Þegar þeir voru farnir, þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera, uns ég segi þér, því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því. Hann vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. Þar dvaldist hann þangað til Heródes var allur. Það sem Drottinn sagði fyrir munn spámannsins, skyldi rætast: Frá Egyptalandi kallaði ég son minn. Matt 2.13-15
Gleðilegt nýtt ár.
Við erum lögð af stað á nýju ári.
Enn eru jól því að jólin og boðskapur þeirra tengir saman árin okkar. Jólalögin eru hætt að óma og okkur þykir rúmhelgin nágast. En eins og það var mikið tilhlökkunarefni að setja upp jólaljósin og gera heimilin hátíðleg með ýmsum hætti þá er líka góð tilfinning sem fylgir því að taka skrautið niður aftur. Um leið erum við að sjá að sól hækkar á lofti, daginn er að lengja og við færumst nær vorinu. Allt er þetta ljúft og notalegt. Hluti af þeirri umgjörð lífsins sem er okkur kær. Hluti af því sem við tökum á móti með því að lifa.
Sá veruleiki sem blasir við í guðspjalli dagsins er óneitanlega dálítið kaldur. Heldur betur hefur sviðið breyst síðan í jólaguðspjallinu.
Englarnir eru hættir að syngja dýrðarsöngvana, vitringarnir farnir til austursins aftur og hirðarnir að gæta hjarðar sinnar. Hin helga nótt er liðin með friði sínum og gleði. Gleðin sem alltaf verður þegar barn er hamingjusamlega fætt hefur vikið fyrir yfirvofandi ógnum. Barnið sem himinn og jörð glöddust yfir var nú í bráðri lífshættu. Og Jósef bregður við skjótt og gerist pólitískur flóttamaður ásamt fjölskyldu sinni. Þau dveljast í Egyptalandi um langa hríð.
Þannig voru fyrstu ár Jesú Krists á jörðu. Ekkert öryggi, heimurinn bauð ekki upp á það. Ófriður, tortryggni og ýmsar ógnir mættu börnum og fullorðnum í þá tíð. Nokkuð sem virðist fylgja mannskepnunni. Svo undarlegt er að hugsa til þess að alltaf er hugarfar einhverra hervætt. Aldrei friður alls staðar í veröld okkar og margir pottar brotnir í umhverfi og aðbúnaði barnanna víða um heim.
Miðað við allan fyrri tíma, hvar sem er í heiminum þá megum við í okkar litla landi muna tímana tvenna.
Við sláum skjaldborg um börnin. Sérstök lög, Barnalög, eru sett þeim til verndar, auk hins almenna lagaramma. Ekkert er þó fullkomið og lög geta aldrei tryggt allt hversu fegin sem við vildum. Og þó er fátt ef nokkuð sem kemur eins við hjartað og það að barni líði illa. Sorg barna, ótti, kvíði, að ekki sé talað um beinlínis illa meðferð og framkomu gagnvart þeim til lífs eða sálar. Slíkt á sér stað, því miður, líka í okkar landi.
Við erum fólk sem hrærist auðveldlega til meðaumkunar með þeim sem bágt eiga á einhvern hátt.
Og fátæktin. Fátækt er orð sem við notum ekki af gáleysi, hugtak sem þrungið er mikilli alvöru. Svo stutt er síðan Ísland var fátækt land. Sögur um hungur, örbirgð og vonleysi eru lifandi á vörum elstu kynslóðarinnar, sem man þá tíma að ekki var miklu úr að spila. Jafnvel hjá öllum þorra þjóðarinnar. Og aðeins nokkrum kynslóðum fyrr var örbirgð í landinu og fólk dó úr hungri. Af fáu var að taka.
Þetta er saga svo margra, lífssagan var lífsbarátta, barátta fyrir því að fjölskyldur gætu séð sér farborða. Þjóð, sem er efnuð í dag, þjóð sem er í fremstu röð í mannréttindum, lýðræði og lýðréttindum, hún á að baki sér sögu formæðra og forfeðra sem gengu þrautaleið í lífi sínu og átti vart málungi matar.
Því er vissulega undarlegt að heyra það nú að fátækt sé alvarlegt vandamál og þjóðfélagsmein í landinu.
Þegar ég sat á þingi komu upp með reglulegu millibili umræður um fátækt á Íslandi. Þær umræður hófust og enduðu alltaf á sama veg. Ríkisstjórnarflokkarnir voru skammaðir fyrir lág laun og litlar bætur. Þeir vörðust og sögðu að aldrei hefði verið illskárra að hafa lítið milli handanna en einmitt núna. Tekist var á og notaðar tölur til samanburðar bæði í sókn og vörn. Umræðan fór aldrei lengra en þetta.
En þegar þjóðin er efnuð almennt skoðað þá er ekki sælt að vera fátækur. Og ekki rómantískt eins og í kvæðinu. Prósentureikningur gengur ekki heldur vel í fátækt fólk.
Kristur gekk um á meðal hinna fátæku, þeirra sem áttu sér enga von fyrir. Og einu sinni sagði hann, þegar einn af postulunum, gjaldkerinn í hópnum, Júdas, fann að eyðslusemi konu nokkurrar: Fátæka hafið þér alltaf hjá yður – og þér getið gert þeim gott þegar þér viljið.
Stöldrum aðeins við þetta. Þið getið gert þeim gott þegar þið viljið. Alltaf eru einhverjir lakast settir, alltaf einhverjir veikir á sál eða líkama, þeir sem verða fyrir skakkaföllum. Alltaf er til fólk sem er hjálparþurfi. Og alltaf verður þörf fyrir hina margvíslegustu aðstoð.
Ég hef verið að glugga í sögu Reykjavíkur. Að vonum er þar margt fróðlegt og forvitnilegt að finna, annað meira að segja aðdáunarvert um það hvernig líknarfélög og ýmis konar hjálparsamtök gerðu kraftaverk. Það er ekki liðin tíð, aldeilis ekki. Mörg slík félög starfa í dag, hin frjálsu félagasamtök. Sífellt hefur einnig félags- og hjálparkerfið í landinu þróast og batnað. Ný tækni og framfarir ýmsar hafa auðveldað kerfisbundinn stuðning. Kerfið, öryggisnetið, sem fólkið í landinu býr við, er líka til þess gert að helst enginn detti niður í gegnum það.
Hvað er þá að segja við þessum fréttum?
Það er eðlilegt að hjálparstofnanir segi vandann gífurlegan. Hann brennur á þeim. Á jólaaðventunni er það alltaf svo – og samfélagið er hlýrra og miskunnsamara og opnara fyrir þörf og nauð náungans.
Það kemur undanfarna daga við hjartað í okkur þegar greint er frá því að 20 – 30.000 manns á öllum aldri sé nánast örbjarga í landinu.
Það er ekki ástæða til að láta slíkt liggja í þagnargildi. Fjarri því. Málið þarf að taka föstum tökum, kanna til hlítar vandann og skilgreina hann og færustu leiðir til úrbóta. Annað er okkur ekki sæmandi.
Annað mál er það að fleiri og fleiri finna sér ekki leiðir til bjargar á eigin spýtur. Fólk sem getur ekki bjargað sér. Fólk sem komið er í þrot vegna fjárfestinga, vegna neysluskulda, vegna veikinda, vegna vímuefnaneyslu. Sumir eru, því miður að segja, viljalausir til að bjarga sér.
Það eru svo margar ástæðurnar fyrir vandræðum fólks. Engin ein leið til stuðnings er fær. Við megum ekki einfalda þessa hluti. Það getur síst hjálpað
Aðferðir samfélagsins til stuðnings byggjast á faglegum forsendum. Ég hef kynnst sumu af því fólki, er við það starfar og ég veit að það vinnur störf sín af mikilli alúð og samviskusemi. Veit það líka að hlutverk félagsráðgjafa og hinna ýmsu fulltrúa sem leita leiða og úrræða fyrir fólk í efnahagslegum, heilsufarslegum og félagslegum vanda er ekki sérlega þakklátt starf. Kröfugerðarhópar eru til í öllum þjóðfélagshópum, þeir sem ætlast til alls af öðrum, gera sífelldar kröfur til annarra – en engar til sjálfra sín.
Samfélagið getur ekki, og mun aldrei geta greitt úr öllum slíkum vanda. Við munum ávallt hafa þá á meðal okkar sem eru hjálpar þurfi. Og gagnvart þeim höfum við skyldur sem manneskjur gagnvart manneskjum.
Ég las um það fyrir nokkrum árum að lögreglan í Kaupmannahöfn auglýsti eftir vitnum að líkamsárás fyrir utan veitingastað í íbúðahverfi. Ungir menn höfðu gengið í skrokk á gömlum manni – og verið lengi að. 32 vitni gáfu sig fram og gátu lýst atburðarásinni. Hvernig barsmíðarnar höfðu aukist meir og meir. 32 vitni, sem horfðu á gegnum gluggana, gegnum stórisana í stofunum, út um eldhúsgluggana, dyragættirnar. En enginn fór út að skakka leikinn. Enginn tók áhættuna af að koma manninum til hjálpar. Mér hefur verið þetta hugstætt síðan.
Erum við orðin svo vön ofbeldi á skjánum að við getum horft á úr fjarlægð án þess að gera neitt annað en að býsnast yfir ósköpunum þaðan?
Ætlumst við e.t.v. til að ríki og sveitarfélög sjái um allt sem aflaga fer? Opinberar hjálparsveitir og meðferðarstofnanir séu nægjanlega öflugar til að mæta öllu sem miður er að fara? Það er útilokað að kerfin geti náð þeirri fullkomnun. Hluti þeirra sem eiga í erfiðleikum þráir það eitt að láta endana ná saman – og þeim ætti vissulega að vera auðveldast að rétta hjálpandi hönd. Efla til sjálfshjálpar, komast út úr vítahring bjargarleysisins vegna þess að ekkert má út af bera í útgjöldum – sem gerist samt alltaf.
32 vitni horfðu á mann limlestan án þess að koma til hjálpar. Þeim var e.t.v. vorkunn að leggja sig ekki í augljósa hættu. En auðugri þjóð er engin vorkunn, vel bjargálna einstaklingum sem mynda eina ríkustu þjóð heimsins er engin vorkunn. Það var ágæt hugmynd til náttúruverndar sem fæddist fyrir nokkrum árum að “taka flag í fóstur.” En þar sem fjölskyldur eru að flosna upp, þar sem vandræði vaxa og vitað er um það, þar á að bregðast við með alúð og stöðugum stuðningi. Enginn er eyland, við sem búum í landinu, erum samtals ein þjóð og öll jafndýrmætir einstaklingar. Okkur vantar meiri vilja gott að gera. Meira af gamaldags umhyggju, persónulegri hvatningu og góðsemi. Að tala kjark í náungann ef hann er að missa móðinn – allt eru þetta þættir þess að lifa ábyrg og meðvituð um hvert annað. Við komum hvert öðru við.
Fátæka hafið þér ávallt hjá yður og þér getið gert þeim gott þegar þið viljið, sagði Kristur. Ekki er hægt að hjálpa fólki til sjálfshjálpar gegn einbeittum vilja viðkomandi. Slíku umkomuleysi verður ekki útrýmt því miður. En öll höfum við möguleika á að styðja, hjálpa, bæta. Það er eðlilegur hluti af kristnum viðhorfum okkar. Það er trú sem starfar í kærleika. Kirkjan hefur jafnan kennt það að kærleikurinn sé æðstur og mestur. Með þann boðskap, þá innstillingu, byrjum við nýtt ár. Að við auðsýnum hann, höndluð, fangin af þeim kærleika sem leitar ekki síns eigin. Kærleikanum sem fellur aldrei úr gildi.
Í Jesú nafni. Amen.
Hjálmar Jónsson (hjalmar@domkirkjan.is) er prestur í Dómkirkjunni. Þessi prédikun var flutt við messu á sunnudegi milli nýárs og þrettánda, 5. janúar 2003.