Í dag minnumst við þess þegar Jesús Kristur var dæmdur til dauða og krossfestur í Jerúsalem fyrir um 2000 árum. Við minnumst dauða hans og þess sem dauði hans merkir fyrir þá sem á hann trúa. Dauði Jesú er ekki eins og hver annar dauðdagi, því Kristur dó á krossinum fyrir okkur vini sína og vinkonur. Fyrir dauða hans erum við endurreist og fáum lækningu. Þörfnumst við þess?
Þegar við skoðum heiminn sem við búum í sjáum við að ekki er allt með felldu. Hér ríkja svo oft kúgun, ofbeldi og óréttlæti í samskiptum manna. Aftur og aftur verðum við vitni að því þegar hinir máttugu sigra en smælingjarnir tapa. Ofbeldið, kúgunin og órettlætið er röskun á lífinu sem Guð skapaði og nefnist sú röskun einu nafni synd. Syndin er illska sem fær menn til þess að snúa baki sínu við Guði og um leið snúast gegn náunga sínum. Vald syndarinnar er vald sem allir menn finna fyrir innra með sér. Syndin er það sem kallar fram öfundina, græðgina, virðingarleysið og allt það versta sem býr í manninum. Hún brýtur niður mennsku mannsins, sem í upphafi var skapaður til góðra verka. Mannkynssagan vitnar um vald syndarinnar yfir manninum og afleiðingar hennar fyrir fjölda fólks.
Kross Krists hefur tvíþætta merkingu því dauði Krists leysir okkur undan valdi syndarinnar og jafnframt sýnir ótvíræða samstöðu Jesú með öllum þeim sem þjást vegna syndarinnar og þeirra sem fremja ranglæti í krafti valds og stöðu sinnar. Kristur er fórnarlamb óréttlætis, hann er fórnarlamb syndarinnar og þeirra sem eru undir valdi hennar. Þess vegna stendur hann með öllum sem þjást. Hann þekkir þjáningu af eigin raun. Jesús segir: „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“
Er Kristur dró síðustu andardrættina á krossinum hrópaði hann í angist sinni „Guð minn, Guð minn! Hví hefur þú yfirgefið mig?“ Á krossinum tekur Kristur sér stöðu með þeim sem finna sig yfirgefna af Guði og mönnum. Hann er þeirra bróðir og vinur.
Á krossinum tekur Jesús sér stöðu við hlið hinna þjáðu allra tíma. Krossinn hans lýsir því yfir að það sem hefur verið gert á hlut minnsta bróður eða systur hans, hefur verið gert á hlut hans. Lesandi góður, þú ert ef til vill staddur á stað þjáningar í þínu lífi. Kannski hefur eitthvað verið gert á þinn hlut eða þú ert fórnarlamb aðstæðna sem þú hafðir ekkert með að gera. Kannski hefur þú gert mistök sem hafa leitt þig þangað sem þú nú dvelur. Þú mátt vita að Kristur er þar með þér og sárin þín eru sárin hans. Hann vill græða sárin þín og færa allt til betri vegar.
Kross Jesú og dauði fel líka í sér lækningu fyrir þá sem eru undir valdi syndarinnar og knúnir áfram af því. Syndin leiðir alltaf til þjáningar og dauða, bæði fórnarlamba og geranda. Á krossinum deyr Guð sjálfur dauða hins synduga, dauða gerandans. Hann tekur á sig þann dauða sem sekt, sjálfsréttlæting og sjálfseyðingarhvöt syndarinnar leiðir að lokum yfir alla þá sem eru undir valdi hennar. Guð í Kristi deyr dauða syndarans og leiðir syndarann til nýs lífs sem er laust undan valdi syndarinnar. Hverjir eru hinir sterku sem beita hinum saklausu óréttlæti? Eru það allir hinir eða er það ég? Ég hygg að mörg okkar upplifum okkur beggja vegna, bæði sem fórnarlömb og gerendur. Jesús Kristur hefur dáið okkar dauða og losað okkur undan sekt, sjálfsréttlætingu og sjálfseyðingarhvöt syndarinnar. Guð hefur fordæmt verk þeirra sem beita óréttlætinu og kallar þá til iðrunar og vill endurnýja hugarfar þeirra. Í gegnum dauða sinn endurreisir Kristur hina þjáðu og læknar hina óréttlátu. Hann býður öllum nýtt líf, eilíft líf, sem er laust undan valdi syndar og dauða. Það er líf sem verður einungis skilið í ljósi upprisu Jesú Krists frá dauðum.