Umbúðasamfélagið

Umbúðasamfélagið

Gjörningar eru ekki nýir af nálinni. Í Biblíunni má lesa um mörg tilvík þar sem höfðað er til allra skilningarvita mannsins í einni svipan. Spámenn Gamla testamentisins viðhöfðu slíka gjörninga með athæfi sínu.
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
27. nóvember 2007

Á undanförnum árum hefur innsetning eða gjörningur vakið athygli sem listform. Hér er um að ræða margþætt listform þar sem höfðað er til skilningarvita mannsins á fjölbreyttari hátt en aðrar listgreinar gera.

Einn þekktasti listamaðurinn á sviði gjörninga er maður að nafni Kristó. Hann hefur haft það fyrir stafni um árabil að pakka inn þekktum stórhýsum og kennileitum víða um heim. Það hefur hann gert með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn.

Hvergi hef ég séð túlkun á því hver tilgangur hans er með því að pakka inn hlutum af svo miklum móð? Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort listamaðurinn sé að mótmæla umbúðasamfélaginu þar sem umbúðir virðast skipta meira máli en innihald? Ef til vill er hann aðeins að hugsa um form þeirra hluta sem hann er að pakka inn og vill sjá þá í öðru samhengi, í öðrum búningi en dags daglega. Hann getur verið að gera tilraunir með form og innihald til þess að vekja fólk til umhugsunar um umhverfi sitt.

Gjörningalistamenn ætlast til að verk sín séu túlkuð frjálslega og gera ekki athugasemdir við þær því að sá möguleiki er alltaf fyrir hendi að fyrir listamanninum hafi vakað það sem býr í undirmeðvitund hans og sé honum því ómeðvitað.

Hvað sem því líður þá hafa verk þessara listamanna vakið verðskuldaða athygli og átt sér nokkuð langt líf í hugskoti fólks sem sá gjörningana þótt þeir hafi verið teknir niður. Ef til vill eru þeir tímanna tákn, tákn þess tíma sem er naumur og af skornum skammti, þess tíma er fólk leyfir sér ekki að hugsa lengi um hlutina en kann vel að meta það sem lifir skamma hríð, það sem íþyngir því ekki á hraðferðinni í gegnum lífið en felur í sér, hraða, hreyfingu, form og umbreytingu sem virðist svo ríkur þáttur í lífi nútímamannsins.

Gjörningar eru ekki nýir af nálinni. Í Biblíunni má lesa um mörg tilvík þar sem höfðað er til allra skilningarvita mannsins í einni svipan. Spámenn Gamla testamentisins viðhöfðu slíka gjörninga með athæfi sínu. Oft virtist það í andstöðu við heilbrigða skynsemi en ævinlega leiddi tíminn í ljós að spámaðurinn var á Guðs vegum að túlka sannindi er þjóðinni var nauðsyn að komast á raun um á hverjum tíma til þess að vilji Guðs mætti ná fram að ganga í lífi þjóðarinnar.

Í guðspjalli fyrsta sunnudags í aðventu, Matt. 21.1-9, er spámannlegum gjörningi Jesú Krists lýst. Yfirskrift gjörningsins eru orð spámannsins Sakaría sem segir:”Sjá, konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og sigursæll, lítillátur og ríður asna, fola undan áburðargrip” Sakaría: 9:9 .

Jesús fær lærisveina sína til þess að hjálpa sér að undirbúa gjörninginn. Síðan ríður hann inn um borgarhlið Jerúsalemborgar á asnanum. Mannfjöldinn hyllir hann sem konung og framkvæmir gjörning með því að breiða klæði sín á veginn, aðrir hjuggu lim af trjánum og stráðu á veginn. Fjöldinn hafði pakkað honum í huga sér í konungleg skrautklæði en enginn vissi hvaða mann Jesú hafði í raun og veru að geyma eftir þessa lífsreynslu sem höfðaði svo til skilningarvita fjöldans að uppnám varð.

Hver er hann? Spámaðurinn Jesús frá Nasaret. Að sönnu einnig konungur en ríki hans er ekki af þessum heimi. Á það hafði hann bent í orði og verki en þeir sem á hann höfðu hlýtt áttu erfitt með að greina kjarnann frá hisminu og trúa því. Ekki var þó miklum umbúðum fyrir að fara. Hann hafði verið með þeim í þrjú ár af holdi og blóði. En fáum auðnaðist að skyggnast inn í djúp verundar hans, nema lærisveininum Símoni Pétri sem sagði: “Þú ert Kristur, sonur hins lifandi Guðs”.

Hver er hann þér lesandi góður? Er hann fjarri huga þínum þegar þú gefur vinum og vandamönnum gjafir um jólin? Er hann fjarlægur þegar þú setur bleika slaufu utan um sportbílinn sem þú gefur konunni þinni? Er hann nærri þegar þú setur upp ljósaskreytingar innan og utan dyra? Er hann næstur þér þegar þú skreytir jólatréð í stofunni heima með fjölskyldunni?

Vissir þú að Jesús er dýrmætasta jólagjöfin en allar gjafir sem við gefum um jólin minna á hann? Vissir þú að ljósin sem þú hefur svo mikið fyrir að setja upp minna á hann sem sagði: “Ég er ljós heimsins”? Vissir þú að jólatréð sem þú verður þér úti um og skreytir svo fagurlega minnir á jötu Jesúbarnsins?

Atferli okkar á aðventunni og á jólunum minnir á gjörninga listamannsins Kristó sem lét fólki eftir að túlka hvað hann var að gera með listsköpun sinni. En við megum ekki gleyma því hvers vegna við höldum í þessar góðu hefðir sem jólaundirbúningnum fylgir. Þær eru dýrmætar ef okkur auðnast jafnan að greina kjarnann frá hisminu, umbúðunum verður vart þverfótað fyrir í samfélagi okkar í dag.

Þú færð væntanlega bækur í jólagjöf. Ef nýja Biblíuútgáfan leynist í einum pakkanum þá hvet ég þig að fletta upp á Jóhannesarguðspjalli en þar segir í þriðja kafla, 16. versi: “Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir, glatist ekki heldur hafi eilíft líf”. Þetta kjarnavers er sá rauði þráður sem liggur í gegnum alla Biblíuna. En það hristir ekki af sér umbúðirnar og lifnar í huga þér fyrr en þú tekur við því með þakklæti. Guð gefi þér gleðileg jól.