Þau sem voru stödd við Esjurætur þegar tók að dimma í gærkvöldi, sáu ljósalest líða niður fjallshlíðina. Vaskir göngugarpar gengu upp fjallið og þegar rökkva tók kveiktu þeir á kyndlum sínum og mynduðu ljósalest á leið niður, til að minna á þau sem berjast við krabbamein og stuðninginn sem þau þurfa. Ljósalestin í Esjunni vísar og vekur til umhugsunar og samstöðu.
Það er líka bjart yfir tónlist og söng hér í kirkjunni í dag, sem hefur fært okkur yl og birtu á köldum nóvemberdegi. Það gerði einnig nýafstaðinn dagur íslenskrar tungu sem er haldinn á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar, sem gaf þjóð sinni svo margt. Þar á meðal fallega ljóðið sem var flutt hér í upphafi messunnar, um sumarblómin fögru sem hann kallar smávini fagra og foldarskart. Hugleiðingin fallega um fífil í haga og brekkusóley hrífur okkur umsvifalaust úr köldum og næðingsömum vetrinum og setur okkur á grænar grundir í íslenskri sveit.
Svona getum við leikið okkur með tímann, þótt það blasi við þegar við göngum hérna út, að það er ennþá ískaldur vetur og verður áfram lengi enn. Það er eins augljóst og að það stendur 18. nóvember á dagatalinu. Það er eins gott að fylgjast með tímanum og skynja kall hans.
En hverjir eru það sem þurfa sérstaklega að vita hvað tímanum líður? Þessi spurning er liður í vinsælum útvarpsþætti sem er sendur úr í eftirmiðdaginn virka daga og heitir FM95BLÖ. Þáttastjórnendurnir og grínararnir Auddi Blö og Pétur Jóhann taka þá fyrir einhverja hópa eða týpur sem þurfa sérstaklega að henda reiður á því hvað klukkan slær.
Í vikunni þegar ég hlustaði á þá voru þeir að tala um peningamenn - fasteignasala og verðbréfakaupmenn. Peningamenn þurfa að vita hvað tímanum líður, hvenær rétti tíminn er til að kaupa og til að selja. Ef þeir hitta ekki á rétta tímann geta þeir misst af því að gera besta dílinn. Þess vegna skiptir öllu máli fyrir peningafólkið að vita hvenær varan sem það verslar með toppar eða botnar. Peningafólkið þarf að fylgjast með tímanum.
Hvað með okkur hin? Timing is everything segir orðtækið - tímasetningin ræður úrslitum. Meyjarnar í guðspjalli dagsins skiptust í tvo hópa, í öðrum hópnum voru þær sem voru með puttann á púlsinum og voru viðbúnar því sem tíminn færði þeim. Í hinum hópnum voru þær sem höfðu ekki tekið tímann inn í myndina, og lentu því í vondri stöðu.
Þetta er svona saga um hvað það er mikilvægt að undirbúa sig og halda vöku sinni - því við vitum ekki hvenær stundin sem skiptir okkur öllu máli rennur upp. Þetta vitum við öll. En gengur engu að síður misvel að láta þessa þekkingu móta gjörðir okkar.
En þarna kemur saga, í guðspjalli dagsins, sem gerir hvoru tveggja, blæs okkur í brjóst hvatningu um að vera eins og hyggnu meyjarnar, með vaðið fyrir neðan sig og nægar birgðir fram í tímann, en er líka víti til varnaðar með því að vara okkur við hvað bíður þeirra sem láta reka á reiðanum. Hvernig við förum með ljósið skiptir öllu máli.
Það er feminískur andi sem leikur um guðspjallið og við drögum lærdóm af ungu konunum og ljósalestinni þeirra. Það er mikilvægt að hlusta á og læra af konum. En það hefur ekki alltaf átt upp á pallborðið. Karlarnir hafa átt sviðið að mestu eða öllu leyti. Hvers vegna er það svo?
Menning okkar er að mörgu leyti mótuð af lúmskri tvíhyggju, sem greinir að sál og líkama, handanveru og jarðlífi, anda og náttúru, karla og konur og skipar öðru parinu undir hitt. Við sjáum afleiðingar þessarar tvíhyggju t.d. í samfélögum sem meta reynslu og hagsmuni karla meir en reynslu og hagsmuni kvenna - en líka í því hvernig náttúran og lífríkið á jörðinni hefur alltaf lotið í lagra haldi fyrir kröfunum um framfarir í samgöngum og lífsgæðum manneskjunnar.
Lífstíllinn sem leiðir af hugsunarhættinum að náttúran sé undirskipuð manneskjunni og að hún geti leyft sér hvað sem er í samskiptum sínum við lífríkið í krafti stöðu sinnar sem æðri vera, hefur leitt okkur í öngstræti þaðan sem ekki verður svo auðveldlega komist. Sífellt fleiri viðvörunarbjöllur hringja um loftslagsbreytingar af manna völdum og skuggaleg áhrif sem þær hafa á lífskjör fólks um allan heim.
Við stöndum því í ekki ósvipuðum sportum og meyjarnar sem lýstu upp biðina eftir brúðgumanum. Við vitum að tíminn er að renna upp - spurningin er hvernig við bregðumst við því. Látum við viskulampann lýsa upp samvisku okkar svo við snúum við blaði þegar kemur að reglugerðum um mengunarvarnir og ákvörðunum um eigin lífstíl - eða göngum við gegn betri vitund og látum rödd samviskunnar lönd og leið?
Því miður eru mörg dæmi um það. Ekki er langt síðan sýndur var í sjónvarpinu þáttur um hvernig fjölmiðlar í Bandaríkjunum fjalla um loftslagsbreytingar af mannavöldum og hlýnun andrúmsloftsins. Sýningin var stuttu eftir að fellibylurinn Sandy hafði farið yfir austurströnd Bandaríkjanna og valdið gríðarlegu tjóni - en aukin tíðni ofsaveðurs er t.d. rakin til breytinga í andrúmslofti af manna völdum.
Í þættinum kom fram að áhrifamikil og sterk öfl vestanhafs virða meðvitað að vettugi allar niðurstöður vísindamanna á undanförnum áratugum um loftslagsbreytingar af manna völdum, allar samþykktir alþjóðlegra stofnana, og varúðarraddir vísindamanna um allan heim.
Í þessum tilgangi notuðu hagsmunaöflin á óforskammaðan hátt sjónvarpsmiðla og dagblöð til að tala niður umræðuna um loftslagsbreytingar og stunduðu mútur til áhrifafólks í samfélaginu til að tryggja stöðu sína og berjast gegn sannleika sem hentaði þeim ekki. Allt gegn betri vitund - eins og tóbaksfyrirtækin á sínum tíma sem héldu áfram að dreifa hálfsannleika og lygum um áhrif tóbaksneyslu. Hvoru tveggja eru dæmi um þegar manneskjan lætur ljós samviskunnar ekki lýsa sér leið, heldur lætur hana sem vind um eyru þjóta.
Spurning dagsins er því kannski þessi. Hvernig getum við verið hyggnar meyjar sem halda vöku sinni, mæta tímanum á ábyrgan hátt og láta ljósið lýsa sér? Hvernig getum við hlustað á raddir kvenna og raddir náttúrunnar og lært af þeim að lesa tímanna tákn?
Lamparnir sem mynda ljósalest meyjanna eru tákn um ljósið sem kemur í heiminn og lýsir hverri manneskju, þannig að það sem er gott og rétt blasir við. Hvatning dagsins er þá sú, til okkar hvers og eins, að láta loga á lampanum okkar sem er leiðarljósið í lífinu. Þannig getum við verið í ljósalestinni sem lýsir þar sem þörf er á og tekur á móti góðum hlutum. Það er fyrirmyndin í Jesú Kristi, sem er ljósið í lífinu okkar, ef við höfum hann að leiðtoga lífsins. Jesús sniðgengur úreltar hugmyndir um tvískiptingu sem gerir suma merkilegri en aðra en bendir okkur á börnin, fugla himinsins og liljur vallarins og segir: þarna eru fyrirmyndir þínar, viljir þú gera Guðs vilja.
Tími ljóssins nálgast, við vitum að handan við hornið er aðventan sem er biðtími eftir hátíð barna og hátíð ljóssins. Eftir fyrirheitinu um bjarta tíma, um fífil í haga og brekkusóley í íslenskri sveit, þar sem himinninn mætir jörðinni, þar sem Guð mætir heiminum í litlu barni. Notum ljósið okkar vel og verum viðbúin því góða sem kemur.