Skúffujafnrétti

Skúffujafnrétti

Ýmislegt bendir til þess að jafnrétti kvenna og karla eigi undir högg að sækja innan íslensku þjóðkirkjunnar þegar kemur að efri stigum stjórnsýslunnar.
fullname - andlitsmynd Arnfríður Guðmundsdóttir
09. september 2011

Ýmislegt bendir til þess að jafnrétti kvenna og karla eigi undir högg að sækja innan íslensku þjóðkirkjunnar þegar kemur að efri stigum stjórnsýslunnar. Vígðar konur hafa ekki átt fulltrúa í Kirkjuráði síðustu tvö kjörtímabil, kona hefur aldrei gegn embætti forseta kirkjuþings og kona hefur ekki þjónað sem biskup í þjóðkirkjunni.

Ekki bara af því að hún er kona

Arnfríður GuðmundsdóttirÞað er ekki sjálfgefið að kona sé besti kosturinn þegar kemur að því að velja í leiðtogahlutverk innan kirkjunnar. Alltof oft er þó talað um að það nægi ekki að velja konu bara af því að hún er kona, óháð hæfileikum. Hvað með karlana? Það er sjaldnar spurt hvort karlarnir sem hafa aftur og aftur verið valdir í hinar ýmsu ábyrgðarstöður innan kirkjunnar hafi þá hæfileika sem þarf.

Við höfum innan okkar raða margar flottar konur sem eru vel hæfar til að gegna leiðtogahlutverkum. Spurningin snýst því fremur um að velja vel hæfa konu í stað vel hæfs karls þegar karlar eru í meirihluta í viðkomandi starfsstétt. Það er einmitt þetta sem íslensk jafnréttislög ganga út á.

Í nýafstöðnum vígslubiskupskosningum var kirkjan okkar hlutkesti frá því að fyrsta konan væri valin til biskupsþjónustu. Í tvígang var kona efst í fyrri umferð. Í síðara skiptið réði hlutkesti því að kosið var milli karls og konu en ekki tveggja kvenna. Þegar talið var upp úr kössunum þá var niðurstaðan skýr. Konan sem hafði í tvígang fengið flest atkvæði fékk 19 atkvæðum færra en karlinn sem var valinn. Niðurstöður kosninganna hljóta að vekja okkur til umhugsunar. Við verðum að spyrja að hve miklu leyti kyn hafi ráðið úrslitum kosninganna.

Næstum því jafnrétti

Ég leyfi mér að efast um að fyrir mörgum í stjórnunarembættum innan kirkjunnar sé kynjajafnrétti framarlega í forgangsröðinni. Að sama skapi bendir margt til þess að hinir sömu telji það ekki ýkja mikilvægt að staðið sé við ákvæði jafnréttisáætlunarinnar sem kirkjan hefur sett sér. Það er t.d. skoðun margra að jafnrétti kvenna og karla skipti ekki eins miklu máli og að gætt sé jafnvægis á milli dreifbýlis og þéttbýlis.

Er kannski kominn tími til að Kirkjuþing gangi hreint til verks og felli jafnréttisáætlun kirkjunnar úr gildi? Mörgum kann að finnast það róttæk hugmynd, jafnvel jaðra við ofstæki!

En ég spyr: til hvers að hafa jafnréttisáætlun sem er geymd í skúffu, nema þegar þarf að láta líta út fyrir að kirkjan okkar sé með allt á hreinu í jafnréttismálum? Það eru þrettán ár liðin síðan jafnréttisáætlun kirkjunnar var samþykkt á Kirkjuþingi. Það ætti að vera nægur tími til að láta reyna á það hvort kirkjan vilji í raun og veru starfa í anda hennar. Hversu lengi treystum við okkur til að bíða?

Í framvarðarsveit kirkjunnar eru fjórir karlar, þrír biskupar og forseti kirkjuþings - allir á sama aldri. Það hlýtur að þýða það að þau sem kusu karl í Skálholt telji að þannig sé kirkjunni okkar best þjónað.

Að mínu mati er það aftur á móti óhjákvæmilegt að spyrja hvort að kirkja sem ekki treystir sér til að ganga í sig og endurmeta stöðu sína sé sú kirkja sem best þjónar fagnaðarerindi kristinnar kirkju? Þetta snýst um trúverðugleika kirkjunnar. Eða er það undir einhverjum kringumstæðum góður kostur að þjóna kirkju sem telur næstum því jafnrétti vera ásættanlegt?