði fyrir það? Hugsaðu nú um það hvað er mikilvægast. Er það ekki fólkið þitt, foreldrar, maki, börn, aðrir ástvinir og vinir? Er það heimili þitt og velgerðarmenn, sjúkrastofnun - nú eða kirkjan þín? Er ekki gott að þakka Guði fyrir öll og allt sem styrkir þig í lífinu, gerir þig sterkari, eflir þig, varðveitir þig? Þumallinn sem bænafingur er táknfingur styrkleikans og minnir á stoðirnar þínar.
Vísifingur og vitringarnir
Svo er það næsti putti - vísifingur. Við notum hann til bendinga, við vísum til einhvers og bendum á. Hann gengur því líka undir nafninu bendifingur. Svo er vísifingur stundum sleikifingur af því börnin nota hann til að grafa í sultu, smjör, ís eða annað sem heillar og sleikja puttann svo. Börnin nota sleikifingur sem guðsgaffal, en við megum gjarnan skófla upp trúarlegri merkingu frekar en sætu í munninn.
Hverjir eru það sem vísa þér veg, benda þér áfram, hjálpa þér og ganga með þér veginn? Biddu fyrir þeim, sem eru svo leiðbeinandi í lífinu, vinum, kennurum, læknum, vitru fólki, spekingum, kirkjufólki, hjúkrunarfólki. Það er vert að þakka fyrir þetta fólk, biðja fyrir því, benda Guði á að það er að liðsinna og efla lífið.
Langatöng og leiðtogar
Lengsti fingurinn á flestum er langatöngin og til er lengra nafn þess putta – langastöng. Hvaða bænir minnir þessi lengsti putti á? Fyrir hverju biðjum við þegar við snertum löngutöng? Í kirkjum á Íslandi og meðal trúmanna um allan heim er beðið fyrir þeim sem eru leiðtogar. Við biðjum fyrir fólki í ábyrgðarstöðum, fyrir þjóðhöfðingja okkar, dómurum, fyrir alls konar stjórnvöldum, fyrir þeim sem gegna mikilvægum ábyrgðarstörfum, taka ákvarðanir sem geta orðið til mikils góðs eða valdið miklu tjóni. Langatöngin sem bænafingur minnir okkur á að biðja Guð að laða fram hið besta í langintesunum í hinum opinbera heimi. Leiðtogar eru ekki aðeins einstaklingar heldur hreyfingar, stofnanir, menningarfyrirbæri, vefur menningar og straumar hennar.
Baugfingur og hin veiku
Þá er það fjórði puttinn. Hvað einkennir baugfingur annað en það að á þann putta er gjarnan settur hringur, baugur? Þessi putti, sem líka gekk undir nafninu hringfingur og græðifingur, er gjarnan kraftminnsti puttinn. Hvað minnir máttleysi okkur á? Kannski þau, sem hafa misst þrek og þor, vinnu, eru fjárlaus eða syrgjandi. Máttleysi minnir okkur líka á öll þau sem líða vegna einhverra vondra aðstæðna, nær og fjær. Þegar við snertum baugfingur megum við biðja fyrir þeim sem líða vegna rangra stjórnvalda, fyrir þeim sem eru kúguð, fyrir þeim sem eru hamin af félagslegum, líkamlegum eða pólitískum aðstæðum. Vitja þeirra Guð, sem hafa verið umkringd af hinu rangláta.
Litli fingur – þú og ég
Og þá er komið að litlaputta. Hvað er eftir á bænalistanum? Það ert þú. Litli puttinn er putti sjálfsins. Þegar kemur að litla fingri þá er komið að öllu því sem þú ert. Hvernig biður þú og hvernig viltu nota þenna guðsgaffal? Byrjaðu á þakkarefnum. Þakkaðu Guði fyrir allt það stórkostlega, sem þú hefur notið og er það ekki talsvert? Farðu yfir gleðiefnin þín, yfir það sem Guð gefur þér í líkama þínum, hjartsláttinn og blóðrennslið, að þú getur hreyft þig, hlegið, nærst og glaðst yfir. Allt, sem þú skynjar, er undur til að gleðjast yfir, litirnir, golan sem kyssir eyrnasnepla þína og kitlar þig í nefið. Já bækurnar sem þú lest, hugmyndir sem kvikna í þér, allt sem þú bragðar og er til góðs, tónlistin sem flæðir í huganum, ástin í brjósti þér, getan til að hrífast, frelsið og málið. Og svo er það líka hitt, sem hemur þig, er þér erfitt og hvílir á þér. Við reynum að létta litla putta byrðar. Eins er það í bænunum. Byrjaðu á plúsunum og farðu svo í mínusana – en svo aftur í plús. Þannig er ölduhreyfing bænamálsins. Allt byrjar í Guði, dýfist síðan niður í mannlífsgleði, fer alla lið niður á botn og svo upp aftur inn í eilífð ljóss og vona.
Fingurnir geta aðstoðað þig með þessu móti til bæna, til að leiðbeina þér við bænaiðjuna. “Give me five.”
Skotbænir
Til er eru bænir sem hendast fram, skyndibænir sem við getum kallað skotbænir (oft kallaðar á enskunni arrow-prayer). Þegar við lendum í kreppu og háska hrópum við upp skotbæn, sem flýgur eins og skot upp í himininn. En skotbænir geta orðið til á göngu, einföld bæn, athugasemd, hróp, hjálparbeiðni, viðurkenning á angist eða þörf. Bíltúrar eru ágætir fyrir svoleiðis iðju, samtal við Guð um ákveðið efni, hvort sem það nú er um þig, ástvin eða viðfangsefni. Það er mun meira beðið í bílum en menn gera sér grein fyrir og það eru ekki aðeins bílabænir.
Bænir - lífsiðja
Jesús sagði: “Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða.” Já við ættum að biðja, biðja mikið. Bænir eru eðlilegur þáttur í kirkjulífi og á afmörkuðum stundum dags og æfinnar. En bæn má verða eins eðlilegur þáttur lífsins og andardráttur. Það er ekki einkennilegt, að bænin er nefnd andardráttur trúarinnar. Og þar sem bænin má vefjast inn í allt lífið, verða meginþáttur í lífi okkar megum við gjarnan leyfa okkur skapandi bænaafstöðu. Við megum bæði draga lærdóm af bænafólki í eigin trúarhefð en líka öðrum trúarhefðum. Margt í íhugunarstellingum hinna miklu trúarhefða má nota til eflingar eigin bænaiðju. Við megum gjarnan nota það sem höfðar til fegurðarskyns okkar og vefja inn í bænagerðina. Ljós skiptir trú og trúartúlkun máli, notið kerti – en gætið að eldinum!
Bænaiðja er atferli sem er eins og allt annað í lífinu. Stundum er auðvelt að biðja, stundum erfitt. Stundum er eins og himininn sé tómur og stundum verðum við hrifin í sjöunda himinn og öllu er svarað greiðlega sem við ræðum við Guð. Oflæti í bænaiðju er kannski ekki það sem reynist best. Hið smáa er bæði fallegt og farsælt. Góðir hlutir gerast hægt. En engin bæn er sóun, engin bæn fellur óheyrð, ekkert orð týnist í hávaða veraldar. Guð heyrir ofurvel. Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða.” Spáðu í handverk bænarinnar og mundu líka að bæn er handtak manns og Guðs, fingur þínir snerta hönd himins. Guð vill alla fimm putta, samtal við þig og þér verður ekki sleppt.
Amen.
Prédikunin hér að framan var flutt í Neskirkju á bænadegi 17. maí, 2009.
Bænadagur þjóðkirkjunnar á sér baksögu. Á Danaveldistímanum var hann gjarnan kallaður kóngsbænadagur því Kristján 5. fyrirskipaði (1686) að almennur bænadagur skyldi vera á fjórða föstudegi eftir páska. Af því að það var kóngurinn en ekki biskupinn, sem skipaði fyrir um bænahaldið, festist nafn kóngs við daginn. Svo gleymdu margir upphafi þessa bænadags og héldu, að á þessum degi ætti að biðja sérstaklega fyrir kónginum. En reyndar var nú beðið fyrir kóngi ekki bara einu sinni á ári heldur á öllum helgum dögum meðan Ísland var hluti Danaveldis, rétt eins og beðið hefur verið fyrir forseta og ríkisstjórn á lýðveldistímanum. Árið 1951 óskaði biskup Íslands, að haldinn skyldi bænadagur á fimmta sunnudegi eftir páska, bænadagur eins og verið hefur í hálfa öld í okkar kirkju. Aðrar kirkjur hafa aðrar hefðir.
Textaröð: B
Lexía: Slm 121
Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. Hann mun ekki láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki. Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels. Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar. Um daga mun sólarhitinn ekki vinna þér mein né heldur tunglið um nætur. Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína. Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.
Pistill: Róm 8.24-27
Í þessari von erum við hólpin. Von, sem menn sjá fram komna, er ekki von. Hver vonar það sem hann sér? En ef við vonum það sem við sjáum ekki bíðum við þess með þolinmæði. Eins hjálpar andinn okkur í veikleika okkar. Við vitum ekki hvers við eigum að biðja eins og ber en sjálfur andinn biður fyrir okkur með andvörpum sem engum orðum verður að komið. En hann sem hjörtun rannsakar veit hver hyggja andans er, að hann biður fyrir heilögum samkvæmt Guðs vilja.
Guðspjall: Lúk 11.5-13
Og Jesús sagði við þá: „Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: Vinur, lánaðu mér þrjú brauð því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann. Mundi hinn þá svara inni: Ger mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð? Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf. Og ég segi yður: Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. Er nokkur sá faðir yðar á meðal sem gæfi barni sínu höggorm ef það biður um fisk eða sporðdreka ef það biður um egg? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda sem biðja hann.“