Loksins?

Loksins?

"Mikli Guð hefur þú loksins sent okkur Messías?" Lítið barn fæddist í garði dauðans. Þremur dögum síðar hafði það ekki fengið neina mjólk úr móðurbrjóstum. Vonir öldungsins kulnuðu enn einu sinni. Líf þitt – líf allra - endar ekki með ódýrum hætti.

Í gærkvöldi vorum við feðgar að undirbúa svefn. Tannburstun og allar hestu athafnir kvöldsins voru framkvæmdar að venju. Eitt var öðru vísi en venjulega. Annar sona minna fór að tala við sjálfan sig. ”Ég þarf að tala við Guð um nóttina, um daginn á morgun.” Og svona hélt hann áfram að minna sig á viðræuefnin við Guð. Svo þegar hann var búinn að tuldra, tala við sína eigin sál byrjaði hann að tala við Guð, sem hann ávarpar með kæri: ”Kæri Guð….” og svo kom alveg eðlileg samræða um öll þau mál sem hann var búinn að ræða við sinn innri mann. Ég staldraði við þetta ferli. Það var fallegt og heillandi að heyra barn tala svona eðlilega við þann sem heyrir vel. Og þetta tal var líka í samræmi við gamlar aðferðir í sálarhreinsun föstunnar. Atferli drengsins rímaði vel við aðferð Hallgríms Péturssonar í Passíusálmunum. Í byrjun hvers sálms ræðir sálin við sjálfa sig. Svo er farið í efni Ritningarinnar og talað við Guð. Byrjað innan í okkur og síðan rætt við Guð og svo er alltaf komið til baka úr þessari himinferð. Við getum lært af Hallgrími hvernig sálarstæling fer fram. Hún er í samræmi við atferli barna sem eru að þroskast og eflast. Hið sama býr í þér. Hvernig viltu eflast?

Nú er fasta og fasta er ekki það að vera í föstu sambandi við hitt kynið – eiga sér kærustu eða kærasta - eins og nokkrir unglingar héldu. Fastan er tíminn á undan páskum, sá hluti kirkjuársins sem er sérstakur æfingatími sálarinnar. Formæður og forfeður gengu í sig á þessum tíma. Sum föstuðu visslega, hertu að sér í mat og drykk – ekki til að megrast heldur til að skerpa vitund, til að minna sig á það, sem væri innan í þeim og þyrfti að ræða við Guð um. Fasta á fæðu eða drykk var ekki og hefur ekki verið markmið hins trúarlega. Föstur hafa verið tæki til stælingar, hvati íhugunar. Fastan er því stælingartími til að mæta hinni mestu lægingu. Hvað gerir það þér hið innra? Hver er þín fasta, hvernig nærir þú anda þinn?

Vonarmál

Ein af þeim sögum, sem er mér hugleikin og ég vitja gjarnan á föstutímanum, er frásögn, sem guðfræðingurinn Paul Tillich birti í hugvekjubók. Og sagan er þessi: Eftir seinni heimstyrjöld var vitni leitt fram í stríðsréttarhöldum. Þetta var maður af gyðingaættum. Hann vissi um þjóðernishreinsun og þar með drápsvilja þriðja ríkisins og gerði sér fulla grein fyrir í hvaða hættu hann var. Maðurinn fór því huldu höfði og leitaði skjóls í gyðingagrafreit. Vitnisburður mannsins var stórfelldur. Hann sagði frá, að hann var næstaddur við fæðingu barns í grafhvelfingu. Ung kona, sem einnig var í felum og hafði ekki í önnur hús að venda, ól barn í þessari friðarhöfn dauðans. Þetta var því skjól flóttamanna og einnig undarleg fæðingardeild. Starfsmaður garðsins, áttræður grafari, var eina tiltæka ljósmóðirin á svæðinu. Þegar barnið hafði rekið upp fyrstu grátrokuna muldraði hinn aldraði maður það sem dýpst var og raunhæfast í ofsóknum: "Mikli Guð hefur þú loksins sent okkur Messías?” Og svo bætti hann við eins og eftirþanka: ”Hvar ætti Messías að fæðast ef ekki í gröf?”

Þetta er merkileg hugsun. Getur raunveruleg hjálp komið einhvers staðar að utan – úr einhverju sem er utan lífsins og lífsbáráttu manna? Lífið sprettur fram þar sem dauðinn er raunverulegur? Vitnið í réttarhöldunum sagði frá því að þremur dögum eftir fæðingu hefði hann séð barnið og móður þess á nýjan leik. Örvæntingarfull móðirin megnaði ekki að mylkja barni sínu. Eina fæða þess voru tárin, sem féllu af hvörmum konunnar. Og maðurinn minntist orða hins aldraða grafara, sem hafði séð á bak fjölda inn í eilífðina. ”Mikli Guð hefur þú loksins sent okkur Messías. Hvar ætti Messías að fæðast ef ekki í gröf?”

Hvernig sendir Guð gjöf sína? Grafarinn gamli var nauðbeygður til að stara opineygður á nakta veröld, heim hinna mestu átaka lífs og dauða. Hann tók á móti barni í myrkri og túlkaði tilveruna róttækt: Annað hvort myrkur eða ljós, annaðhvort líf eða dauði.

Líf, tengsl og ferð

Þessi dramatíska saga um hinar algeru andstæður leitar á huga. Hún er efni fyrir íhugun um lífið. Í þér fæðist eilífðin, lífið sem þér er lagt í blóð og sál. Skiptir dauði og þjáning Jesú einhverju máli? Hvaða gildi hefur að vera Jesú samferða, fylgja honum á göngunni? Hvernig getur þjáning eins manns skipt aðra sköpun? Hvernig getur sátt við Guð grundvallast á hinu mesta ranglæti?

Slíkar spurningar leita á og hafa raunar verið viðfangsefni allra kristinna manna frá öndverðu. Við þeim eru ýmis svör, sum trúarheimspekileg, trúfræðileg, siðfræðileg, fagurfræðileg, heimsfræðileg og svo framvegis. En ekkert dugar sem svar, sem ekki höfðar til persónudýpta okkar.

Trúartengsl eru hliðstæð ástartengslum. Skilur þú til fullnustu ást þína til barna þinna, maka og náttúru? Torræð öfl og lítt greinanleg hafa áhrif og móta okkur í lífinu. Miklu skiptir að læra að horfa á líf okkar og annarra með ástaraugum og umhyggju. Að stara bara á sjálf og eigin nafla verður aðeins til ills. Í lífsskólanum eigum við að læra að hverfa frá eigingirni, hætta að dæma í ljósi eigin geðþótta og illa grundaðra fordóma. Við megum gjarnan læra að horfa með augum Guðs, sjá sjálf okkur og veröld með himinsjónum. Til þess þarf áhorfsaðferð trúarinnar, sem er n.k. tvísýni. Í bíó notum við sérstök gleraugu til að skerpa sjón og mynd þegar þannig myndir eru sýndar. Það er erfitt að setja sig í spor annarra manna og lifa sig í annarra tilfinningar. Fastan er tími til að þjálfast í þessari Guðssjón, að læra að horfa með ást á allt, fólk, veröld, gildin, já lífið í fjölbreytileika þess. Fastan færir okkur sjóntæki til að skerpa upplifun okkar og leiða okkur til sálarhreysti.

Innlifun

Með æfingunni lærist, að saga Jesú er saga Guðs og saga mennskunnar, sagan um þig. Að sinna heilsurækt sinni er ekki að skilja Guð, heldur lifa vel og í samræmi við umhyggju Guðs og lífgefandi tengsl. Að fylgja Jesú Kristi er ekki að skilja Fjallræðuna vistmunalega eða megna að skilgreina þjáningu Jesú Krists - heldur fara með honum og leyfa honum að endurskilgreina líf okkar.

Líf Jesú einnkenndist af baráttu en aldrei af fullkominni uppgjöf. Æfiför hans markaðist af vilja til umsköpunar. Allir, sem gengu af fundi Jesú, fengu vegarnesti, sem umbreytti vonleysi í von. Sá kraftur, sem Jesús miðlaði, var kvaðning til baráttu - gegn öllu því sem hefti gott og gleðiríkt líf. Að fylgja Jesú þýðir ekki aðgerðarleysi né uppgjöf. Þvert á móti er Jesúfylgdin virk og starfarík afstaða, sem einkennist af þori og kjarki til að horfast í augu við lífið eins og það er og vilja til að breyta illum aðstæðum til góðs. Kristnir menn tala um fagnarerindi. Og það varðar frelsi hinna andlega heftu, hinna fátæku og kúguðu, lausn hinna þjáðu, lækningu hinna sjúku, frelsun hinna pyntuðu og styrking hinum hrelldu.

Lausn

"Mikli Guð hefur þú loksins sent okkur Messías?" Lítið barn fæddist í garði dauðans. Þremur dögum síðar hafði það ekki fengið neina mjólk úr móðurbrjóstum. Vonir öldungsins, sem gróf hina dauðu - en tók einu sinni á móti barni - kulnuðu þó enn einu sinni. Líf manna er barátta milli nætur og dags, vonar og vonbrigða. Líf þitt – líf allra - endar ekki með ódýrum hætti. Hin kristna saga tjáir okkur, að það var ekki sendiherra, sem kom til að flytja mikil tíðindi, heldur kom jöfur himinsins, Guð sjálfur. Ekki til að taka þátt í rökræðum eða flytja krúttlegan boðskap, heldur til að lifa eins og þú. Guð lifði mennska sögu - og dó. Og hvað svo?

Mikli Drottinn – Messías. Í grafhvelfingu fæddist líf. Ferðin á föstu er för með Jesú Kristi alla leið um réttarsali aldanna, að bera með honum krossinn, standa í sporum kvennanna við Golgata tímanna og fara að gröfinni með konunum á páskadag fortíðar og samtíðar. ”Mikli Guð hefur þú loksins sent okkur Messías?” Það er lífsmálið á föstu. Ertu á föstu – á ferð með Jesú?

Hugvekja flutt í Neskirkju 27. mars, 2011