Og er hann gekk þar sá hann Leví Alfeusson sitja hjá tollbúðinni og Jesús segir við hann: „Fylg þú mér!“ Og hann stóð upp og fylgdi honum. Svo bar við að Jesús sat að borði í húsi hans. Margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu þar með honum og lærisveinum hans en margir fylgdu honum. Fræðimenn af flokki farísea, sem sáu að hann samneytti tollheimtumönnum og bersyndugum, sögðu þá við lærisveina hans: „Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum.“ Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“ Mrk 2.14-17Hverjur eru góðu kallarnir og hverjir eru vondu kallarnir,- nú eða konurnar, ef því er að skipta? Það er spurning dagsins. Þegar við sem eldri erum vorum að alast upp gáfu ævintýrin og Íslendingasögurnar okkur tækifæri til að lifa okkur inn í átökin milli góðs og ills og velja okkur stað að standa á. Og meðan á heimsstyrjöldinni síðari stóð birtust okkur átökin milli góða og ills í átökum Vesturveldanna við Hitler og eftir stríðið voru það Stalín og hans nótar gegn góðu köllunum í vestri. Nú eru það múslímskir hryðjuverkamenn sem góðu kallarnir á Vesturlöndum eru að berjast við. Hér á landi er það fólkið í landinu sem glímir við Alþingi. Og nýjasta hreyfingin um víða veröld, alþýðan gegn auðvaldinu - en það er þó ekkert nýtt. Þetta eru hin stóru málin. Flokkadrættir virðast fylgja manneskjunni, þörfin fyrir að skipa sér í lið, til að berjast, til að sigra. Stundum er það gott og nauðsynlegt, stundum ekki. Með hverjum heldur þú? Þegar fuglarnir byrja að syngja í garðinum mínum á vorin upphefst annars konar söngur hinum megin við götuna. Áfram KR! Láttu hann hafa það! Svona já! Liðsbúningar á vellinum og einkennistreflar í stúkunni. Mitt lið og þitt lið. Minn sigur - þitt tap.
En stundum verða flokkadrættirnir persónulegri. Við heyrum um einelti í skólum, á vinnustöðum, jafnvel á Alþingi. En í kirkjunni? Kirkjan hefur ekki farið varhluta af þessari streitu sem leiðir til flokkadátta, hvorki í þátíð eða nútíð. Það gildir einnig um íslensku kirkjuna. Stundum er ágreiningurinn guðfræðilegur, eins og á fyrri hluta síðustu aldar, stundum er ágreiningur um skipulag og stundum um menn. Menn skipa sér í flokk, gjarnan í góðri trú, að ef þeirra baráttumál verði ofan á muni allt verða svo miklu betra, þegar búið er að hreinsa til, getum við, góða fólkið, látið til okkar taka.
Hann var ekki hátt skrifaður hjá fólkinu í Kapernaum, hann Leví Alfeusson. Hann tilheyrði ekki góðu köllunum. Hann vann hjá tollinum, innheimtumaður við borgarhliðin, föðurlandssvikari og trúvillingur í þjónustu kúgaranna, rómverska heimsveldisins. Það hafa vísast ekki verið nein blíðubros sem mættu honum á andlitum þeirra sem skelltu skattpeningnum á borðið hjá honum. Þangað til þennan eftirminnilega dag. Hann birtist þarna skyndilega þessi furðulegi ferðaprédikari frá Nasaret, sem misjafnar sögur fóru af, staldraði við,- ekki til að greiða skatt, enda hafði hann ekkert meðferðis sem var skattskylt, allslaus maðurinn.
En hann leit hlýlega til Leví og sagði aðeins þrjú orð: Fylg þú mér. Guðspjallið segir ekkrt um formlega uppsögn Leví, eða hvernig það allt gekk fyrir sig. Aðeins þetta: Hann stóð upp og fylgdi honum, og bauð honum heim, ásamt mörgum starfsfélögum sínum úr tollinum, og öðru fólki sem hafði miður gott orð á sér og var kallað bersyndugt, og svo voru lærisveinar Jesú þarna líka. Þær hljóta að hafa verið stórar stofurnar hjá Leví. Kannski hefur hann fengið einhverja aura undir borðið, - það er ekkert nýtt.
Þeir fréttu af þessu samkvæmi guðfræðingarnir í flokki hinna vammlausu, faríseanna. Þarna hafði hann enn komið upp um sig þessi prédikari, sem sagðist hafa sérstakt umboð frá Guði til að prédika eins og hann gerði og breyta eins og hann gerði. Þetta var þá mannskapurinn sem hann kaus helst að umgangast, tollheimtumenn og bersyndugir. Sér er nú hver prédikarinn sem þykist kalla fólk inn á réttan veg og leggur lag sitt við vegvillta. Þetta barst til eyrna Jesú. Svar hans var skýrt: Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara. Þá vitum við það. Fylgjendur Jesú - andstæðingar Jesú. Fylg þú mér!
Það er talað um leiðtogakreppu í þjóðfélaginu. Stjórnmálaflokkarnir eru í leiðtogakreppu, verkalýðsfélögin eru í leiðtogakreppu, þjóðin er í leiðtogakreppu og sagt er að kirkjan sé í leiðtogakreppu. Ég ætla ekki að hætta mér út á hálan ís umræðunnar um leiðtogakreppur. Og þó. Mig langar að þrengja umræðuna. Ég vil færa spurninguna af stóra sviðinu og inn á litla sviðið og spyrja: Er ég í leiðtogakreppu? Ert þú í leiðtogakreppu? Einhvern tíma hétum við því að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs okkar. Hvernig hefur það gengið? Hefur hann brugðist? Eða ég? Hvernig fylgir maður leiðtoga? Hvað felst í kalli Jesú: Fylg þú mér? Hvað er að vera kristilegur. Það merkir að vera Kristi líkur. Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Greinar vínviðarins eiga að bera ávöxt. Hvernig gengu mér það? Kirkja Krists er allir þeir sem staðið hafa upp til að fylgja honum. Þeir sem græddir hafa verið á stofn vínviðarins. Ég og þú og allir hinir tollheimtumennirnir og syndararnir. Ekki er hann fríður flokkurinn! Hvað hefur Jesús að gefa sem laðar þetta lið að? Kærleika, miskunnsemi, fyrirgefningu, von. Þarfnast ég þess? Þarfnast aðrir þess? Af hverju fór þetta lið af stað út í heiminn á sínum tíma, til að kalla fólk til fylgdar, til að boða þennan kærleika, þessa miskunnsemi, þessa fyrirgefningu, þessa von - og galt jafnvel fyrir með lífi sínu? Hann hafði snert við þeim, litið í augu þeirra, kveikt með þeim þrá til að fleiri fengju mætt augliti hans. Er þetta lífsstefna mín, að fylgja og kalla til fylgdar, - er þetta lífsstefna þín? Þeir sem fylgja honum eru kirkjan, söfnuður hans, - stundum gleymist það í öllu talinum um stofnanir, söfnuði og skipulag. Kirkjan eru einstaklingarnir sem staðið hafa upp til að fylgja honum, ekki vegna eigin ágætis, heldur vegna ágætis hans. Kirkjan er í kreppu, er gjarnan sagt. Er það vegna þess að ég sit krepptur og hefst ekki að í stað þess að standa upp og fylgja honum,- eða þú?
Það er sótt að kirkjunni. Hvatt til úrsagna - þetta er svo slæmur félagsskapur. Guðleysispostular eru ötulir í boðun sinni og hafa komið sér víða fyrir. 20% þingmanna kjósa að sækja samkomu samtaka sem boða guðleysi, fremur en sækja guðsþjónustu - þeir eru frjálsir að því - en hvað getur kirkjan lesið út úr því? Í nafni mistúlkaðra mannréttinda má ekki afhenda börnum Nýja testamentið á skólatíma - hvaða skilaboð eru það? Í helgarblaði Fréttablaðsins er furðuleg samsuða eftir stærðfræðing, sem ætlaða er að sýna að kirkjan hefur ekker til málanna að leggja í siðferðisefnum og hefur aldrei haft. Fullkomin blinda, eða vanþekking á áhrifum Jesú á sögu Vesturlanda. Það eru reyndar ekki margar blaðsíður um menningarsögu í stærðfræðibókum. Það er hægt að blekkja þá sem vita minna en maður sjálfur. Og svona mætti lengi telja. Hvort hafa talsmenn guðleysis meiri áhrif en talsmenn Krists? Hvort fær vitnisburður þeirra meira rými í fjölmiðlum en vitnisburður fylgjenda Jesú. Hvort eru talsmenn guðleysis meira brennandi í andanum en þeir sem boða Krist? Boðendur Krists eru ekki allir hempuklæddir, reyndar fæstir. Sérhver sá sem staið hefur upp til að fylgja Jesú á að vera boðandi og verjandi.
Tuttugasta og fyrsta öldin sker úr um það, hvort fylgjendur Jesú Krists verði reknir út í horn í þjóðfélaginu, málstola og uppgefnir, eða sæki í sig veðrið í raunverulegri og smitandi eftirfylgd við Krist. Með hverju er uppvaxandi kynslóð nestuð? Hversu mikinn metnað leggur kirkjan, söfnuðirnir og kristnir einstaklingar í trúarlegt uppeldi og trúarlega fræðslu barna og ungmenna og í að skapa þeim nærandi félagsumhverfi? Ég veit að í þessum söfnuði er starfað að metnaði fyrir ungmennin. Það vekur bjartsýni. Engin stofnun í samtímanum, nema skólarnir, hefur greiðari aðgang að börnum, ungmennum og foreldrum en kirkjan. Börn eru borin til skírnar, óska eftir fermingu og brúðhjón leita til kirkjunnar um blessun. Foreldrafræðsla ætti einnig að vera forgangsverkefni. Ekkert, nákvæmlega ekkert, er mikilvægara fyrir kirkjuna sem kristið samfélag en barna- og unglingastarf og foreldrafræðsla. Ekkert. Allt fé og allan kraft sem sem tiltækur er á að nota í það. Framtíð kirkjunnar á Íslandi ræðst af því hvernig að því er staðið núna Með hverjum heldur þú? . Í hvaða liði ertu? Fylg þú mér, sagði Jesús við Leví. Hann taldi sig ekki yfir það hafinn að hlýða því kalli. Félagsskapurinn hentaði honum ágætlega, tollheimtumenn og syndarar, en leiðtoginn var fínn. Fylg þú mér, segir Jesús við mig og við þig. Hvernig bregðumst við við á örlagatímum? - Myndum skjaldborg um kirkjuna. Það kostar ekkert nema hlusta , rísa á fætur og bregðast við. Fylg þú mér. „Farið og gerið allar þjóðir að lærisveinum.“