Sagnir herma að fyrsta kirkja á Íslandi hafi staðið að Esjubergi á Kjalarnesi um árið 900 eða tæpri öld áður en kristni var lögtekin á Alþingi. Engar leifar hafa fundist af kirkju á Esjubergi enda skriðuföll á umliðnum öldum allnokkur og næsta víst að hún sé grafin undir þeim.
En sagan lifir og áhugafólk um sögu, menningu og kristni, hefur tekið sig saman og er staðráðið í að koma upp útialtari í landi Esjubergs og hefur landeigandi gefið leyfi þar um. Verkið er þegar hafið enda áhugi fyrir því mikill bæði meðal heimamanna og annarra.
Útialtarið verður minnismerki um þessa fyrstu kirkju á Íslandi, og upp úr altarissteininum mun rísa veglegur keltneskur kross sem blasa mun við frá þjóðvegi en landnámsmaðurinn að Esjubergi átti rætur á Suðureyjum Skotlands þar sem keltnesk kristni var ráðandi. Útialtarið er á sama stað og þar sem gengið er upp á Kerhólakamb Esju og búið er að koma upp söguskilti þar til bráðabirgða sem rekur sögu þessarar kirkju í stuttu máli. Útialtarið á Esjubergi verður kristinn helgidómur þar sem hægt verður að hafa um hönd athafnir eins og hjónavígslur, bæna- og hugleiðstundir o.fl. Altarisumgjörðin mun falla vel að fögru landslaginu þaðan sem víðsýnt er og borgin okkar blasir við í bláma. Skóflustunga að altarinu var tekin af frú Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands, 8. maí í fyrra, ásamt nokkrum öðrum fulltrúum ýmissa félaga og hópa á Kjalarnesi. Í júní s.l. var fjölsótt guðsþjónusta við útialtarið í umsjón sóknarprestsins í Brautarholtssókn, sr. Örnu Grétarsdóttur.
Kjalarnessprófastsdæmi hefur nú þegar komið myndarlega að verkinu ásamt fleirum og er nú fjórðungur af ytri hring svæðisins í kringum altarið kominn upp. Altarissteinninn er glæsilegur og um ellefu tonn á þyngd og var sóttur í fyrra í Esjubergsnámur. Sögufélagið Steini hefur haft forgöngu um verkið og stýrt því af myndarbrag. Nú er farin nýstárleg leið til að afla fjár til að koma upp útialtarinu að Esjubergi.
Menningarsöguleg verkefni og kirkjutengd eins og útialtarið á Esjubergi kosta auðvitað fé. Ákveðið var að reyna fjáröflum eftir nýstárlegri leið og kannað hjá Karolina Fund hvernig kynning skyldi vera á vefsvæði þeirra á verkefni sem þessu. Karolina Fund er tiltölulega nýr vettvangur þar sem verkefni sem safna á fyrir eru kynnt nokkuð rækilega. Fólki gefst svo tækifæri til að leggja fram fé. Fyrst er ákveðin heildarupphæð sem stefnt er að að safna og náist það markmið ekki falla niður öll vilyrði einstaklinga sem skráð hafa fjárframlög. Í þessu gildir að margt smátt gerir eitt stórt. Náist söfnunin að komast nálægt því markmiði sem sett var því ríkari verður viljinn til að koma heildarupphæðinni í höfn. Þar ræður lögmál keppnisandans!
Félagar í Sögufélaginu Steina hafa verið duglegir að dreifa slóð Karolina Fund sem sjá má hér fyrir neðan, þar sem verkefnið er kynnt í máli og myndum. Nú er brýnt að kirkjufólk á Íslandi og þeir sem unna menningu og sögu þessa lands taki á sig sumarrögg og skoði slóðina og leggi fram sinn skerf eftir efnum og ástæðum.
Í raun er þessi leið sem nú er farin í fjáröflunarskyni tilraun sem byggir á fjöldaþátttöku þar sem hver leggur sitt fram. Minnsta framlag er 1.200 kr. og það hæsta um 50.000 kr. Framlögin geta verið hærri ef menn vilja. Spennandi verður að sjá hvort náist að safna þeim tæpu tveimur milljónum sem stefnt er að. Takist það getur fjársöfnun af þessu tagi á Karolina Fund verið öðrum sem standa að menningarsögulegum verkefnum, kirkjutengdum, hvatning til að reyna fyrir sér á þessum vettvangi. Slóð Karolina Fund þar sem söfnun fyrir útialtarinu á Esjubergi stendur yfir er: https://www.karolinafund.com/project/view/1625 Lesendur eru hvattir til að leggja í púkkið og dreifa slóðinni. Hver einstaklingur er í þessu efni áhrifamaður í sínum vina- og kunningjahóp – og sömuleiðis í sinni fjölskyldu. Nafn eins sem gefur kallar ósjálfrátt á aðra og hver maður stýrir sínu framlagi.
Heildarkostnaður við gerð útialtarins er áætlaður um þrjár milljónir króna. Sjáum öll til þess að söfnun fyrir útialtarinu á Esjubergi á þessum nýja vettvangi takist!