Haustið er ekki i uppahaldi hjá mér þó vissulega sé það rómantískt. Bjartir dagar en nógu dimm kvöld fyrir kertaljós. Leifar af sumarseyðingnum lita hversdagsleikann sem hægt og rólega tekur yfir.
Haustið boðar reglufestu og öryggi, er fullt af vonum og góðum fyrirheitum.
Þó er það svo að rétt áður en ágúst mætir september lendi ég alltaf í tilfinningalegri glímu. Ég vil ekki að sumarið taki enda en um leið finnst mér haustið lokkandi. Mig langar að lifa svolítið lengur i ábyrgðarleysi sumarleyfisins en þyrstir um leið í bitastæð verkefni að glíma við. Að lokum sleppi ég krampakenndu taki á sumrinu og leyfi nýrri árstíð að taka yfir. Og það var ekki eins erfitt og ég hafði gert mér í hugarlund.
Haustið gerir ekki ráð fyrir sumarsandölunum. Það vill hafa okkur í sokkum. Gæsahúðin á berum leggjunum kallar á sokkabuxur, sólbrúnkan fölnar og gráhvíti liturinn kallar á púðraðar kinnar.
Þegar sáttum við nýja árstíð er náð fer ég að njóta hennar.
Eitt af því besta við haustið eru fermingarbörnin sem streyma í kirkjurnar. Nú eru kirkjur landsins smám saman að fyllast af þrettán ára, misjafnlega spenntum, unglingum sem á vormánuðum munu játa og staðfesta frammi fyrir fjölskyldu og vinum að þau vilji leyfa Jesú Kristi að hafa áhrif í þeirra lífi.
Það eru forréttindi að fá að deila stórum hluta vetrar með þrettán ára unglingum og fá að horfa á lífið og Guð með þeirra augum. Það er sannarlega ekki alltaf auðvelt en það kennir mér alltaf aðeins meira um lífið að vera kippt niður á jörðina nokkrum sinnum í viku og neyðast til að útskýra fyrir gagnrýnum hópi hálf fullorðins fólks, hvers vegna ég trúi á Guð. Því það er það sem fermingarfræðslan að stórum hluta gengur út á; að segja frá og sýna að, ég trúi á Guð og hjálpa þeim að eiga gott samband við Guðs sem lætur sig vandamál þeirra varða hversu stór eða smá, merkileg eða ómerkileg þau eru. Guð sem skilur áhyggjur unglingsins af bólu á kinn.