Predikun á 30 ára afmæli Breiðholtskirkju

Predikun á 30 ára afmæli Breiðholtskirkju

Hún sér að Guð hefur mikla hluti gert fyrir sig. Hann hefur reist hana við, tekið í hönd hennar og lyft undir sjálfsmynd hennar. Það er sú hvatning sem konur þurfa svo mikið á að halda í dag, að finna það að þær séu metnar að verðleikum, að þeim sé trúað þegar brotið er á þeim og að kraftur sá sem Guð hefur gefið þeim megi nýtast öllu mannkyni til góðs.

Flutt 18. mars 2018 · Breiðholtskirkja, 30 ára vígsluafmæli

Á boðunardegi Maríu 18. mars 2018

Náð sé með okkur öllum og friður frá Guði.

Lofsöngur Maríu, Magnificat hefur hljómað í öllum löndum heims á öllum heimsins tungumálum í yfir 2000 ár. Kristin trú eru fjölmennustu trúarbrögð veraldar þar eð þriðjungur mannkyns játar trú á Jesú Krist. Og flest kristið fólk þekkir lofsöng Maríu, lofsöng sem höfðar beint til mannkynsins á öllum tímum.
Hér í þessari kirkju, Breiðholtskirkju, þessari tjaldbúð Drottins, hefur lofsöngur hljómað í 30 ár, lofsöngur af ýmsum stærðum og gerðum innlendum sem erlendum og hugsunin um það kveikir með okkur tilfinningar, bæði ljúfar og sárar.

Kirkjuafmæli vekja alltaf upp tilfinningar. Söfnuður kirkjunnar kemur saman til að minnast síðast liðinna 30 ára, minnast stunda sem seint gelymast. Hér óx upp söfnuður í nýju hverfi, en söfnuðurinn var stofnaður í ársbyrjun árið 1972 þegar Breiðholtið var að stíga sín frumbernsku skref. Fyrstu 16 árin var söfnuðurinn kirkjulaus, en messað var í skólum. Mér er afar minnistætt hve mikill fengur það var fyrir söfnuðinn að fá kirkjuna fullbúna, þegar loksins kom að því að vígja hana og taka hana í notkun. Hingað þustu börn í sunnudagaskóla, hér hafa ungmenni játað trú sína á Jesú Krist og heitið því að hafa hann að leiðtoga lífs síns í blíðu og stríðu. Hér hafa hjón heitið hvort öðru að standa saman í kærleika og héðan höfum við kvatt ástvini, bæði þau sem hafa kvatt södd lífdaga og svo þau sem fóru allt of snemma. Og við allar þessar stundir hljómar söngur, lifsöngur, þakkarsöngur, bænasöngur.

Svona er líf hverrar einustu kirkju í landinu, en það sem mest er um vert er helgihaldið, sunnudagsmessan á hverjum sunnudegi, þegar fólk kemur saman til að lofa og þakka í söng, til að hlusta á orð Guðs og boðskap hans til okkar á hverjum tíma og til að biðja fyrir þeim sem á fyrirbæn þurfa að halda eða einfaldlega sjálfum sér og sínum nánustu.

Það eru meira en 30 ár síðan ég kom hér fyrst inn fyrir dyr. Það var á byggingartímanum undir handleiðslu míns kæra kollega, sr. Lárusar Halldórssonar. Hann sýndi okkur prestum í prófastsdæminu stoltur þessa fallegu byggingu sem þá var í smíðum. Guð blessi allar góðu minningarnar sem við eigum um hann og hans ágætu konu, Nönnu Nikulásdóttur.

Síðan tók við sr. Gísli Jónasson, sem var sóknarprestur kirkjunnar í 32 ár og þjónaði með dyggri aðstoð konu sinnar Árnýjar Albertsdóttur, sem nýlega er fallin frá.

Guð blessi allar góðu minningarnar um þá ágætu konu. Nú þjónar hér sr. Magnús Björn Björnsson.
Þegar kirkjan var vígð hafði starfað hér kirkjukór í 15 ár og höldum við því í dag upp á 45 ára afmæli kórsins.

Svo varð söfnuðurinn að bíða í 10 ár eftir að kirkjan var vígð, eftir orgeli, en það var okkar góði orgelsmiður Björgvin Tómasson sem smíðaði orgelið sem hefur nú verið í kirkjunni í 20 ár.

Allt stuðlar þetta að lofsöng, bænasöng, þakkarsöng. Án söngs getum við varla hugsað okkur kristna guðsþjónustu. Söngurinn er tjáning á tilfinningum sem snertir okkur á annan hátt en þegar við tjáum okkur með töluðum orðum. Þess vegna er svo mikilvægt að við tökum vel undir safnaðarsönginn og finnum hvað það gerir okkur gott, bæði líkamlega og andlega.

Á þessu ári mun koma út ný sálmabók sem mikill fengur verður að fá og vonandi lærum við sem flest þá nýju sálma sem þar munu birtast.

En snúum okkur þá aftur að lofsöng Maríu og skoðum hann örlítið betur. Hvað er það í þessum lofsöng sem hefur gert hann svo ódauðlegan? Af hverju sækist hvert tónskáldið á fætur öðru eftir því að semja við hann ný og ný tónverk?

Ég held að svarið liggi í tvennu.
Annars vegar eru það aðstæðurnar sem hann er sunginn við og síðan er það innihald söngsins.

En hverjar eru þá aðstæðurnar?
María hefur fengið vitrun frá engli um að hún eigi að bera sjálfan son Guðs undir belti. Við þessa vitrun er henni sagt að Elísabet frænka hennar sem var kölluð óbyrja eigi líka von á barni. María leggur því leið sína til frænku sinnar og þegar María birtist tók barnið í móðurlífi Elísabetar viðbragð af gleði, eins og segir í Lúkasarguðspjalli.

Elísabet segir við hana: “Sæl er sú sem trúði því að rætast mundi það sem Drottinn lét segja henni.”
Þá hefur María upp raust sína og fer með lofsönginn sem lesinn var frá altarinu áðan.

Það má segja að lofsöngurinn sé tvískiptur. Annars vegar er hann þakkaróður til Guðs fyrir að hafa útvalið hana til þessa mikla hlutverks, en hins vegar er í honum innsýn inn í það hlutverk sem Jesús átti eftir að taka að sér, innsýn inn í boðskap hans og kærleika.

Hann tvístrar drembilátum í huga og hjarta. Hann steypir valdhöfum af stóli og upp hefur smælingja, hann seður hungraða en gerir ríka tómhenta.

Með öðrum orðum: María hefur þegar á meðgöngunni innsýn í kristinn boðskap.
Kristur kallaði okkur til að sýna þeim kærleika og hjálpsemi sem eru undirokaðir. Strax í upphafi starfs síns vitnar Jesús í Jesaja spámann og segir:

“Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.”

Þetta er boðskapur kirkjunnar enn í dag.
Þetta er sá boðskapur sem boðaðar hefur verið í orði og verki í þessari fallegu kirkju í 30 ár.
Í framhaldi af því getum við spurt okkur: Hver er þá boðskapur kirkjunnar í dag árið 2018?

Hann er sá sami og hann hann hefur verið um aldir, að sýna kærleika og réttlæti, rétta hlut þeirra sem brotið er á af hvaða tagi sem það er. Það er köllun kirkjunnar að sýna kærleika og hjálpsemi þeim sem á hjálp þurfa að halda. Því er brýnt að heilbrigðiskerfið okkar sé alltaf eins og best verður á kosið því það er köllun okkar sem kristins fólks að hlú að hinum sjúku.

Fangelsin eiga líka að vera mannsæmandi því Jesús sagði að við ættum að koma til þeirra sem væru í fangelsum. Og við sem búum í svo ríku landi sem Ísland er eigum ekki að una því að fólk lifi hér í fátækt.

Við eigum ekki heldur að sitja og horfa á ungt fólk, já og fólk á öllum aldri misnota lyf og fíkniefni. Ímyndum okkur þau sár sem það skilur eftir að níu einstaklingar hafa látist af völdum ofneyslu lyfja frá áramótum og mars er aðeins hálfnaður! Og svo fáum við fréttir af því að eldra fólk sem býr eitt þjáist af vannæringu.

Við þurfum að vinna gegn slíkum meinsemdum í íslensku þjóðfélagi sem á að einkennast af vináttu og frændrækni. Þess vegan þurfum við að taka vel á móti flóttafólki, sem þráir það eitt að lifa í friði eins og við fáum blessunarlega að gera hér á Íslandi.

Við þurfum að verja allri okkar orku í að búa í haginn fyrir unga fólkið okkar sem berst við kvíða fyrir framtíðinni og hver könnunin áfætur annarri sýnir okkur að mörgun þeirra líður illa.

Ef við einbeitum okkur að því að sýna börnum og unglingum kærleika og stuðlum með þeirra hjálp að því að vernda jörðina okkar gegn umhverfisvá, þá getum við með því að boða þeim trúartraust á góðan Guð unnið á þeirri vanlíðan sem virðist hrjá svo margt af unga fólkinu okkar.

María gleðst í hjarta sínu yfir því að Guð hefur litið til hennar í smæð hennar. Hún sér að Guð hefur mikla hluti gert fyrir sig. Hann
hefur reist hana við, tekið í hönd hennar og lyft undir sjálfsmynd hennar. Það er sú hvatning sem konur þurfa svo mikið á að halda í dag, að finna það að þær séu metnar að verðleikum, að þeim sé trúað þegar brotið er á þeim og að kraftur sá sem Guð hefur gefið þeim megi nýtast öllu mannkyni til góðs.

Að þessu leyti getum við litið til Maríu sem fyrirmyndar, ekki að því leyti sem hún var oft notuð hér áður fyrr sem fyrirmynd lítillátra kvenna, nei, María er ímynd hinnar sterku konu, sem tekur hlutverk sitt í lífinu alvarlega, ekki aðeins það hlutverk að ganga með barn, heldur það hlutverk að að bera í heiminn kærleika , kjark og kraft til að takast á við lífið.
Við erum öll kölluð til þessa hlutverks, konur og karlar, ungt fólk sem gamalt. Við erum kölluð til þess hlutverks að gera heiminn örlítið betri í dag en hann var í gær. Það getum við svo sannarlega ef við stöndum saman, styðjum hvert annað til góðra verka og látum af baknagi og tortryggni.

Nú fer að síga á seinni hluta föstunnar og við horfum fram til páska, hátíðarinnar, þegar við minnumst upprisu Jesú Krists. Því að til þess dó Kristur og varð aftur lifandi að við mættum lifa með honum að eilífu. Sú trú og hina magnaða von sem trúin á upprisuna gefur okkur fyllir okkur af þeim kjarki, krafti og kærleika sem er besta veganesti lífsins.
Dýrð sé Guði !
Amen!