Evrópa er fjölmenningarsamfélag. Í öllum ríkjum álfunnar, þar með talið á Íslandi, eru fjölmennir hópar innflytjenda sem fóstra menningu upprunalandsins og aðlagast smátt og smátt menningu heimalandsins.
Hugmyndir um að ólíkir menningarheimar renni áreynslulaust saman á tveimur til þremur kynslóðum hafa reyndar ekki gengið upp. Þriðja kynslóð innflytjenda hefur ekki tileinkað sér ekki mál og menningu upptökulandsins í nægilegum mæli og heimalöndin hafa ekki opnað faðminn nógu vel. Gettó hafa orðið til, einkum meðal ungra múslima.
Þjóðamósaík Evrópu er margbrotin og flókin. Hefðbundin landamæri draga nokkur mörk milli þjóða en eru alls ekki afmarkandi. Tyrkir lifa í Þýskalandi, Serbar í Montenegro, Ungverjar í Búlgaríu og áfram í það óendanlega. Hugtakið ein menning – eitt ríki á ekki við. Fjölmenning er staðreynd þó að menn deili um tungumál, blæjur, búrkur og krossa. Þó að sumum þyki óþægilegt að fólkið allt um kring sé ekki allt eins á litinn eða játi ekki allt sömu trúna og tali ekki allt eins „þróað“ mál og afi og amma þá eru þeir fleiri sem njóta fjölbreytninnar og aðkomnir hafa á öllum tímum í sérhverju ríki auðgað menningu þess lands sem hefur tekið þá upp á arma sína.
Í dag 21. mars er einmitt alþjóðlegur baráttudagur gegn kynþáttafordómum og um leið gegn kynþáttamisrétti. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna valdi þessa dagsetningu í minningu 69 mótmælenda sem myrtir voru 21. mars 1960 er þeir tóku þátt í friðsamlegum mótmælum gegn aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku.
Í tilefni dagsins boðar Þjóðmálanefnd Þjóðkirkjunnar til hádegismálþings í safnaðarheimili Neskirkju. Þar munu Toshiki Toma og undirritaður ræða um kynþáttafordóma og íslenskt samfélag og Magnús Erlingsson og Svavar Stefánsson segja frá því hvernig kirkjan nálgast innflytjendur. Allir eru velkomnir. Málþingið hefst kl. 12:00.