I.
Einu sinni var ég staddur í Tel Aviv og hugðist komast upp til Jerúsalem. Ég hafði heyrt að það væri bæði ódýrt og fljótlegt að taka svokallaðan “sérút”-leigubíl. Ég fór á markaðinn og sá þar karla standa við gamla langa Benza og kalla upp heitin á þorpunum, sem þeir voru á leiðinni til. “Jerúselm” spurði ég en karlinn hristi höfuðið. Svo fann ég einn, sem kinkaði kolli til marks um að hann væri á leiðinni til borgarinnar helgu. Ég greiddi farið og settist inn í bílinn og beið svo eftir að hinir farþegarnir kæmu því þessir bílar leggja ekki af stað fyrr en búið er að fylla bílinn. Skömmu síðar settist þarna inn palestínsk kona með tvö börn. Konan var með blæju fyrir andlitinu og hún forðaðist að líta til mín. Svo settist inn ungur maður, Gyðingur, með kippu á höfðinu, en það eru svona hringlaga pottlok, sem margir Gyðingar ganga með samkvæmt siðvenju þjóðar sinnar. Þessi ungi maður var með prjónaða bláa kippu; greinilega frjálslyndur Gyðingur því hinir strangtrúuðu eru yfirleitt með saumaðar svartar kippur. Hann hlaut að hafa verið í hernum. Hinum megin við mig settist svo gamall Arabi með íbogið kónganef. Já, við tróðum okkur níu inn í þennan Benz og svo brunaði karlinn af stað. Ég sætti lagi og leit á hraðamælinn, hann lá í 140 til 160 mest alla leiðina og það var enginn með öryggisbelti, - ekki heldur bílstjórinn. En það, sem kannski var enn undarlegra, var að þarna sátum við, Gyðingar og Palestínuarbar saman í bíl á fleygiferð og svo einn Íslendingur. Í almenningsvögnum geta allir setið hlið við hlið. Jafnvel þó að þjóðir þeirra eigi í stanslausum erjum og deilum þá geta allir setið saman í strætó eða í “sérút”.
II. Fyrir mörgum árum síðan var reynt að aðskilja fólk í strætisvögnum. Þá voru í Suðurríkjum Bandaríkjanna hafðir sérbekkir fyrir svarta og aðrir fyrir hvíta. Þetta var aðskilnaðarstefna kynþáttanna, apartheid, og þykir í dag vera vond stefna og full af mannhatri og fyrirlitningu. Og einn daginn settist svört kona, hún Rósa Parks á bekk fyrir hvíta fólkið í strætisvagninum í Montgomery. Og hún neitaði að standa upp og var handtekin og dæmd fyrir borgaralega óhlýðni.
Í ágúst 1963 flutti baptistapresturinn Mateinn Lúther King magnaða ræðu við minnismerki Lincolns í Washington þar sem hann ræddi um draum sinn um að svartir og hvítir gætu lifað sama í sátt og samlyndi, í friði og jöfnuði. Já, King átti sér þann draum að mótmælendur og kaþólikkar, Gyðingar og aðrir gætu staðið hlið við hlið og tekið saman höndum og sungið Guði lof og þökk fyrir líf sitt og frelsi. Og kannski er draumur Kings núna loksins að verða að veruleika þegar skoðannakannir benda til að litaður maður geti orðið næsti forseti Bandaríkjanna.
III. Er apartheid á Íslandi? Hér geta allir setið saman í strætó. Hvítir og svartir geta unnið hið við hlið á færibandinu þar sem fiskurinn rennur framhjá. Íslendingar og Thailendingar starfa saman á elliheimilum. Engu að síður er aðskilnaðarstefnan að skjóta hér rótum og það í kirkjugörðunum af öllum stöðum!
Nýlega voru lögð fram á Alþingi lög um kirkjugarða. Þar er veitt lagaheimild til þess að kirkjugarðar verði stúkaðir niður þannig að það verði sérstakar götur eða reytir fyrir múslíma, aðrar fyrir ásatrúarfólk og enn aðrar fyrir þjóðkirkjufólk og svo framvegis og framvegis. Fólkið, sem gat setið saman í strætó, búið við sömu götuna og í sömu blokkinni allt sitt líf, getur ekki hugsað sér þegar það er dáið að liggja við sömu götuna og hitt liðið. Þetta kalla ég apartheid eilífðarinnar, þetta er aðskilnaðarstefna í kirkjugörðunum. Dáið fólk aðskilið eftir trúarbrögðum! Af hverju þá ekki alveg eins eftir litarhætti eða því með hvaða fótboltafélagi það hélt. Verður sérreitur fyrir KR-ingana í kirkjugörðum Reykjavíkur það sem koma skal!
Lifandi geta menn setið saman en dauðir geta þeir ekki legið hlið við hlið! Þannig er Ísland í dag.
Það er svo merkilegt að fólk getur setið við hliðina á hverjum sem er í bíó, leikhúsi eða strætó. En þegar kemur að dauðanum og kirkjugarðinum þá er sko ekki sama við hliðina á hverjum maður liggur. Þetta er dapurlegur hugsunarháttur. Þarna ná óvildin og fordómarnir út fyrir gröf og dauða. Þetta er apartheid eilífðarinnar.
IV. Kristin trú boðar ekki aðskilnað fólks heldur einingu, að við séum öll börn Guðs, öll sköpuð í hans mynd. Við erum öll börn jarðarinnar, komin af sameiginlegum forfeðrum. Á þessu hvílir mannhelgin og sú krafa að allar manneskjur eigi rétt á virðingu og umhyggju.
Kristin trú segir líka að þú getir ekki trúað á Guð ef þú elskar ekki náunga þinn. Og náungi þinn er hver sá sem situr við hliðina á þér í strætó. Hver sá, sem getur þurft á þér eða þinni hjálp að halda, er náungi þinn.
“Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld”, segir Jesús Kristur. Kristur bauð faðm sinn öllu fólki. Hann læknaði ekki bara Gyðinga heldur líka son kanversku konunnar og svein rómverska hundraðshöfðingjans. Kristur gerði sér ekki mannamun. Og það ættum við heldur ekki að gera.
Ég á mér draum að geta gengið um kirkjugarða á Íslandi og séð þar hlið við hlið legsteina með krossum, búddalíkneskjum, mánasigð, þórshamri eða hvaða öðru tákni, sem vera skal. Ég á mér þann draum að garðarnir, þar sem látnir ástvinir hvíla, endurspegli íslenskt samfélag þar sem ríkir jafnrétti milli fólks, þar sem fólk býr saman í sátt og samlyndi. Ég á mér nefnilega draum um samfélag þar sem karlar og konur, hvítir, svartir og gulir geta unnið saman við að byggja upp réttlátt og gott samfélag. Ég á mér draum um að kristnir og ekki kristnir geti tekið í höndina hver á öðrum og sagt: Bróðir, systir!
Ég á mér þennan draum vegna þess að ég trúi því að einn algóður Guð hafi skapað alla menn og að við séum öll börnin hans.
Ég á mér draum af því að ég les Biblíuna og vil fylgja Jesú Kristi. Ég á mér draum!