Nú gekk Jesús niður af fjallinu, og fylgdi honum mikill mannfjöldi. Þá kom til hans líkþrár maður, laut honum og sagði: Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig.Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: Ég vil, verð þú hreinn! Jafnskjótt varð hann hreinn af líkþránni. Jesús sagði við hann: Gæt þess að segja þetta engum, en far þú, sýn þig prestinum, og færðu þá fórn, sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar.
Þegar hann kom til Kapernaum, gekk til hans hundraðshöfðingi og bað hann: Herra, sveinn minn liggur heima lami, mjög þungt haldinn. Jesús sagði: Ég kem og lækna hann.
Þá sagði hundraðshöfðinginn: Herra, ég er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð, og mun sveinn minn heill verða. Því að sjálfur er ég maður, sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum, og ég segi við einn: Far þú, og hann fer, og við annan: Kom þú, og hann kemur, og við þjón minn: Gjör þetta, og hann gjörir það.
Þegar Jesús heyrði þetta, undraðist hann og mælti við þá, sem fylgdu honum: Sannlega segi ég yður, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael. En ég segi yður: Margir munu koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob í himnaríki, en synir ríkisins munu út reknir í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Þá sagði Jesús við hundraðshöfðingjann: Far þú, verði þér sem þú trúir.
Og sveinninn varð heill á þeirri stundu. Matt. 8. 1-13
Drengurinn var búinn að æfa knattspyrnu í nokkurn tíma. Hann var leikinn með knöttinn og sparkviss, skemmtilegur og góður félagi.
Hann hafði flest það sem prýðir góða manneskju, hann var tillitsamur, bar virðingu fyrir þjálfaranum. Hann fór eftir reglum leiksins í stórum dráttum þó svo kom fyrir að hann braut auðvitað af sér, en sjaldan var það gróft.
Oft upplifði hann hins vegar skæting og niðurlægingar í tengslum við íþrótt sína. Það var síður en svo uppbyggjandi og augljóst var að margir sem slakari voru, tóku allar athugasemdir og hörku mjög nærri sér.
Slík framkoma einkenndi á stundum foreldra og hina fullorðnu sem í kringum flokkinn voru. Slíkt var síður betra í yngri flokkunum og voru sumir fullorðnir líkt og hamslaus dýr í búri að öskra áfram peyjana sína, í æfingaleik á vinadegi! Þannig að litlar sálir nötruðu en hertust í heift til andstæðingana, og slíkt smitaðist einnig út fyrir völlinn! Sjálfsmyndin varð síður sterkari fyrir vikið, og skekktist smám saman og varð bjöguð, og hjá sumum brotin. Þrátt fyrir að vera í hópíþrótt þá einangrast margir og sérstaklega þeir sem viðkvæmir eru.
Ef ég hugsa áfram í litlum örmyndum dettur mér í hug húðlitur okkar. Við erum flest hvít hér í Eyjum. Finnst ykkur ekki merkilegt að það eina sem lætur okkur sjá mun á okkur og fólki með annan hörundslit, það er sjónin okkar?
Það er mikil náðargjöf að sjá með augunum, og ekki öllum gefið. En að hugsa sér að við skulum greina manneskjur í kynþætti eftir húðlit, og uppnefna á stundum þá sem eru öðruvísi á litinn en við. Það er mikil misnotkun á þessari náðargjöf, sjóninni. Það er aðeins einn kynþáttur til og það er mannkyn.
Litli bróðir minn, 9 ára, á ameríska heimilinu, fyrir 16 árum, var að fara heim með mér eftir skóladaginn, og sagði að hann væri boðinn heim til Timothys seinni partinn. Hver er það spurði ég. Hann leit yfir völlinn, þar sem börn voru að leik, benti og sagði, það er þessi með rauðu derhúfuna. Þegar íslendingurinn, ég, leit yfir völlinn, sá ég strax að sá með rauðu derhúfuna var sá eini sem var dökkur á hörund. Hvort ætli við hefðum notað til að einkenna þessa ungu sál – húfuna eða hörundslitinn?
* * *
Fleiri smáar myndir úr fortíð og samtíð. Ég fylgdist með ömmu minni veikjast, því miður nokkuð úr fjarlægð, því ég hér í Eyjum en hún í höfuðborginni. Hún var alltaf svolítið kjaftfor blessunin, en eins og sumir myndu segja, hreinskilin, sagði það sem henni datt fyrst í hug! Hún var skemmtileg á sinn hátt, eftirminnileg. Hún veiktist af alzeimer, fór að gleyma. Þekkti okkur fjölskyldu sína ekki. Þurfti að flytjast á stofnun, vera í öruggri gæslu, hún einangraðist.
Hve margir eru það sem einangrast sökum veikinda eða annars, og kannski einnig sökum sorgar eða erfiðrar reynslu? Þeir sem þjást af alnæmi glíma við mikla fordóma og vanþekkingu. Þeir sem þjást af geðsjúkdómum upplifa mikinn vanbúnað í heilbrigðisgeiranum og samfélaginu. Allmikill skortur er á fræðslu og meiri þjónustu. Þeir verða einnig fyrir barðinu á fordómum og vanþekkingu. Þeir einstaklingar eiga á hættu að einangrast!
Hvað með eldri borgarana okkar? Hugsum við nógu vel um okkar nánustu þegar aldurinn færist yfir, þegar getan fer að minnka hjá þeim sem elskað hafa okkur, þeim sem standa okkur næst? Það eru margir sem eldri eru, sem einangrast sökum þess hve mikið er að gera hjá öllum! Það er ekki tími fyrir mannlegt samfélag.
Þeir sem verða fyrir einelti, í skóla, á vinnustað, sem barn, unglingur eða fullorðinn, einangrast einnig.
Í öllum þessum smáu dæmum bíður manngildið hnekki. Hver og ein manneskja er sköpuð eftir vilja Guðs, og hefur þörf fyrir kærleikans samfélag og vináttu fjölskyldu og samferðarfólks.
* * *
Guðspjall dagsins segir frá manni sem þjáðist af hrikalegum sjúkdómi, holdsveiki. Það er sagt að holdsveiki hafi verið hræðilegasti sjúkdómur þess tíma. Þeir sem smituðust voru kallaðir hinir lifandi dauðu.
Vefir og líkamspartar dóu smámsaman. Augabrúnir duttu af, fingur og tær tærðust upp svo neglurnar eina stóðu fram, þar til fingur duttu af og jafnvel hendin. Ferlið frá greiningu þar til sjúkdómur hafði lagt einstakling gat verið 20-30 ár. Það má því segja að einstaklingur var að deyja smám saman, á mjög kvalarfullan máta.
Reglur voru mjög strangar um hvernig samskipti ættu að fara fram. Aldrei mátti hinn holdsveiki fá nokkurn mann nær sér en tvo metra. Hugsið ykkur það að eiga aldrei eftir að taka í hönd, fá klapp á öxlina, og hvað þá eitthvað meira en það!
Þær reglur voru mjög strangar og segir í Fimmbókarritinu, eða í Levetikus 3. Mósebók (13. kafla) að sá sem hefur greinst með sjúkdóminn flokkast óhreinn. Hann er óhreinn og á að búa fyrir utan samfélagið. Hann þurfti að hylja holdið sitt, alveg upp að efri vör, höfuð einnig, og þegar hann gekk um, þurfti hann stöðugt að kalla: Óhreinn, óhreinn! Þannig að fólk gerði sér grein fyrir því að þarna fór holdsveikur maður um! Holdveikir máttu ekki koma inn á heimili annars fólks. Það var jafnvel þannig að ekki mátti heilsa holdsveikum út á götu.
Matur sem seldur var á mörkuðum þar sem holdsveikur hafði farið um, var talinn varasamur af sumum. Sumir töldu í lagi að kasta grjóti í holdsveika til að halda þeim fjarri, og margir sneiddu hjá og lögðu á flótta þegar sjúkur maður nálgaðist.
En einmitt þann mann, snerti Jesú, þannig að hann varð heill.
Það var án efa það sem hann þurfti líka að fá klapp á bakið, mannlega snertingu einnig. Þannig læknaði Jesú ekki bara líkamsmeinið ógurlega heldur gaf honum nærveru, virti manngildið þess sem sneiddur hafði verið virðingunni vegna veikinda.
Ólíkt á stundum í guðspjöllunum, þá bað Jesús manninn að hafa hægt um kraftaverkið, fara og sýna sig prestunum og færa þá fórn sem Móse bað, eins og hægt er að sjá í Leveticus, 3. Mósebók, 14. kafla. Hann átti, sem sagt, að gangast undir nokkurs konar próf hvort hann væri orðinn heill. Hann átti að fara í nokkurs kona tjékk, sem segir okkur að þrátt fyrir kraftaverkin í okkar lífi, þá eigum við ekki að sniðganga læknisráð og leiðbeiningar.
Merkilegt er samhengi þessa litla texta guðspjallsins.
Þarna er einstaklingur, sjúkur maður af holdsveiki sem enginn má koma nærri, en Jesús læknar þann mann með því að snerta hann.
* * *
Og í framhaldinu er sagt frá sveini nokkrum, sem hundraðshöfðingi bar ábyrgð á, en sveinninn var sjúkur, og Jesús læknar hann úr órafjarlægð. Jesús þarf ekki einu sinni að sjá hinn sjúka heldur læknast hann um leið og Jesús segir og það í órafjarlægð!
Hundraðshöfðinginn var valdamikill í her Rómverja. Hann hafði marga undirmenn og réð herdeildum. Hundraðshöfðinginn var einn virtastur meðal Rómverja og eru þeir víðar nefndir í Nýja testamentinu, og alls staðar þar af virðingu, tign og heiðri.
Hinn holdsveiki og hundraðshöfðinginn ná því að spanna ansi vítt svið mannlífsins á þessum tíma. Sá holdsveiki var einangraður, útskúfaður úr samfélagi manna. Allir forðuðust hann og samfélags við hann. Hundraðshöfðinginn var með fjöldann allan af manneskjum í kringum sig, var virtur og margir þjónuðu honum og hans skipunum.
Jesús svaraði bænum þeirra beggja.
Það er óvenjulegt í þessari frásögu hvernig hundraðshöfðinginn talar um sveininn, þjóninn. Hann vill gera allt til að hann nái heilsu. Í umræddu samfélagi, þrælahalds og slíkrar stéttskiptingar, var litið á þræla sem lifandi tæki. Ef einn slíkur dó, fékk húsbóndinn sér bara annan, án þess að taka það svo nærri sér.
En afstaða þessa hundraðshöfðingja er önnur. Hann leggur sig nokkuð fram til að sveinninn nái heilsu. Hann virðir hann sem manneskju, lítur ekki bara á hann sem tæki eða í einhverjum tilgangi.
Samtal hundraðshöfðingjans og Jesú er hreint magnað.
Jesús segir að hann hafi ekki séð eða fundið slíka trú hjá nokkrum í Ísrael. Ísrael er þjóðin sem á öll fyrirheitin, hin útvalda þjóð Guðs. Í þessum texta segir Jesús einnig að margir af þeirri þjóð munu fara á mis við borðhald himnanna en ýmsir koma úr öðrum áttum neita matar með ættfeðrunum í hinum háu himnasölum.
Trúin læknaði bæði þjón höfðingjans og hinn holdsveika sjúkling.
Trúin á Guð guðanna, og Drottinn drottnanna, Jesús Krist frelsara heimsins.
Eins og segir í lestri dagsins úr Fimmbókarritinu: ,,Því að Drottinn Guð yðar, hann er Guð guðanna og Drottinn drottnanna, hinn mikli, voldugi og óttalegi Guð, sem eigi gjörir sér mannamun og þiggur eigi mútur. Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og elskar útlendinginn, svo að hann gefur honum fæði og klæði. Elskið því útlendinginn, því að þér voruð sjálfir útlendingar í Egyptalandi. Drottin Guð þinn skalt þú óttast, hann skalt þú dýrka, við hann skalt þú halda þér fast og við nafn hans skalt þú sverja. Hann er þinn lofstír og hann er þinn Guð, sá er gjört hefir fyrir þig þessa miklu og óttalegu hluti, sem augu þín hafa séð.” (5. Mós 10:17-21)
Það er sá Guð sem fæðist inn í heiminn í Jesú Kristi. Það er í þeim mætti sem Jesús læknar og frelsar, nærir og reisir frá dauða. Með Jesús Drottinn og Guð í huga boða Páll postuli kærleikans samfélag í frumkirkjunni og segir: ,,Sigrið illt með góðu." (Róm. 12:21)
Hinn sjúki einstaklingur holdsveikinnar kom fram fyrir Jesú af nokkurri ákveðni, en einnig af auðmýkt og bæn. Hundraðshöfðinginn kom fram fyrir Jesús í fullu trausti og trú til þess að hann gæti læknað og sagði:,,... , ég er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð, og mun sveinn minn heill verða.” (Mt. 8)
Í slíku trausti vill Guð að við framgöngum í lífinu. Til samfélags við sig boðar hann okkur til kirkju, og til náunga okkar í neyðinni, til að leiða út úr einangrun.
Drottinn vill að við vitjum hinna einangruðu, og veitum þeim samfélag. Hvort sem það eru þeir sem sjúkdómar þjaka eða ellin. Einelti verðum við að stöðva og bæta andann í kringum keppnisgreinar okkar allar.
Íþróttir og annað æskulýðsstarf, bolta og aðrar greinar, eiga að stuðla að sterkri sjálfsmynd og heilbrigði. En ekki hinu gagnstæða. Svo þannig megi verða er þörf á hugarfarsbreytingu í kringum íþróttirnar, ekki bara hér heldur allsstaðar. Þar sem agi og elska verða að fara saman, en þannig verða einstaklingar öruggir með sjálfa sig og traustir og reiðubúnir að takast á herðar þyngri verkefni en ella!
Og allt slíkt til uppbyggingar og upprisu í Jesú nafni.