Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður okkar og móður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
“Á meðgöngu tvö hafði ég alltaf þá óljósu tilfinningu að èg gæti aldrei elskað neitt barn jafn mikið og dóttur mína og ég vissi ekki hvernig ég ætti að höndla það, en svo fæddist drengurinn og afsannaði þessa tilfinningu.” “Eftirminnilegast hjá mér er þegar maður varð var við fyrstu hreyfingar... þá varð allt miklu raunverulegra. Svo var það þakklætið yfir því að verða aldrei veik, ég fékk aldrei morgunógleði sem var algjör himnasending fyrir mig, manneskjuna sem bara höndlar alls ekki að kasta upp.” “Sem 19 ára móðurleysingi var það fyrst hræðsla, kvíði og efasemdir um að ég gæti þetta. Það breyttist svo í eftirvæntingu og gleði þegar leið á meðgönguna. Kvíðinn um að klúðra móðurhlutverkinu á einhvern hátt var samt alltaf til staðar, alveg þar til drengurinn fæddist. Þær meðgöngur sem ég átti eftir fyrstu voru öðruvísi. Eg vissi að ég gæti þetta og naut þeirra því betur.”
"ég veit að ég hef rétt fyrir mér, ég er ekki geðveik, en enginn villl hlusta á mig, enginn skilur mig!" - þetta var það sem fylgdi mér eiginlega alla síðustu meðgöngu - það var líka síðasta meðgangan mín, en fyrsta meðganga var yndisleg og mér leið súpervel, var ofurspennt, miðjubarnið var svo statt þarna á milli en ég man best eftir því hversu öflugar hreyfingarnar voru á þeirri meðgöngu - hvernig það var að finna fyrir barnið á ferð og flugi en á sama tíma voru það þokkafullar hreyfingar.”
“Það sem mér fannst erfiðast var að ég missti tvisvar áður en ég átti drenginn minn, ég varð þrisvar sinnum ólétt á innan við ári. Þegar ég gekk með drenginn þá var það kvíðinn og hræðslan sem var alveg fram á 20 viku en þá tók spenna og tilhlökkunin við þegar maður varð var við hreyfingar og að heyra hjartsláttinn hjá krílinu. En það sem stendur svo uppúr þessu öllur er gleðin sem kemur þegar maður nær að ganga fulla meðgöngu og hitta nýjan einstakling .”
“Tvíburarnir eru glasabörn... 30% líkur á að heppnist... svo æðruleysið fékk góða æfingu í þá daga... mínar meðgöngur hafa verið uppköst og lifrarbilun með tilheyrandi óþægindum, svefnleysi og uppspenntri konu... en allt hverfur eins og dögg fyrir sólu þegar þessir englar birtast... verst var að fá fæðingarþunglyndi og finna ekki til gleði þegar manni fannst að maður ætti að finna fyrir gleði... og tapa sjálfum sér... mamman er miðjan - ef hún er ekki í lagi virkar ekkert sem skyld.”
“Það að taka á móti eigin barni heima í stofu í vatni er klárlega það sem stendur uppúr og það sem er eftirminnilegast verð svo að láta fylgja með að ég er nú búin að eignast 3 börn og er hætt barneignum en þegar konur sem ég þekki eru langt komnar og styttist í fæðingu þá langar mig líka að vera á þessum stað, þ.e. að vera að fara í fæðingu.”
„Mér er sérstaklega minnistætt það sem ljósmóðirin í eftirlitinu sagði við mig, hún var á þeim tíma að berjast við krabbamein og hún sagði. Viljið þið svo gera það fyrir mig að loksins eftir 40 vikur þegar barnið er komið í heiminn, að gefa ykkur tíma til að njóta þessarar stundar þó ekki væri nema í 30 mín og eftir það getið þið sent sms, myndir og hringt. Hún sagði að sér þætti svo sorglegt að sjá foreldra fara beint í símann í stað þess að njóta, Ég er svona týpa sem rýk í símann þegar eitthvað er að gerast, en ég hef haft þetta á bak við eyrað, í öllum nútíma hasarnum að gleyma ekki að njóta þess sem líðandi stund hefur upp á að bjóða, hún kemur ekki aftur.“
„Mér fannst tilfinningin um að ég væri ekki að taka þátt í eigin meðgöngu svo sterk. Ég upplifði sjálfa mig hreinlega ekki sem ólétta. Og hafði þar af leiðandi bullandi samviskubit yfir því að halda áfram með lífið einsog ekkert hefði í skorist þangað til alveg á síðustu metrunum. Ég hef aldrei sagt þetta upphátt áður.“ „Ég missti fyrsta barn komin 16 vikur á leið og hugsaði þá og hugsa enn að eitthvað hafi ekki verið eins og það átti að vera, þannig náði ég að sættast við aðstæðurnar.Svo þremur árum seinna eignaðist ég elstu dóttur mína en fann ekki strax fyrir þessari sterku móðurtilfinningu sem svo margir tala um. Mér fannst þetta erfitt og langaði að skila henni fyrstu þrjá mánuðina en svo gerðist eitthvað og þvílík himnasending sem þessi dóttir mín er.“ „Ég beið spenntust eftir að fá óstjórnlegar langanir í eitthvað skrítið. Fannst ótrúlega fyndið að fá svona óstjórnlega löngun í súrar gúrkur, sand, mold eða hvað það nú var, en það gerðist aldrei og fannst mér ég pínu svikin af því.“ „Það er þetta með meðgönguna. Mér finnst þetta ekki beint erfitt en afskaplega leiðinlegt. Mér finnst fúlt að missa svona yfirstjórnina á líkama mínum og hálfpartinn horfa á hann breytast í einhvers konar skrímsli. Fæ aldrei þessa yndistilfinningu þó ég sé mjög frísk alla meðgönguna.“ „Ég er náttúrulega ekki búin með mína meðgöngu, er komin 29 vikur á leið. En eitt sem ég hef upplifað: Mér finnst að fólk eigi alltaf að vera tala um óléttuna mína við mig! Ég meina, ég hef æðislegan áhuga á mér í þessu ástandi og hugsa eiginlega ekki um neitt annað. Og mér finnst að fólk eigi að snerta magann á mér og strjúka. Ég er alltaf að því sjálf. Ég meina það er barn þarna inni, sem er byrjað að iða til og sparka, og óléttubumbur eru fáránlega skemmtilegar viðkomu. Ég varð bara foj þegar Tobba Marínós kom í eitthvert blaðaviðtal og bannaði fólki að minnast á óléttu kvenna við þær og það mætti alls ekki snerta á þeim bumbuna. Svo hef ég upplifað rosalegt body pride á meðgöngunni. Ég fór fínt út um daginn og ég boraði mér í níðþröngan og stuttan kjól. Bara eins og ég væri Beyonce. Ég hefði aldrei farið út fyrir hússins dyr í svona þröngu ef ég væri ekki ólétt.“ „Það sem ég man best eftir þegar ég eignaðist eldri strákinn minn er að ég var búin að fara í sturtu, komin í hrein náttföt og fór svo upp í rúm á sjö kvenna stofu og ég man svo vel mont-tilfinninguna, stoltið yfir að hafa fætt barn, sat uppi í rúminu og horfði montin í kringum mig, ligga ligga lái... svo eftir smástund fattaði ég að það voru sex konur þarna inni sem allar höfðu afrekað það sama og ég, og þá svona varð ég pínu vandræðaleg, fór bara að lesa. En þetta var áfram ofboðslega sterk tilfinning, stoltið og montið.“ „Mér leið eins og ég væri ekki lengur ein heima.” “Mér leið eins og Maríu guðsmóður; algjörlega útvalin og með merkilegasta barn heimsins undir belti.”
Þetta eru meðgöngufrásagnir nútímakvenna á aldrinum tuttugu til fimmtíu ára sem þær sendu mér skriflega í kjölfar þess að ég auglýsti eftir slíkum sögum á Facebooksíðu minni. Ég fékk svo leyfi til að birta þær orðréttar en tók út nöfn og annað sem rekja mætti beint til sagnaritara. Allar þessar sögur komu til mín innan klukkustundar eftir að ég óskaði viðbragða. Hvers vegna skyldi það vera? Jú vegna þess að í tækniveröld sem minnkar dag frá degi, í heimi þar sem ekkert er nýtt undir sólinni er sérhver meðganga og barnsfæðing ennþá mesta undur veraldar. Allar nýbakaðar mæður eru Maríur í þeim skilningi að hvert einasta barn fæðist með Guð í sálu sinni og hver einasta meðganga og fæðing er einstök og merkileg og óendanlega mikilvægt framlag til mannkyns. Sjáið þið líka annað sem hefur ekki breyst frá því engillinn tjáði Maríu að hún myndi fæða son Guðs í heiminn. Það eru tvær tilfinningar sem ég hygg að allar mæður upplifi einhvern tímann í ferlinu, þ.e. ótti og efi. „En María varð hrædd við þessi orð og hugleiddi hvað þessi kveðja ætti að merkja“ gerum við það ekki líka þegar bláu strikin verða tvö á prufunni? En María sagði síðar við engilinn : „Hvernig má þetta verða þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?“ Talandi um óttann, hafið þið velt fyrir ykkur þessum óskráðu lögum sem gilda um þagnarbindindi verðandi foreldra á fyrstu þremur mánuðum meðgöngu? Það er vitað að á fyrstu 12 vikum meðgöngu er mesta hættan á fósturláti og þess vegna hefur sú óskráða regla að þegja yfir tíðindunum gilt lengur en elstu menn muna. Þetta er ekki gott vegna þess að þetta viðheldur fjarlægðinni sem skapast á milli syrgjandi móður sem missir fóstur á þessu tímabili og umhverfisins sem gerir sér ekki grein fyrir þeirri miklu sorg sem margir foreldrar og ekki síst mæður ganga oft hljóðlaust í gegnum. Það er svo merkilegt að í gömlu góðu guðspjöllunum sem eru orðin nær 2000 ára er strax greint frá tíðindunum, við fáum að fylgjast með meðgöngu Maríu alveg frá því að eggið frjógvast en í nútímaveröld er eins og ekkert sé til að tala um fyrr en á tólftu viku, þá fyrst má segja frá tíðindunum og taka við hamingjuóskum. Og það er nú ekki eins og þær séu eitthvað fljótar að líða þessar tólf vikur og heldur ekki eins og þær séu öllum konum auðveldar hvorki til líkama né sálar. Væri ekki ráð að snúa þessu við þannig að það þætti eðlilegasti hlutur að segja frá um leið og ljóst er að getnaður hefur orðið eða fljótlega eftir að móðirin hefur fengið grun sinn staðfestan? Gæti það ekki bara orðið til þess að leiða margar konur út úr þagnarskógi erfiðra tilfinninga eins og ótta, efa og sektarkenndar? Einu sinni og það er ekkert ýkja langt síðan máttu barnshafandi honur ekki ganga í þröngum fatnaði eða fara með bumbuna í sund, þær áttu að klæðast svokölluðum tækifærisfatnaði sem leit yfirleitt út eins og segldúkur með gati fyrir höfuðið, næstum jafn spennandi og fangabúningur. Einu sinni og það er enn styttra síðan, var ekki ætlast til þess að feður væru viðstaddir fæðingu barna sinna, þeim var gert að bíða frammi milli vonar og ótta, hálf vandræðalegir á svip yfir að hafa komið konu sinni í þessa erfiðu stöðu. Einu sinni og það er mjög stutt síðan, máttu konur helst ekki tala um andlega vanlíðan á meðgöngu eða eftir fæðingu, svokallað fæðingarþunglyndi. Ég man sjálf muninn frá því að eiga barn fyrir tólf árum eða sex, í bæði skiptin var ég eiginlega að brjálast úr vanlíðan en í fyrra skiptið þegar ég reyndi að ýja að líðan minni á ungbarnaverndinni var mér bara skverað upp á borð og tekinn blóðþrýstingur, á seinni meðgöngu sex árum síðar, voru allar mæður skimaðar og spurðar spjörunum úr um andlega líðan. Það var sannarlega mikill léttir að þurfa ekki aftur að vera blóðþrýstingsmæld við kvíða. Hefurðu hugsað út í það að ef við förum yfir sögu kvenna frá morgni tímans að þá er fátt ef nokkuð í þeirri sögu sem er hulið eins mikilli þögn og jafnvel skömm og meðganga og fæðing. Þetta hlutverk kvenna frá náttúrunnar hendi hefur á tíðum verið notað til að halda þeim niðri og kúga þær og samt væri ekkert að gerast á þessari plánetu ef við fengjumst ekki til þess að sinna því. Við þyrftum a.m.k ekki að eyða meiri tíma í umræður um ESB ef konur færu í allsherjar og eilífðar barnsfæðingaverkfall. Stundum hvarflar að manni að þetta hlutverk kvenna hafi þótt of máttugt og þar af leiðandi ögrandi gagnvart karllægu valdi , það er jú fátt í veröldinn sem svipar jafn mikið til verka Guðs og það að ganga með og fæða barn.
Það er mikið gert úr meðgöngu Maríu og fæðingu Jesú í Biblíunni, þar er ekkert verið að fela, eins og áður segir fáum við að fylgjast með um leið og getnaður er orðinn, við fáum að heyra af viðbrögðum móðurinnar við upphaf meðgöngu, við fáum að fylgjast með fæðingunni þar sem faðirinn er ekki hafður frammi heldur tekur sjálfur á móti barninu og svo fær allskonar ókunnugt fólk að vitja móður og barns strax á sængina. Síðan þá hefur okkur einhvern veginn tekist að snúa þróuninni við og búa til allskonar tabú í kringum þetta eðlilega ferli sem er þó svo flókið og margbreytilegt og krefst svo mikillar samstöðu og skilnings frá umhverfinu, já svo vel megi vera. Það er nógu yfirþyrmandi verkefni að ganga með, fæða og ala upp barn að maður þurfi ekki að gera það þegjandi og hljóðalaust, barnið er auðvitað það dýrmætasta sem við eignumst en það þýðir ekki að ferlið sé alltaf dans á rósum og það verður svo sannarlega ekki auðveldara ef umhverfið leyfir ekki allskonar viðbrögð. Verum því dugleg og opin fyrir að hlusta á Maríukvæðin mörgu. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.