Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Leiguliðinn, sem hvorki er hirðir né sjálfur á sauðina, sér úlfinn koma og yfirgefur sauðina og flýr, og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim.Enda er hann leiguliði og lætur sér ekki annt um sauðina. Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig,eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir. Jh 10.11-16Mál og myndhverfingar
Margar eru þær myndirnar sem við gerum okkur af Guði. Við getum ekki fjallað um Guð nema með líkingum og myndmáli. Í Biblíunni birtast margar metafórur eða myndlíkingar um Guð. Hann er sem faðir (Mt), móðir (Jes 66.13), elskhugi, afbrýðisamur eiginmaður (Hósea), reiður Guð, kærleiksríkur Guð, hefnandi Guð, miskunnsamur Guð.
Þetta eru aðeins nokkur dæmi. Við getum ekki fjallað um hið stærsta í tilverunni sem er í raun ólýsanlegt - nema með myndmáli. Og það er ekki aðeins svo að höfundar Biblíunnar tali með þessum hætti, við gerum það hvert og eitt í huga okkar og framsetningu. Og nú bæti ég við einni líkingu í tilefni dagsins: Guð er lögregla. En um leið og ég sleppi orðinu vakna með mér efasemdaraddir því oftast eru tvær hliðar á sama máli. Er hann eins og lögreglan í Katmandú eða lögreglan á Íslandi? Orð eru gildishlaðin og þau geta haft afstæða merkingu eins og kom fram í spurningu minni. Sá Guð sem Jesús boðaði er örugglega ekki eins og lögreglan í Katmandú semvirðist vera handbendi einráðs yfirvalds. En honum má líklega, án þess að það sé allt of langsótt, líkja við lögreglu sem gætir lífs og lima almennings og stuðlar að velsæmi og réttlæti í þjóðfélaginu – íslensku lögregluna. Að minnsta kosti á sú líking við, eins og málum er nú háttað, þar sem íslenska lögreglan er hvorki handbendi spilltra né kúgunartæki gagnvart almenningi.
Íslendingar bera mikið traust til lögreglunnar enda er hún hún upp til hópa skipuð úrvals mönnu, körlum og konum.
Lög, regla og fyrstu kosningarnar
Lögregla, lög og regla. Tilveran lýtur reglum og lögmálum. Sólin kom upp í morgun og himintunglin snúast öll samkvæmt lögmálum alheimsins. Biblían hefst á sköpunarsögunni, stórkostlegu ljóði um upphaf alls sem er. Þar er Guð gerandinn og hann kemur reglu á allt, fellir allt að skikkan skaparans. Og löngu síðar gaf hann mönnum lögmál með Boðorðin tíu að kjarna. Það var þegar Móse leiddi þjóð sína út úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Ég vék að þeim atburði í páskaprédikun minni nú í ár og lýsti því yfir að nútímastjórnmál hefðu hafist með brottför Ísraelsmanna af þeim bæ, hefði byrjað með Exódus þeirra frá helsi til frelsis. Byggði ég þá yfirlýsingu mína á skrifum heimspekifyrirlesara við háskólann í Lancaster (Philip Blond í bókinni Theology and the Poliltical – The New Debate). Hann heldur því fram að í Egyptlandi til forna hafi verið fyrirkomulag sem víða þekktist. Þar var valdinu skipt í þrennt á milli prestastéttar sem túlkaði tilveruna, hers eða lögreglu sem kúgaði og bænda, sem sáu um framleiðsluna. Aðrir voru þrælar. Móse boðaði fólki sínu valkost: Förum! Yfirgefum þetta land, þessar aðstæður, þetta þrælahús. Og fólkið fór. Það komst að raun um að það átti val. Og val fór fram, kosningar - þó ekki í nútímaskilningi þess orðs - og fólkið kaus frelsi.
Þessi atburður markar skil í samskiptasögu Guðs og manna – og í sögu heimsins. Guð valdi sér þjóð og leiddi hana. Þessari þjóð var ætlað að boða allri sköpun lögmál Guðs og kærleika. En á leið sinni í gegnum lífið varð þjóðin sjálfhverf og hélt að fyrirheitin væru einungis ætluð sér en ekki öllum mönnum á öllum stöðum og tímum.
Nýr leiðtogi
Kristur kom „sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.“ (Fil 2.8) Og hann hélt því verki áfram sem Ísraelsþjóðinni var ætlað. Kristur kallaði til nýjan lýð, nýja þjóð, kristna kirkju, sem er hinn nýi Ísrael með það hlutverk að boða öllu mannkyni kærleika Guðs.
Og nú er það Kristur sjálfur sem talar líkingamál við okkur í guðspjalli dagsins og segir:
„Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina.“Guð gætir, Guð lítur eftir, Guð vakir. Hann hefur auga með okkur. Er ekki auga á hönd á hnöppum íslenskra lögreglubúninga, sem vísar með vissum hætti til alsjáandi auga Guðs?
Kristur er góði hirðirinn sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Hann er ekki leiguliði, hann á þá og gætir þeirra eins og sjáaldurs auga síns, sem ábyrgur eigandi. Og þannig eigum við öll að starfa, í anda hans og með sama hugarfari.
Traustir og góðir menn
Lögreglumenn gegna oft hættustörfum og þurfa að sýna hugrekki og dirfsku. Og fyrir kemur að menn leggja líf sitt í sölurnar í þeim störfum. Megi Guð blessa og vernda lögreglumenn að störfum sínum og blessa minningu þeirra sem látist hafa vegna starfa sinna og áhættu.
Heilbrigt og gott þjóðfélag byggir á trúmennsku einstaklinga sem lúta lögum og reglu, sem hjálpast að við þá sístæðu sköpunarvinnu sem bygging samfélagsins krefst. Og þar eru mikilvægir samstarfsaðilar svo sem lögregla og kirkja, skólar og menningarstarf, heilbrigð félög, reglur, stúkur og klúbbar, sem vinna að því að efla gott fólk til dyggðugs lífernis, til að breiða út meðal manna góðvild og réttsýni.
Réttlátt þjóðfélag og friður haldast í hendur
Hver er meginástæða þess að friður ríkir í landi okkar? Ætli það sé ekki vegna þess að hér er óréttur ekki teljandi mikill. Við skulum muna að friður er og verður ætíð ávöxtur réttlætis. Þar sem illgresi óréttar nær að spretta er stutt í ófriðarbál.
Hvert sem starf okkar er fylgir því sú köllun að vinna af heilindum, innan ramma laga og reglna og með hag náungans að leiðarljósi.
Jesús var fullkominn maður. Í því felst meðal annars að hann lifði fullkomlega fyrir aðra – FYRIR AÐRA. Þegar mönnum tekst að rétta úr sér og lita upp úr eigin nafla fær heimurinn nýja ásýnd. Þegar við hættum að líta aðeins á eigin hag og þess í stað á annarra hag, þá gerist eitthvað í sálu okkar sem þroskar og lyftir okkur á æðra stig mennskunnar. Sýnt hefur verið fram á það með rannsóknum að fólk sem iðkar trú sína með því að biðja og líka með því að gera öðrum gott til, líður betur, nær sér fljótar af veikindum, lifir hamingjusamara lifi og lifir lengur! Er það hér sem hinn sanna lífselexír er að finna? Er gralinn týndi sem Indiana Jones leitaði svo ákaft í spennumyndunum, ef til vill að finna hið innra með hverju og einu okkar?
Kemur slikt á óvart? Í raun og veru ekki, því líf af þessu tagi er í samræmi við líf hans sem var góði hirðirinn.
Til er dæmisaga um leit mannsins að kjarna lífsins og þar með hamingjunni:
Skaparinn kallaði dýrin til fundar við sig og sagði:Engar sektir á hamingjuleiðinni„Það er nokkuð sem ég vil hylja fyrir mönnum þar til þeir eru tilbúnir að skilja það. Því að í rauninni skapa þeir sér sinn eigin veruleika.“
Örninn sagði: „Láttu mig hafa það. Ég fer með það til tunglsins.“
Skaparinn sagði: „Nei, dag einn fara þeir þangað og finna það.“
Laxinn sagði: „Ég skal grafa það á hafsbotni.“
„Nei, þeir fara þangað líka.“
Vísundurinn sagði: „Ég skal grafa það í jörðu á sléttunni miklu.“
Skaparinn svaraði: „Þeir munu rista upp húð jarðar og finna það jafnvel þar.“
Amma moldvarpa, sem býr við barm móður jarðar og hefur ekki venjuleg augu heldur sér hlutina andlegum augum, sagði:
„Feldu það innra með mönnum.“
Og Guð gerði einmitt það.
Hvernig finnum við hamingjuna? Leitum hennar hið innra og með því að spegla líf okkar í lífi hins fullkomna manns, Jesú Krists. Við erum kölluð til að lifa í ljósi Krists og fara leiðina með honum. Eina hamingjuleiðin í lífinu er að lifa eftir boðum hans, í kærleika hans sem túlkaði allt lögmálið í ljósi elskunnar. Honum hæfir lofsöngur og dýrð og þess vegna syngjum við til hans í sálmum og lofsöngvum kirkjunnar.
Og í dag er það lögreglukórinn sem syngur fyrir okkur og með okkur, syngur Guði dýrð. Lögreglukórinn hefur tekið lögin Guðs í sínar hendur og syngur þau honum til dýrðar sem allt hefur skapað og alls gætir með alsjáandi auga elsku og miskunnar sem góður hirðir umhyggju og fórnandi kærleika.
Gott er að vera í hjörð hans og mikið þakkarefni.
Velkomin á hamingjuleiðina þar sem óhjákvæmilegt er að fara að umferðarreglum og enginn er tekinn fastur. Menn eru aðeins sektaðir ef þeir fara af hamingjueliðinni. Og þeir sekta sig sjálfir.
Til hamingju með að vera á hamingjuleiðinni. Amen.